Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Nr. 170/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 170/2018

Fimmtudaginn 23. ágúst 2018

A

gegn

Vinnumálastofnun

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 4. maí 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. apríl 2018, um að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 22. mars 2018. Með ákvörðun, dags. 18. apríl 2018, var umsókn kæranda hafnað á grundvelli 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar þar sem hann hafði ekki starfað að minnsta kosti í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann sætti viðurlögum á grundvelli 4. mgr. 59. gr. laganna. Sú ákvörðun var kynnt kæranda með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 26. maí 2017. Með tölvupósti 20. apríl 2018 óskaði kærandi eftir því að mál hans yrði tekið fyrir að nýju. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 4. maí 2018, var kæranda tilkynnt að mál hans hefði verið tekið fyrir að nýju en það væri mat stofnunarinnar að ákvörðun í málinu frá 26. maí 2017 hefði að geyma efnislega rétta niðurstöðu. Fyrri ákvörðun stæði því óbreytt.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 4. maí 2018. Með bréfi, dags. 8. maí 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 18. maí 2018. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda 24. maí 2018 og voru þær sendar Vinnumálastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að í febrúar 2017 hafi hann gert mistök með því að tilkynna Vinnumálastofnun of seint að hann væri kominn með starf. Kærandi vísar til þess að hann hafi greitt til baka því sem næmi vikulaunum frá stofnuninni fyrir þessa 2-4 daga sem hann hafi gleymt að tilkynna um nýja vinnu. Kærandi viti að hann hafi gert mistök en um mannleg mistök sé að ræða. Kærandi telur að það sé mjög hart að taka af sér bótarétt sem nemi 7-8 mánuðum vegna þessara mistaka og þar með setja fjölskyldu hans í fjárhagshættu. 

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að málið varði þá ákvörðun stofnunarinnar að láta kæranda sæta viðurlögum á grundvelli 59. og 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Þann 26. maí 2017 hafi kæranda verið gert að sæta viðurlögum á grundvelli 4. mgr. 59. gr. laganna. Þar sem kærandi hafði á þeim tíma fengið greiddar atvinnuleysisbætur í rúmlega 28 mánuði hafi sú ákvörðun falið í sér að hann gæti ekki átt rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefði starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi hafi sótt aftur um greiðslur atvinnuleysisbóta þann 22. mars 2018 en með hinni kærðu ákvörðun, dags. 18. apríl 2018, hafi kæranda verið tilkynnt ákvörðun Vinnumálstofnunar um að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur þar sem hann hafði ekki starfað að minnsta kosti í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann sætti viðurlögum á grundvelli 4. mgr. 59. gr. laganna.  Vinnumálastofnun hafi orðið við beiðni kæranda um endurupptöku ákvörðunar þann 4. maí 2018 þar sem ákvörðunin hafi verið staðfest. Vísað er til þess að á atvinnuleitendum hvíli rík skylda til að tilkynna án tafar um breytingar á högum sínum til stofnunarinnar og tryggja þannig að stofnunin hafi réttar upplýsingar sem geti varðað bótarétt viðkomandi, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/2009 segi meðal annars að „láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálastofnun þessar upplýsingar sem og í þeim tilvikum þegar rangar upplýsingar eru gefnar kemur til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laganna.“ Þá segir í 10. gr. laganna að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum skuli tilkynna til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar þegar hann hætti virkri atvinnuleit. Tilkynningin skuli gerð með sannanlegum hætti og taka skuli fram ástæðu þess að atvinnuleit hafi verið hætt.

Vinnumálastofnun tekur fram að við afskráningu sé atvinnuleitendum gert að skrá þann dag sem afskráningin eigi að taka gildi, óháð því hvenær viðkomandi sendi tilkynninguna. Kærandi hafi skráð sig inn á mínar síður Vinnumálastofnunar þann 25. febrúar og tilkynnt að hann myndi byrja í vinnu þann 28. febrúar. Fyrir liggi að kærandi hafi hafið störf þann 24. febrúar 2017. Óumdeilt sé að kærandi hafi afskráð sig af atvinnuleysisskrá nokkru síðar en hann hafi hafið störf hjá nýjum vinnuveitanda. Að öllu framangreindu virtu hafi það verið mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi í umrætt sinn ekki einungis látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um atvik er höfðu bein áhrif á rétt hans til greiðslu atvinnuleysisbóta heldur beinlínis veitt rangar upplýsingar sem leiddu til þess að hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur lengur en hann hafi átt rétt á. Kæranda hafi því borið að sæta viðurlögum á grundvelli 59. gr. laga nr. 54/2006 og endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Samkvæmt 4. mgr. 59. gr. laganna skuli sá sem hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur í 24 mánuði eða lengur á sama tímabili, þegar atvik sem leiða til biðtíma eiga sér stað, ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr. laganna. Kæranda hafi verið gert að sæta viðurlögum á grundvelli ákvæðisins, enda hafi hann fengið greiddar atvinnuleysisbætur í rúma 28 mánuði þegar atvik hafi átt sér stað. Í 31. gr. laga nr. 54/2006 komi fram að nýtt tímabil hefjist þegar hinn tryggði sæki að nýju um atvinnuleysisbætur eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann hafi síðast fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Þegar kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur í mars 2018 hafi hann ekki unnið samfellt í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann hafi síðast fengið greiddar atvinnuleysisbætur og því ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils. Kærandi eigi því ekki rétt á atvinnuleysisbótum.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur þar sem hann hafði ekki starfað að minnsta kosti í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann sætti viðurlögum á grundvelli 4. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 59. gr. er svohljóðandi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Í 4. mgr. 59. gr. laganna segir:

„Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. mgr. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.“

Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 skal hinn tryggði tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr., þar á meðal um tilfallandi veikindi, án ástæðulausrar tafar.

Samkvæmt gögnum málsins skráði kærandi sig inn á vefsvæði Vinnumálastofnunar þann 25. febrúar 2017 og tilkynnti að hann myndi byrja í vinnu þann 28. sama mánaðar. Óumdeilt er að þær upplýsingar voru ekki réttar þar sem kærandi hóf störf 24. febrúar 2017.

Við mat á því hvort heimilt sé að beita viðurlögum samkvæmt 59. gr. laga nr. 54/2006 kemur til skoðunar hvort kærandi hafi látið hjá líða að veita Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar, þ.e. að honum hafi láðst að veita tilteknar upplýsingar. Úrskurðarnefndin fellst ekki á að sú háttsemi kæranda að skrá rangar upplýsingar verði heimfærð undir ákvæði 59. gr. laganna. Að mati nefndarinnar ætti slík háttsemi öllu heldur að vera heimfærð undir ákvæði 60. gr. laganna, enda er þar sérstaklega vísað til 10. gr. þar sem fram kemur að hinn tryggði skuli tilkynna til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar þegar hann hætti virkri atvinnuleit. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og lagt fyrir Vinnumálastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. apríl 2018, um að hafna umsókn A, um atvinnuleysisbætur er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta