Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 27/2014

Úrskurður


Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 16. desember 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 27/2014.

1.      Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með innheimtubréfi, dags. 3. janúar 2014, fór Vinnumálastofnun þess á leit við kæranda, A að hann greiddi skuld við stofnunina innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins. Fram kom í bréfinu að skuldin væri tilkomin vegna þess að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið frá 1. desember til 31. desember 2011 sem yrðu innheimtar skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Skuldin næmi 19.525 kr. ásamt 15% álagi að fjárhæð 2.929 kr. eða samtals 22.454 kr. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 1. mars 2014. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 13. september 2011 og var skráður atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun til 20. desember 2011.

Í kæru kæranda, dags. 1. mars 2014, kemur fram að málavextir séu þeir að fyrri hluta desembermánaðar 2011 hafi hann fengið atvinnuleysisbætur þar sem hann hafi verið atvinnulaus og því skráður sem slíkur hjá Vinnumálastofnun samkvæmt sérstökum samningi þar um. Hann hafi fengið afleysingavinnu um jólin 2011 hjá B samtals í 34 klukkustundir auk yfirvinnu og stórhátíðarálags, sem hafi gert útgreidd laun 101.209 kr. Þessi tilfallandi laun hafi ekki fallið til á þeim tíma sem hann hafi fengið greiddar atvinnuleyssibætur, þ.e. fyrri hluta desembermánaðar 2011. Kærandi telji því að ekki sé heimilt að krefjast endurgreiðslu fyrir það tímabil. Hann vísi þar að lútandi til afdráttarlausra reglna í 2. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um frádrátt vegna tekna. Meðfylgjandi kæru kæranda er launaseðill frá B.

Við samkeyrslu tölvugagna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra kom í ljós að kærandi var með tekjur að fjárhæð 170.260 kr. frá B fyrir desembermánuð 2011 samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Vinnumálastofnun hafði ekki borist tilkynning um tekjur og ekki lá fyrir tekjuáætlun hjá stofnuninni. Kæranda var tilkynnt með innheimtuseðli að hann skuldaði Vinnumálastofnun þar til greinda fjárhæð.

Í gögnum málsins eru launaseðlar kæranda vegna starfa hans fyrir B, dags. 1. nóvember 2011 og 30. desember 2011. Enn fremur eru meðal gagna málsins tölvupóstur frá launafulltrúa B frá 21. febrúar 2014, þar sem segir að vinnutímabil fyrirtækisins sé frá 16. hvers mánaðar til 15. þess næsta og að kærandi hafi í nóvember verið með 8,5 dagvinnutíma og 10,5 yfirvinnutíma auk desemberuppbótar. Í öðrum tölvupósti frá B til Vinnumálastofnunar, dags. 10. apríl 2014, kemur fram að þau laun sem greidd eru vegna desembermánaðar séu fyrir tímabilið frá 16. nóvember til og með 15. desember.

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 11. apríl 2014, kemur fram að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins 1. desember til 20. desember 2011. Í janúar 2014 hafi skuldin enn verið ógreidd og með bréfi dags. 3. janúar 2014 hafi kæranda verið tilkynnt að hann skuldaði ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem innheimtar yrðu samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt því lagaákvæði sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og innheimta þær atvinnuleysisbætur sem ofgreiddar hafi verið. Í athugasemdum við 39. gr. frumvarps er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum þeim tilvikum þegar atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Hver sé ástæða þess að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi m.ö.o. ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið. Bendir Vinnumálastofnuna á niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í málum nr. 49/2010, 21/2011 og 43/2012 þessu til stuðnings.

Kærandi hafi notið atvinnuleysisbóta á tímabilinu 13. september til 20. desember 2011. Fyrir liggi að hann hafi fengið greidd laun fyrir desembermánuð 2011 samtals að fjárhæð 170.150 kr. án þess að fyrir lægi tekjuáætlun hjá stofnuninni vegna tekna hans. Í rökstuðningi sínum fyrir kæru greini kærandi frá því að hann hafi um jólin 2011 fengið afleysingavinnu hjá B í samtals 34 klukkustundir auk yfirvinnu og stórhátíðarálags, sem hafi gert útborguð laun 101.209 kr. Að sögn kæranda hafi umrædd laun ekki fallið til á þeim tíma sem hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur, þ.e. fyrri hluta desembermánaðar 2011 og telji hann af þeim sökum ekki standa heimild fyrir endurgreiðslukröfu Vinnumálastofnunar á ofgreiddum atvinnuleysisbótum. Vísar kærandi til launaseðils, dags. 30. desember 2011, máli sínu til stuðnings. Á launaseðlinum komi fram að um sé að ræða greiðslu launa vegna launatímabilsins 1. til 31. desember 2011. Af launaseðlinum verði ekki ráðið hvenær vinna kæranda hafi verið innt af hendi. Af því tilefni hafi við gerð greinargerðarinnar verið haft samband við launafulltrúa B þar sem óskað hafi verið eftir upplýsingum um hvenær vinna kæranda hafi farið fram í desember 2011. Þau svör hafi borist að þau laun sem greidd hafi verið vegna desember séu vegna tímabilsins 16. nóvember til 15. desember 2011. Að mati Vinnumálastofnunar hafi því verið í ljós leitt að laun kæranda vegna desembermánaðar skuli koma til frádráttar á atvinnuleysisbótum hans í samræmi við 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, enda hafi hann verið við störf á sama tíma og hann hafi þegið atvinnuleysisbætur, en líkt og fram hafi komið hafi kærandi verið afskráður af greiðsluskrá 20. desember 2011.

Þar sem kærandi hafi ekki skilað inn tekjuáætlun til Vinnumálastofnunar hafi hann fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur og því myndast skuld í greiðslukerfi stofnunarinnar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. maí 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 20. maí 2014. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 18. maí 2014.  

2.      Niðurstaða

Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta skv. 36. gr., sbr. 39. gr., laga um atvinnuleysistryggingar vegna tímabilsins 1. desember til 20. desember 2011 að fjárhæð 19.525 kr. auk 15% álags eða samtals að fjárhæð 22.454 kr. Samkvæmt Vinnumálastofnun á skuld kæranda rætur sínar að rekja til þess að hann var með tekjur að fjárhæð 170.260 kr. frá B fyrir desembermánuð 2011 og lagði ekki fram tekjuáætlun á umræddu tímabili vegna þeirra tekna.

Kærandi fékk ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð samtals 19.525 kr. ásamt 15% álagi eins og rakið hefur verið.

Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið og samkvæmt framangreindri 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, ber kæranda að endurgreiða skuld sína við Vinnumálastofnun að fjárhæð samtals 22.454 kr. með 15% álagi.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A, samkvæmt innheimtubréfi frá 3. janúar 2014, þess efnis að hann endurgreiði stofnuninni 19.525 kr. ásamt 15% álagi að fjárhæð 2.929 kr. eða samtals að fjárhæð 22.454 kr. er staðfest.

 Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta