Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 157/2011

Úrskurður

 

 Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 23. október 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 157/2011.

 

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 31. október 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda vegna fyrirliggjandi upplýsinga um að hann hafi verið í 100% vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að viðbættu 15% álagi, að fjárhæð 190.943 kr. fyrir tímabilið frá 7. júní til 15. júlí 2011 þegar hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una hinni kærðu ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 9. nóvember 2011. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun varðandi endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta að fjárhæð 190.943 kr. verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 14. janúar 2010. Við samkeyrslu á gagnagrunnum Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra í september 2011 komu upp tekjur á kæranda í júní 2011 frá Reykjavíkurborg. Kærandi hafði ekki tilkynnt um tekjur á tímabilinu. Í kjölfarið óskaði Vinnumálastofnun með bréfi, dags. 7. september 2011, eftir því að kærandi gerði grein fyrir þeim tekjur sem hann hefði haft á þeim tíma sem hann þáði atvinnuleysisbætur. Engar skýringar bárust frá kæranda og með bréfi, dags. 22. september 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun honum að greiðslur atvinnuleysisbóta hefðu verið stöðvaðar. Vinnumálastofnun barst tilkynning um tekjur frá kæranda 3. október 2011 ásamt vinnuveitendavottorði frá Reykjavíkurborg. Samkvæmt vottorðinu starfaði kærandi frá 6. júní til 15. júlí 2011 í 100% starfshlutfalli hjá Reykjavíkurborg.

 

Í kæru sinni kveðst kærandi hafa fengið sumarstarf hjá frístundaheimili Reykjavíkurborgar í B. Starfið hafi verið tímabundið í sex vikur og hafi hann talið að starfinu hafi verið úthlutað á vegum Vinnumálastofnunar þar sem ÍTR hafi fengið símanúmer sitt þar. Þar sem um tímabundið starf hafi verið að ræða hafi hann haft samband símleiðis við aðila hjá Vinnumálastofnun og spurt viðkomandi hvort hann ætti að stimpla sig áfram inn í skráningu sem atvinnulaus. Viðkomandi aðili hafi ekki virst alveg viss en hafi þó talið svo vera og því hafi hann stimplað sig í samræmi við gefnar upplýsingar. Þegar þessi mistök hafi komið í ljós um haustið hafi hann farið með umbeðin gögn til Vinnumálastofnunar og verið tjáð að vegna þess myndi greiðslum til hans seinka um hálfan til tvo mánuði. Í því viðtali hafi aldrei verið minnst á afturköllun bóta í tólf mánuði eða endurgreiðslu ásamt 15% álagi vegna ofgreiddra bóta. Hafi kærandi talið að sá tími sem honum hafi verið sagt að hann yrði launalaus væru leiðrétting á fyrrgreindum mistökum. Kærandi kveðst að loknu starfinu hafa skrifað undir námssamning við Vinnumálstofnun og stundi nú nám í Tækniskólanum á tölvubraut. Hann sé því tekjulaus með öllu og engan veginn í stakk búinn til að endurgreiða umbeðna fjárhæð. Hann hafi fullan hug á að halda því námi til streitu þrátt fyrir bótamissi. Hann fari því vinsamlega fram á að úrskurður Vinnumálastofnunar vegna endurgreiðslu ofgreiddra bóta verði felldur niður þar sem hann telji sig hafa fengið misvísandi upplýsingar hjá fulltrúum Vinnumálastofnunar þegar hann hafi leitað til þeirra fyrr í sumar.

 

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 7. mars 2012, bendir Vinnumálastofnun á að mál þetta varði viðurlög vegna brota á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem kærandi hafi verið í starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann hafi fengið greiddar atvinnuleysistryggingar, án þess að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit væri hætt skv. 35. gr. a eða 10. gr. laganna.

 

Rík skylda hvíli á þeim sem fái greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun til að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar um hagi viðkomandi, sér í lagi þá sem geti ákvarðað rétt aðila til atvinnuleysisbóta, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.


Í 13. gr. laganna segi jafnframt að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Það sé ljóst að aðili sem starfi á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og skipti þá engu máli hvort starfið sé launað eður ei.

 

Bent er á að það komi skýrt fram í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að sömu viðurlög skuli gilda um þá er starfi á innlendum vinnumarkaði á samhliðagreiðslu atvinnuleysistrygginga og þeirra er vísvitandi veiti rangar upplýsingar í þeim tilgangi að fá greiddar bætur sem þeir eigi ekki rétt á. Hafi atvinnuleitandi ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að atvinnuleit sé hætt eða um tilfallandi vinnu skv. 10. gr. og 35. gr. a sé stofnuninni því almennt skylt að beita viðurlögum á grundvelli 60. gr. laganna ef atvinnuleitandi sé síðar staðinn að vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur.

 

Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að starf kæranda hjá Reykjavíkurborg hafi ekki verið hluti af vinnumarkaðsúrræði á grundvelli reglugerðar nr. 12/2009 og hafi Vinnumálastofnun ekki komið beint að ráðningu kæranda hjá Reykjavíkurborg. Ekki sé skráð í tölvukerfi stofnunarinnar að nafn kæranda hafi verið sent sveitarfélaginu vegna hugsanlegs atvinnuviðtals eða atvinnutilboðs. Þar að auki geti miðlun á nafnalista atvinnuleitenda til atvinnurekanda ekki undir neinum kringumstæðum talist fullnægjandi ástæða til að afskrá hinn skráða enda engin fullvissa um að atvinnuleitanda hafi boðist starf í kjölfarið. Tilkynningar frá atvinnuleitanda sé því ávallt þörf hvort sem sótt hafi verið um starf með eða án aðstoðar Vinnumálastofnunar. Slík tilkynning hafi ekki borist stofnuninni og hafi kærandi fyrst orðið við fyrirspurnum Vinnumálastofnunar 3. október 2011, þegar greiðslur atvinnuleysisbóta til hans hafi verið stöðvaðar.


Kærandi haldi því fram að hann hafi tilkynnt um starf sitt símleiðis og að fulltrúi stofnunarinnar hafi tjáð honum að halda áfram skráningu á heimasíðu stofnunarinnar. Vinnumálastofnun hafni því að þjónustufulltrúi hafi veitt atvinnuleitanda þær ráðleggingar að halda áfram að skrá sig atvinnulausan hjá stofnuninni eftir að hann hafi tilkynnt um að hafa byrjað störf hjá Reykjavíkurborg. Skráning á heimasíðu Vinnumálastofnunar á „mínum síðum“ sé rafræn staðfesting á því að hinn tryggði sé virkur í atvinnuleit. Slík staðfesting eigi augljóslega ekki rétt á sér sé atvinnuleitandi byrjaður í vinnu eða skrái sig af öðrum ástæðum af atvinnuleysisskrá. Ekkert sé skráð í samskiptasögu kæranda hjá stofnuninni að tilkynnt hafi verið um vinnu eða að símtal hafi yfirhöfuð átt sér stað. Sé öllum starfsmönnum stofnunarinnar ljóst hvaða þýðingu tilkynning um afskráningu hafi í för með sér og nauðsyn þess að skrá slíkar upplýsingar í tölvukerfi stofnunarinnar. Þá verði ekki fallist á að fulltrúi stofnunarinnar hafi veitt svo rangar upplýsingar í kjölfar tilkynningar um að kærandi hafi byrjað störf hjá Reykjavíkurborg.

 

Vinnumálastofnun fellst ekki á skýringar kæranda og telur að stöðva beri greiðslur atvinnuleysisbóta til hans og skuli hann ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hafi starfað í tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði.

 

Þá beri kæranda skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hann uppfyllti ekki skilyrði laganna.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. mars 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 26. mars 2012. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

 


 

2.

Niðurstaða

 

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún var svohljóðandi þar til henni var breytt 2. september 2011 með lögum nr. 103/2011:

 

Sá sem veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

 

Þessu ákvæði var bætt við lög um atvinnuleysistryggingar með 23. gr. laga nr. 134/2009, en með þeim lögum voru gerðar ýmsar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar í því skyni að gera strangari kröfur um trúnaðarskyldur atvinnuleitenda gagnvart Vinnumálastofnun. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að lögum nr. 134/2009 segir að beita eigi ákvæði 60. gr. í þrenns konar tilvikum. Í fyrsta lagi þegar atvinnuleitandi veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður samkvæmt lögunum, í öðru lagi þegar atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum og hefur ekki tilkynnt Vinnumálastofnun að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna og í þriðja lagi þegar atvinnuleitandi verður uppvís að þátttöku á vinnumarkaði án þess að hafa tilkynnt um tilfallandi vinnu, sbr. 35. gr. a.

 

Helsti tilgangur 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er að tryggja að atvinnuleitendur veiti réttar upplýsingar um hagi sína í atvinnumálum og upplýsi um breytingar sem á þeim kunna að verða. Með þessu á meðal annars að sporna gegn „svartri atvinnustarfsemi“.

 

Fyrir liggur að kærandi starfaði frá 6. júní til 15. júlí 2011 hjá Reykjavíkurborg á sama tíma og hann þáði greiðslur atvinnuleysistrygginga. Um var að ræða tímabundið sex vikna sumarstarf hjá Reykjavíkurborg. Kærandi taldi að starfinu hefði verið úthlutað á vegum Vinnumálastofnunar. Þar sem um hafi verið að ræða tímabundið starf hafi hann haft samband við aðila hjá Vinnumálastofnun og spurt hvort hann ætti að stimpla sig áfram inn sem atvinnulausan. Kærandi kveður viðkomandi aðila ekki hafa verið alveg vissan en hafi þó talið svo vera og hafi hann því stimplað sig í samræmi við gefnar upplýsingar.

 

Vinnumálastofnun hafnar því að þjónustufulltrúi hafi veitt atvinnuleitanda þær ráðleggingar að halda áfram að skrá sig atvinnulausan hjá stofnuninni eftir að hann tilkynnti um að hafa byrjað störf hjá Reykjavíkurborg. Slík skráning sé staðfesting þess að hinn tryggði sé virkur í atvinnuleit og eigi því ekki rétt á sér sé hann kominn í vinnu. Þá sé ekkert skráð í samskiptasögu kæranda hjá stofnuninni að tilkynnt hafi verið um vinnu eða að símtal hafi átt sér stað.

 

Ekki liggja fyrir nein gögn sem staðfesta þá staðhæfingu kæranda að hann hafi fengið rangar upplýsingar hjá Vinnumálastofnun. Með vísan til þess og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram verður ekki lagt til grundvallar við úrlausn máls þessa að kærandi hafi fengið rangar leiðbeiningar Vinnumálastofnunar.

 

Ekki liggja fyrir upplýsingar þess efnis að kærandi hafi tilkynnt að atvinnuleit hans væri hætt eða um tilfallandi vinnu eins og honum bar að gera skv. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar. Verður því í ljósi þess sem hér hefur verið rakið að líta svo á að kærandi hafi brugðist skyldum sínum og ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Jafnframt átti kærandi ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 6. júní til 15. júlí 2011. Í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber kæranda að standa skil á ofgreiddum atvinnuleysisbótum ásamt 15% álagi að fjárhæð samtals 190.943 kr.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 31. október 2011 í máli A þess efnis að hann skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði og um stöðvun á greiðslum atvinnuleysistrygginga til kæranda er staðfest.

 

Kærandi skal endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur auk 15% álags, samtals að fjárhæð 190.943 kr.

 

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta