Mál nr. 145/2011
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 23. október 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 145/2011.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 10. október 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda vegna fyrirliggjandi upplýsinga um að hann hafi verið við vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að viðbættu 15% álagi, að fjárhæð samtals 181.511 kr. fyrir tímabilið frá 1. júní til 19. júlí 2011 þegar hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una hinni kærðu ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 25. október 2011. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.
Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur 23. nóvember 2011. Þann 7. september 2011 var honum sent bréf þar sem honum var tilkynnt að við samkeyrslu á gagnagrunnum Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra hafi komið fram upplýsingar um ótilkynntar tekjur á kæranda frá B. í júní 2011. Launaseðlar bárust frá kæranda 28. september 2011 vegna vinnu hans hjá B. fyrir júní, júlí og ágúst 2011. Vinnumálastofnun hafði ekki áður borist tilkynning um vinnu eða áætlun um tekjur frá kæranda vegna fyrrgreinds tímabils.
Í kæru sinni kveðst kærandi hafa fengið vinnu við ferðamennsku sumarið 2011 en aðeins í stuttan tíma og hafi hann verið lausráðinn. Vinnan hafi síðan orðið meiri en hann hafi gert ráð fyrir og vegna óöryggis hafi hann einnig verið skráður með atvinnuleysisbætur. Hann hafi síðan ætlað að gera þetta upp eftir að hann hafi misst vinnuna, sem hann hafi gert með því að senda inn að eigin frumkvæði launaseðlana frá sumrinu. Hann hafi haft það í huga að greiða ofgreiddar bætur með 20% af bótunum sínum. Fram kemur að kæranda finnist að verið sé að refsa honum fyrir að koma hreint fram að eigin frumkvæði og senda inn launaseðla. Kærandi kveður atvinnuleysisbætur vera neyðarúrræði fyrir sig og hann geti ekki verið án þeirra og óskar þess að komast aftur á atvinnuleysisbætur og greiða ofgreiddar bætur til baka.
Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 27. desember 2011, bendir Vinnumálastofnun á að mál þetta varði viðurlög vegna brota á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem kærandi hafi verið í starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann hafi fengið greiddar atvinnuleysistryggingar, án þess að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit væri hætt skv. 35. gr. a eða 10. gr. laganna.
Í 13. gr. laganna segi jafnframt að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Það sé ljóst að aðili sem starfi á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og skipti þá engu máli hvort starfið sé launað eður ei.
Bent er á að það komi skýrt fram í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að sömu viðurlög skuli gilda um þá er starfi á innlendum vinnumarkaði á samhliðagreiðslu atvinnuleysistrygginga og þeirra er vísvitandi veiti rangar upplýsingar í þeim tilgangi að fá greiddar bætur sem þeir eigi ekki rétt á. Hafi atvinnuleitandi ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að atvinnuleit sé hætt eða um tilfallandi vinnu skv. 10. gr. og 35. gr. a sé stofnuninni því almennt skylt að beita viðurlögum á grundvelli 60. gr. laganna ef atvinnuleitandi er síðar staðinn að vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur.
Það sé óumdeilt að kærandi hafi verið við vinnu hjá B. í júní, júlí og ágúst 2011. Hafi kærandi verið við vinnu hjá fyrirtækinu á sama tíma og hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun. Hafi Vinnumálastofnun ekki borist tilkynning um tilfallandi vinnu, hlutastarf eða að atvinnuleit hafi verið hætt, sbr. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar.
Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að í kærunni segi kærandi að verið sé að refsa honum fyrir að koma hreint fram að eigin frumkvæði. Vinnumálastofnun bendir á að með bréfi, dags. 7. september 2011, hafi stofnunin óskað eftir því að kærandi gerði grein fyrir óuppgefnum tekjum og hafi bréfið komið til vegna reglubundins eftirlits stofnunarinnar. Framlagning launaseðla í kjölfar eftirlitsaðgerða stofnunarinnar, eftir að vinnu atvinnuleitanda sé lokið, verði ekki jafnað við tilkynningu um vinnu enda þurfi slík tilkynning að berast stofnuninni með eins dags fyrirvara. Verði ekki séð að kærandi hafi upplýst stofnunina um störf sín á tímabilinu að eigin frumkvæði líkt og haldið sé fram í kæru til nefndarinnar.
Það sé ljóst að kærandi hafi ekki tilkynnt um breytingar á högum sínum til Vinnumálastofnunar en rík skylda hvíli á þeim njóti greiðslna atvinnuleysisbóta að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar um atvinnuþátttöku þeirra. Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum til að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit sé hætt eða tilkynna um tekjur, sbr. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar, verði að telja kæranda hafa brugðist skyldum sínum. Það er niðurstaða Vinnumálastofnunar að stöðva skuli greiðslur atvinnuleysistrygginga til kæranda og að hann skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hafi starfað í tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði.
Það er einnig niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi fengið skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ofgreiddar atvinnuleysisbætur frá 6. júní til 19. júlí 2011 að fjárhæð 181.511 kr. auk 15% álags.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 29. desember 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 12. janúar 2012. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
2.
Niðurstaða
Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún var svohljóðandi þar til henni var breytt 2. september 2011 með lögum nr. 103/2011:
„Sá sem veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“
Þessu ákvæði var bætt við lög um atvinnuleysistryggingar með 23. gr. laga nr. 134/2009, en með þeim lögum voru gerðar ýmsar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar í því skyni að gera strangari kröfur um trúnaðarskyldur atvinnuleitenda gagnvart Vinnumálastofnun. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að lögum nr. 134/2009 segir að beita eigi ákvæði 60. gr. í þrenns konar tilvikum. Í fyrsta lagi þegar atvinnuleitandi veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður samkvæmt lögunum, í öðru lagi þegar atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum og hefur ekki tilkynnt Vinnumálastofnun að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna og í þriðja lagi þegar atvinnuleitandi verður uppvís að þátttöku á vinnumarkaði án þess að hafa tilkynnt um tilfallandi vinnu, sbr. 35. gr. a. Síðastnefnda greinin er svohljóðandi:
Helsti tilgangur 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er að tryggja að atvinnuleitendur veiti réttar upplýsingar um hagi sína í atvinnumálum og upplýsi um breytingar sem á þeim kunna að verða. Með þessu á meðal annars að sporna gegn „svartri atvinnustarfsemi“.
Fyrir liggur að kærandi starfaði í júní, júlí og ágúst 2011 hjá fyrirtækinu B. á sama tíma og hann þáði greiðslur atvinnuleysistrygginga. Í kjölfar bréfs Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 7. september 2011, þar sem óskað var upplýsinga um óuppgefnar tekjur, sendi kærandi launaseðla vegna vinnu sinnar í mánuðunum júní, júlí og ágúst 2011. Sú staðhæfing kæranda að verið sé að refsa honum fyrir að koma hreint fram að eigin frumkvæði á því ekki við rök að styðjast. Hann veitti umræddar upplýsingar ekki að eigin frumkvæði heldur í kjölfar fyrirspurnar Vinnumálastofnunar. Að auki má geta þess að jafnvel þótt kærandi hefði veitt upplýsingar um tekjur sínar að eigin frumkvæði í lok sumars eins og hann kveðst hafa ætlað að gera þá hefði það ekki nægt til að uppfylla skyldur hans samkvæmt lögunum. Skýr krafa 35. gr. a er sú að sá sem hyggst stunda tilfallandi vinnu samhliða töku atvinnuleysisbóta skuli tilkynna um þá vinnu fyrirfram og í síðasta lagi sama dag og vinnan er innt af hendi.
Óumdeilt er í málinu að kærandi vann við ferðamennsku sumarið 2011 og þáði fyrir það laun. Hann tilkynnti ekki um að atvinnuleit væri hætt eða um tilfallandi vinnu eins og honum bar að gera skv. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar. Verður því í ljósi þess sem hér hefur verið rakið að líta svo á að kærandi hafi brugðist skyldum sínum.
Á tímabilinu 1. júní til 19. júlí 2011 fékk kærandi greiddar 157.836 kr. í atvinnuleysisbætur. Þessar bætur ber honum að endurgreiða ásamt 15% álagi, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Með vísan til ofangreinds, og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, þá verður hún staðfest.
Úrskurðarorð
Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 10. október 2011 í máli A þess efnis að hann skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði og um stöðvun á greiðslum atvinnuleysistrygginga til kæranda er staðfest.
Kærandi skal endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur auk 15% álags, samtals að fjárhæð 181.511 kr.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson