Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 621/2020-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 621/2020

Fimmtudaginn 25. mars 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 27. nóvember 2020, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. október 2020, um að synja umsókn hennar um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 24. ágúst 2020. Með ákvörðun, dags. 7. október 2020, var umsókn kæranda synjað á grundvelli 2. mgr. 15. gr., sbr. a-lið 3. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Í kjölfar kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála fór Vinnumálastofnun betur yfir fyrirliggjandi gögn og með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 2. desember 2020, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt og bótaréttur væri metinn 60%.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 27. nóvember 2020. Með bréfi, dags. 1. desember 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 17. febrúar 2021. Greinargerð Vinnumálastofnunar var send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. febrúar 2021. Athugasemdir bárust ekki.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að henni hafi verið synjað um greiðslu atvinnuleysisbóta vegna þess að hún nái ekki bótarétti. Kærandi hafi árið 2014 unnið í tvo mánuði og þrjár vikur en til þess að eiga rétt á bótum þurfi að vinna í þrjá mánuði. Kærandi bendi á að hún hafi einnig unnið sumarið 2017 í sex vikur. Árið 2014 hafi kærandi farið í fæðingarorlof og það sé ekki tekið gilt inn í þessa þrjá mánuði. Kærandi hafi verið námsmaður erlendis síðastliðin fimm ár og ekki mátt vinna á meðan hún hafi verið í námi. Það sé alls ekki hlaupið að því að fara heim til Íslands einu sinni á ári til þess að vinna í þrjá mánuði, eingöngu til þess að eiga rétt á bótum. Kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð með hliðsjón af því að hún hafi verið í námi í B. Þegar kærandi hafi komið til Íslands í leit að vinnu hafi hún ekki fengið neina og hún eigi ekki rétt á bótum.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Vinnumálastofnun tekur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Í III. kafla laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna, en launamenn í skilningi laganna séu þeir sem hafa unnið launið störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og hafa greitt tryggingagjald vegna starfsins, sbr. a-lið 3. gr. laga nr. 54/2006. Í e-lið 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 sé mælt fyrir um það skilyrði að launamaður teljist tryggður samkvæmt lögunum hafi hann verið launamaður á ávinnslutímabili samkvæmt 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um hvaða tímabil teljist til ávinnslutímabils atvinnuleitanda þegar ákvarða skuli rétt hans til atvinnuleysisbóta samkvæmt lögunum. Við útreikning á bótarétti horfi Vinnumálastofnun því til þeirra starfa sem umsækjandi hafi unnið á síðustu tólf mánuðum áður en hann sæki um atvinnuleysisbætur, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Af fyrirliggjandi gögnum í máli þessu megi ráða að kærandi hafi síðast verið við störf í ágúst 2017 og geti hún þar af leiðandi ekki talist tryggð samkvæmt 15. gr. laga. nr. 54/2006.

Ákvæði um geymdan bótarétt, sbr. V. kafla laga um atvinnuleysistryggingar, kunni þó að leiða til þess að unnt sé að líta lengra aftur í vinnusögu umsækjenda. Í 25. gr. laga nr. 54/2006 segi að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum og hverfi af vinnumarkaði til að stunda nám, sbr. c. lið 3. gr., geti geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu í allt að 72 mánuði frá þeim degi er hann sannanlega hætti störfum, enda hafi hann sannanlega lokið náminu. Í 3. og 4. mgr. 25. gr. segi orðrétt:

„Við útreikninga á ávinnslutímabili þegar kemur til geymdrar atvinnuleysistryggingar skal líta til síðustu tólf mánaða sem hinn tryggði hefur starfað á innlendum vinnumarkaði á síðustu 84 mánuðum frá móttöku umsóknar enda leiði ekki annað af lögum þessum.

Sæki hinn tryggði ekki um atvinnuleysisbætur innan 72 mánaða frá þeim degi er hann sannanlega hætti störfum eða hefur ekki lokið námi innan þess tíma fellur réttur hans til að geyma atvinnuleysistrygginguna niður.“

Kærandi hafi hafið nám í september 2015 og lokið því í desember 2019. Kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 24. ágúst 2020, og geti því geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu í allt að 72 mánuði frá þeim degi er hún sannanlega hafi hafið nám. Því verði næst litið til síðustu tólf mánaða sem kærandi hafi starfað á innlendum vinnumarkaði á síðustu 84 mánuðum frá móttöku umsóknar hennar, sbr. 3. mgr. 25. gr. laga nr. 54/2006.

Á síðustu 84 mánuðum frá móttöku umsóknar kæranda hafi hún starfað í rúmlega fjóra mánuði. Kærandi hafi samkvæmt vottorði hjá C starfað á tímabilinu 26. júní 2017 til 8. ágúst 2017 í 100% starfi. Á tímabilinu 26. maí 2014 til 18. ágúst 2014 hafi kærandi samkvæmt vottorði starfað hjá D. í 100% starfi.

Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 54/2006 teljist nám, sbr. c-lið 3. gr., sem launamaður hafi stundað í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en hann sæki um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, svara til þrettán vikna vinnuframlags í fullu starfi, enda hafi hann sannanlega lokið náminu og starfað í að minnsta kosti þrjá mánuði á innlendum vinnumarkaði á ávinnslutímabilinu. Eins og áður segi hafi kærandi hafið nám í september 2015 og lokið því í desember 2019. Nám kæranda svari því til þrettán vikna vinnuframlags í fullu starfi.

Atvinnuleitandi teljist tryggður að fullu hafi hann starfað í 12 mánuði í fullu starfi, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 54/2006. Umsækjandi teljist að öðrum kosti hlutfallslega tryggður í samræmi við lengd starfstíma og meðalstarfshlutfalli hans á þeim tíma, sbr. 2. og 4. mgr. 15. gr. laga nr. 54/2006. Launamaður sem starfi í samtals þrjá mánuði í 100% starfshlutfalli ávinni sér þannig rétt til lágmarks 25% grunnatvinnuleysisbóta. Starfi hann í sex mánuði í 100% starfshlutfalli ávinni hann sér rétt til 50% atvinnuleysisbóta. Hafi sá hinn sami starfað í tólf mánuði í 100% starfshlutfalli eigi hann rétt á 100% atvinnuleysisbótum. Á síðustu 84 mánuðum frá móttöku umsóknar kæranda hafi hún starfað á innlendum vinnumarkaði og stundað nám sem saman samsvari rúmlega sjö mánuðum í fullu starfi. Það veiti kæranda rétt til 60% atvinnuleysisbóta.

Vinnumálastofnun telji að ranglega hafi verið staðið að ákvörðun um synjun á umsókn kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta. Umsókn kæranda hafi nú verið samþykkt og telji Vinnumálastofnun að tryggingahlutfall kæranda sé rétt reiknað 60%.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á grundvelli 2. mgr. 15. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Í kjölfar kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála fór Vinnumálastofnun yfir gögn málsins og var umsókn kæranda um greiðslur atvinnuleysisbóta samþykkt og bótaréttur metinn 60%.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Launamaður er hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt er tryggingagjald vegna starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald, sbr. a-lið 3. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna telst launamaður, sbr. a-lið 3. gr., að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó 4. mgr. Í 2. mgr. 15. gr. kemur fram að launamaður, sem starfað hefur skemur en tólf mánuði en lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, teljist tryggður hlutfallslega í samræmi við lengd starfstíma að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. einnig 4. mgr. Í 3. mgr. 15. gr. kemur fram að nám, sbr. c-lið 3. gr., sem launamaður hafi stundað í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar svari til þrettán vikna vinnuframlags í fullu starfi, enda hafi hann sannanlega lokið náminu og starfað í að minnsta kosti þrjá mánuði á innlendum vinnumarkaði á ávinnslutímabilinu. Vottorð frá hlutaðeigandi skóla skuli fylgja umsókn um atvinnuleysisbætur þar sem fram komi að launamaður hafi stundað námið og lokið því.

Í V. kafla laga nr. 54/2006 er kveðið á um tilvik er leiða til þess að atvinnuleysistryggingar geymast. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. getur sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum og hverfur af vinnumarkaði geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu í allt að 72 mánuði frá þeim degi er hann sannanlega hætti störfum, enda hafi hann sannanlega lokið náminu. Sá tími sem hinn tryggði starfar á innlendum vinnumarkaði á tímabilinu samkvæmt 1. mgr. telst til ávinnslutímabils samkvæmt 15. eða 19. gr. eftir því sem við á, sbr. 2. mgr. 25. gr. laganna. Þá segir í 4. mgr. 25. gr. að við útreikninga á ávinnslutímabili þegar kemur til geymdrar atvinnuleysistryggingar skal líta til síðustu tólf mánaða sem hinn tryggði hefur starfað á innlendum vinnumarkaði á síðustu 84 mánuðum frá móttöku umsóknar, enda leiði ekki annað af lögunum.

Samkvæmt fyrirliggjandi vottorði fyrrverandi vinnuveitenda kæranda var hún við störf hjá D. á tímabilinu 26. maí 2014 til 18. ágúst 2014 og hjá C. á tímabilinu 26. júní 2017 til 8. ágúst 2017. Starfshlutfall kæranda á starfstímabilunum var 100%. Þá liggur fyrir skólavottorð sem staðfestir að kærandi stundaði nám í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en hún sótti um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar. Samkvæmt gögnum málsins starfaði kærandi því á innlendum vinnumarkaði og stundaði nám sem samsvarar rúmlega sjö mánuðum í fullu starfi. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun samsvarar það 60% bótarétti sem úrskurðarnefndin telur ekki ástæðu til að gera athugasemd við. Með vísan til þess er ákvörðun Vinnumálastofnunar um 60% bótarétt kæranda staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um 60% bótarétt A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta