Mál nr. 520/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 520/2024
Þriðjudaginn 17. desember 2024
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 17. október 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. september 2024, um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 8. ágúst 2024. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. september 2024, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt en með vísan til starfsloka hjá fyrrum vinnuveitanda væri réttur til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 17. október 2024. Með bréfi, dags. 22. október 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 20. nóvember 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. nóvember 2024. Athugasemdir bárust frá kæranda, dags. 21. nóvember 2024 og voru þær kynntar Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. nóvember 2024. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að hafa fært ítarleg rök fyrir því að hafa sagt upp starfi sínu þegar hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur. Helsta ástæða uppsagnarinnar hafi verið yfirgengilegt einelti af hálfu yfirmanns. Kærandi hafi sjálfur sótt um starfið eftir að hafa misst fyrra starf sitt vegna rekstrarerfiðleika. Hann hafi sannarlega haft áhuga á að vinna og ekki sagt upp af léttúð. Vinnumálastofnun hafi hins vegar ekki metið skýringar kæranda gildar og fellt niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.
Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi á ákvörðun Vinnumálastofnunar sem stofnunin hafi svo veitt nokkru síðar. Í rökstuðningi hafi stofnunin aðeins endurtekið að skýringar kæranda væru ekki gildar þar sem hann hefði sagt upp vegna óánægju í starfi. Í rökstuðningi stofnunarinnar komi sérstaklega fram að reglan sem við eigi sé matskennd. Að mati kæranda hljóti þá að teljast alvarlegt að stofnunin geti í raun ekki rökstutt mat sitt á annan hátt en að endurtaka að skýringar kæranda hafi ekki verið metnar gildar og afbaka ítarlegar lýsingar á einelti og andlegu ofbeldi á vinnustaðnum sem „óánægju“ kæranda í starfi. Þá geti það hvorki verið heilbrigð né eðlileg stefna að refsa beri starfsfólki sem lagt sé í einelti á vinnustað með því að neita þeim um atvinnuleysisbætur í tvo mánuði. Það setji fólk í erfiða stöðu og festi það mögulega í eitruðu umhverfi í lengri tíma en ella vegna afkomuótta.
Kærandi bendi á að Vinnumálastofnun hafi metið skýringar hans á annarri uppsögn gildar fyrir nokkrum árum en í því tilviki hafi einnig verið um hegðun yfirmanns að ræða. Hegðunin, sem hafi verið óboðleg, hafi varðað þrýsting á kæranda að mæta veikur til vinnu og brot á sóttvarnarreglum á tímum Covid-faraldursins. Matskenndur hluti ákvörðunar Vinnumálastofnunar hljóti því að vera ansi sveigjanlegur og því hljóti stofnunin að bera ríka ábyrgð á að veita raunverulegan rökstuðning. Kærandi geti ekki séð að færð séu nein efnisleg rök fyrir umræddri ákvörðun. Stofnunin segi að reglurnar séu matskenndar en útskýri ekki hvernig matið hafi farið fram.
Kærandi óski þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði felld úr gildi og að hann fái atvinnuleysisbæturnar greiddar. Kærandi hafi þurft að ganga verulega á sparnað sinn sem sé takmarkaður og þurft að leita aðstoðar vina og vandamanna til þess eins að eiga mat og þak yfir höfuðið. Vinnumálastofnun beri ríka ábyrgð en hafi að mati kæranda ekki uppfyllt það hlutverk.
Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Vinnumálastofnunar bendir kærandi á að stofnunin hafi skilað greinargerð sinni 15 dögum eftir að tveggja vikna frestur hafi verið liðinn. Kærandi telji að með því hafi stofnunin brotið gegn stjórnsýslulögum nr. 37/1993 þar sem hún hafi átt að upplýsa um fyrirsjáanlegar tafir á afgreiðslu máls í samræmi við 3. mgr. 9. gr. laganna. Þá hafi Vinnumálastofnun veitt ítarlegar persónuupplýsingar er lúti að greiðslum og samskiptasögu kæranda við stofnunina áratug aftur í tímann. Þau gögn komi málinu ekkert við og séu með öllu óviðeigandi. Kærandi geti ekki séð að umrædd gögn eigi nokkuð erindi við úrskurðarnefndina og um sé að ræða brot á rétti hans til persónuverndar.
Kærandi bendi á að í greinargerð Vinnumálastofnunar sé að finna veigamikla viðbót við rök stofnunarinnar fyrir ákvörðun sinni sem hafi ekki komið fram í upphaflegum rökstuðningi hennar. Kærandi vísi til staðhæfingar Vinnumálastofnunar um að honum hafi verið boðið að skila inn frekari skýringum á ástæðum uppsagnar og að óskað hafi verið eftir staðfestingu kæranda á að hann hafi leitað til stéttarfélags, yfirmanns eða Vinnueftirlits með umkvörtunarefni sitt áður en hann hafi sagt upp starfi sínu. Þessi röksemd sé svo ítrekuð sem grundvöllur fyrir ákvörðun stofnunarinnar. Kærandi telji ámælisvert að framangreint hafi ekki komið fram fyrr. Kærandi bendi á að honum hafi ekki verið kunnugt um hvað umrætt boð fæli í sér fyrr en við lestur greinargerðarinnar. Hann hafi verið í þeirri trú að boð um skýringar væri almenns eðlis.
Að mati kæranda sé ekki hægt að ætlast til þess að þolendur eineltis séu almennt meðvitaðir um að skyldur hvíli á þeim til að leita úrbóta. Á stærri vinnustað hefði kærandi eðlilega leitað aðstoðar yfirmanns, mannauðsdeildar eða stéttarfélags ef hægt væri. Kærandi hafi með engu móti getað leitað til yfirmanns síns, enda sé hann eini yfirmaðurinn og gerandi eineltisins. Um smátt fyrirtæki hafi verið að ræða þar sem fáir hafi starfað. Kærandi hafi því hvergi getað leitað innan fyrirtækisins. Þá sé erfitt að leita til stéttarfélags þegar um svo smátt fyrirtæki sé að ræða. Stéttarfélög hafi heldur engin völd til að grípa inn í rekstur fyrirtækja með beinum hætti. Slík leið hefði þar að auki líklega leitt til frekari ógeðfelldrar framkomu yfirmannsins, enda hafi hann öll völd í fyrirtækinu og stjórni því með harðri eineltishendi. Því sé fullkomlega óraunhæft að halda því fram að kærandi hafi átt að leita til stéttarfélags.
Kæranda hafi heldur ekki verið kunnugt um að Vinnueftirlitið sinnti eftirliti með einelti. Hann hafi hreinlega gert ráð fyrir að sú stofnun sinnti aðeins eftirliti með líkamlegu öryggi og tækjum á vinnustöðum. Hvað sem því líði ítreki hann að það sé engin leið til að tilkynna einelti án þess að eiga í hættu á að verða fyrir enn verra einelti. Sá sem verði fyrir einelti sé þolandi ofbeldis og hugsi ekki um að reyna að uppfylla óræðar skyldur Vinnumálastofnunar. Þolendur leiti frekar stystu útgönguleiðar sé hún möguleg. Þá búi fólk almennt ekki yfir fullkomnum upplýsingum um hvaða úrræði standi til boða.
[Starfsmönnum] B hafi reglulega verið hótað atvinnumissi eða skertu starfshlutfalli af hálfu yfirmannsins, með tilheyrandi kvíða og afkomuótta. Hótanirnar hafi verið stöðugar og kæranda hafi því liðið mjög illa hvern vinnudag og frídag.
Í ljósi persónulegrar reynslu kæranda af einelti geri hann sér ríka grein fyrir því hversu erfitt og jafnvel ómögulegt sé að taka á einelti og gerendum þess.
Xstarfið sé draumastarf kæranda og hann hafi því haft ríka ástæðu til að láta margt yfir sig ganga í því skyni að halda starfinu áfram. Ákvörðun kæranda um að segja starfi sínu lausu hafi því ekki verið tekin af léttúð. Ákvörðunin hafi leitt til þess að hann hafi misst tækifæri til áframhaldandi ferils í draumastarfinu, tekjumissis og fjárhagslegra þrenginga vegna refsistefnu Vinnumálastofnunar.
Kærandi hafi ekki tekið endanlega ákvörðun um að hætta fyrr en þann dag sem hann hafi sagt starfi sínu lausu þar sem hann hafi ætlað að reyna að þrauka. Kærandi hafi þó haft með sér útprentað uppsagnarbréf síðasta mánuðinn í starfi þar sem hann hafi verið kominn með nóg af framkomunni. Endanleg ákvörðun um uppsögn hafi verið tekin á fundi með yfirmanni og öðrum [starfsmönnum]. Þar hafi yfirmaðurinn lýst lélegum og ófullnægjandi framlögum [starfsmanna], breyttri sýn sinni á framtíð fyrirtækisins og breytingum á störfum [starfsmanna] sem hafi falist í því að þeir yrðu tæknimenn og framleiðendur myndefnis. Þeir hefðu viku til að skila inn hugmyndum að myndefni en að öðrum kosti skyldu þeir hætta störfum. Í ljósi alls þess sem á undan hefði gengið hafi þetta verið dropinn sem hafi fyllt mælinn. Kærandi hafi því sagt upp á fundinum.
Loks bendi kærandi á að á tímapunkti uppsagnarinnar hafi hann enn ekki verið kominn með ráðningarsamning þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þess efnis. Það sé einnig veigamikil ástæða uppsagnarinnar, enda sé um að ræða brot á kjarasamningi.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi síðast sótt um atvinnuleysisbætur þann 8. ágúst 2024. Í umsókn hafi kærandi tilgreint að ástæður atvinnuleysis væru þær að hann hefði sagt sjálfur upp störfum hjá B vegna framkomu samstarfsfólks/eineltis. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi starfað hjá félaginu á tímabilinu 1. júní 2024 til 7. ágúst 2024.
Þann 12. ágúst 2024 hafi kærandi sent Vinnumálastofnun skýringarbréf þar sem hann hafi útlistað með ítarlegum hætti ástæður fyrir starfslokum sínum hjá B. Kærandi hafi rakið ástæður þess að hann hafi gripið til þess ráðs að segja starfi sínu lausu. Með erindi Vinnumálastofnunar, dags. 2. september 2024, hafi kæranda verið boðið að skila inn frekari skýringum á ástæðum uppsagnar. Kærandi hafi verið upplýstur um mögulegan biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysisbóta. Þá hafi jafnframt verið óskað eftir að kærandi myndi skila inn staðfestingu þess efnis að hann hafi leitað til stéttarfélags, yfirmanns eða Vinnueftirlits með umkvörtunarefni sitt áður en hann hætti í starfi sínu. Engar frekari skýringar hafi borist frá kæranda á starfslokum né staðfesting þess efnis að hann hafi leitað til stéttarfélags eða Vinnueftirlits.
Kærandi hafi starfað sem X hjá B og í skriflegum skýringum kæranda hafi hann bent á margvíslegar ástæður að baki því að hann hafi sagt starfi sínu lausu. Í skýringum kæranda hafi komið fram að hann hafi neyðst til að segja starfi sínu lausu sökum eineltis og framkomu í sinn garð af hálfu yfirmanns. Sökum vanlíðan í starfi hjá B hafi kærandi ekki talið sig geta sinnt starfi sínu með fullnægjandi hætti. Honum hafi verið nauðugur einn sá kostur að segja starfi sínu lausu.
Með erindi, dags. 12. september 2024, hafi umsókn kæranda verið samþykkt. Með vísan til starfsloka kæranda hafi réttur hans til greiðslu atvinnuleysisbóta þó verið felldur niður í tvo mánuði, sbr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.
Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Lögin veiti þeim fjárhagslegt úrræði og beri að gera ríkar kröfur til þeirra sem segi upp störfum sínum að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.
Í 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um þau tilvik þegar starfi sé sagt upp án gildra ástæðna. Þar segi orðrétt:
,,Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf sitt af ástæðum sem hann sjálfur á sök á.“
Orðalagið ,,gildar ástæður“ hafi verið túlkað þröngt og fá tilvik hafi verið talin falla þar undir. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í greinargerð með frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar komi fram að með ákvæði þessu sé verið að undirstrika það markmið vinnumarkaðskerfisins að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Í ljósi þess sé ekki gefinn kostur á að fólk segi upp starfi sínu til að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að sérstakar ástæður liggi að baki uppsögninni í tilvikum þar sem annað starf sé ekki í boði. Þar sé jafnframt sérstaklega tekið fram að það sé erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega í lögum og reglugerðum hvaða ástæður, sem liggi að baki uppsögn, séu gildar, þar sem þær ástæður geti verið af margvíslegum toga. Í ljósi þess að um matskennda ákvörðun sé að ræða sé Vinnumálastofnun falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggi falli að umræddri reglu. Vinnumálastofnun beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir bótum.
Fyrir liggi að kærandi hafi sagt upp störfum sínum hjá B. Ágreiningur snúi að því hvort ástæður kæranda fyrir uppsögn sinni teljist gildar í skilningi framangreinds ákvæðis 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi í fyrri úrskurðum sínum talið að almennt beri að gera ríkar kröfur til atvinnuleitanda þegar metið sé hvort ástæður fyrir uppsögn séu gildar samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laganna.
Þær skýringar sem kærandi hafi veitt Vinnumálastofnun á ástæðu uppsagnar hans hafi að meginstefnu til verið vegna óánægju í starfi, einkum vegna eineltis yfirmanns í sinn garð. Í slíkum tilvikum hafi í framkvæmd verið gerð sú krafa til launamanna að þeir nýti sér öll tiltæk úrræði til úrbóta, svo sem að leita til síns stéttarfélags, Vinnueftirlitsins eða að tryggja sér annað starf, áður en þeir ákveði að segja starfi sínu lausu. Fyrir liggi að kærandi hafi ekki tryggt sér annað starf áður en hann hafi sagt starfi sínu lausu. Þá liggi ekki fyrir neinar upplýsingar um að tilraunir til úrbóta hafi verið reyndar áður en kærandi hafi sagt starfi sínu lausu, hvorki er snúi að atvinnurekanda, viðeigandi stéttarfélagi eða Vinnueftirliti.
Í ljósi framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að ástæður þær er kærandi gefi fyrir uppsögn sinni teljist ekki gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Það sé því afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta biðtíma á grundvelli ákvæðisins.
Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að greiðslur atvinnuleysisbóta skuli fyrst hefjast þegar kærandi hafi verið skráður hjá Vinnumálastofnun án bóta í tvo mánuði.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Ákvæði 1. mgr. 54. gr. laganna er svohljóðandi:
„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“
Óumdeilt er að kærandi sagði upp starfi sínu hjá B en ágreiningur málsins lýtur að því hvort ástæður hans fyrir uppsögninni hafi verið gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að það sé erfiðleikum bundið að takmarka þau tilvik sem geti talist til gildra ástæðna í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagareglan verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Jafnframt er bent á að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráða megi af framangreindu að almennt beri að gera nokkuð ríkar kröfur til atvinnuleitanda þegar metið er hvort ástæður fyrir uppsögn séu gildar samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006.
Kærandi hefur gefið þær skýringar að hann hafi sagt upp starfi sínu sökum eineltis af hálfu yfirmanns. Kærandi telji óraunhæft að hann hafi átt að leita til stéttarfélags, yfirmanns eða Vinnueftirlitsins áður en hann hafi sagt upp starfinu. Þá hafi honum ekki verið kunnugt um að á honum hafi hvílt skylda til að leita úrbóta. Kærandi hafi með engu móti getað leitað til yfirmanns síns, enda sé hann eini yfirmaðurinn og gerandi eineltisins. Þar að auki sé engin leið til að tilkynna einelti án þess að eiga í hættu á að verða fyrir enn verra einelti. Þá hafi kærandi ekki fengið ráðningarsamning þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þess efnis. Af hálfu Vinnumálastofnunar hefur komið fram að af gögnum málsins verði ekki séð að kærandi hafi leitað úrbóta hjá atvinnurekanda né aðstoðar stéttarfélags. Þá hafi kærandi ekki tryggt sér annað starf áður en hann hafi sagt starfi sínu lausu.
Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er málefnalegt að gera þá kröfu til launþega að þeir segi ekki upp starfi sínu nema við ýtrustu nauðsyn þegar annað starf er ekki í hendi við mat á því hvort viðkomandi skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Þá er einnig réttmætt að ætlast til þess að einstaklingar tilkynni með einhverjum hætti meint einelti á vinnustað og leiti eftir aðstoð vegna þess.
Ekki verður séð að slíkt eigi við í tilviki kæranda og er því ekki um að ræða gilda ástæðu fyrir uppsögn í skilningi 54. gr. laga nr. 54/2006. Kærandi átti því ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að tveimur mánuðum liðnum frá móttöku umsóknar hans um atvinnuleysisbætur, sbr. 1. mgr. ákvæðisins.
Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til greiðslu atvinnuleysisbóta í tvo mánuði er því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. september 2024, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir