Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 61/2011

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 6. október 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A í máli nr. 61/2011.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með tölvupósti, dags. 9. febrúar 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði synjað umsókn hans um gerð námssamnings þar sem stofnuninni sé ekki heimilt að gera námssamning við atvinnuleitanda sem er að koma úr námi og á ekki sex mánaða samfellda vinnusögu að baki áður en til umsóknar um atvinnuleysisbætur barst. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 18. apríl 2011. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð og að Vinnumálastofnun geri við hann námssamning og greiði honum atvinnuleysisbætur út frá því. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun með umsókn, dags. 26. janúar 2011.

Þann 7. febrúar 2011 mætti kærandi á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar og sótti um námssamning vegna 12 ECTS eininga náms á vorönn 2011 við Landbúnaðarháskóla Íslands. Kæranda var tilkynnt að umsókn hans um námssamning hafi verið hafnað með tölvupósti, dags. 9. febrúar 2011.

Þann 18. febrúar 2011 hafði starfsmaður Vinnumálastofnunar samband við kæranda í því skyni að boða hann á kynningarfund stofnunarinnar sem skyldumæting var á. Kærandi tilkynnti þá að hann hefði hætt við umsókn sína um greiðslur atvinnuleysistrygginga þar sem hann hafi ekki fengið að gera námssamning við stofnunina. Vinnumálastofnun afskráði kæranda í kjölfarið.

Þá segir kærandi í rökstuðningi með kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 18. apríl 2011, að hann geri kröfu um að fá námssamning við Vinnumálastofnun. Kærandi segist ekki vera í fullu námi, en hann sé að framfleyta fjölskyldu án þess að fá námslán þar sem námshlutfall hans sé of lágt. Kærandi segir að hann muni hefja fullt nám í haust og þá muni bótatíma ljúka.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 20. júní 2011, vísar Vinnumálastofnun til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en þar er mælt fyrir um réttindi námsmanna. Þar segir að hver sá sem stundar nám skv. c-lið 3. gr. sömu laga teljist ekki tryggður samkvæmt lögunum á því tímabili, sé námið ekki hluti af vinnumarkaðsaðgerðum Vinnumálastofnunar.

Vinnumálastofnun áréttar að 2. og 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi að geyma undanþágur frá þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga sem birtist í 1. mgr. 52. gr. laganna. Í 2. mgr. 52. gr. laganna segir að þrátt fyrir 1. mgr. sé hinum tryggða heimilt að stunda nám á háskólastigi sem nemi að hámarki 10 ECTS einingum á námsönn, enda sé námshlutfallið svo lágt að námið teljist ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Vinnumálastofnun vísar til gagna málsins, en þar kemur fram að kærandi leggi stund á 12 ECTS eininga háskólanám við Landbúnaðarháskóla Íslands. Undanþágan sem mælt sé fyrir um í 2. mgr. 52. gr. laganna eigi því ekki við í tilviki kæranda.

Í 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um heimild Vinnumálastofnunar til að meta þegar sérstaklega standi á hvort sá sem stundar nám á háskólastigi sem nemi allt að 20 ECTS einingum á námsönn, uppfylli engu að síður skilyrði laganna til greiðslu atvinnuleysistrygginga.

Vinnumálastofnun áréttar að lög nr. 55/2006 gildi um vinnumarkaðsaðgerðir, en með hugtakinu vinnumarkaðsaðgerðir sé átt við úrræði sem séu til þess fallin að auka vinnufærni atvinnuleitanda, til dæmis með gerð námssamninga við stofnunina. Í 5. gr. reglugerðar um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, nr. 12/2009, sé mælt nánar fyrir um gerð námssamninga. Séu þar sett ákveðin skilyrði fyrir gerð slíkra samninga. Skilyrði þessi hafi svo verið rýmkuð til að koma betur til móts við þá sem séu án atvinnu en vilji stunda nám samhliða því að þiggja greiðslu atvinnuleysistrygginga. Vinnumálastofnun vísar til þeirra skilyrða sem eru sett fyrir gerð slíkra námssamninga, en þau eru tilgreind á vef stofnunarinnar. Umsækjandi þurfi að hafa starfað sem launamaður samfellt á síðustu sex mánuðum á innlendum vinnumarkaði, námið þurfi að vera skilgreint sem vinnumarkaðsúrræði og megi ekki vera lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Einnig skuli umsækjandi hafa samráð við ráðgjafa Vinnumálastofnunar um val á námi og námskeiðum, áður en skráning á námskeið fari fram. Atvinnuleitandi eigi ekki rétt á námssamningi við Vinnumálastofnun nema hann eigi að baki sex mánaða samfellda vinnusögu áður en hann sótti um greiðslu atvinnuleysistrygginga. Þó sé heimilt að taka tillit til þess hafi atvinnuleitandi verið í allt að þrjá mánuði á atvinnuleysisbótum á því tímabili. Ráðgjafar Vinnumálastofnunar leggi svo mat á umsókn og hvort hún uppfylli fyrrgreind skilyrði.

Vinnumálastofnun bendir á að samkvæmt gögnum máls þessa megi ráða að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði til gerðar námssamnings við stofnunina, enda hafi hann ekki starfað samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga.

Það sé mat Vinnumálastofnunar að kærandi sé námsmaður í skilningi 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og eigi ekki rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga að öllu óbreyttu.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. júní 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 8. júlí 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, en hún er svohljóðandi:

Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á háskólastigi sem nemur að hámarki 10 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.

Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er Vinnumálastofnun heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá er stundar nám á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Skilyrði er að námið kunni að nýtast hinum tryggða beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og skal hinn tryggði leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Hinn tryggði á þá rétt til skertra atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil og skal Vinnumálastofnun meta skerðinguna á tryggingahlutfalli sem hann á rétt til skv. 15. eða 19. gr. í samræmi við umfang námsins.

Þá segir í c-lið 3. gr. laga sömu laga:

Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.

Í athugasemdum við 52. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám.

Kærandi var við nám við Háskólann í Reykjavík á vor- og haustönn 2010 og hætti því námi í janúar 2011. Hann sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga 26. janúar 2011. Þann 7. febrúar 2011 sótti hann um námssamning vegna 12 ECTS eininga náms á vorönn 2011 við Landbúnaðarháskóla Íslands. Fjallað er um heimild til að gera námssamning í lögum um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006, en skv. 12. gr. laganna eru námsúrræði einn flokkur vinnumarkaðsaðgerða.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi uppfyllti ekki skilyrði þess að fá gerðar námssamning við Vinnumálastofnun á vorönn 2011, þar sem hann hafði ekki starfað á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði áður en hann sótti um gerð námssamnings.

Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 9. febrúar 2011 í máli A um synjun námssamnings er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta