Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 243/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 243/2020

Fimmtudaginn 19. nóvember 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 20. maí 2020, kærði A, ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. maí 2020, um að setja greiðslur atvinnuleysisbóta til hans á bið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 12. mars 2020. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. maí 2020, var kæranda tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt en með vísan til þess að hann ætti ótekinn biðtíma frá fyrri umsókn yrðu bætur ekki greiddar fyrr en sá tími væri liðinn.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 20. maí 2020. Með bréfi, dags. 22 maí 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir því að kærandi legði fram afrit af hinni kærðu ákvörðun. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. júlí 2020, var beiðni úrskurðarnefndarinnar ítrekuð en ekkert svar barst. Með bréfi, dags. 20. ágúst 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 30. september 2020, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. október 2020. Athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá aðstæðum sínum og ástæðu þess að hann hafi ekki tilkynnt tekjur sem hann hafi fengið í nóvember 2019.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur þann 12. mars 2020 og umsóknin verið samþykkt þann 19. maí 2020. Þar sem kærandi hafi enn átt eftir að taka út ótekinn biðtíma vegna fyrri umsóknar sinnar hafi hann ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrr en að þeim biðtíma liðnum. Kærandi hafi sætt biðtíma á grundvelli 59. gr. og 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 þann 13. mars 2020 og þar á undan á grundvelli 58. gr. laganna þann 29. nóvember 2018. Kærandi hafi ekki áunnið sér inn rétt til nýs bótatímabils og þrír mánuðir hafi verið eftir af óteknum biðtíma þegar hann hafi sótt að nýju um greiðslur atvinnuleysisbóta í mars 2020. Þann 8. júlí 2020 hafi kærandi afskráð sig sem umsækjanda hjá stofnuninni þar sem hann hafi farið í vinnu. Þann 13. júlí 2020 hafi komið í ljós, samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun, að kærandi hafi lokið afplánun þann 2. júlí 2020 og  hefði þar af leiðindi ekki uppfyllt skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysisbóta um virka atvinnuleit fyrr en frá þeim degi. Kærandi hafi verið upplýstur um að þriggja mánaða biðtími myndi þar af leiðandi ekki byrja að líða fyrr en frá 2. júlí 2020.

Vinnumálastofnun tekur fram að málið varði í grunninn þá ákvörðun stofnunarinnar að láta kæranda sæta biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysistrygginga. Ákvörðun um biðtíma á grundvelli 59. gr. og 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé frá 22. október 2019. Kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar sé því liðinn, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Til umfjöllunar sé því hvort kærandi hafi átt að sæta eftirstöðvum biðtíma þegar hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur í mars 2020.

Fyrir liggi að kærandi hafði ekki tekið út biðtíma vegna ákvörðunar stofnunarinnar 16. mars 2020 vegna fyrra umsóknartímabils þegar hann hafi sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta að nýju. Viðurlagaákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli 59. gr. laga nr. 54/2006 og þar sem um hafi verið að ræða seinni viðurlagaákvörðun vegna kæranda á sama bótatímabili hafi komið til ítrekunaráhrifa samkvæmt 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 og honum því gert að sæta þriggja mánaða biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta. Í 5. mgr. 61. gr. laganna sé fjallað um hvenær biðtími samkvæmt ákvæðinu geti fallið niður en þar segi að ítrekunaráhrif samkvæmt ákvæðinu falli niður þegar nýtt tímabil hefjist samkvæmt 29. gr., sbr. 30. eða 31. gr. laganna. Í 31. gr. komi fram að nýtt tímabil hefjist þegar hinn tryggði sæki að nýju um atvinnuleysisbætur eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann hafi síðast fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Þegar kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur hafði hann ekki unnið samfellt í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann hafi síðast fengið greiddar atvinnuleysisbætur og því ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils. Að því virtu hafi kærandi þurft að sæta biðtíma áður en greiðslur atvinnuleysisbóta gætu hafist.

Þá telji stofnunin að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði um virka atvinnuleit í skilningi 14. gr. laganna, sbr. 53. gr. laganna, þar sem fjallað sé um einstaklinga sem sæta frelsissviptingu. Það sé mat stofnunarinnar að kærandi hafi fyrst átt rétt til atvinnuleysisbóta er hann hafi lokið afplánun samkvæmt skráningu Fangelsismálastofnunar þann 2. júlí 2020 og geti taka ólokins biðtíma fyrst hafist frá þeim degi. Með vísan til ofangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að réttilega hafi verið staðið að ákvörðun stofnunarinnar í máli kæranda og að staðfesta beri ákvörðun stofnunarinnar.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að setja greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda á bið. 

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 16. mars 2020 var bótaréttur kæranda felldur niður í þrjá mánuði frá og með þeim degi á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006, sbr. 1. mgr. 61. gr. laganna, vegna ótilkynntra tekna í október 2019. Ákvæði 1. mgr. 59. gr. er svohljóðandi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Ákvæðið ber meðal annars að túlka með hliðsjón af ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006, en samkvæmt því skal sá sem telst tryggður á grundvelli laganna upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir. Í ljósi þeirrar upplýsingaskyldu verður fallist á það með Vinnumálastofnun að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum er hann tilkynnti ekki stofnuninni um þær tekjur sem hann aflaði í október 2019. Að því virtu bar Vinnumálastofnun að láta kæranda sæta viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laganna. Þar sem kærandi hafði áður sætt viðurlögum á grundvelli 58. gr. laga nr. 54/2006 kom til ítrekunaráhrifa, sbr. 61. gr. laganna. Þar segir að sá sem hafi sætt viðurlögum samkvæmt 57.-59. gr. eða biðtíma samkvæmt 54. og 55. gr. og eitthvert þeirra tilvika sem þar greini eigi sér stað að nýju á sama tímabili samkvæmt 29. gr. skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla fyrr en að þremur mánuðum liðnum frá þeim degi er ákvörðun Vinnumálastofnunar um ítrekunaráhrif liggi fyrir, enda hafi hann fengið greiddar atvinnuleysisbætur skemur en samtals 24 mánuði á sama tímabili samkvæmt 29. gr. Í 5. mgr. 61. gr. laganna kemur fram að ítrekunaráhrif samkvæmt ákvæðinu falli niður þegar nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefst, sbr. 30. og 31. gr. laganna.  

Í 29. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögunum. Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt X. kafla telst hluti tímabilsins sem og sá tími er viðurlög samkvæmt XI. kafla standa yfir. Í 4. mgr. 29. gr. laganna kemur fram að tímabilið samkvæmt 1. mgr. haldi áfram að líða þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað í skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Þá segir í 31. gr. laga nr. 54/2006 að nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.   

Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi ekki, þegar umsókn hans barst Vinnumálastofnun þann 12. mars 2020, starfað í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi hafði því ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils samkvæmt 31. gr. laga nr. 54/2006 og því bar kæranda að taka út ótekinn biðtíma vegna eldri viðurlaga áður en greiðslur atvinnuleysisbóta gætu hafist. Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að setja greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda á bið staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. maí 2020, í máli A, um að setja greiðslur atvinnuleysisbóta til hans á bið, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta