Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 396/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 396/2016

Fimmtudaginn 9. febrúar 2017

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 13. október 2016, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 2. júní 2016, um innheimtu ofgreiddra bóta.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 29. september 2010 og fékk greiddar atvinnuleysisbætur til 31. janúar 2013. Með bréfi, dags. 26. febrúar 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að stofnunin hefði ákveðið að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans á grundvelli 60. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar vegna ótilkynntrar vinnu og að hann skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefði starfað að minnsta kosti 12 mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kærandi var einnig krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 fyrir tímabilið 1. júní 2012 til 31. janúar 2013. Í kjölfar niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-2547/2015 óskaði kærandi eftir endurupptöku á máli sínu hjá Vinnumálastofnun. Með bréfi, dags. 24. maí 2016, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að stofnunin hefði fellt úr gildi fyrri ákvörðun um viðurlög samkvæmt 60. gr. laga nr. 54/2006. Vinnumálastofnun taldi að endurgreiðsluskylda kæranda samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 væri óbreytt þar sem hann hafi ekki uppfyllt skilyrði laganna á tímabilinu 1. júní 2012 til 31. janúar 2013. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 2. september 2016.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 13. október 2016. Með bréfi, dags. 14. október 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 21. október 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi óskað eftir endurupptöku á máli sínu hjá Vinnumálastofnun í kjölfar niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-2547/2015. Kærandi bendir á að af bréfi hans til Vinnumálastofnunar, dags. 13. febrúar 2013, megi augljóslega ráða að hann hafi ekki haft huglægan ásetning til meints brots. Hann hafi byggt ákvarðanir sínar meðal annars á leiðbeiningum Vinnumálastofnunar um hvaða tekjur hafi áhrif á atvinnuleysisbætur.

Kærandi tekur fram að hann hafi þegar greitt til baka þá fjárhæð sem Vinnumálastofnun hafi krafið hann um en að mati kæranda sé búið að fella niður þá ákvörðun. Kærandi telur að hann eigi að minnsta kosti að fá endurgreitt það álag sem lagt hafi verið á endurkröfu stofnunarinnar.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að málið varði þá ákvörðun stofnunarinnar að krefja kæranda um endurgreiðslu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum þar sem kærandi hafi starfað hjá eigin fyrirtæki á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur, án þess að tilkynna að atvinnuleit væri hætt samkvæmt 35. gr. a eða 10. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Tekið er fram að kærandi hafi verið krafinn um endurgreiðslu fyrir tímabilið 1. júní 2012 til 31. janúar 2013 vegna ótilkynntrar vinnu. Það hafi verið mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum á því tímabili þar sem hann hafi verið í vinnu.

Vinnumálastofnun bendir á að það hvíli rík skylda á atvinnuleitendum að tilkynna um breytingar á högum sínum til stofnunarinnar og tryggja þannig að stofnunin hafi réttar upplýsingar sem geti varðað bótarétt viðkomandi. Í 10. gr. laga nr. 54/2006 komi fram að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum skuli tilkynna til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar þegar hann hætti virkri atvinnuleit. Þá leggi ákvæði 35. gr. a laganna þá skyldu á þá sem tryggðir séu samkvæmt lögunum að tilkynna með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu á þeim tíma er sá tryggði fái greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum. Það falli saman við skilyrði 13. gr. laganna um að launamaður teljist aðeins tryggður að hann sé í virkri atvinnuleit en það sé nánar útlistað í 14. gr. laganna. Af þessu megi ráða að sá sem starfar á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu né í virkri atvinnuleit, hvort sem viðkomandi þiggi laun fyrir eður ei.

Vinnumálastofnun tekur fram að krafa stofnunarinnar um endurgreiðslu sé byggð á 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Samkvæmt ákvæðinu sé stofnuninni skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta ef þær hafi verið of- eða vangreiddar. Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 sé sérstaklega áréttað að leiðréttingin eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslu hafi því ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd. Til grundvallar niðurstöðu Vinnumálastofnunar um endurgreiðsluskyldu kæranda hafi stofnunin lagt mat á þau gögn sem hefðu legið fyrir um vinnu kæranda hjá fyrirtæki sínu, B ehf., sem og skýringar hans sjálfs. Kærandi hafi stofnað fyrirtækið í lok maí 2012 og að hans sögn hafi hann sinnt verkefnum fyrir fyrirtækið á tímabilinu júní til desember 2012. Eðli máls samkvæmt eigi einstaklingur ekki rétt á atvinnuleysisbótum á meðan viðkomandi sé í vinnu, enda gildi lögin um atvinnuleysistryggingar einstaklinga þegar þeir verði atvinnulausir. Með hliðsjón af gögnum úr hlutafélagaskráningu CreditInfo, staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og af skýringum kæranda telji Vinnumálastofnun ljóst að kærandi hafi hvorki uppfyllt skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 um virka atvinnuleit né fullnægt tilkynningarskyldu sinni um breytingu á sínum högum er hann hafi stofnað fyrirtækið og tekið að sér verkefni fyrir hönd þess. Því sé ljóst að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 14. gr. laga nr. 54/2006 um virka atvinnuleit á umræddum tíma og ekki tilkynnt um að virkri atvinnuleit væri hætt líkt og kveðið sé á um í 10. gr. laganna. Því verði ekki fallist á að Vinnumálastofnun hafi borið að greiða kæranda atvinnuleysisbætur á meðan hann hafi starfað við rekstur á eigin fyrirtæki. Þá verði ekki fallist á að kærandi eigi rétt á að fá endurgreidda frá Vinnumálastofnun þá fjárhæð sem hann hafi þegar greitt.

IV. Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar að fjárhæð 1.348.504 kr., að meðtöldu 15% álagi, fyrir tímabilið 1. júní 2012 til 31. janúar 2013.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum en eitt af þeim skilyrðum er að vera í virkri atvinnuleit, sbr. a-liður 1. mgr. 13. gr.

Í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að sá sem teljist tryggður á grundvelli laganna skuli upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða annað það sem kunni að hafa áhrif á rétt viðkomandi samkvæmt lögunum. Þá kemur fram í 2. mgr. 14. gr. laganna að hinn tryggði skuli tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr., þar á meðal um tilfallandi veikindi, án ástæðulausrar tafar.

Í 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:

„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.

Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Samkvæmt gögnum málsins stofnaði kærandi fyrirtæki í lok maí 2012 og var starfsmaður þess á því tímabili sem endurgreiðslukrafa Vinnumálastofnunar lýtur að. Einnig er óumdeilt að kærandi tilkynnti Vinnumálastofnun ekki fyrir fram um fyrirtækjareksturinn. Að mati úrskurðarnefndarinnar uppfyllti kærandi ekki skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögum nr. 54/2006 á sama tíma og hann starfaði við rekstur á eigin fyrirtæki. Að því virtu átti hann ekki rétt á greiðslum frá Vinnumálastofnun á því tímabili sem endurgreiðslukrafan lýtur að.

Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Hins vegar skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Líkt og áður greinir tilkynnti kærandi ekki Vinnumálastofnun um fyrirtækjarekstur sinn. Að mati úrskurðarnefndarinnar er því ekki tilefni til að fella niður álagið.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 2. júní 2016, í máli A, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samtals að fjárhæð 1.348.504 kr. er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta