Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 58/2011

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 22. september 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A í máli nr. 58/2011.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 31. mars 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hafi á fundi sínum þann 30. mars 2011 fjallað um umsókn hennar um atvinnuleysisbætur. Umsókninni var synjað á grundvelli c-liðar 3. gr. og 1. mgr. 52. gr. um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem kærandi er námsmaður og hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, er ekki tryggður. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, ódagsettu en mótteknu 13. apríl 2011. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 26. janúar 2011. Þann 4. febrúar 2011 skilaði kærandi inn staðfestingu á skólavist við Fjölbrautaskólann við Ármúla, þar sem fram kemur að hún sé skráð í níu eininga fjarnám við skólann á vorönn 2011. Þann 4. febrúar 2011 sótti kærandi um gerð námssamnings við Vinnumálastofnun vegna framangreinds náms. Vinnumálastofnun upplýsti kæranda um að mögulega yrði henni synjað um gerð námssamnings, þar sem hún væri að koma úr námi og uppfyllti þ.a.l. ekki skilyrðin fyrir slíkum samningi.

Á fundi Vinnumálastofnunar þann 30. mars 2011 var tekin sú ákvörðun að hafna umsókn kæranda um greiðslur atvinnuleysistrygginga á grundvelli c-liðar 3. gr. og 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem hún væri í námi við Fjölbrautaskólann við Ármúla. Kæranda var tilkynnt þessi ákvörðun stofnunarinnar með bréfi þann 31. mars 2011.

Í rökstuðningi með kæru til úrskurðarnefndar, dags. 13. apríl 2011, segir kærandi að hún hafi misst starf sitt þann 25. janúar 2011 og hafi skráð sig atvinnulausa þann 26. janúar 2011, en hún hafi verið atvinnulaus til 1. mars 2011 þegar hún hafi ráðið sig í vinnu með fullu starfshlutfalli.

Kærandi vísar til skýringa Vinnumálastofnunar þess efnis að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur hafi verið hafnað þar sem að hún sé í námi. Kærandi segir að hún stundi fjarnám sem hafi engin áhrif á möguleika hennar á að stunda vinnu. Telur kærandi það algjörlega óásættanlegt að henni sé í raun refsað fyrir að reyna að mennta sig samhliða því að vinna. Segir kærandi að hún hafi hætt í dagskóla þar sem hún hafi orðið að vinna fulla vinnu til þess að geta borgað leigu og séð fyrir sjálfri sér að öðru leyti. Kærandi telur synjun umsóknar hennar ekki eiga rétt á sér og því fer hún fram á að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði endurskoðuð.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 24. júní 2011, bendir Vinnumálastofnun á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði. Vinnumálastofnun vísar til c-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem sé að finna skilgreiningu á „námi“ sem samfelldu nám við viðurkennda menntastofnun sem standi yfir í a.m.k. sex mánuði.

Í 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að hver sá sem stundi nám samkvæmt skilgreiningu c-liðar 3. gr. sömu laga teljist ekki tryggður samkvæmt lögunum, sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Vinnumálastofnun vísar til athugasemda við 52. gr. í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem sú meginregla sé ítrekuð að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum samhliða námi nema annað leiði af samningi um vinnumarkaðsaðgerð, óháð því hvort um dagskóla, kvöldskóla eða fjarnám sé að ræða. Að auki sé það eitt af almennum skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna að atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun áréttar að í máli kæranda sé ekki um að ræða nám á háskólastigi og því eigi undanþágur 2. og 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ekki við.

Vinnumálastofnun bendir á að níu eininga nám á framhaldsskólastigi jafngildi 18 ECTS einingum á háskólastigi. Það sé mat stofnunarinnar að með tilliti til umfangs þess fjarnáms sem kærandi lagði stund á, geti hún ekki talist í virkri atvinnuleit.

Það var niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar þar sem hún hafi verið námsmaður en ekki launamaður, sbr. c-lið 3. gr. og 1. mgr. 52. gr. laganna. Telji Vinnumálastofnun að skilyrði til námssamningsgerðar hafi ekki verið fyrir hendi og hafi Vinnumálastofnun því réttilega borið að synja kæranda um gerð slíks samnings. Umsókn kæranda um greiðslu atvinnuleysistrygginga hafi því verið réttilega hafnað þar sem hún hafi ekki uppfyllt skilyrði laganna.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. júní 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 8. júlí 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, en hún er svohljóðandi:

Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Þá segir í c-lið 3. gr. laga sömu laga:

Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.

Í athugasemdum við 52. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 26. janúar 2011. Hún lagði stund á fjarnám við Fjölbrautaskólann í Ármúla á vorönn 2011 frá 1. janúar til 27. maí 2011. Kærandi hefur fært fram þau rök að hún hafi stundað fjarnám og hafi því verið fullfær um að stunda vinnu samhliða því. Ber að líta til þess að í athugasemdum við 52. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Kærandi telst því vera námsmaður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. c-lið 3. gr. laganna. Ekki verður hjá því komist að staðfesta hina kærðu ákvörðun og ítreka að með því er staðfest að á þeim tímapunkti þegar kærandi sótti um greiðslu atvinnuleysisbóta átti hún ekki rétt til slíkra bóta og uppfyllti ekki skilyrði þess að gera námssamning við Vinnumálastofnun.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 31. mars 2011 í máli A um synjun á umsókn um atvinnuleysisbætur er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta