Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 16/2014

Úrskurður

 
 Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 14. október 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 16/2014.

1.      Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 28. janúar 2014, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum 27. janúar 2014 fjallað um rétt hennar til atvinnuleysisbóta. Tekin hafi verið sú ákvörðun að stöðva greiðslu atvinnuleysisbóta til hennar vegna dvalar hennar erlendis skv. 1. mgr., sbr. einnig 4. mgr., 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Þá hafi kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem verði innheimtar skv. 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem henni sé gert að endurgreiða. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 9. febrúar 2014. Hún óskar þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 10. apríl 2013.

Vinnumálastofnun bárust upplýsingar í janúar 2014 um að kærandi hefði verið stödd erlendis í desember 2013. Kæranda var sent bréf 15. janúar 2014 og henni veittur sjö daga frestur til þess að koma skýringum vegna málsins á framfæri. Í skýringum kæranda kom fram að hún hefði verið stödd í B yfir áramótin til þess að vera viðstödd fæðingu. Samkvæmt framlögðum farseðlum var hún erlendis frá 27. desember 2013 til 14. janúar 2014. Málið var tekið fyrir á fundi Vinnumálastofnunar 27. janúar 2014 og tekin sú ákvörðun að kærandi skyldi sæta viðurlögum á grundvelli 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar vegna framangreinds. Þar sem hún hafði þegið atvinnuleysisbætur í meira en 30 mánuði voru greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda stöðvaðar í stað þess að ákvarða biðtíma eftir greiðslum bótanna. Í skýringum kæranda til Vinnumálastofnunar í bréfi hennar, dags. 21. janúar 2014, biðst hún velvirðingar á því að hafa ekki látið vita af ferð sinni til B um áramótin en það hafi engan veginn verið ætlun hennar að láta satt kyrrt liggja. Ætlun hennar hafi verið að gefa skýringu við næstu stimplun. Aðalástæða fyrir ferð hennar hafi verið að vera viðstödd fæðingu frumburðar sonar hennar. Til þess að nýta tímann erlendis hafi hún verið í sambandi við C Rauða krossinn ásamt því að fylgjast með starfstilboðum hjá alþjóðahjálparstofnunum og starfstilboðum á vefnum á Íslandi ásamt því að sækja um fjarnámskeið á vegum Alþjóðasambands Rauða krossins til að efla þekkingu sína og möguleika á störfum fyrir Rauða krossinn eða aðrar hjálparstofnanir.

Af hálfu kæranda kemur fram í kæru að hún sé búin að útvega sér starfssamning með stuðningi Atvinnuleysistryggingasjóðs sem falli um sjálft sig ef styrkur sjóðsins kemur ekki frekar til greina. Það hafi ekki verið ásetningur hennar að tilkynna ekki um dvöl sína í C um áramótin heldur hafi hún tengst stórum atburði í lífi hennar. Hún hafi auk þess notað tíma sinn í Noregi við að leita sér að atvinnu og ef óskað sé geti starfsmannastjóri C Rauða krossins staðfest að hún hafi verið í sambandi við hann vegna atvinnuleitar. Hún hafi ekki gert sér grein fyrir alvarleika þess að tilkynna ekki fyrirfram um þessa rúmlega tveggja vikna dvöl sína erlendis. Ef greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar verða endanlega stöðvaðar sjái hún ekki hvernig hún eigi að sjá sér farborða og greiða skuldir sínar. Hún sé 64 ára gömul og þar af leiðandi hafi þessir 30,65 mánuðir dreifst yfir mörg ár. Þrátt fyrir tímabundið atvinnuleysi hafi henni alltaf tekist að fá starf við hæfi þó svo það hafi verið um tímabundna samninga að ræða.

Kærandi bendir á að ferðin til C hafi ekki beinlínis verið frí heldur hafi hún verið til staðar til aðstoðar vegna fæðingar samtímis atvinnuleit sinni á Netinu ásamt því að sækja um námskeið á vegum Alþjóðasambands Rauða krossins og vera í sambandi við C Rauða krossinn og koma sér á framfæri vegna hjálparstarfa, en þeir hafi haft milligöngu um störf fyrir þá sendifulltrúa sem farið hafi á vegum íslenska Rauða krossins. Hún hafi ekki haft erindi sem erfiði að þessu sinni en sé búin að koma sér á framfæri við þá varðandi hjálparstörf síðar.

Kærandi bendir einnig á að henni hafi aldrei áður orðið á þau mistök að gleyma að tilkynna um fjarveru fyrirfram. Hún sé komin af léttasta skeiði og sé ekki um auðugan garð að gresja í atvinnumöguleikum. Þar af leiðandi finnist henni mjög slæmt að missa af tækifærinu sem henni bjóðist um starf með stuðningi Atvinnuleysistryggingasjóðs og vonandi möguleika á áframhaldandi starfi.

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi þegar endurgreitt ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem komu til vegna ferðar hennar til útlanda.

 Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 2. apríl 2014, vísar Vinnumálastofnun til c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem mælt er fyrir um að umsækjandi um greiðslur atvinnuleysisbóta þurfi að vera búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum. Vinnumálastofnun vísar einnig til 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem mælt er fyrir um upplýsingaskyldu umsækjanda til Vinnumálastofnunar, en atvinnuleitanda ber skylda til þess að upplýsa Vinnumálstofnun um allar þær breytingar sem kunna að verða á högum hans eða annað sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Stofnunin bendir á að í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/2009, til breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar, komi meðal annars fram að láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálstofnun nauðsynlegar upplýsingar eða veiti rangar upplýsingar, komi til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun áréttar að einnig sé mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu umsækjenda um greiðslur atvinnuleysisbóta í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistrygginga. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum.

Vinnumálastofnun bendir á 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kveðið er á um viðurlög við brotum á upplýsingaskyldu hins tryggða. Fyrir liggi í máli þessu að kærandi hafi verið stödd erlendis á tímabilinu 27. desember 2013 til 14. janúar 2014. Í 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé skýrt kveðið á um þá skyldu umsækjenda um greiðslur atvinnuleysisbóta að vera í virkri atvinnuleit. Sé það jafnframt gert að skilyrði að umsækjandi sé staddur hér á landi, sbr. c-lið 1. mgr. 13. gr. laganna. Kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun fyrirfram um utanlandsferð sína, líkt og henni hafi borið skv. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að í kæru kæranda til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða segi að það hafi ekki verið með vilja gert að tilkynna ekki um utanlandsferðina. Ekki sé gerð krafa um að atvinnuleitandi veiti vísvitandi rangar upplýsingar skv. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Segi í ákvæðinu að sá sem láti hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skuli sæta viðurlögum á grundvelli greinarinnar. Verði ekki séð að þær skýringar sem kærandi hafi lagt fram í málinu geti réttlætt það að hún lét hjá líða að veita Vinnumálastofnunar umræddar upplýsingar.

 Vinnumálastofnunar vísar til 4. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og bendir á að þar sem kærandi hafði þegið atvinnuleysisbætur í meira en 30 mánuði þegar þau atvik, sem leitt hafi til viðurlaga, hafi átt sér stað beri Vinnumálastofnun að beita 4. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Stofnunin tekur fram að kærandi hafi þegar endurgreitt ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið sem hún var stödd erlendis frá 27. desember 2013 til 14. janúar 2014.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 7. apríl 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 28. sama mánaðar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2.      Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 22. gr. laga nr. 134/2009, 3. gr. laga nr. 153/2010 og 14. gr. laga nr. 142/2012, en hún er svohljóðandi:

Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur … látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

Þetta ákvæði þarf meðal annars að túlka með hliðsjón af því að skv. c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 4. gr. laga nr. 134/2009, er eitt af skilyrðum þess að geta haldið rétti sínum í atvinnuleysistryggingakerfinu að vera búsettur og staddur hér á landi. Fyrir liggur að kærandi var stödd erlendis á tímabilinu frá 27. desember 2013 til 14. janúar 2014, en tilkynnti ekki Vinnumálastofnun fyrirfram að hún yrði ekki stödd á landinu á umræddu tímabili.

Í ljósi þeirrar upplýsingaskyldu atvinnuleitenda sem kveðið er á um í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. gr. laga nr. 134/2009, verður fallist á með Vinnumálastofnun að kærandi hafi brotið gegn trúnaðarskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun í umrætt sinn er hún hélt af landi brott án þess að láta vita af því fyrirfram. Því bar Vinnumálastofnun að láta hana sæta viðurlögum skv. 1. mgr. 59. gr. laganna. Ákvæði 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fortakslaust en í því felst að hvorki Vinnumálastofnun né úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða getur tekið ákvörðun um vægari viðurlög í máli kæranda en ákvæðið felur í sér.

Þar sem kærandi hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun í 30,65 mánuði getur hún ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum að nýju fyrr en hún hefur starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að hún fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur skv. 4. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 31. gr. laganna.

Kærandi hefur þegar endurgreitt ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna ferðar sinnar til útlanda.

Með vísan til framangreinds og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun verður hún staðfest.

 Úrskurðarorð

 Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 27. janúar 2014 í máli A um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar er staðfest.

 Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta