Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 9/2013

Úrskurður

 

 Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 11. júní 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 9/2013.

 

1.      Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að samkvæmt greiðsluseðli til kæranda frá Vinnumálastofnun, dags. 18. mars 2011, var kæranda tilkynnt að myndast hefði skuld við stofnunina að fjárhæð 83.316 kr. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 7. janúar 2013, var kæranda tilkynnt að skuldir sem orðið hefðu til árin 2009 og 2010 hafi að hluta verið felldar niður og að eftirstöðvar skuldar hans við stofnunina væru 70.216 kr. Kærandi telur að ákvörðun Vinnumálastofnunar felist í því að kærandi sé krafinn um endurgreiðslu atvinnuleysisbóta að fjárhæð 70.216 kr. vegna greiðslna úr lífeyrissjóði og fer fram á að niðurstaðan verði endurskoðuð og að skuld hans við Vinnumálastofnunina verði felld niður. Til vara fer hann fram á að álag sem leggst á slíkar skuldir verði fellt niður. Vinnumálastofnun telur hins vegar að vísa beri kæru frá þar sem þriggja mánaða kærufrestur er liðinn vegna þessarar ákvörðunar sem tekin var 18. mars 2011.

Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar, í bréfi til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 24. maí 2013, að ákvörðun stofnunarinnar hafi verið tilkynnt kæranda með greiðsluseðli, dags. 18. mars 2011. Í ljósi þess að kæra til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða sé móttekin 14. janúar 2013 telji Vinnumálastofnun að þriggja mánaða kærufrestur sé liðinn og að vísa beri málinu frá úrskurðarnefndinni.

Kærandi bendir á að hann sé orðinn 71 árs gamall, með 40% nýrnastarfsemi og eigi fullt í fangi með að framfleyta sér. Þar af leiðandi sé það algjörlega ótækt að stofnunin fari í slíka endurútreikninga og kröfur á fyrrum bótaþega fjórum árum eftir að bæturnar hafi verið greiddar.

Kærandi hafi upplýst starfsmenn Vinnumálastofnunar um allar aðrar greiðslur sem honum hafi borist á tímabilinu, auk þess sem stofnunin hefði getað séð breytinguna á skattframtali ársins og þar með greint mistök sín og leiðrétt innan þess sem kalla megi eðlilegan tíma frá greiðslu bótanna.

Þá bendir kærandi á að í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, komi fram í 97. gr. að hafi skattaðili látið í té í framtali sínu eða fylgigögnum þess allar upplýsingar sem byggja mátti rétta álagningu á, sé einungis hægt að endurákvarða honum skatt vegna tveggja síðustu ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram þótt í ljós komi að álagning hafi verið of lág. Þar sem svo virðist sem hvergi komi fram tímarammi sem Vinnumálastofnun þurfi að fara eftir varðandi slíka endurútreikninga og kröfur á fyrrum bótaþega, auk þess sem aðstæður kæranda séu eins og lýst var í upphafi rökstuðnings, sé lagt til að notast verði við lögjöfnun og að fyrrnefnd grein laga um tekjuskatt verði notuð til grundvallar í málinu og að greiðslan verði þannig felld niður að fullu.

 

Til rökstuðnings varakröfu sinni vísar kærandi til 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem segir að fella skuli niður álagið samkvæmt sömu málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

2.      Niðurstaða

Stjórnsýslukæra skal berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæra telst nægjanlega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæra kæranda barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi sem var móttekið 14. janúar 2013. Krafa Vinnumálastofnunar um endurgreiðslu atvinnuleysisbóta var tilkynnt með greiðsluseðli, dags. 18. mars 2011. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 7. janúar 2013, var kæranda tilkynnt að Vinnumálastofnun felldi niður skuldir frá árunum 2009 og 2010 að hluta til. Þannig sé heildarfjárhæð niðurfellingar 44.756 kr. og kærandi krafinn um eftirstöðvar skuldar sem tilgreindar eru 70.216 kr.

Gögn málsins bera með sér að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að kæranda hafi verið ljóst að hann hafi með greiðsluseðli, dags. 18. mars 2011, verið krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra bóta en hafi látið hjá líða að kæra þá endurkröfu til úrskurðarnefndarinnar þar til honum barst bréf Vinnumálastofnunar tæpum tveimur árum síðar, eða 7. janúar 2013.

Ekkert í gögnum máls þessa gefur til kynna að afsakanlegt hafi verið að kæran hafi borist að liðnum kærufrestum og engar veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Af þessum sökum verður að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

Úrskurðarorð

 Kæru A til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er vísað frá.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta