Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 121/2013

Úrskurður


Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 21. janúar 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 121/2013.

1.      Málsatvik og kæruefni

Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða kvað upp úrskurð í máli A, 1. ágúst 2014. Úrskurðurinn fjallaði um þá ákvörðun Vinnumálastofnunar sem tekin var á fundi 15. ágúst 2013 að stöðva greiðslur til kæranda á grundvelli 1. gr., 2. gr., a-liðar 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hún taldist hvorki vera í virkri atvinnuleit né atvinnulaus þar sem hún var í vinnu við eigin rekstur. Jafnframt taldi Vinnumálastofnun að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 12. apríl 2012 til 31. júlí 2013 samtals að fjárhæð 2.289.693 kr. sem henni bæri að endurgreiða skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 29. október 2013. Vinnumálastofnun taldi að staðfesta bæri hina kærðu ákvörðun.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar var staðfest með úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða frá 1. ágúst 2014.

Með bréfi B hrl., dags. 10. september 2014, hefur hann f.h. kæranda, A, farið fram á endurupptöku máls hennar fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Hefur kærandi krafist þess að úrskurðarnefndin felli úr gildi ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 15. ágúst 2013 um niðurfellingu bótaréttar hennar í tvo mánuði og um endurgreiðslu atvinnuleysisbóta að fjárhæð 2.289.693 kr. Kærandi krefst þess að hún fái að halda umræddum atvinnuleysisbótum sem hún hafi haft sér til framfærslu og móttekið í góðri trú undir handleiðslu starfsmanna Vinnumálastofnunar. Til vara krefst kærandi þess að hún haldi 2/3 hlutum umþrættra atvinnuleysisbóta, til þrautavara að hún haldi ½ bótum eða 1/3 hluta bótanna.

 Kærandi vísar til 1. tölul., sbr. einnig 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Hún telji að ákvörðunin hafi verið byggð á ófullnægjandi, villandi eða jafnvel röngum gögnum og upplýsingum um samskipti kæranda við Vinnumálastofnun. Þá sé ákvörðun úrskurðarnefndarinnar og lægra setta stjórnvaldsins verulega íþyngjandi fyrir kæranda og muni hún komast á vonarvöl fjárhagslega gangi úrskurðurinn óbreyttur eftir. Þá leggi kærandi fram ný gögn frá löggiltum endurskoðanda um tekjuleysi og þar með að hún geti ekki fallið undir að vera með eigin rekstur því hann sé það smár og rýr að hann hafi ekki gefið möguleika á neinu reiknuðu endurgjaldi á umþrættum tíma. Einnig vísi kærandi til grundvallarreglu í opinberri stjórnsýslu sem byggi meðal annars á skoðun fræðimanna um að móttekin opinber framfærsla í góðri trú sé óendurkræf frá borgaranum.

Af hálfu kæranda eru málsatvik og aðstæður hennar rakin allítarlega. Enn fremur fylgir bréf frá endurskoðanda þess efnis að kærandi hafi ekki haft tekjur á tímabilinu annars staðar frá en Vinnumálastofnun.

Eftirfarandi eru þær málsástæður sem kærandi telur að úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hafi ekki tekið tilliti til og séu til þess fallnar að rökstyðja breytta niðurstöðu:

Kærandi hafi tekið á móti atvinnuleysisbótum sér til framfærslu í góðri trú og hafi allt sem hún gerði verið í fullkomnu samkomulagi við Vinnumálastofnun.

Kærandi hafi farið að leiðbeiningum stjórnvalda, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og bindi þær leiðbeiningar hendur úrskurðarnefndarinnar.

Stjórnvöld hafi ekki sinnt sem skyldi rannsóknarskyldu sinni, jafnræði og meðalhófs, sbr. 10.–12. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi sé X ára gömul ekkja sem hefði aldrei reynt fyrir sér með herbergjaleigu ef það hefði þýtt það fyrir hana að hún yrði svipt framfærslunni.

Kærandi hafi alltaf verið í virkri atvinnuleit og sótt námskeið og sérfræðingar hafi samþykkt að senda kæranda á námskeið í að stofna fyrirtæki.

Kærandi hafi upplýst Vinnumálastofnun um alla sína hagi og hafi hún unnið að stofnun smárekstrar undir handleiðslu stofnunarinnar.

Kærandi hafi engar tekjur haft tímabilið 12. apríl 2012 til 31. júlí 2013 aðrar en atvinnuleysisbætur, sbr. það sem fram kemur í skjali frá endurskoðanda hennar. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga hafi stjórnvaldinu borið að upplýsa um þetta áður en ákvörðun hafi verið tekin.

Um hafi verið að ræða mjög lítinn heimilisiðnað eldri konu í fjárhagskröggum.

Kærandi hafi uppfyllt ákvæði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. einnig 35. gr. laganna, hún hafi sýnt trúnað og sinnt upplýsingaskyldu. Hún vísi einnig til ákvæða 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um frítekjumark að fjárhæð 52.000 kr. á mánuði. Í máli þessu hafi stjórnvaldinu borið að upplýsa kæranda um að hún mætti ekki reyna fyrir sér í ferðamannaiðnaði með því að reyna að leigja út herbergi án þess að falla þá út af atvinnuleysisbótum. Þá hafi stjórnvaldinu borið að upplýsa um lágmarkstekjur, 59.047 kr., sem hefðu ekki áhrif á greiðslu atvinnuleysisbóta. Það sé engin afsökun fyrir stjórnvald að hafa samþykkt að kærandi gæti reynt fyrir sér með undirbúning ferðamannaleigu en í úrskurði sé byggt á því að kærandi hafi átt að vita betur en stjórnvaldið sjálft – eins og þetta mál sé vaxið verði hið opinbera að bera hallann af þessum samskiptum en ekki kærandi eins og greint sé í forsendum úrskurðar. Kæranda hafi með öðrum orðum ekki verið ljóst að óheimilt hafi verið að þiggja atvinnuleysisbætur sem stjórnvaldið hafi samþykkt sérstaklega.

Kærandi hafi ekki verið sjálfstætt starfandi á þeim tíma sem atvinnuleysisbætur voru inntar af hendi.

Kærandi muni lenda í verulegum fjárhagsvandræðum komi til þess að úrskurðuð fjárhæð atvinnuleysisbóta verði innheimt hjá henni.

Í dag sé um að ræða hótelrekstur kæranda í litlu húsi í C. Hún hafi ekki fjárhagslega burði til þess að endurgreiða mótteknar greiðslur atvinnuleysisbóta. Reksturinn gefi í dag á bilinu 25.000–50.000 kr. á mánuði auk þess hafi hún tæplega 130.000 kr. úr lífeyrissjóði.

Kærandi ítrekar að aðstæður í máli þessu séu það sérstakar að hún eigi að minnsta kosti rétt til hluta atvinnuleysisbóta fyrir umrætt tímabil, í samræmi við varakröfur hennar.

Úrskurðarnefndin kallaði eftir gögnum málsins og afstöðu Vinnumálastofnunar til þess. Greinargerð Vinnumálastofnunar er dagsett 8. janúar 2014.

Af hálfu kæranda kemur fram, sem svar við greinargerð Vinnumálastofnunar, í bréfi dags. 8. október 2014, að hún ítreki að vegna fátæktar hafi hún leitað aðstoðar Vinnumálastofnunar þar sem hún hafi ekki átt fyrir mat og hafi það tekið á stolt hennar. Hún hafi verið virk í atvinnuleit og hafi hún fengið þá niðurstöðu að hún fengi ekki vinnu og hafi Vinnumálastofnun verið sammála því. Kærandi hafi því reynt með aðstoð og leiðbeiningum Vinnumálastofnunar að búa til „heimilisiðnað“ og bjarga með því eigin heilsu.

Það liggi fyrir að þessi „heimilisiðnaður“ hafi ekkert gefið af sér á umræddum tíma og það viti Vinnumálastofnun en leyfi sér að vísa til skattareglna um reiknað endurgjald sem eigi ekki við í þessu máli um rétt tekjulausrar launakonu til atvinnuleysisbóta. Ef ekki hefði komið til greiðslu atvinnuleysisbóta á umræddum tíma hefði kærandi ekki getað lifað og annaðhvort þurft að betla eða beinlínis deyja úr hungri og uppgjöf.

Verði kærandi úrskurðuð til þess að endurgreiða þær framfærslubætur sem hún hafi tekið á móti í góðri trú muni það ríða henni að fullu fjárhagslega og muni hún missa allt sitt og lenda á götunni.

2.      Niðurstaða

Kærandi krefst þess að ákvörðun úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða frá 1. ágúst 2014 verði endurupptekin. Með þeirri ákvörðun var ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 15. ágúst 2013 staðfest, en að mati kæranda hafi sú ákvörðun verið byggð á ófullnægjandi, villandi eða jafnvel röngum gögnum og upplýsingum um samskipti kæranda við Vinnumálastofnun skv. 1. tölul., sbr. einnig 2. tölul., 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Kærandi byggir kröfu sína á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga en þar er fjallað um endurupptöku máls og hljóðar 1. mgr. lagagreinarinnar svona:

Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

  1.  ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða

  2.  íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.“

Í athugasemdum við 24. gr. lagafrumvarps þess sem varð að stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, segir meðal annars að skv. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. eigi aðili máls rétt á því að mál verði tekið til meðferðar á ný ef stjórnvaldsákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Hér verði því að vera um að ræða upplýsingar sem byggt hafi verið á við ákvörðun málsins en ekki rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um atvik sem mjög litla þýðingu höfðu við úrlausn þess. Um 2. tölul. 1. mgr. 24. greinarinnar segir í athugasemdum við lagafrumvarpið að aðili eigi rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef íþyngjandi ákvörðun um viðvarandi boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því ákvörðun var tekin. Ef atvik þau, sem talin voru réttlæta slíka ákvörðun, hafa breyst verulega er eðlilegt að aðili eigi rétt á því að málið sé tekið til meðferðar á ný og athugað hvort skilyrði séu fyrir því að fella ákvörðunina niður eða milda hana. Hafi þetta ákvæði náin tengsl við meðalhófsregluna í 12. gr. laganna.

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerða var nefndinni rétt að staðfesta hina kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar með ákvörðun sinni frá 1. ágúst 2014. Kærandi tilkynnti Vinnumálastofnun 12. apríl 2012 að hún væri að vinna í því að stofna bændagistingu. Var kæranda þá leiðbeint um að kanna vinnumarkaðsúrræðið „eigið frumkvöðlastarf“ sem hefði hugsanlega gert henni kleift að þiggja atvinnuleysisbætur meðfram stofnun fyrirtækis síns. Engin gögn benda til þess að kærandi hafi gert þetta heldur þáði hún áfram greiðslur atvinnuleysisbóta og samkvæmt upplýsingum frá aðilum vinnumarkaðarins var kærandi við störf hjá fyrirtæki sínu 6. júní 2013. Engar frekari upplýsingar höfðu borist Vinnumálastofnun vegna starfa kæranda aðrar en þær sem áður hefur nefnt, þ.e. frá 12. apríl 2012. Kærandi uppfyllti því ekki skilyrði þess að teljast virk í atvinnuleit skv. 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og hún taldist heldur ekki atvinnulaus skv. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem hún sinnti rekstri fyrirtækis síns og skiptir þá ekki máli hvort um var að ræða launuð störf eða ólaunuð.

Kærandi heldur því fram að ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi verið byggð á ófullnægjandi, villandi eða jafnvel röngum gögnum og upplýsingum um samskipti kæranda við Vinnumálastofnun. Hún hefur þó ekki lagt fram nein gögn, upplýsingar, skýringar eða lagaleg rök fyrir því að mál hennar verði endurupptekið skv. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. gr., 2. gr., a-liðar 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á tímabilinu 12. apríl 2012 til 31. júlí 2013 þar sem hún var á þeim tíma ekki í virkri atvinnuleit og ekki atvinnulaus. Hún fékk á sama tímabili ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 2.289.693 kr. sem henni ber að endurgreiða skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til alls framangreinds er kröfu kæranda um endurupptöku máls hennar fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða frá 15. ágúst 2014 um niðurfellingu bótaréttar hennar í tvo mánuði og um endurgreiðslu atvinnuleysisbóta að fjárhæð 2.289.693 kr. hafnað.

 

Úrskurðarorð

Kröfu kæranda um endurupptöku máls hennar fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða frá 15. ágúst 2014 um niðurfellingu bótaréttar hennar í tvo mánuði og um endurgreiðslu atvinnuleysisbóta að fjárhæð 2.289.693 kr. er hafnað.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta