Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 632/2020-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 632/2020

Fimmtudaginn 25. mars 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 2. desember 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. nóvember 2020, um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 19. október 2020. Meðfylgjandi umsókn kæranda var vottorð frá fyrrverandi vinnuveitanda þar sem fram kemur að ástæða starfsloka kæranda hafi verið brot á sóttvarnalögum. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 2. nóvember 2020, var óskað eftir afstöðu kæranda til ástæðna uppsagnar hans. Skýringar bárust ekki. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. nóvember 2020, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt en með vísan til starfsloka hjá síðasta vinnuveitanda væri réttur til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Í kjölfarið bárust skýringar frá kæranda og var mál hans því tekið fyrir á ný. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 27. nóvember 2020, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun um niðurfellingu bótaréttar væri staðfest.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. desember 2020. Með bréfi, dags. 4. desember 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 21. janúar 2021, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. janúar 2021, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar tekur kærandi fram að hann hafi greinst með COVID-19 við komuna til landsins í september 2020. Kæranda hafi verið sagt að vera heima í fimm til sjö daga sem hann hafi gert. Þegar kærandi hafi mætt í sýnatöku sjö dögum síðar hafi honum verið tjáð að ekki væri þörf á sýnatöku þar sem hann væri einkennalaus. Kærandi hafi því mætt til vinnu, eða eftir níu daga í einangrun, þar sem hann hafi þurft á peningunum að halda. Eftir fimm daga í vinnu hafi læknir hringt í kæranda til að kanna hvernig honum liði. Yfirmaður kæranda hafi heyrt það samtal og bannað honum að vinna. Kærandi hafi reynt að útskýra fyrir yfirmanni sínum að hann hafi ekki brotið reglur um einangrun og sent gögn því til stuðnings. Í kjölfarið hafi kæranda verið sagt upp störfum fyrirvaralaust. Kærandi telji að hann hafi orðið fyrir ranglæti og óski því eftir fullri greiðslu lögum samkvæmt.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og hafi misst fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Lögin veiti þeim fjárhagslegt úrræði og beri að gera ríkar kröfur til þeirra sem segi upp störfum sínum að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Hið sama gildi um þann sem missi starf sitt af ástæðum sem hann eigi sjálfur sök á, sbr. 1. mgr. 54. gr. laganna.

Í greinargerð með frumvarpi því, sem hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar, sé það áréttað að eitt af markmiðum vinnumarkaðskerfisins sé að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í greinargerðinni sé vísað til þess að það væri erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega í lögum og reglugerðum hvaða ástæður, sem liggi að baki þeirri ákvörðun að fólk segi störfum sínum lausum eða missi starf sitt, séu gildar þar sem þær ástæður geti verið af margvíslegum toga. Því hafi verið lagt til að lagareglan væri matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri því að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Ljóst sé að starfssamningi kæranda hafi verið rift en ágreiningur málsins snúist um það hvort skýringar kæranda vegna starfsloka teljist gildar í skilningi framangreinds ákvæðis. Orðalagið „gildar ástæður“ hafi verið túlkað þröngt og fá tilvik verið talin falla þar undir. Samkvæmt upplýsingum frá atvinnurekanda hafi kærandi brotið sóttvarnalög. Kærandi kveðist hafa mætt til vinnu níu dögum eftir að hann hafi greinst á landamærum og ekki þurft á seinni sýnatöku að halda. Auk þess segist hann hafa fengið vilyrði fyrir því að mæta til vinnu svo stuttu eftir greiningu, enda kveðist hann hafa verið einkennalaus er hann hafi mætt til vinnu. Kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn, svo sem læknisvottorð, sem styðji þær fullyrðingar sem fram komi í skýringarbréfi hans, þrátt fyrir beiðni Vinnumálastofnunar um slíkt.

Kærandi hafi sótt um greiðslur í sóttkví hjá stofnuninni 29. september 2020 og samkvæmt skráningu Embættis landlæknis hafi kærandi verið skráður í einangrun frá 23. september 2020 til 8. október 2020. Atvinnurekandi hafi ekki staðfest umsókn kæranda en samkvæmt honum hafi hann ekki verið meðvitaður um COVID-19 greiningu kæranda og hafi kærandi verið sýktur í vinnu. Atvinnurekandi hafi tjáð stofnuninni að kærandi hafi mætt til vinnu 28. september 2020 eða sex dögum eftir greiningu. Vinnumálastofnun hafi haft samband við smitrakningarteymi almannavarna 9. október 2020 og látið vita af málinu.

Ef marka megi þessar upplýsingar hafi kærandi mætt til vinnu skráður í einangrun hjá Embætti landlæknis en samkvæmt þeim upplýsingum sem liggi fyrir hafi kærandi verið mættur til vinnu 29. september. Í ljósi ofangreindra sjónarmiða sé það mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda vegna starfsloka hans, sem snúi að miklu leyti að ósönnuðum fullyrðingum aðila málsins, geti ekki talist gildar í skilningi laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og að kærandi skuli sæta tveggja mánaða biðtíma á grundvelli 54. gr. laganna. Verði að telja að starfsmaður geti gert sér grein fyrir því að honum verði sagt upp ef hann brjóti sóttvarnalög með þeim hætti sem hann hafi gert, það er að hafa mætt aftur til vinnu eftir að hafa greinst með jákvætt COVID-19 sýni eftir skimun á landamærum.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að greiðslur atvinnuleysisbóta skuli fyrst hefjast þegar kærandi hafi verið skráður hjá Vinnumálastofnun án bóta í tvo mánuði.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 54. gr. laganna er svohljóðandi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Óumdeilt er að kæranda var sagt upp störfum en ágreiningur málsins lýtur að því hvort hann hafi sjálfur átt sök á uppsögninni. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að það sé erfiðleikum bundið að takmarka þau tilvik sem geti talist til gildra ástæðna í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagareglan verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Jafnframt er bent á að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða.

Í uppsagnarbréfi, dags. 8. október 2020, kemur fram að kæranda hafi verið sagt upp störfum þar sem hann hafi virt að vettugi fyrirmæli heilbrigðisyfirvalda um einangrun og sóttkví sem vinnuveitanda hans hafi ekki verið kunnugt um. Kærandi hafi þannig stofnað lífi og heilsu samstarfsmanna og viðskiptavina í hættu og valdið fyrirtækinu umtalsverðu fjárhagslegu tjóni. Kærandi hefur vísað til þess að honum hafi verið sagt að vera heima í fimm til sjö daga sem hann hafi gert og svo mætt til vinnu eftir níu daga í einangrun. 

Eins og fram hefur komið er ákvörðun um að umsækjandi skuli sæta biðtíma íþyngjandi ákvörðun. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður því að gera þær kröfur að fyrirliggjandi gögn bendi eindregið til þess að rétt sé að beita því úrræði vegna atvika sem umsækjandi á sjálfur sök á. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi verið skráður í einangrun til 8. október 2020 vegna COVID-19 smits. Kærandi upplýsti ekki vinnuveitanda sinn um smitið og mætti til vinnu 29. september 2020. Að mati úrskurðarnefndarinnar mátti kæranda vera það ljóst að honum yrði sagt upp störfum ef hann mætti til vinnu þegar hann átti að vera í einangrun vegna COVID-19. Það er því álit úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi hafi misst starf sitt af ástæðum sem hann bar sjálfur ábyrgð á. Að því virtu átti kærandi ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að tveimur mánuðum liðnum frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. nóvember 2020, um að fella niður bótarétt A, í tvo mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta