Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 15/2014

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 25. nóvember 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 15/2014.

1.      Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 11. nóvember 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem fram komi í fyrirliggjandi gögnum að hún hafi þegið atvinnuleysisbætur án þess að eiga rétt til þeirra. Hún hafi starfað sem ljósmyndari þrátt fyrir að hún hafi tilkynnt um stöðvun rekstrar við umsókn um atvinnuleysisbætur 20. febrúar 2013. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur frá 3. maí til 30. september 2013 samtals með 15% álagi 627.908 kr. sem verði innheimtar samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 5. febrúar 2014. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og viðurkenndur verði réttur hennar til avinnuleysisbóta á tímabilinu 20. febrúar til loka október 2013. Kærandi krefst þess til vara að fallist úrskurðarnefndin á niðurstöðu Vinnumálastofnunar verði fallið frá 15% álagi og endurgreiðslutímabilið stytt verulega. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 20. febrúar 2013. Hún hafði áður starfað sem sjálfstætt starfandi ljósmyndari og lagði við umsókn sína um atvinnuleysisbætur fram eyðublaðið RSK 5.04, sem er tilkynning um afskráningu af launagreiðendaskrá. Hún lagði einnig fram undirritaða yfirlýsingu um að hefja ekki rekstur samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta án undanfarandi tilkynningar.

Í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 22. október 2013, kom fram að stofnunin hefði undir höndum upplýsingar um að kærandi hefði starfað sjálfstætt sem ljósmyndari samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt það til Vinnumálastofnunar. Kæranda var bent á að skv. 35. gr. a. í lögum um atvinnuleysistryggingar skuli atvinnuleitandi með að minnsta kosti eins dags fyrirvara tilkynna um vinnu sem hann tekur á þeim tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur. Enn fremur var kæranda bent á að í 3. mgr. 9. gr. laganna kæmi fram að sá sem væri tryggður skyldi upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunni að verða á högum hans á þeim tíma sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur. Kæranda var veittur frestur til að skila inn skýringum og athugasemdum fyrir 29. október 2013. Í bréfi kæranda til Vinnumálastofnunar, dags. 26. október 2013, kemur fram að hún hafi starfrækt ljósmyndastofu á Akureyri í nokkurn tíma. Hafi reksturinn verið erfiður og ekki staðið undir eðlilegum launum. Hún hafi því haft samband við Vinnumálastofnun í febrúar 2013 og leitast eftir því að fá atvinnuleysisbætur í einhverja mánuði á meðan hún væri að reyna að afla nýrra verkefna eða fengi annað starf tengt menntun sinni. Hafi Vinnumálastofnun samþykkt þetta upplegg gegn því að hún lokaði virðisaukaskattsskrá fyrirtækisins tímabundið sem hún hafi gert. Þá hafi kærandi sótt um nokkur störf á þessu tímabili en ekki fengið.

Kærandi bendir á að starfi hennar fylgi óneitanlega sú skylda að mynda fyrir vini og vandamenn og það hafi hún gert án greiðslu og sem vinargreiða. Hún hyggist opna stofuna aftur fyrir jólin og tilkynna sig af atvinnuleysisskrá í óákveðinn tíma. Kærandi tekur fram að hún hafi engin laun þegið frá fyrirtækinu og standi í þeirri trú að hún hafi staðið að fullu við samkomulagið við Vinnumálastofnun og misskilningur sé orsök fyrir öðru.

Eins og áður hefur verið rakið var tekin ákvörðun hjá Vinnumálastofnun í máli kæranda 11. nóvember 2013. Fyrir stofnuninni lágu framangreindar skýringar kæranda sem hún gaf í bréfi sínu, dags. 26. október 2013, og enn fremur færslur af fésbókarsíðunni ,,B“.

Kærandi krefst ógildingar úrskurðar Vinnumálastofnunar í málinu af tveimur ástæðum. Annars vegar vegna þess að málsmeðferð Vinnumálastofnunar sé verulega ábótavant í málinu og skýlaust brot á stjórnsýslulögum eins og hún rekur nánar í kæru sinni og hins vegar vegna þess að ákvæði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi ekki við um málsatvik. Kærandi telur að eftirtalin lagaákvæði stjórnsýslulaga hafi verið brotin af Vinnumálastofnun við meðferð málsins: 7. gr., 10. gr., 12. gr., 13. og 1. mgr. 15. gr.

Kærandi telur einnig að ákvæði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi ekki við í hennar tilviki. Hún hafi ekki fengið nein laun á umræddu tímabili og hafi stöðugt leitað að launaðri vinnu. Hún hafi augljóslega ekki látið hjá líða að tilkynna um breytingar á högum sínum. Hún hafi ekki gefið vísvitandi rangar upplýsingar til þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur og hún hafi ekki látið hjá líða að tilkynna að atvinnuleit væri hætt. Kærandi bendir á færslu í samskiptasögu Vinnumálastofnunar 22. maí 2013 þar sem segi að hún hafi hug á að flytjast suður og hafi verið dugleg að sækja um vinnu þar tengt sinni menntun. Í samskiptasögunni 24. júlí 2013 komi fram að hún hafi sótt um vinnu á fimm stöðum og 24. september 2013 komi fram að hún hafi sótt um á fjórum stöðum. Kærandi kveðst allan tímann hafa fullnægt ákvæðum 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem kveði á um skilyrði þess að sjálfstætt starfandi einstaklingur geti fengið atvinnuleysisbætur.

Ekki verði heldur sagt að kærandi hafi starfað á innlendum vinnumarkaði á tímabilinu eins og kveðið sé á um í 60. gr. laganna og Vinnumálastofnun virðist styðjast við í ákvörðun sinni. Það sé lykilatriði í máli þessu að kærandi hafi ekki fengið nein laun á tímabilinu. Það sé því ljóst að hún hafi hvorki talist launamaður né sjálfstætt starfandi einstaklingur á tímabilinu í skilningi laganna. Þar af leiði að hún geti ekki hafa verið starfandi á innlendum vinnumarkaði í skilningi laganna. Henni sé því fyrirmunað að skilja hvernig hægt sé að komast að þeirri niðurstöðu að títtnefndar tvær facebook færslur geti verið sönnun þess að hún hafi brotið gegn ákvæðum laganna um atvinnuleysistryggingar þannig að það varði viðurlögum.

Fari svo að úrskurðarnefndin fallist ekki á aðalkröfu kæranda fer hún fram á að 15% álagið verði fellt niður og vísar í því sambandi til 2. mgr. 39. gr. um atvinnuleysistryggingar þar sem segi að fella skuli niður álagið samkvæmt greininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi fært fram þær skýringar að hún hafi skilið starfsmann Vinnumálastofnunar þannig að hún mætti þiggja atvinnuleysisbætur, en vinna áfram að uppbyggingu fyrirtækis síns, svo lengi sem hún fengi ekki laun. Til rökstuðnings varakröfunni bendir kærandi einnig á að ekkert í málsatvikum eða málsskjölum Vinnumálastofnunar skýri af hverju endurgreiðslukrafa stofnunarinnar reiknist frá 3. maí 2013. Hún geri sér grein fyrir því að í málinu sé fullyrðing á móti fullyrðingu. Vinnumálastofnun haldi því fram að færslur á facebókarsíðu kæranda sýni að hún hafi verið að vinna, en hún segi hins vegar að færslurnar sýni það ekki. Telji úrskurðarnefndin, þrátt fyrir skýringar hennar á málsatvikum, að hún hafi brotið ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar, geri hún þá kröfu að endurgreiðslutímabilið verði stytt umtalsvert og hún verði ekki beitt viðurlögum.

Fram kemur af hálfu kæranda að hún telji að málsmeðferð Vinnumálastofnunar í málinu sé verulega ábótavant og hún telji að hnökrarnir, einir og sér, réttlæti að úrskurður stofnunarinnar verði ógiltur. Hún bendir á að í fyrirspurnarbréfi Vinnumálastofnunar, dags. 22. október 2013, komi fram að stofnunin hafi undir höndum upplýsingar um að hún hafi starfað sjálfstætt sem ljósmyndari samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og enn fremur var henni veittur frestur til að skila inn skýringum og athugasemdum skv. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærandi spyr hvers vegna Vinnumálastofnun hafi ekki þá þegar í þessu fyrsta bréfi bent henni á þann rétt sem hún ætti skv. 15. gr. stjórnsýslulaga og 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 til að fá frekari upplýsingar um gögnin. Með því að greina kæranda frá rétti sínum og upplýsa hana strax um það hvaða gögn Vinnumálastofnun hafði undir höndum hefði stofnunin fullnægt leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu sinni samkvæmt stjórnsýslulögum. Kæranda hafi á þessu stigi ekki verið kunnugt um þennan rétt sinn til frekari upplýsinga og hafi talið að einhver hafi logið upp á hana sakir. Hafi svar hennar við bréfi Vinnumálastofnunar verið í samræmi við það. Eftir að Vinnumálastofnun hafi tekið ákvörðun hafi komið í ljós að úrskurðurinn sé eingöngu byggður á útprentun af tveimur færslum á facebókarsíðu hennar. Hún hafi ekki átt þess kost fyrr en með þessari kæru að tjá sig um gögnin sem Vinnumálastofnun byggi ákvörðun sína á og kærandi undrist hvort það sé fullnægjandi grundvöllur undir svona íþyngjandi úrskurð og að greiða atvinnuleysisbætur til baka með 15% álagi. Hún telji svo ekki vera og það sé augljóst að það sé ekkert beint samhengi á milli færslu á facebook og því sem hún geri í raun og veru. Vinnumálastofnun fari augljóslega offari í þessu máli. Enn fremur beri stjórnvaldi skylda til að sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin. Rannsóknarregla stjórnsýsluréttarins hafi verið brotin í þessu máli og andmælareglan einnig, þar sem kærandi hafi ekki fengið að tjá sig um þau gögn sem stofnunin hafi haft undir höndum. Málið hafi því ekki verið að fullu upplýst þegar ákvörðun hafi verið tekin í því. 

Kærandi óskaði eftir rökstuðningi Vinnumálastofnunar og var hann birtur henni með bréfi, dags. 6. desember 2013. Þar kemur m.a. fram að kæranda hafi verið sent bréf 22. október 2013 þar sem henni hafi verið tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði undir höndum upplýsingar um að hún hefði starfað sjálfstætt sem ljósmyndari samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt það til stofnunarinnar. Óskað var skýringa innan sjö daga og 26. október 2013 barst Vinnumálastofnunin skýringarbréf kæranda þar sem hún greindi frá því að hún hafi starfrækt ljósmyndastofu á C í nokkurn tíma og að reksturinn hafi reynst erfiður. Málið var síðan tekið fyrir á fundi hjá Vinnumálastofnun 11. nóvember 2013. Fram kemur að af gögnum málsins hafi verið ljóst að kærandi hafi verið við störf samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Þau gögn sem fyrir hafi legið hafi verið færslur af vefsíðunni https://www.facebook.com/D, en þar er fjallað um starfsemi kæranda við ljósmyndun.

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 25. mars 2014, greinir Vinnumálastofnun frá því að í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. sömu laga sé að finna nánari útfærslu á því hvað telst til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfar á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í máli þessu hafi kærandi starfað sem ljósmyndari samhliða því að fá atvinnuleysisbætur. Á fésbókarsíðunni ,,B“ hafi birst færsla 21. febrúar 2013 þar sem fram komi að margar af helgunum í sumar séu nú þegar orðnar bókaðar hjá kæranda undir brúðkaup, svo ef einhver sé að fara að gifta sig og vanti ljósmyndara þá sé ekki seinna vænna en að fara að bóka sig. Þá sé færsla frá 3. maí 2013 þar sem kærandi birti fermingarmyndir sem hún hafi tekið og segi að hún hafi hlotið þann heiður að mynda fullt af flottum fermingarkrökkum síðustu vikur. Hún hafi skemmt sér konunglega með þeim og hlakki reglulega mikið til að fá að hitta þau aftur í sumar til að gera eitthvað fallegt saman. Loks sé þar færsla frá 4. júlí 2013 þar sem fram komi að kærandi þurfi að tilkynna að það sé fullbókað hjá henni út sumarið og hún sé ekki farin að taka niður pantanir fyrir haustið. Hún muni láta vita á facebook um leið og hún fari í það. Öll fermingarbörn sem eigi eftir að koma í seinni fermingarmyndatökuna hjá henni komist þó að sjálfsögðu að í sumar. Hafi það verið mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi verið við störf á sama tíma og hún hafi þegið atvinnuleysisbætur.

Vinnumálastofnun svarar gagnrýni kæranda á málsmeðferð stofnunarinnar, sérstaklega það að hún hafi ekki fengið að tjá sig um þau gögn stofnunin hafði undir höndum, með þeim hætti að Vinnumálastofnun hafi óskað eftir skriflegum athugasemdum kæranda með bréfi, dags. 22. október 2013, og veitt kæranda færi á að tjá sig um efni málsins áður en ákvörðun hafi verið tekin í því. Eftir að ákvörðunin hafi verið tekin hafi kærandi óskað eftir rökstuðningi sem henni hafi verið birtur 6. desember 2013. Í rökstuðningnum hafi verið talin upp þau gögn sem hafi legið fyrir við meðferð málsins. Þá hafi verið vakin athygli kæranda á rétti hennar til að óska eftir endurupptöku málsins skv. 24. gr. stjórnsýslulaga. Ekkert hafi staðið í vegi kæranda fyrir því að koma á framfæri við Vinnumálastofnun frekari skýringum í máli sínu að teknu tilliti til þeirra gagna sem legið hafi fyrir við ákvarðanatöku stofnunarinnar og óska eftir endurupptöku á málinu. Kærandi hafi ekki skilað inn frekari skýringum eftir að rökstuðningur var veittur. Vinnumálastofnun hafnar þeim fullyrðingum kæranda að hún hafi ekki notið andmælaréttar eða að rannsóknarregla stjórnsýslulaganna hafi verið brotin við meðferð málsins.

Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að ráða megi af fyrirliggjandi gögnum og skýringum kæranda sjálfs að hún hafi verið við störf samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Sé sú niðurstaða dregin af færslum á fésbókarsíðu hennar og skýringum hennar sjálfrar en stofnunin vekji athygli á upphafsorðum kæranda í kæru sinni sem séu þess efnis að hún hafi talið að Vinnumálastofnun væri kunnugt um að hún myndi vinna ýmis smáverk í fyrirtæki sínu án þess að fá laun fyrir, enda hygðist hún hefja rekstur að nýju ef atvinnuleit hennar bæri ekki árangur. Vinnumálastofnun hafni því þó að hafa verið kunnugt um að kærandi hygðist starfa sem ljósmyndari samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Kærandi hafi ekki tilkynnt um störf sín til stofnunarinnar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. mars 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 11. apríl 2014. Úrskurðarnefndinni barst bréf frá kæranda, dags. 11. apríl 2013, þar sem hún ítrekar fyrri athugasemdir sínar og svör.

2.      Niðurstaða

Mál þetta lýtur að því hvort kærandi hafi aflað atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæðið er svohljóðandi, sbr. 23. gr. laga nr. 134/2009 og 4. gr. laga nr. 103/2011:

„Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Í meðförum úrskurðarnefndarinnar hefur ákvæði þetta verið túlkað með þeim hætti að fyrsti málsliður þess eigi við ef atvinnuleitandi hefur með vísvitandi hætti hegðað sér með tilteknum hætti á meðan slíkt huglægt skilyrði á ekki við ef háttsemin fellur undir annan málslið ákvæðisins. Þessi munur stafar af því að annar málsliðurinn tekur á því þegar atvinnuleitandi starfar á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. gr. og 35. gr. a. laga um atvinnuleysistryggingar að upplýsa Vinnumálastofnun um þessa atvinnuþátttöku. Fyrri málsliðurinn á við í máli þessu.

Vinnumálastofnun sendi kæranda bréf 22. október 2013 og tilkynnti henni að stofnunin hefði undir höndum upplýsingar um að hún hafi starfað sjálfstætt sem ljósmyndari samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt það til stofnunarinnar. Ekki var greint nánar frá því um hvaða upplýsingar var að ræða. Óskað var skýringa kæranda og bárust þær með bréfi hennar 26. október 2013. Þar greinir kærandi frá því að hún hafi starfrækt ljósmyndastofu á C í nokkurn tíma og að reksturinn hafi reynst erfiður. Hin kærða ákvörðun var síðan tekin fyrir 8. nóvember 2013.

Kærandi óskaði eftir rökstuðningi Vinnumálastofnunar og í rökstuðningnum, dags. 6. desember 2013, segir að þau gögn sem fyrir hafi legið þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin hafi verið færslur af vefsíðu kæranda. Á vefsíðunni sé færsla frá 21. febrúar 2013 þar sem kærandi hafi tilkynnt að margar af helgunum næsta sumar séu nú þegar orðnar bókaðar undir brúðkaup svo ef einhver sé að fara að gifta sig og vanti ljósmyndara þá sé ekki seinna vænna en að fara að bóka sig. Einnig sé þar færsla frá 4. júlí 2013 þar sem fram komi að það sé orðið fullbókað hjá kæranda út sumarið og hún sé ekki farin að taka niður pantanir fyrir haustið. Hún láti vita á facebook um leið og hún fari í það. Fermingarbörn sem eigi eftir að koma í seinni fermingarmyndatökuna hjá henni komist þó að í sumar.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 25. mars 2014, kemur fram að á fésbókarsíðu kæranda hafi birst færsla 21. febrúar 2013 þar sem segi m.a. að margar af helgunum í sumar séu nú þegar orðnar bókaðar undir brúðkaup. Í færslu frá 3. maí 2013 séu birtar fermingarmyndir og sagt að kærandi hafi myndað fermingarbörn síðustu vikur. Loks sé færsla frá 4. júlí 2013 þar sem segi að fullbókað sé hjá kæranda út sumarið og hún sé ekki farin að taka niður pantanir fyrir haustið.

Í kæru kæranda kemur fram að ekkert samhengi sé á milli fésbókarfærslna hennar og þess sem gerst hafi í raun og veru. Hún hafi fært inn að margar helgar hafi verið fráteknar í brúðkaupsmyndatökur til þess að reyna að afla fyrirtækinu verkefna í júlí og ágúst. Í færslu sinni 4. júlí 2013 þess efnis að fullbókað væri og hún væri ekki farin að taka niður pantanir fyrir haustið hafi hún verið að reyna að vísa frá sér fyrirspurnum og kvabbi.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi eins og rakið hefur verið. Þá gerir hún athugasemdir við málsmeðferð Vinnumálastofnunar sérstaklega varðandi það að brotið hafi verið á rétti hennar til þess að koma andmælum sínum á framfæri. Til vara gerir kærandi þá kröfu að henni verði ekki gert að endurgreiða atvinnuleysisbæturnar með 15% álagi.

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða verður ráðið af fésbókarfærslum kæranda að hún hafi verið við störf sem ljósmyndari á tímabilinu frá 3. maí til 30. september 2013 samhliða töku atvinnuleysisbóta án þess að tilkynna um það til Vinnumálastofnunar eins og henni bar að gera. Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu atvinnuleitanda sem kveðið er á um í 35. gr. a. sömu laga, verður því að telja að kærandi hafi brugðist trúnaðar- og upplýsingaskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun í ljósi þeirra gagna sem fyrir liggja í málinu og tekin eru af fésbókarfærslum kæranda. Háttsemi kæranda hefur því réttilega verið heimfærð til ákvæðis 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda ber því að sæta viðurlögum þeim sem þar er kveðið á um, enda var hún starfandi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hún þáði atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu eða um tekjur. Þá er ákvæði 60. gr. fortakslaust en í því felst að ekki er heimild til að beita vægari úrræðum en ákvæðið kveður á um. Skal kærandi ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Með vísan til framangreinds og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, verður hún staðfest.

Tekið er undir mikilvægi þess með kæranda að skýrlega liggi fyrir á hverju niðurstaða máls grundvallast hverju sinni, en nokkuð skortir á að þess hafi verið gætt í máli þessu. Þrátt fyrir að fallist verði á að andmælaréttur kæranda hafi ekki verið virtur til fulls á lægra stjórnsýslustigi, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, var bætt úr því á æðra stjórnsýslustigi, en með bréfi, dags. 28. mars 2014, bauð úrskurðarnefndin kæranda að koma frekari athugasemdum á framfæri áður en nefndin tæki afstöðu til kæru hennar auk þess sem henni voru send öll gögn málsins.

Varakröfu kæranda þess efnis að henni verði ekki gert að endurgreiða atvinnuleysisbæturnar með 15% álagi er hafnað þar sem kærandi getur ekki borið fyrir sig vanþekkingu á lögunum, en kærandi sótti kynningarfund Vinnumálastofnunar 4. apríl 2013 auk þess sem ítarlegar upplýsingar er að finna á heimasíðu Vinnumálastofnunar um réttindi og skyldur atvinnuleitenda.

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar þess efnis að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda og gera henni að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 546.007 kr. auk 15% álags eða samtals 627.908 kr. er staðfest.

 

Úrskurðarorð


Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 8. nóvember 2013 í máli A þess efnis að hún skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest. Kærandi endurgreiði enn fremur ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 546.007 kr. auk 15% álags eða samtals 627.908 kr.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta