Mál nr. 521/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 521/2024
Þriðjudaginn 17. desember 2024
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 18. október 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. október 2024, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar og að innheimta ofgreiddar bætur.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 21. júní 2024 og var umsóknin samþykkt 10. júlí 2024. Við reglubundið eftirlit kom í ljós að kærandi var skráð í 30 eininga nám við B á haustönn 2024. Með erindi Vinnumálastofnunar, dags. 9. október 2024, var óskað eftir að kærandi legði fram skólavottorð og ástæðu þess að hún hefði ekki upplýst stofnunina um nám sitt. Kærandi afskráði sig sem atvinnuleitandi sama dag. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. október 2024, var kæranda tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta hefðu verið stöðvaðar með vísan til 52. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og að henni bæri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. til 30. september 2024, að fjárhæð 458.563 kr., auk álags. Mál kæranda var tekið fyrir að nýju í kjölfar nýrra gagna og með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 30. október 2024, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun væri staðfest þar sem hún hefði að geyma efnislega rétta niðurstöðu.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. október 2024. Með bréfi, dags. 22. október 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 21. nóvember 2024, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. nóvember. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru greinir kærandi frá því að hún hafi verið í fjarnámi samhliða vinnu í tvö og hálft ár. Hún hafi þá verið í fullu starfi, enda sé námið skipulagt sem nám samhliða vinnu. Starf kæranda hafi hins vegar verið lagt niður vorið 2024. Kæranda hafi grunað að það myndi gerast og hafi því sinnt kvöldnámi til að auka líkurnar á að fá annað starf.
Kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur í þrjá mánuði en skráð sig af bótum þann 9. október 2024. Hún hafi komist í starfsendurhæfingu hjá Virk og hafi því sótt um endurhæfingarbætur hjá Tryggingastofnun. Fjarnám kæranda sé skipulagt með þeim hætti að önninni sé skipt í tvennt. Kærandi sé því í 12 einingum í senn og stundi námið á kvöldin. Hún hafi upphaflega verið skráð í 30 eininga nám en sagt sig úr einum áfanga. Námið miði við að fólk geti sinnt dagvinnu og hafi ekki haft nein áhrif á getu kæranda til að vinna. Kærandi hafi ákveðið að leita til Virk vegna mikils kvíða og stefni á að verða fullkomlega vinnufær á komandi vori.
Kærandi voni að tillit verði tekið til framangreinds þar sem miklar fjárhagsáhættur eigi þátt í kvíða hennar. Hún sé að gera sitt besta til að verða vinnufær á ný en hafi engan veginn efni á að endurgreiða atvinnuleysisbætur sem hafi farið í reikninga og uppihald fjölskyldunnar. Námið sem kærandi sinni á kvöldin eftir að barn hennar sé sofnað hafi engin áhrif haft á getu hennar til að vinna umrætt tímabil.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi síðast sótt um atvinnuleysistryggingar þann 21. júní 2024. Með erindi, dags. 10. júlí 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%.
Við reglubundið eftirlit hafi komið í ljós að kærandi hafi verið skráð í 30 eininga nám á haustönn 2024 við B, samhliða því að þiggja greiðslur atvinnuleysistrygginga. Kærandi hafi ekki tilkynnt stofnuninni um nám sitt. Í umsókn kæranda hafi komið fram að hún væri ekki skráð í nám, hefði ekki verið skráð í nám á fyrri námsönn, né hefði hún lokið námi á síðustu 12 mánuðum þar á undan.
Með erindi, dags. 9. október 2024, hafi verið óskað eftir því að kærandi skilaði skólavottorði þar sem umfang náms hennar væri tilgreint ásamt skýringum á því hvers vegna hún hefði ekki upplýst Vinnumálastofnun um nám sitt. Kæranda hafi verið veittur sjö virkra daga frestur til að veita stofnuninni umbeðin gögn. Stuttu síðar, þann sama dag, hafi kærandi afskráð sig sem atvinnuleitandi með skýringunni „óvinnufær“. Þá hafi Vinnumálastofnun jafnframt borist beiðni frá kæranda um staðfestingu á afskráningu sinni.
Með erindi, dags. 18. október 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að þar sem hún hefði stundað nám á sama tíma og hún hefði þegið greiðslur atvinnuleysistrygginga hefði hún fengið ofgreiddar atvinnuleysistryggingar á tímabilinu 1. til 30. september 2024, samtals 458.563 kr. með 15% álagi, sem yrðu innheimtar samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá hafi kæranda jafnframt verið tilkynnt um að greiðslur til hennar væru stöðvaðar á grundvelli 52. gr. laganna.
Þann 22. október 2024 hafi kærandi skilað skýringum og vottorði frá B á „Mínar síður“. Í vottorðinu hafi komið fram að kærandi væri skráð í 24 einingar í C með vinnu. Í skýringum kæranda hafi meðal annars komið fram að námið væri skipulagt sem nám samhliða vinnu. Það væri kennt í tveimur lotum í fjarnámi og hún hefði sinnt náminu á kvöldin. Þá hafi jafnframt komið fram að hún hefði verið skráð í 30 einingar en hefði sagt sig úr einum áfanga. Hún væri því í 24 einingum sem skiptust jafnt niður á tvær lotur.
Í kjölfar skýringa og gagna frá kæranda hafi málið því verið tekið fyrir að nýju. Kæranda hafi með erindi þann 30. október 2024 verið tilkynnt að fyrri ákvörðun frá 18. október 2024 hefði verið staðfest þar sem ný gögn hefðu ekki breytt niðurstöðu í máli hennar.
Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.
Í c. lið 3. gr. laganna sé að finna eftirfarandi skilgreiningu á námi:
„Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“
Í 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé nánar kveðið á um nám. Í 1. mgr. 52. gr. segi orðrétt:
„Hver sá sem stundar nám, sbr. c. lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. þó 2., 3. og 4. mgr.“
Ljóst sé af ákvæði 1. mgr. 52. gr. að það sé ekki tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar að tryggja námsmönnum framfærslu á meðan þeir stundi nám. Í athugasemdum með 52. gr. í greinargerð með frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé tiltekið að það sé meginregla að námsfólk eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum hvort sem um sé að ræða fjarnám, dag- eða kvöldskóla.
Í 2. til 5. mgr. 52. gr. laganna séu undanþágur frá 1. mgr. sömu greinar. Ljóst sé af skýringum kæranda að hún telji að ákvæði 4. mgr. 52. gr. laganna eigi við í hennar tilfelli.
Ákvæði 4. mgr. 52. gr. laganna sé svohljóðandi:
„Þrátt fyrir 1.–3. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám sem er skipulagt samhliða vinnu af viðkomandi menntastofnun og er ekki lánshæft til framfærslu hjá Menntasjóði námsmanna án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga, enda hindri námið hvorki virka atvinnuleit viðkomandi né möguleika hans til þátttöku á vinnumarkaði. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um skipulag námsins.“
Í ákvæðinu sé því heimild til að stunda ólánshæft nám, sem skipulagt sé samhliða vinnu, án skerðingar á atvinnuleysisbótum, svo lengi sem námið hindri ekki virka atvinnuleit né þátttöku á vinnumarkaði.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi skráð sig í 30 eininga nám við B á haustmisseri 2024, á sama tíma og hún hafi þegið greiðslur atvinnuleysistrygginga. Kærandi hafi svo skráð sig úr einum áfanga og því lagt stund á 24 eininga nám við skólann. Kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun um þessa tilhögun og í umsókn kæranda hafi komið fram að hún væri ekki skráð í nám, hefði ekki verið skráð í nám á síðustu námsönn og hefði ekki lokið námi á síðustu 12 mánuðum fyrir umsókn.
Samkvæmt úthlutunarreglum Menntasjóðs námsmanna sé að hámarki veitt lán fyrir 30 ECTS-einingum á hvoru misseri og að lágmarki fyrir 22 ECTS. Nám kæranda hafi því verið lánshæft samkvæmt lánareglum Menntasjóðs námsmanna og falli því ekki að undanþágu 4. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Með vísan til 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé því ljóst að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. til 30. september 2024. Í 39. gr. laganna sé fjallað um endurgreiðslu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum. Í 2. mgr. 39. gr. segi orðrétt:
„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“
Samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 39. gr. beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfylli ekki skilyrði laganna. Í athugasemdum með 39. gr. í greinargerð með frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslunnar hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. sé því fortakslaust að því er varði skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur.
Með vísan til framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að kæranda beri að endurgreiða þær atvinnuleysisbætur sem hún hafi fengið greiddar fyrir tímabilið 1. til 30. september 2024, samtals að fjárhæð 398.750 kr. auk 15% álags, enda liggi fyrir að hún hafi ekki uppfyllt skilyrði laganna á umræddu tímabili, sbr. 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Heildarskuld kæranda með álagi nemi 458.563 kr.
Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysistrygginga á tímabilinu 1. til 30. september 2024, sbr. 1. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kæranda beri því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að meðtöldu álagi, samtals 458.563 kr., sbr. 2. mgr. 39. gr. laganna.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda og að innheimta ofgreiddar bætur.
Í IX. kafla laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um tilvik er leiða til takmörkunar á atvinnuleysistryggingum. Í 52. gr. laganna er fjallað um nám en þar segir:
„Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. þó 2., 3. og 4. mgr.
Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á framhaldsskólastigi sem nemur að hámarki 12 einingum eða á háskólastigi sem nemur að hámarki 12 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.
Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er Vinnumálastofnun heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá er stundar nám á framhaldsskólastigi sem nemur allt að 20 einingum eða á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Skilyrði er að námið kunni að nýtast hinum tryggða beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og skal hinn tryggði leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Hinn tryggði á þá rétt til skertra atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil og skal Vinnumálastofnun meta skerðinguna á tryggingahlutfalli sem hann á rétt til skv. 15. eða 19. gr. í samræmi við umfang námsins.
Þrátt fyrir 1.–3. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám sem er skipulagt samhliða vinnu af viðkomandi menntastofnun og er ekki lánshæft til framfærslu hjá Menntasjóði námsmanna án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga, enda hindri námið hvorki virka atvinnuleit viðkomandi né möguleika hans til þátttöku á vinnumarkaði. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um skipulag námsins.
Þrátt fyrir 1.–4. mgr. skal hinum tryggða ávallt heimilt að ljúka þeirri önn sem er yfirstandandi við starfslok hans eða þegar hann missir starf sitt að hluta, sbr. 17. gr., án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga.“
Í c. lið 3. gr. laganna er að finna skilgreiningu á námi samkvæmt lögunum en þar segir:
„Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“
Í athugasemdum við ákvæði 52. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Þá kemur fram að það kunni að vera að nám sé nauðsynlegur hluti af starfshæfingu atvinnuleitanda að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar, en í slíkum tilvikum geti atvinnuleitandi talist tryggður samhliða námi.
Þegar sótt er um atvinnuleysisbætur er umsækjandi spurður hvort hann sé skráður í nám á umsóknardegi. Upplýst er að almennt sé ekki heimilt að vera í námi samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta. Þó séu undantekningar á þeirri meginreglu. Tekið er fram að það sé því mjög mikilvægt að hafa samband sem fyrst við ráðgjafa Vinnumálastofnunar til að kanna hvort viðkomandi eigi rétt á námssamningi.
Í máli þessu liggur fyrir að kærandi var skráð í 24 eininga nám við B þegar hún þáði atvinnuleysisbætur en upplýsti ekki Vinnumálastofnun um námið. Við reglulegt eftirlit Vinnumálastofnunar í október 2024 kom það þó í ljós og var hún í kjölfarið innt eftir skýringum og gögnum vegna námsins. Eftir að kærandi lagði fram skýringar tilkynnti Vinnumálastofnun henni um ákvörðun stofnunarinnar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta og að innheimta ofgreiddar bætur.
Kærandi hefur meðal annars vísað til þess að hún hafi verið í námi sem hún hafi sinnt á kvöldin. Námið sé skipulagt sem nám samhliða vinnu og hafi ekki haft nein áhrif á getu kæranda til að vinna. Hún hafi upphaflega verið skráð í 30 eininga nám en sagt sig úr einum áfanga. Kærandi hafi því stundað 24 eininga nám. Hún sé í 12 einingum í senn þar sem önnin sé kennd í tveimur lotum.
Þann 21. júní 2024 var kæranda tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði móttekið umsókn hennar um atvinnuleysisbætur. Kæranda var greint frá því að ítarlegar upplýsingar um réttindi hennar og skyldur væri að finna undir liðnum „Hvað þarftu að vita“ á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Þar er fjallað um nám og atvinnuleysisbætur og fram kemur að almennt sé ekki heimilt að stunda nám samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta. Á því geti þó verið undantekning að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Slíkt nám atvinnuleitanda þurfi að vera samþykkt af Vinnumálastofnun og uppfylla ákveðin skilyrði samkvæmt reglugerð. Vegna náms á háskólastigi samhliða virkri atvinnuleit þurfi að gera námssamning við Vinnumálastofnun sem geti að hámarki verið vegna 12 ECTS-eininga. Með fleiri einingum á misseri skerðist bætur við ákveðið hlutfall. Þá er tekið fram að mikilvægt sé að ráðfæra sig við ráðgjafa Vinnumálastofnunar vegna náms samhliða atvinnuleit.
Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin að kærandi hefði mátt vita af tilkynningarskyldu vegna ástundun náms, eða að minnsta kosti haft tilefni til þess að afla sér frekari upplýsinga um hvort slík skylda væri fyrir hendi.
Samkvæmt staðfestingu á skólavist frá B, dags. 21. október 2024, var kærandi skráð í 24 eininga nám á haustönn 2024. Fyrir liggur að nám kæranda var ekki hluti af vinnumarkaðsaðgerð samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar og einnig liggur fyrir að undanþáguheimildir 2., 3. og 4 mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 eiga ekki við í máli kæranda þar sem hún var skráð í nám umfram 22 ECTS-einingar. Námið var því lánshæft samkvæmt úthlutunarreglum Menntasjóðs námsmanna. Að því virtu uppfyllti kærandi ekki skilyrði þess að vera tryggð samkvæmt lögunum á þeim tíma sem hún var í náminu og var Vinnumálastofnun því rétt að stöðva greiðslur til hennar.
Með hinni kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar voru einnig innheimtar ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins 1. til 30. september 2024. Í 39. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann hafi átt rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið, að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.
Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Aftur á móti skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Þar sem kærandi tilkynnti Vinnumálastofnun ekki um nám sitt er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki sé tilefni til að fella niður álagið sem lagt var á endurgreiðslukröfuna. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. október 2024, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til A, og að innheimta ofgreiddar bætur, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir