Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 271/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 271/2019

Þriðjudaginn 5. nóvember 2019

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 30. júní 2019, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. maí 2019, um að fella niður bótarétt hans í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun  23. október 2017. Í mars 2019 var kærandi boðaður á íslenskunámskeið á vegum Vinnumálastofnunar og tekið var fram að um skyldumætingu væri að ræða. Námskeiðið var haldið í samstarfi við Mími símenntun. Þann 11. apríl 2019 barst Vinnumálastofnun kvörtun frá námskeiðshaldara vegna kæranda og var Vinnumálastofnun upplýst um að kæranda hafi verið vísað af námskeiðinu vegna framkomu hans. Í kjölfarið hafði fulltrúi Vinnumálastofnunar samband við kæranda og tjáði honum að hann ætti ekki að mæta aftur á námskeiðið. Sama dag barst tölvupóstur frá kæranda þar sem hann gerði athugasemdir við kvörtunina og útskýrði sína hlið málsins. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 9. maí 2019, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda vegna málsins. Í bréfinu vakti stofnunin athygli á því að samkvæmt 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar geti þeir sem ekki mæta á námskeið Vinnumálastofnunar, á áður boðuðum tíma, þurft að sæta biðtíma á grundvelli laganna. Skýringar kæranda bárust 11. maí 2019. Með ákvörðun, dags. 27. maí 2019, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í tvo mánuði frá og með þeim degi á grundvelli 58. gr. laga nr. 54/2006. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun með bréfi, dags. 3. júní 2019. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 26. júní 2019, var kæranda tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði hafnað beiðni hans um endurupptöku málsins, enda hefðu ekki komið fram upplýsingar sem gætu haft þýðingu í máli hans.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 30. júní 2019. Með bréfi, dags. 10. júlí 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 21. ágúst 2019. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir kæranda við greinargerð Vinnumálastofnunar bárust 1. september 2019 og með bréfi, dagsettu sama dag, voru athugasemdirnar sendar Vinnumálastofnun til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi óski eftir því að mál hans verði skoðað. Honum hafi verið vikið af námskeiði á vegum Vinnumálastofnunar vegna óviðunandi hegðunar og í framhaldi af því sviptur atvinnuleysisbótum. Kærandi hafi ítrekað óskað eftir upplýsingum frá Vinnumálastofnun um hvað átt sé við með óviðunandi hegðun en ekki fengið nein svör. Kærandi viti ekki til þess að hegðun hans hafi verið óviðunandi á neinn hátt og hafi hann haft samband við samnemendur sína og enginn þeirra hafi haft neitt út á hegðun hans að setja. Einu svörin sem kærandi hafi fengið séu þau að ákveðinn kennari hafi verið með rasíska tilburði og hann velti því fyrir sér hvort ástæðan fyrir brottvikningunni hafi verið vegna þess að hann sé múslimi.

Í athugasemdum við greinargerð Vinnumálastofnunar vísar kærandi til þess að hann hafni öllum ósannindum um að hegðun hans hafi verið óviðunandi. Í bréfi Vinnumálastofnunar komi fram að kvörtun hafi komið frá kennara vegna ósmekklegra athugasemda, dónaskaps og að kærandi hafi áreitt samnemendur. Kærandi kannist ekkert við þetta. Kærandi hafi haft samband við kunningja sinn sem hafi einnig verið á námskeiðinu og þetta hafi komið honum á óvart en hann hafi ekki orðið var við neitt ósæmilegt af hálfu kæranda. Það hafi kannski verið ósæmileg hegðun að kærandi hefði fundið að því að kennari talaði meiri ensku en íslensku. Þá hafi kærandi eitt skipti misskilið orð sem kennarinn hafði látið hann hafa. Þegar fulltrúi Vinnumálastofnunar hafi haft samband við kæranda hafi verið mikill æsingur og sagt að hann ætti ekki að mæta meira á umrætt námskeið.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim, sem tryggðir séu og misst hafa fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Með lögunum sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að hinir tryggðu séu í virkri atvinnuleit þann tíma.

Mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar að gera kæranda að sæta niðurfellingu á greiðslum atvinnuleysisbóta í tvo mánuði vegna framkomu hans á námskeiði á vegum stofnunarinnar.

Samkvæmt a-lið 13. gr. og g-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé eitt af skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna að viðkomandi sé virkur í atvinnuleit og í því felist meðal annars að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum er standi til boða. Í 13. gr. laga um vinnumarkaðsúrræði nr. 55/2006 komi einnig fram skylda þess sem telst tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum og mæta í viðtöl hjá ráðgjöfum Vinnumálastofnunar.

Í 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta viðurlögum á grundvelli ákvæðisins. Í máli þessu liggi fyrir að kærandi hafi verið boðaður á íslenskunámskeið á vegum stofnunarinnar. Námskeiðið hafi verið haldið í samstarfi við samstarfsaðila stofnunarinnar, fræðslufyrirtækið Mími símenntun. Vinnumálastofnun hafi fljótt borist kvörtun vegna kæranda frá kennara á námskeiðinu. Sú kvörtun hafi meðal annars lotið að því að kærandi væri að trufla kennslu með ósmekklegum athugasemdum, dónaskap og almennu áreiti í kennslu. Þá hafi kærandi verið með ógnandi framkomu og áreitt samnemendur. Fram hafi komið í kvörtun frá Mími símenntun að tilraunir hefðu verið gerðar til að tala við kæranda til að fá hann til að láta af háttsemi sinni en án árangurs. Kennari hafi ekki talið unnt að bjóða öðrum nemendum upp á að hafa kæranda í kennslu og að tilraunir til að tala við kæranda hefðu verið fullreyndar. Vinnumálastofnun taki fram að stofnunin hafi aldrei áður fengið beiðni frá kennara á námskeiði um að atvinnuleitanda sé vikið úr úrræði. Í ljósi alvarleika kvörtunar frá kennara hafi verið óskað eftir því að kærandi myndi ekki mæta aftur á námskeiðið og óskað eftir skýringum á framferði hans.

Í skýringum kæranda sé gert lítið úr atviki og því haldið fram að málið eigi upptök til kynþáttafordóma hjá kennara. Vinnumálastofnun telji þær skýringar fjarstæðukenndar og að með háttsemi sinni hafi kærandi brugðist skyldum sínum samkvæmt 13. gr. og 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Atvinnuleitendum beri að taka þátt í þeim vinnumarkaðsúrræðum er standi til boða. Það sé grundvallarkrafa að atvinnuleitandi taki raunverulegan þátt í þeim úrræðum sem í boði séu en komi ekki í veg fyrir að aðrir atvinnuleitendur geti nýtt sér slík úrræði. Vinnumálastofnun telji að kærandi hafi í umrætt sinn hafnað þátttöku í vinnumarkaðsúrræði. Það sé afstaða Vinnumálastofnunar að atvinnuleitandi sem mæti á námskeið en hagi sér með þeim hætti sem kærandi hafi gert skuli sæta sömu málsmeðferð og sá sem hafni alfarið þátttöku í slíkum úrræðum. Líkt og framferði í atvinnuviðtölum geti leitt til viðurlaga á grundvelli 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kunni óboðlegt hátterni á námskeiðum stofnunarinnar að leiða til brottvísunar og viðurlaga á grundvelli 58. gr. laganna. Það sé því niðurstaða stofnunarinnar að kærandi skuli sæta viðurlögum á grundvelli 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 58. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því ef þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað. Segir þar í 1. mgr. að sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í að minnsta kosti fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur, skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla laganna fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma samkvæmt 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr. laganna.

Í athugasemdum greinargerðar við frumvarp það er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars um 1. mgr. 58. gr. að ekki séu tilgreindar sérstakar vinnumarkaðsaðgerðir sem geti valdið því að hinn tryggði þurfi að sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu heldur eigi það við um allar aðgerðir sem hinum tryggða sé boðið að taka þátt í til að auka líkur sínar á að fá vinnu við hæfi. Gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og hinir tryggðu njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar. Þannig megi ætla að þeim, sem eru tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins, verði boðin þátttaka í vinnumarkaðsúrræðum við hæfi en litið sé svo á að þeim sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist hinn tryggði þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi boðaður á íslenskunámskeið á vegum Vinnumálastofnunar í mars 2019 og tekið fram að um skyldumætingu væri að ræða. Þann 11. apríl 2019 barst Vinnumálastofnun kvörtun vegna kæranda og hafði fulltrúi stofnunarinnar samband við kæranda og upplýsti að hann ætti ekki að mæta aftur á umrætt námskeið. Afstaða Vinnumálastofnunar er sú að atvinnuleitandi sem hagi sér með þeim hætti sem kærandi gerði skuli sæta sömu málsmeðferð og sá sem hafni alfarið þátttöku í námskeiðum stofnunarinnar.

Við mat á því hvort heimilt sé að beita viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laganna kemur til skoðunar hvort kærandi hafi hafnað þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum með sannanlegum hætti, enda um íþyngjandi ákvörðun að ræða. Að mati nefndarinnar verður því að gera þær kröfur að fyrirliggjandi gögn bendi eindregið til þess að rétt sé að beita því úrræði. Engin slík gögn liggja fyrir í málinu sem sýna eindregið fram á að háttsemi kæranda hafi verið með þeim hætti að það jafngilti höfnun þátttöku af hans hálfu. Því verður ekki fallist á að kærandi hafi í reynd hafnað þátttöku í vinnumarkaðsúrræði.

Að mati úrskurðarnefndarinnar voru annmarkar á málsmeðferð Vinnumálastofnunar varðandi afgreiðslu stofnunarinnar á beiðni kæranda um rökstuðning frá 3. júní 2019. Ljóst er að kærandi óskaði þar eftir rökstuðningi stofnunarinnar, sbr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en ekki endurupptöku, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Því bar Vinnumálastofnun að afgreiða beiðni kæranda í samræmi við það. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Vinnumálastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. maí 2019, um að fella niður bótarétt A, í tvo mánuði er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta