Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 64/2021 - Úrskurður

.

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 64/2021

Fimmtudaginn 20. maí 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 4. febrúar 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. janúar 2021, um að synja beiðni hennar um greiðslu atvinnuleysisbóta á grundvelli 43. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 1. maí 2020 og var umsóknin samþykkt. Þann 29. október 2020 sótti kærandi um útgáfu U2-vottorðs til að fá greiddar atvinnuleysisbætur í Póllandi á meðan hún stundaði atvinnuleit þar. Umsókn kæranda var samþykkt og U2-vottorð gefið út þann 30. október 2020 með þriggja mánaða gildistíma frá 3. nóvember 2020 til 2. febrúar 2021. Þann 13. janúar 2021 óskaði kærandi eftir framlengingu U2-vottorðsins vegna andlegra veikinda. Þann 25. janúar 2021 ítrekaði kærandi erindi sitt. Með ákvörðun, dags. 26. janúar 2021, var kæranda tilkynnt að ekki væri hægt að framlengja gildistíma U2-vottorðs með vísan til 43. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 4. febrúar 2021. Með bréfi, dags. 9. febrúar 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 3. mars 2021, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. mars 2021, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 9. mars 2021, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. apríl 2021 voru þær sendar Vinnumálastofnunar til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi sent fyrirspurn til Vinnumálastofnunar um framlengingu atvinnuleysisbóta í Póllandi á grundvelli U2-vottorðs. Kærandi óski eftir framlengingu vegna heilsu sinnar en hún hafi fundið sálfræðing í Póllandi sem ætli að veita henni aðstoð. Kærandi hafi glímt við þunglyndi í nokkur ár og hafi andlegri heilsu hennar hrakað. Þá hafi kærandi fundið fyrir sjálfsvígshugsunum. Nú sé kærandi nærri fjölskyldu sinni, í lyfjameðferð og atvinnuleit. Því miður hafi kærandi ekki haft aðgang að sérfræðingi þar sem hún hafi búið á Íslandi og hún hafi ekki haft ökuréttindi til þess að fara til Reykjavíkur.

Kærandi hafi veitt heilsufarsupplýsingar í umsókn sinni. Samkvæmt sálfræðingi eigi kærandi að dvelja með fjölskyldu sinni og halda meðferð sinni áfram. Kærandi hafi ekkert stuðningsnet á Íslandi og ástandi heilsu hennar hafi hrakað á síðustu árum. Kærandi óski þess að vera í Póllandi áfram því að heilsa hennar sé í forgangi. Kærandi vilji eyða lengri tíma til að kljást við andlegu veikindi sín. Kærandi viti að margir séu atvinnulausir þar sem hún hafi búið á Íslandi.

Kærandi hafi fengið svar um U2-vottorð hennar frá Vinnumálastofnun þar sem henni hafi verið tilkynnt að ekki væri hægt að framlengja bótatímabil hennar í Póllandi fram yfir þrjá mánuði. Samkvæmt 43. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleit í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, komi fram að Vinnumálastofnun sé heimilt að greiða atvinnuleysisbætur samkvæmt 42. gr. samfellt í þrjá mánuði frá brottfarardegi hins tryggða en þó aldrei í lengri tíma en sem eftir sé af tímabili samkvæmt 29. gr. Samkvæmt ákvæðinu hafi einstaklingur aðeins þrjá mánuði og engar undantekningar séu samkvæmt lögunum. Meðfylgjandi sé U2-vottorð og meðmælabréf frá fyrrum vinnuveitanda hennar sem hafi staðfest að kærandi sé góður starfsmaður. Því miður sé kærandi veik og vilji klára meðferð sína og koma aftur til Íslands. Til þess að halda áfram meðferð í Póllandi næstu þrjá mánuði þurfi hún fjárhagsstuðning. Síðustu ár hafi kærandi aðstoðað annað fólk. Kærandi hafi unnið hörðum höndum við að veita þjónustu við gesti á Íslandi. Nú þurfi kærandi aðstoð.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að kærandi hafi komið til Íslands árið 2016. Hún hafi byrjað að vinna á gistiheimili á Norðurlandi. Árið 2017 hafi kærandi ákveðið að flytja á Suðurland og hafið störf á hóteli þar sem hún hafi starfað næstu fjögur árin. Kærandi hafi sýnt hollustu í starfi og verið vel liðin. Því miður hafi kærandi veikst. Kærandi hafi hlotið hrós gesta hótelsins og yfirmaður hennar hafi verið ánægður með störf hennar. Að mati kæranda séu fyrrum yfirmenn hennar með besta fólki sem hún hafi hitt á Íslandi. Kærandi hafi ávallt brosað og verið tilbúin til að vinna. En undir grímunni hafi verið týnd manneskja sem hafi þurft á hjálp að halda. Sem einstaklingur með geðhvarfasýki séu tilfinningar hennar mjög ýktar sem og hegðun. Á þessum tíma hafi kærandi þróað með sér átröskun og hún farið að finna fyrir sjálfsvígshugsunum. Þá hafi kærandi gert sína fyrstu sjálfsvígstilraun sem hún hafi svo í tvígang reynt aftur.

Kærandi hafi ákveðið að fara aftur til Póllands í nóvember 2020 í þeirri von að hefja meðferð. Kærandi hafi þurft að bíða í næstum mánuð eftir að hitta sérfræðing. Hún hafi svo verið lögð inn í lok nóvember. Kærandi hafi verið greind með kvíða, þunglyndi, átröskun og grun um geðhvarfasýki. Kærandi hafi nú hafið lyfjagjöf við veikindum sínum. Kærandi hafi vonast til að getað haldið meðferð sinni áfram í Póllandi. Hún sé í virkri atvinnuleit og hugsi vel um sjálfa sig. Því miður hafi hún ekki fjármagn til að framfleyta sér þar sem sparnaður hennar sé að klárast. Kærandi hafi fengið sent U2-vottorð frá Vinnumálastofnun. Hún hafi sótt um að færa atvinnuleysisbæturnar út til Póllands. Vinnumálastofnun Póllands hafi hafnað umsókn kæranda því að hún hafi ekki unnið erlendis á síðustu sex mánuðum. Greiðslur til fólks í Póllandi, sem hafi unnið síðastliðin fimm ár, séu um 20.000 kr. á mánuði sem sé nánast sama upphæð og einn sálfræðitími fyrir kæranda en sá tími kosti um 9.000 kr. einu sinni í viku. Þá komi einnig til matarkostnaður, reikningar, leiga, lyf, ferðakostnaður og annað. Pólska ríkið geti ekki veitt kæranda fjárhagslegan stuðning þar sem hún hafi ekki starfað, haft búsetu eða borgað skatta í Póllandi síðastliðin ár. Kærandi hafi haft búsetu, borgað skatta, starfað, eytt launum sínum og varið tíma sínum á Íslandi. Árið 2020 hafi kærandi réttilega fengið atvinnuleysisbætur vegna þess tíma sem hún hafði unnið á Íslandi. Kærandi óski eftir því að fá að njóta þeirra bóta áfram. Kærandi skilji íslensk lög en sé ósammála þeim. Kærandi vilji að öllum samþykktum lögum fylgi undantekningar sem geri ráð fyrir tilfellum sem þessum. Þar af leiðandi óski kærandi eftir skilningi og aðstoð. Kærandi óski eftir að úrskurðarnefnd velferðarmála úrskurði í málinu á grundvelli mannúðarstefnu og meginreglunnar um réttlæti.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um útgáfu á U2-vottorði þann 29. október 2020 til að fá greiðslu atvinnuleysistrygginga í Póllandi á meðan hún stundi þar atvinnuleit. Kærandi hafi greint frá því að áætluð brottför til Póllands væri þann 3. nóvember 2020. Með umsókn sinni um U2-vottorð hafi kærandi staðfest að hafa fengið upplýsingar um þær reglur sem gildi um flutning atvinnuleysisbóta á milli aðildaríkja að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Umsókn kæranda um U2-vottorð hafi verið samþykkt og hafi vottorð verið gefið út þann 30. október 2020. Gildistími vottorðsins hafi verið frá 3. nóvember 2020 til 2. febrúar 2021. Kæranda hafi verið tilkynnt um útgáfu vottorðsins og gildistíma þess þann 30. október 2020.

Með erindi, dags. 13. janúar 2021, hafi kærandi óskað eftir áframhaldandi greiðslum atvinnuleysistrygginga og að U2-vottorð hennar yrði framlengt fram yfir gildistíma vottorðsins. Í erindi þessu hafi kærandi sagst verið að sinna atvinnuleit sinni í Póllandi og kjósi heldur að vera áfram í Póllandi nærri fjölskyldu sinni. Þá hafi kærandi jafnframt greint frá því að hún væri að kljást við alvarleg veikindi og hafi hafið meðferð í Póllandi hjá lækni vegna þeirra. Þann 25. janúar 2021 hafi kærandi sent Vinnumálastofnun annað erindi sama efnis. Kæranda hafi verið tjáð með erindi, dags. 26. janúar 2021, að ekki væri hægt að framlengja gildistíma U2-vottorðs umfram gildistíma þess með vísan til 43. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Þann 26. janúar 2021 hafi kærandi haft samband við Vinnumálastofnun. Kærandi hafi skýrt frá því að samkvæmt læknisráði ætti hún að vera áfram í Póllandi nærri fjölskyldu sinni. Kærandi hafi jafnframt vísað til texta á heimasíðu Vinnumálastofnunar þar sem segi að Vinnumálastofnun geti í sérstökum tilfellum framlengt frestinn fyrir komu aftur til Íslands eftir dvöl í EES-ríki á U2-vottorði. Þar segi að Vinnumálastofnun geti til dæmis heimilað atvinnuleitanda að skrá sig eftir að vottorð renni út ef hann geti sannað að hann sé að fara í viðtal vegna atvinnuumsóknar í öðru ríki. Þá geti komu til Íslands einnig verið frestað ef atvinnuleitandi geti sýnt fram á að hann hafi forfallast sökum veikinda en þá þurfi að framvísa staðfestingu þess efnis. Kæranda hafi verið tjáð að hægt væri að framlengja frest hennar fyrir komu aftur til Íslands vegna veikinda. Aftur á móti væri Vinnumálastofnun ekki heimilt samkvæmt lögum að greiða atvinnuleysistryggingar frá því að gildistími U2-vottorðs kæranda myndi renna út þann 2. febrúar 2021 og þar til hún kæmi aftur til Íslands.

Vinnumálastofnun tekur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Í c-lið 1. mgr. 13. gr. laganna sé mælt fyrir um að umsækjandi um greiðslur atvinnuleysistrygginga þurfi að vera búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum. Í VIII. kafla laganna sé að finna undanþágu frá framangreindri meginreglu. Í kaflanum sé að finna ákvæði er lúti að atvinnuleit eða atvinnu í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. Samkvæmt 42. gr. laga nr. 54/2006 sé Vinnumálastofnun heimilt að greiða atvinnuleysisbætur til atvinnuleitanda sem sé í atvinnuleit í öðru EES-ríki ef hann uppfylli tiltekin skilyrði. Í [4.] mgr. 42. gr. segi að Vinnumálastofnun gefi út viðeigandi vottorð til staðfestingar á rétti hins tryggða samkvæmt ákvæðinu. Í samræmi við [4.] mgr. 42. gr. gefi Vinnumálastofnun út U2-vottorð til atvinnuleitanda í atvinnuleit í öðru EES-ríki.

Í 1. mgr. 43. gr. laganna segi svo orðrétt: „Vinnumálastofnun er heimilt að greiða atvinnuleysisbætur skv. 42. gr. samfellt í allt að þrjá mánuði frá brottfarardegi hins tryggða en þó aldrei í lengri tíma en sem eftir er af tímabili skv. 29. gr.“ Í ákvæðinu komi skýrt fram að það tímabil sem Vinnumálastofnun sé heimilt að greiða atvinnuleysisbætur til atvinnuleitanda í atvinnuleit erlendis séu þrír mánuðir frá brottfarardegi hans. Í máli þessu hafi verið gefið út U2-vottorð til kæranda með þriggja mánaða gildistíma, eða frá 3. nóvember 2020 til 2. febrúar 2021. Vinnumálastofnun sé ekki heimilt samkvæmt skýru ákvæði 1. mgr. 43. gr. laganna að greiða kæranda atvinnuleysisbætur umfram umræddan þriggja mánaða gildistíma U2-vottorðsins. Engar undanþágur séu frá ákvæði 1. mgr. 43. gr. laganna sem heimili greiðslu atvinnuleysistrygginga umfram gildistíma vottorðsins, til að mynda vegna veikinda.

Kærandi hafi vísað, máli sínu til stuðnings, til fyrrgreinds texta á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Umrætt úrræði heimili atvinnuleitanda að framlengja frest fyrir komu aftur til Íslands eftir dvöl í EES-ríki á U2-vottorði í sérstökum tilfellum, meðal annars vegna veikinda. Aftur á móti greiðist ekki atvinnuleysisbætur til atvinnuleitanda á meðan hann dvelji í EES-ríki á framlengdum fresti. Það leiði af skýru ákvæði 1. mgr. 43. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi geti ekki átt rétt á greiðslu atvinnuleysistrygginga umfram gildistíma U2-vottorðs á meðan hún dvelji erlendis.

 

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja beiðni kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta á grundvelli 43. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að vera búsettur og staddur hér á landi, sbr. c-lið 1. mgr. ákvæðisins eins og það var orðað þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur. Í VIII. kafla laganna er að finna undanþágu frá framangreindu ákvæði en þar er fjallað um atvinnuleit eða atvinnu í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.

Í 42. gr. laga nr. 54/2006 segir að Vinnumálastofnun sé heimilt að greiða atvinnuleysisbætur til atvinnuleitanda sem sé í atvinnuleit í öðru EES-ríki, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Í 4. mgr. 42. gr. kemur fram að Vinnumálastofnun gefi út viðeigandi vottorð til staðfestingar á rétti hins tryggða samkvæmt ákvæðinu.

Í 1. mgr. 43. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að Vinnumálastofnun sé heimilt að greiða atvinnuleysisbætur samkvæmt 42. gr. samfellt í allt að þrjá mánuði frá brottfarardegi hins tryggða en þó aldrei í lengri tíma en sem eftir er af tímabili samkvæmt 29. gr. laganna.

Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur við atvinnuleit í Póllandi á grundvelli U2-vottorðs með þriggja mánaða gildistíma fyrir tímabilið 3. nóvember 2020 til 2. febrúar 2021. Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laga nr. 54/2006 getur lengd þess tímabils sem atvinnuleysisbætur eru greiddar vegna atvinnuleitar í öðru EES-ríki verið allt að þrír mánuðir. Samkvæmt framansögðu er ekki heimilt að greiða atvinnuleysisbætur á grundvelli U2-vottorðs lengur en í þrjá mánuði og lauk þriggja mánaða gildistíma U2-vottorðs kæranda þann 2. febrúar 2021. Engar undantekningar er að finna í lögum nr. 54/2006 fyrir framlengingu á því tímabili.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. janúar 2021, um að synja beiðni A, um greiðslu atvinnuleysisbóta á grundvelli 43. gr. laga nr. 54/2006, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta