Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 41/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 14. október 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 41/2009.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 30. mars 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 27. mars 2009 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 2. mars 2009. Umsókn kæranda var hafnað samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006. Kæra til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er dagsett 7. apríl 2009. Kærandi krefst þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur frá dagsetningu umsóknar en Vinnumálastofnunar krefst þess að hin kærða ákvörðun standi.

Kærandi starfaði, samkvæmt ódagsettu vinnuveitendavottorði, við málningu frá 15. maí 2006 til 28. febrúar 2009, en hætti þá vegna tímabundinnar rekstrarstöðvunar. Kærandi hefur ekki skilað rökstuðningi í máli þessu.

Í bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 15. maí 2009, kemur fram að með bréfi, dags. 30. mars 2009, hafi kæranda verið kynnt sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur hafi verið hafnað. Tekið hafi verið fram í bréfi stofnunarinnar að ekki hafi verið greitt tryggingagjald vegna starfa kæranda og uppfylli hún því ekki 1. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. a-lið 3. gr. sömu laga. Samkvæmt a-lið 3. gr. sé það gert að skilyrði að greitt hafi verið tryggingargjald af launamanni sem tryggður skal vera samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun hafi byggt ákvörðun sína á uppflettingu á kennitölu kæranda í staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra en af útprentun úr skránni, sem fylgi með gögnum málsins, megi ráða að ekki hafi verið greitt af kæranda lögbundin gjöld nema í tvo mánuði á árinu 2006. Leiði það til þess að kærandi nái ekki lágmarksbótarétti, sbr. fyrrnefndan a-lið 3. gr. laganna.

 

2.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar gilda lögin um hvern þann sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt er tryggingagjald vegna starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald. Í 1. mgr. 15. gr. laganna kemur fram að launamaður, sbr. a-lið 3. gr. teljist að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum. Samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra var ekki greitt af kæranda lögbundin gjöld á þeim tíma sem hér um ræðir. Kærandi nær ekki lágmarksbótarétti og telst því ekki tryggður skv. 1. mgr. 15. gr., sbr. a-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Úr­skurðar­orð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 27. mars 2009 um synjun á bótarétti A er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta