Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 58/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 5. nóvember 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 58/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur með rafrænni umsókn sem staðfest var skriflega þann 4. mars 2009. Kærandi var í kjölfarið reiknaður með 25% bótarétt. Bótarétturinn var endurskoðaður að beiðni kæranda með vísan til breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006, sbr. lög nr. 37/2009 sem tóku gildi 8. apríl 2009. Á fundi Vinnumálastofnunar þann 18. maí 2009 var samþykkt hækkun á bótarétti í 29%. Kæra til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er dagsett 22. maí 2009 þar sem kærandi krefst þess að fá 100% bótarétt. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun standi.

Kærandi hefur rekið verslanir í X undanfarin 13 ár. Hann kveður afkomuna hafa verið frekar lélega og varð einkahlutafélag hans, Y, gjaldþrota og var afskráð 17. febrúar 2009, samkvæmt yfirlýsingu sýslumannsins í X. Kærandi kveðst vera einstæður og ekki hafa fyrir neinum að sjá og hafi hann því tekið eins lág laun og mögulegt hafi verið. Það sé þannig í einkarekstri að maður hafi úr þeim peningum að spila sem fyrirtæki eigi, en ekki einhverjum staðli frá Ríkisskattstjóra. Meðal gagna málsins er afrit af skattframtali kæranda 2009 og samkvæmt því hafði hann í tekjur frá Y ehf. árið 2008 alls 1.192.150 kr.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, móttekinni 11. september 2009, er vitnað til 1. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en samkvæmt henni teljist sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., að fullu tryggður samkvæmt lögunum hafi hann greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemi að lágmarki viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald samfellt á síðustu tólf mánuðum áður en hann sæki um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr. greinarinnar. Í 3. mgr. 19. gr. laganna sé kveðið á um útreikning tryggingahlutfalls hjá þeim sem standa skil á staðgreiðslu reiknaðs endurgjalds og tryggingagjalds árlega. Starfsemi hjá Y ehf. myndi bótarétt kæranda og falli undir starfaflokk B5 samkvæmt reglum um reiknað endurgjald, settar skv. 3. málsl. 1. mgr. 58. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, en starfsemi Y feli í sér rekstur á Z. Samkvæmt starfaflokki B5 sé lágmarksviðmiðun fyrir reiknað endurgjald manna sem vinni við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, 342.000 kr. á mánuði. Reiknað endurgjald kæranda samkvæmt skattframtali 2009 hafi verið 1.192.150 kr. eða 99.345 kr. á mánuði. Því reiknist bótaréttur hans 99.345/342.000 eða 29%.

 

2.

Niðurstaða

Í þessu máli telur kærandi að hann eigi rétt á 100% bótarétti en Vinnumálastofnun hefur lagt til grundvallar að hann eigi 29% bótarétt. Við afgreiðslu málsins verður að líta til 2. mgr. og 3. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 13. gr. laga nr. 37/2009. Samkvæmt þessum ákvæðum ber að lækka hlutfallslegan bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklings hafi hann greitt staðgreiðsluskatt og tryggingargjald af lægra endurgjaldi en nemur viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein.

Fallist verður á það mat Vinnumálastofnunar að starf kæranda hafi fallið undir starfaflokk B5 samkvæmt reglum fjármálaráðherra um reiknað endurgjald. Á ávinnslutímabilinu nam reiknað endurgjald kæranda 29% af þeim lágmarksviðmiðunum sem koma fram í reglum fjármálaráðherra um starfaflokk B5. Þegar af þessum ástæðum verður hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Úr­skurðar­orð

Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að reikna A með 29% bótarétt er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta