Mál nr. 4/2014
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 14. október 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 4/2014.
1. Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur 2. janúar 2012. Hann sætti biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysisbóta í tvo mánuði skv. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, vegna námsloka samkvæmt ákvörðunarbréfi frá 16. febrúar 2012. Kærandi sótti á ný um atvinnuleysisbætur 12. nóvember 2013 og kom þá inn á sama bótatímabil skv. 3. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en þar sem hann hafði starfað lengur en í hálfan mánuð og misst starf sitt af gildum ástæðum féllu eftirstöðvar af biðtíma hans niður skv. 3. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við rétt sinn frá dagsetningu umsóknarinnar. Þann 3. janúar 2014 taldi kærandi sig eiga rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum en beiðni hans var hafnað með vísan til þess að hann væri enn að nýta sama bótatímabilið og hófst er hann sótti um atvinnuleysisbætur 2. janúar 2012, en þá hafði hann misst rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta. Kærandi vildi ekki una útreikningi Vinnumálastofnunar og kærði hann til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi frá 8. janúar 2014. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri niðurstöðu stofnunarinnar.
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 2. janúar 2012 og var umsóknin samþykkt 15. febrúar 2012 en með tveggja mánaða biðtíma vegna námsloka kæranda skv. 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi afskráði sig 14. febrúar 2012 vegna þess að hann hafði fengið vinnu frá og með 13. febrúar 2012. Hann sótti að nýju um atvinnuleysisbætur 12. nóvember 2013.
Í kæru kæranda kemur fram að 12. desember 2013 hafi Vinnumálastofnun ákveðið að greiða honum atvinnuleysisbætur án tekjutengingar frá nóvember 2013. Ástæðan sem hafi verið gefin upp hafi verið sú að hann hafi ekki hafið nýtt bótatímabil þar sem hann hafi verið skráður í ársbyrjun 2012 og þurfi því að ljúka 24 mánuðum áður en nýtt bótatímabil geti hafist. Kærandi er ósammála þessu og telur sig eiga rétt á að frá greidda tekjutengingu í þrjá mánuði.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 5. mars 2014, kemur fram að skv. 1. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli sá sem telst tryggður skv. III. eða IV. kafla laganna öðlast rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að þrjá mánuði eftir að grunnatvinnuleysisbætur skv. 33. gr. laganna hafi verið greiddar í samtals hálfan mánuð nema annað leiði af lögunum. Bent er á 9. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en þar komi fram að hinn tryggði sem sætir biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæðum X. kafla skuli ekki eiga rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæðinu. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því er varð að 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að þegar fyrra tímabil heldur áfram þegar umsækjandi sækir að nýju um atvinnuleysisbætur skv. 3. mgr. 29. gr. laganna eigi hann ekki rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæði þessu enda hafi hann fullnýtt sér rétt sinn skv. 1. mgr. Hið sama eigi við þurfi hinn tryggði að sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum skv. X. kafla frumvarpsins. Af framangreindu leiði að einstaklingur sem sætir biðtíma samkvæmt X. kafla laganna við upphaf bótatímabils skuli ekki eiga rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta. Geti því einstaklingur sem sætt hafi biðtíma samkvæmt X. kafla laga um atvinnuleysistryggingar aðeins öðlast rétt til greiðslu tekjutengdra atvinnuleysisbóta með því að ávinna sér nýtt bótatímabil. Í tilfelli kæranda yrði hann að gera það í samræmi við skilyrði 31. gr. laganna þar sem hann hafi ekki fullnýtt sér bótatímabil sitt áður en hann hafi hafið störf 13. febrúar 2012.
Skilyrði 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar fyrir því að nýtt tímabil skv. 29. gr. hefjist áður en fyrra tímabili ljúki að fullu sé að hinn tryggði sæki að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Þannig sé gert ráð fyrir að umsækjandi um atvinnuleysisbætur sem fer aftur inn í kerfið eftir skemmri tíma en 24 mánuði á vinnumarkaði eigi ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum heldur grunnatvinnuleysisbótum, hafi hann sætt biðtíma samkvæmt X. kafla laganna skv. 9. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og athugasemdum í greinargerð með ákvæðinu.
Kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur 2. janúar 2012 og hafi umsókn hans verið samþykkt 15. febrúar 2012 en með tveggja mánaða biðtíma vegna námsloka kæranda. Kærandi hafi afskráð sig 14. febrúar 2012 vegna þess að hann hafi fengið vinnu frá og með 13. febrúar 2012. Hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur að nýju 12. nóvember 2013, en það sé skemmri tími en 24 mánuðir frá því að hann hafi síðast verið skráður atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun. Hafi skilyrði 31. gr. laganna ekki verið uppfyllt og hafi kærandi því ekki átt rétt á nýju bótatímabili skv. 29. gr. laganna eða greiðslu tekjutengdra atvinnuleysisbóta.
Hvorki í 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar né heldur í 55. gr. laganna sé vikið að því að einstaklingur sem vinni af sér biðtíma eftir atvinnuleysisbótum, sbr. 3. mgr. 55. gr. laganna, eigi rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta er hann komi aftur inn á atvinnuleysisskrá. Þvert á móti sé tekið fram í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því er varð að 9. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að þegar fyrra tímabil heldur áfram þegar umsækjandi sækir að nýju um atvinnuleysisbætur skv. 3. mgr. 29. gr. eigi hann ekki rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæði þessu enda hafi hann fullnýtt sér rétt sinn skv. 1. mgr. Hið sama eigi við þurfi hinn tryggði að sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum skv. X. kafla frumvarpsins. Það sé ljóst að einstaklingur sem kemur aftur inn á atvinnuleysisskrá eftir að hafa verið sviptur rétti til tekjutengdra atvinnuleysisbóta vegna þess að hann sætti viðurlögum samkvæmt X. kafla laga um atvinnuleysistryggingar eigi ekki rétt á greiðslu tekjutengdra atvinnuleysisbóta á því tímabili.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. mars 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 26. mars 2014. Kærandi hefur ekki nýtt sér það.
2. Niðurstaða
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 12. nóvember 2013 öðru sinni en hafði áður sótt um atvinnuleysisbætur 2. janúar 2012. Fyrri umsóknin var samþykkt 15. febrúar með tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysisbóta frá umsókn vegna námsloka kæranda. Kærandi afskráði sig 14. febrúar 2012 vegna þess að hann hafði þá fengið vinnu.
Í 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um tekjutengdar atvinnuleysisbætur. Í 1. mgr. 32. gr. laganna segir að sá sem telst tryggður skv. III. eða IV. kafla laganna öðlist rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að þrjá mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur skv. 33. gr. hafi verið greiddar í samtals hálfan mánuð nema annað leiði af lögunum. Í 9. mgr. 32. gr. laganna segir að hinn tryggði sem sætir biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæðum X. kafla skuli ekki eiga rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæði þessu. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að þegar fyrra tímabil heldur áfram þegar umsækjandi sækir að nýju um atvinnuleysisbætur skv. 3. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á hann ekki rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæðinu enda hafi hann fullnýtt sér rétt sinn skv. 1. mgr. lagagreinarinnar. Hið sama eigi við þurfi hinn tryggði að sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum skv. X. kafla frumvarpsins.
Fyrir liggur að þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur að nýju 12. nóvember 2013 fór hann inn á sama bótatímabil og hann var á í kjölfar fyrri umsóknar skv. 1. og 4. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi á því ekki, samkvæmt framanskráðu, rétt á greiðslu tekjutengdra atvinnuleysisbóta.
Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja kæranda um greiðslu tekjutengdra atvinnuleysisbóta er staðfest.
Úrskurðarorð
Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A um synjun á greiðslu tekjutengdra atvinnuleysisbóta er staðfest.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson