Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 21/2008

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 24. september 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 21/2008.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Með bréfi, dags. 10. júlí 2008, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 7. júlí 2008 hafnað umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur, móttekinni 29. maí 2008, með vísan til 2. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, sbr. einnig a-lið 3. gr. laganna, þar sem vinna hennar á viðmiðunartímabili bótaréttar næði ekki tilteknu lágmarki. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi dagsettu 11. september 2008. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð og hún fái greiddar atvinnuleysisbætur á meðan hún sé í atvinnuleit. Af hálfu Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi eigi ekki rétt til atvinnuleysisbóta.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur með umsókn sem var móttekin 29. maí 2008 en Greiðslustofa Vinnumálastofnunar fékk hana í hendur 13. júní 2008 sem og skattframtal kæranda 2008. Með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 16. júní 2008, var henni tilkynnt að stofnunin hefði frestað afgreiðslu umsóknar hennar þar sem líkur væru á að hún ætti ekki bótarétt þar sem vinna hennar á viðmiðunartímabili bótaréttar næði ekki því lágmarki sem kveðið væri á um í 2. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. einnig a-lið 3. gr. laganna. Kæranda var gefinn kostur á að koma með skýringar og andmæli vegna væntanlegrar ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Þegar engin andmæli bárust tók Vinnumálastofnun þá ákvörðun að hafna umsókn kæranda, sbr. bréf stofnunarinnar dags. 10. júlí 2008.

Kærandi kærði ákvörðun Vinnumálastofnunarinnar með bréfi til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 11. september 2008. Í kærunni kom fram að kærandi ynni fyrir sér með kennslu og myndlistartengdum verkefnum, sbr. skattskýrslur sem hún hefði lagt fram. Að meginstefnu væri hún því verktaki í tímabundnum verkefnum enda öfluðu myndlistarmenn sér oft tekna með þeim hætti. Kærandi óskaði eftir því að ákvörðun Vinnumálastofnunar yrði endurskoðuð.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. desember 2008, benti Vinnumálastofnun á að kærandi hafi ekkert getið um sjálfstæða starfsemi sína í umsókn um atvinnuleysisbætur en samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá hafi kærandi fengi greiðslur frá Ríkissjóði Íslands fyrir tímabilin febrúar, maí–júní, nóvember og desember 2007 og janúar, mars og maí 2008. Engar skýringar lægju fyrir um eðli greiðslnanna. Að mati Vinnumálastofnun hafi í hinni kærðu ákvörðun ekki verið tekið á því hvort kærandi væri ársmaður eða ekki. Hefði legið fyrir að kærandi væri ársmaður hefði hún ekki talist sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. þágildandi síðari málslið b-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í upphafi ársins 2009 varð samkomulag milli starfsmanns úrskurðarnefndarinnar og kæranda að fresta afgreiðslu málsins þar til að kærandi myndi leggja fram frekari gögn. Með bréfi, dags. 19. júní 2009, lagði kærandi fram gögn um launatekjur sínar, meðal annars launaseðla og launamiða frá ríkissjóði Íslands. Samkvæmt þeim gögnum þá starfaði kærandi við prófgæslu á tímabilinu 16. desember 2007 til 15. september 2008 og fékk samtals 438.036 kr. í laun.

 

2.

Niðurstaða

Svo umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt á atvinnuleysisbótum þarf hann að jafnaði að hafa verið launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur áður en hann missti sitt fyrra starf. Kærandi telur sig hafa verið sjálfstætt starfandi einstakling, sem hafi misst sitt fyrra starf, þegar hún sótti um atvinnuleysisbætur í lok maí 2008. Þegar umsókn kæranda barst var skilgreining á sjálfstætt starfandi einstaklingi svohljóðandi, sbr. þágildandi b-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar:

Sjálfstætt starfandi einstaklingur: Hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi eða starfar á vegum sameignarfélags, einkahlutafélags eða hlutafélags eða tengdra félaga, þar sem hann hefur ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum fjármálaráðherra, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi. Sá sem greiðir staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi einu sinni á ári telst ekki vera sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi laga þessara.

Hin kærða ákvörðun var tekin á meðan þessi skilgreining var við lýði en henni var breytt með tilteknum hætti með 1. gr. laga nr. 37/2009. Þær breytingar skipta hér ekki máli þar sem taka verður mið af þeim reglum sem giltu þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Af tilvitnaðri skilgreiningu leiðir að sjálfstætt starfandi einstaklingur hafi meðal annars þurft að hafa staðið skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingargjaldi með reglulegum hætti, sbr. fyrri málslið þágildandi b-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt orðanna hljóðan þá taldist sá ekki sjálfstætt starfandi einstaklingur sem greiddi staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingargjaldi einu sinni á ári, sbr. síðari málslið þágildandi b-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Draga má þá ályktun af framlögðu skattframtali kæranda 2008 og framlögðu yfirliti frá skattyfirvöldum um skil á staðgreiðslu launatekna kæranda fyrir árið 2007, að kærandi hafi hvorki greitt mánaðarlega né reglubundna staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi fyrir árið 2007. Hún kaus að greiða skatta vegna reiknaðs endurgjalds fyrir árið 2007 í einu lagi. Ekkert gefur til kynna að hún hafi á fyrstu fimm mánuðum ársins 2008 greitt staðgreiðslu reiknaðs endurgjalds, mánaðarlega eða með reglubundnu millibili. Þegar af þessum ástæðum gat hún ekki talist sjálfstætt starfandi einstaklingur þegar hún sótti um atvinnuleysisbætur í lok maí 2008, sbr. þágildandi síðari málslið b-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Sé litið til fyrirliggjandi gagna þá hafði kærandi launatekjur á tímabilinu 16. desember 2007 til 15. september 2008. Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur í lok maí 2008. Með hliðsjón af því að kærandi þáði launatekjur eftir að hún sótti um atvinnuleysisbætur þá átti hún ekki rétt á atvinnuleysisbótum sem launamaður þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Hin kærða ákvörðun var því einnig efnislega rétt hvað þennan þátt varðar.

Af framangreindu leiðir að staðfesta ber hina kærðu ákvörðun.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 10. júlí 2008 í máli A um synjun atvinnuleysisbóta er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta