Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 482/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 482/2016

Fimmtudaginn 23. febrúar 2017

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 12. desember 2016, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. september 2016, um að fella niður bótarétt hans í þrjá mánuði og innheimta ofgreiddar bætur.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 5. janúar 2015 og var umsóknin samþykkt. Með bréfi, dags. 18. ágúst 2016, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að stofnuninni hefðu borist upplýsingar um að hann hefði verið staddur erlendis í júlí 2016 samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt um það til stofnunarinnar. Kæranda var veittur sjö daga frestur til að skila inn skýringum og farseðlum. Skýringar og afrit af flugfarseðlum bárust með tölvupósti 24. ágúst 2016 þar sem fram kom að kærandi hafi dvalið erlendis á tímabilinu 21. til 26. júlí 2016.

Með bréfi, dags. 1. september 2016, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans yrði felldur niður frá og með 31. ágúst 2016 í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr., sbr. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sökum þess að hann hefði ekki tilkynnt Vinnumálastofnun fyrir fram um dvöl sína erlendis. Kærandi var einnig krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 að fjárhæð 26.712 kr., að meðtöldu 15% álagi, fyrir tímabilið 21. til 26. júlí 2016. Kærandi óskaði eftir endurupptöku og rökstuðningi á ákvörðun Vinnumálastofnunar þann 13. september 2016. Með bréfi Vinumálastofnunar, dags. 22. september 2016, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun væri staðfest.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 13. desember 2016. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 13. janúar 2017. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. janúar 2017, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir að ákvörðun Vinnumálastofnunar um þriggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum verði endurskoðuð. Kærandi tekur fram að hann hafi verið erlendis á tímabilinu 21. til 25. júlí 2016 en láðst að tilkynna ferðina til Vinnumálastofnunar. Um handvömm sé að ræða þar sem hann hafi ekki munað að tilkynna bæri um ferðir erlendis. Að mati kæranda sé hart að vera dæmdur eins og um einbeittan brotavilja sé að ræða, enda hafi tilkynningaskortur verið hrein og klár yfirsjón. Kærandi bendir á að bótaréttur hans hafi ekki verið felldur niður áður og því ætti að vera um fyrsta brot að ræða, standi ákvörðun Vinnumálastofnunar óhögguð.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að tilgangur laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Því sé gert ráð fyrir að hinir tryggðu séu í virkri atvinnuleit þann tíma, en lögin veiti þeim fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi. Í 13. gr. laganna séu talin upp almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Í c-lið ákvæðisins komi meðal annars fram að það sé skilyrði fyrir greiðslum að atvinnuleitandi sé búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum. Í 2. mgr. 14. gr. laganna sé einnig mælt fyrir um upplýsingaskyldu umsækjanda, en þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum.

Í 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 sé kveðið á um viðurlög við brotum á upplýsingaskyldu hins tryggða. Óumdeilt sé að kærandi hafi verið staddur erlendis á sama tíma og hann hafi verið skráður atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun. Stofnuninni hafi ekki borist tilkynning fyrir fram um utanlandsferð kæranda, líkt og skylt sé samkvæmt 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laganna. Á því tímabili sem atvinnuleitandi fái greiddar atvinnuleysisbætur beri honum að tilkynna Vinnumálastofnun um allar breytingar á högum sínum, sbr. 3. mgr. 9. gr. laganna, þar á meðal ferðir sínar utanlands. Atvinnuleitendum beri því að uppfylla allar sínar skyldur við Vinnumálastofnun á meðan þeir njóti greiðslna atvinnuleysisbóta.

Vinnumálastofnun bendir á að umsækjendum um greiðslu atvinnuleysisbóta séu kynnt margvísleg atriði er varða réttindi og skyldur, þar með talið að tilkynna beri um ferðir erlendis, og að umsækjendur samþykki að þeir hafi lesið og skilið þær upplýsingar sem fram komi í umsókn. Kæranda hafi verið sendur tölvupóstur þann 16. janúar 2015 þar sem honum hafi verið bent á að ef farið væri til útlanda þyrfti að tilkynna það fyrir fram og skila afriti af flugfarseðlum til stofnunarinnar því til staðfestingar. Víðtækar og ítarlegar upplýsingar um réttindi og skyldur atvinnuleitanda séu á heimasíðu Vinnumálastofnunar en þar komi skýrt fram að atvinnuleitanda beri að veita nákvæmar upplýsingar um hagi sína. Þá hafi kærandi mætt á starfsleitarfund Vinnumálastofnunar þann 17. september 2015 en á þeim fundum sé vakin athygli á því að ótilkynntar ferðir erlendis séu óheimilar samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta. Einnig hafi kærandi áður farið til útlanda í orlof og tilkynnt réttilega um ferð sína. Í málinu liggi fyrir að kærandi hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um atvik er höfðu bein áhrif á rétt hans til greiðslu atvinnuleysisbóta.

Vinnumálastofnun tekur fram að kærandi hafi sætt niðurfellingu bótaréttar í júlí 2009 á grundvelli 54. gr. laga nr. 54/2006. Af þeim sökum hafi ítrekunaráhrif 1. mgr. 61. gr. laganna komið til skoðunar þegar ákvörðun um niðurfellingu bótaréttar hafi verið tekin þann 1. september 2016. Þar sem kærandi hafi ekki áunnið sér nýtt bótatímabil þegar hann sótti um atvinnuleysisbætur í janúar 2015 hafi Vinnumálastofnun verið rétt að beita ákvæði 1. mgr. 61. gr. laganna um ítrekun. Þá hafi kæranda einnig borið að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laganna.

IV. Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr., sbr. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og innheimta ofgreiddar bætur samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laganna.

Ákvæði 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur … látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Ákvæðið ber meðal annars að túlka með hliðsjón af ákvæði c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 þar sem fram kemur að launamaður sé tryggður samkvæmt lögunum sé hann búsettur og staddur hér á landi. Í máli þessu liggur fyrir að kærandi var staddur erlendis á tímabilinu 21. til 26. júlí 2016 en tilkynnti Vinnumálastofnun ekki fyrir fram um ferð sína. Af hálfu kæranda hefur komið fram að honum hafi láðst að tilkynna Vinnumálastofnun um ferðina.

Úrskurðarnefndin tekur fram að á því tímabili sem atvinnuleitandi fær greiddar atvinnuleysisbætur ber honum að tilkynna Vinnumálastofnun um allar breytingar á högum sínum, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006, þar á meðal ferðir sínar erlendis. Í ljósi þeirrar upplýsingaskyldu verður fallist á með Vinnumálastofnun að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum gagnvart stofnuninni er hann tilkynnti ekki um ferð sína erlendis. Að því virtu bar Vinnumálastofnun að láta kæranda sæta viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laganna.

Í 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um ítrekunaráhrif fyrri viðurlagaákvarðana. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Sá sem hefur sætt viðurlögum skv. 57.–59. gr. eða biðtíma skv. 54. eða 55. gr. og eitthvert þeirra tilvika sem þar greinir á sér stað að nýju á sama tímabili skv. 29. gr. skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að þremur mánuðum liðnum frá þeim degi er ákvörðun Vinnumálastofnunar um ítrekunaráhrif liggur fyrir enda hafi hann fengið greiddar atvinnuleysisbætur skemur en samtals 24 mánuði á sama tímabili skv. 29. gr. Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. málsl. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.“

Í 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 kemur meðal annars fram að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögunum. Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt X. kafla telst hluti tímabilsins sem og sá tími er viðurlög samkvæmt XI. kafla standa yfir. Í 4. mgr. 29. gr. laganna segir að tímabilið samkvæmt 1. mgr. haldi áfram að líða þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað í skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

Samkvæmt gögnum málsins var bótaréttur kæranda felldur niður í 40 daga með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. júlí 2009, á grundvelli þágildandi 58. gr. laga nr. 54/2006. Að því virtu og þar sem kærandi hafði ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils, sbr. 4. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006, bar Vinnumálastofnun að láta kæranda sæta viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 61. gr. laganna.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr., sbr. 1. mgr. 61. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar staðfest.

Mál þetta lýtur einnig að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að endurkrefja kæranda um ofgreiddar bætur samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 vegna tímabilsins sem hann var erlendis, að fjárhæð 26.712 kr. að meðtöldu 15% álagi. Í 2. mgr. 39. gr. laganna kemur fram að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Þegar kærandi var erlendis á tímabilinu 21. til 26. júlí 2016 uppfyllti hann ekki skilyrði c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 um að vera búsettur og staddur hér á landi. Að því virtu átti hann ekki rétt á greiðslum frá Vinnumálastofnun á því tímabili sem endurgreiðslukrafan lýtur að en ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Hins vegar skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Líkt og áður greinir tilkynnti kærandi ekki Vinnumálastofnun fyrir fram um ferð sína erlendis. Að mati úrskurðarnefndarinnar er því ekki tilefni til að fella niður álagið.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. september 2016, um að fella niður bótarétt A, í þrjá mánuði og innheimta ofgreiddar bætur er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta