Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 25/2013.

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 22. október 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 25/2013.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með innheimtubréfi, dags. 24. október 2012, fór Vinnumálastofnun þess á leit að kærandi, A, greiddi skuld við stofnunina innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins. Kærandi fékk ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 18. október 2011 til 31. mars 2012 og uppfyllti á þeim tíma ekki almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Skuldin nam 761.844 kr. ásamt 15% álagi 114.277 kr. eða samtals alls 876.121 kr. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 22. febrúar 2013, mótteknu samdægurs. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Vinnumálastofnun ákvað á fundi sínum 2. maí 2012 að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar fyrir það að hafa látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. laga sömu laga. Vegna þess að kærandi fékk greidda dagpeninga frá Tryggingamiðstöðinni vegna óvinnufærni á tímabilinu 18. október 2011 til 31. mars 2012 fékk hann ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem ákveðið var að innheimta á grundvelli 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda var tilkynnt þessi ákvörðun Vinnumálastofnunar með bréfi dags. 3. maí 2012.

Við samkeyrslu gagnagrunns Vinnumálastofnunar við ríkisskattstjóra í júní 2012 vegna marsmánaðar 2012 kom í ljós að kærandi hafði þegið greiðslu frá Tryggingamiðstöðinni samhliða því sem hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur. Með bréfi, dags. 7. júní 2012, var hann beðinn um að skila til stofnunarinnar skýringum á þessum ótilkynntu tekjum sínum. Kærandi skilaði ekki skýringum og á fundi Vinnumálastofnunar 29. júní 2012 var sú ákvörðun tekin að stöðva greiðslur atvinnuleysistrygginga til kæranda þar sem stofnuninni höfðu ekki borist upplýsingar um ótilkynntar tekjur líkt og óskað hafði verið eftir. Ákvörðunin var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 29. júní 2012.

Við samkeyrslu gagnagrunns Vinnumálastofnunar við ríkisskattstjóra í júlí 2012 kom einnig í ljós að kærandi hafði þegið greiðslu frá Tryggingamiðstöðinni í aprílmánuði 2012 samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur. Með bréfi, dags. 6. júlí 2012, var kærandi einnig beðinn um að skila inn skýringum á þeim tekjum. Hann gerði það ekki og með bréfi, dags. 24. júlí 2012, var honum tilkynnt um þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að stöðvaðar yrðu greiðslur atvinnuleysisbóta til hans.

Eins og áður hefur komið fram var kæranda tilkynnt, með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 24. október 2012, að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 18. október 2011 til 31. mars 2012 að fjárhæð 761.844 kr. ásamt 15% álagi eða samtals 876.121 kr. Var kæranda meðal annars leiðbeint um rétt sinn til að kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða innan þriggja mánaða frá því að bréfið bærist honum. Vinnumálastofnun bendir á að sá kærufrestur hafi runnið út 24. janúar 2013. Kæra kæranda hafi borist með erindi, dags. 22. febrúar 2013, og hafi því borist utan þriggja mánaða kærufrests skv. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi ekki lagt fram neinar ástæður sem réttlæti að kæra hafi borist utan kærufrests. Vinnumálastofnun telur því að vísa beri málinu frá úrskurðarnefndinni.

Í kæru sinni bendir kærandi á að í september 2011 hafi hann dottið og meitt sig á öxl. Hann hafi í kjölfarið þurft að leita sér lækninga og sjúkraþjálfunar. Hann hafi verið með slysatryggingu hjá TM og hafi sótt um bætur vegna slyss í frítíma. Bótagreiðslan hafi verið 618.524 kr, staðgreiðsla RSK hafi verið 230.956 kr. og læknis-, sjúkraþjálfunar- og lyfjakostnaður hafi verið 140.144 kr. Þannig hafi fjárhæðin sem hægt væri að telja honum til tekna numið 140.144 kr. Kærandi kveðst hafa borgað tryggingar í mörg ár og hafi hann talið sig hafa rétt á að sækja um bætur til að mæta kostnaðinum sem fylgdi í góðri trú um að það hefði engin áhrif á atvinnuleysisbæturnar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. júní 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 26. júní 2013. Kærandi sendi athugasemdir með tölvupósti 24. júní 2013. Þar gerir kærandi athugasemdir við það sem kemur fram á málsskjali nr. 3.13. Þar standi að orlof hans sé skráð 18. október 2011 til 31. mars 2012, en það sé villa sem Guðjón Árnason hjá Vinnumálastofnun Hafnarfjarðar hafi gert, en talað hafi verið um að þetta orlof væri frá 18. október 2011 til 28. október 2011. Kærandi hafi komið 4. nóvember 2011 og innritað sig að nýju.

Þá kemur enn fremur fram í tölvupósti kæranda að frá því að hann hafi fengið fyrsta bréfið um ofgreiðslu á atvinnuleysisbótum hafi hann beðið TM um að senda Vinnumálastofnun allar upplýsingar varðandi slysabæturnar og ef hann fengi meira greitt ættu þeir að senda þær upplýsingar líka, en það hafi þeir ekki gert. Kærandi bendir á að öll símtöl TM séu tekin upp og séu þessar upplýsingar því til.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 12. ágúst 2013, tilkynnt að afgreiðsla máls þessa myndi tefjast vegna mikils málafjölda hjá nefndinni.

2.

Niðurstaða

Stjórnsýslukæra skal berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæra telst nægjanlega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæra kæranda, dags. 22. febrúar 2013, barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða samdægurs. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að innheimta skuld kæranda við stofnunina kemur fram í bréfi, dags. 24. október 2012. Kæran barst því að liðnum kærufresti.

Ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að afsakanlegt hafi verið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti og engar veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum verður að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

Úrskurðarorð

Kæru A til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er vísað frá.

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta