Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Nr. 42/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 42/2019

Mánudaginn 8. apríl 2019

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 16. janúar 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 16. janúar 2019 um að synja kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 16. júlí 2018. Óskað var eftir tilteknum gögnum frá kæranda daginn eftir og var sú beiðni ítrekuð með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 27. júlí 2018. Kæranda var veittur sjö daga frestur til að skila gögnunum og vakin athygli á því að án umbeðinna gagna væri ekki unnt að taka afstöðu til réttar hennar til atvinnuleysisbóta. Hluta gagnanna var skilað og með tölvupósti 20. ágúst 2018 var kærandi upplýst um að enn vantaði tiltekin gögn. Þann 22. ágúst 2018 skilaði kærandi staðfestingu á uppsögn frá tilteknu fyrirtæki. Kæranda var tjáð að ekki væri um gilt vinnuveitandavottorð að ræða og að umsókn yrði synjað ef hún myndi ekki skila umbeðnum gögnum. Beiðni um gögn var ítrekuð 28. ágúst 2018. Með ákvörðun 3. september 2018 var kæranda tilkynnt að umsókn hennar hefði verið hafnað á þeirri forsendu að umbeðin gögn hefðu ekki enn borist. Kæra vegna þeirrar ákvörðunar barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 29. nóvember 2018. Síðar sama dag dró kærandi kæruna til baka og sótti á ný um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun. Stofnunin óskaði eftir gögnum frá kæranda samdægurs og var sú beiðni ítrekuð daginn eftir. Þann 11. desember 2018 bárust gögn frá kæranda og með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. desember 2018, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt. Með erindi 28. desember 2018 óskaði kærandi eftir upplýsingum um hvenær hún fengi greitt fyrir það sem hún hafi átt að fá sumarið 2018 og í kjölfarið áttu sér stað samskipti á milli kæranda og Vinnumálastofnunar. Með tölvupósti 16. janúar 2019 var kærandi upplýst um að ekki væri hægt að greiða henni atvinnuleysisbætur frá 16. júlí 2018 þar sem gögnum hafi verið skilað of seint. Umsóknin frá 29. nóvember 2018 væri nýjasta umsóknin og því fengi kærandi greitt samkvæmt henni.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. janúar 2019. Með bréfi, dags. 28. janúar 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 4. mars 2019. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. mars 2019, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti 8. mars 2019.

II.  Sjónarmið kæranda

Ráða má af kæru og athugasemdum kæranda við greinargerð Vinnumálastofnunar að hún sé ósátt við niðurstöðu Vinnumálastofnunar og fari fram á að greiðslur til hennar verði leiðréttar. Kærandi kveðst hafa skilað gögnum um leið og hún hafi haft tök á því. Þá hafnar kærandi því að hún hafi ítrekað verið beðin um að skila gögnum.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laganna getur sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í þrjú ár frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögunum. Eðli málsins samkvæmt sé það grundvallarskilyrði til að eiga rétt á greiðslu atvinnuleysistrygginga að hinn tryggði sæki um slíkt til Vinnumálastofnunar. Í f-lið 13. gr. laga nr. 43/2006 sé tekið fram að eitt af almennum skilyrðum fyrir greiðslu sé að atvinnuleitandi leggi fram vottorð fyrrverandi vinnuveitanda. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laganna skal atvinnuleitandi leggja fram skriflegt vottorð vinnuveitanda er hann sækir um atvinnuleysisbætur. Að öðrum kosti sé Vinnumálastofnun ekki unnt að staðreyna starfstíma eða starfshlutfall umsækjanda á ávinnslutímabilinu. Enn fremur skuli koma fram ástæður þess að umsækjandi hætti störfum hjá vinnuveitanda. Kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga þann 16. júlí 2018. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar um að kæranda bæri að skila vottorðum vinnuveitanda til stofnunarinnar hafi ekki borist gögn frá kæranda. Þar sem umbeðin gögn hafi ekki borist hafi umsókn kæranda verið synjað, enda ekki uppfyllt hin almennu skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun tekur fram að kærandi hafi verið í 100% vinnu frá 21. ágúst til 21. nóvember 2018. Kærandi hafi sótt aftur um greiðslu atvinnuleysistrygginga þann 29. nóvember 2018 og skilað áður tilgreindum gögnum. Umsókn kæranda hafi í framhaldinu verið samþykkt og henni greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við rétt sinn frá umsóknardegi. Í málinu liggi fyrir að kærandi hafi ekki framvísað nauðsynlegum gögnum til Vinnumálastofnunar þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þess efnis. Kæranda hafi verið gert ljóst að umsókn hennar yrði synjað ef umbeðin gögn bærust ekki. Vottorð fyrrverandi vinnuveitanda sé eitt af þeim grundvallaratriðum sem litið sé til við ákvörðun á rétti einstaklinga innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Í athugasemdum með 16. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar komi fram mikilvægi þess að kveðið sé á um skyldu launafólks til að skila inn slíkum vottorðum, enda erfiðleikum bundið að ákvarða rétt fólks innan kerfisins án þeirra upplýsinga er þar komi fram. Þá beri að líta til þess að kærandi hafi ekki sinnt máli sínu eftir að stofnunin hafi synjað umsókn hennar. Kærandi hafi verið afskráð af atvinnuleysisskrá og ekki staðfest atvinnuleit sína á umræddu tímabili. Því sé einnig óljóst hvort kærandi hafi uppfyllt skilyrðið um virka atvinnuleit á tímabilinu.

Í ljósi atvika í málinu og skýrra leiðbeininga 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 telji Vinnumálastofnun að kærandi eigi fyrst rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga frá 29. nóvember 2018 er hún hafi sótt um atvinnuleysisbætur og stofnuninni borist nauðsynleg gögn í máli kæranda. Fyrr hafi kærandi ekki uppfyllt almenn skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 16. janúar 2019 um að synja kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta. Aðdragandi hinnar kærðu ákvörðunar er sá að í kjölfar umsóknar kæranda um atvinnuleysisbætur 16. júlí 2018 óskaði Vinnumálastofnun eftir tilteknum gögnum frá kæranda. Þann 3. september 2018 var tekin ákvörðun um að hafna umsókn kæranda á þeirri forsendu að hún væri ófullnægjandi þar sem nauðsynleg gögn hefðu ekki borist. Í kjölfar nýrrar umsóknar um atvinnuleysisbætur 29. nóvember 2018 fór kærandi fram á greiðslur fyrir sumarið 2018 með vísan til fyrri umsóknar. Vinnumálastofnun hafnaði þeirri beiðni kæranda með vísan til þess að gögnum hafi verið skilað of seint. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi krafist endurupptöku ákvörðunar frá 3. september 2018 á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en ekki beiðni um afturvirkar greiðslur frá síðari umsókninni í nóvember 2018.

Í 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um rétt aðila máls til þess að fá mál sitt tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun í því hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða ef íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Af ákvæði þessu leiðir að aðili máls á lögvarinn rétt til að mál hans verði tekið til meðferðar á ný ef framangreind skilyrði eru fyrir hendi.

Í ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 3. september 2018 er vísað til þess að umsókn kæranda væri hafnað þar sem þau gögn sem óskað hafi verið eftir þann [27.] júlí 2018 hefðu ekki enn borist. Tekið er fram að ekki væri ljóst hvort hún uppfyllti skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga eða hvort skilyrði um virka atvinnuleit, sbr. 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga nr. 54/2006, væri uppfyllt. Samkvæmt gögnum málsins lagði kærandi fram umbeðin gögn í kjölfar umsóknar frá 29. nóvember 2018. Þegar af þeirri ástæðu telur úrskurðarnefndin að skilyrði endurupptöku samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga sé uppfyllt. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað til Vinnumálastofnunar til nýrrar meðferðar.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 16. janúar 2019 í máli A, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta