Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 61/2009

Kærandi var í lánshæfu námi og telst því ekki tryggður og á ekki rétt á atvinnuleysisbótum.

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 5. nóvember 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 61/2009.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 24. apríl 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hafi á fundi sínum þann 21. apríl 2009 ákveðið að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur með vísan til c-liðar 3. gr. og 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hann sé í námi. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 3. maí 2009. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Í erindi kæranda kemur fram að þegar hann sótti um bætur hafi honum verið tilkynnt að hann þyrfti að segja sig úr a.m.k. einu námskeiði til þess að eiga rétt á bótum. Þar telur hann að skjóti skökku við að tefja útskrift úr náminu til þess að fá bætur. Síðastliðin áramót hafi hann tekið þá ákvörðun að bæta við sig einu fagi til að stytta tímann í útskrift, en við það hafi námshlutfallið aukist upp 75%.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur með rafrænni umsókn sem var staðfest skriflega þann 13. mars 2009. Kærandi kveðst næstum allan þann tíma sem hann hafi verið við nám einnig hafa unnið fulla vinnu. Samkvæmt vottorði vinnuveitanda, dags. 9. mars 2009, starfaði kærandi hjá X frá 13. júní 2008 til 28. febrúar 2009 í 100% starfi en missti það vegna samdráttar. Kærandi var skráður í 24 ECTS einingar við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík á vorönn 2009. Nám kæranda jafngildir um 80% námi, en 30 ECTS einingar eru fullt nám.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 11. september 2009, er vísað til 52. gr. þágildandi laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. einnig c-lið 3. gr. þágildandi laga um skilgreiningu á námi. Fram komi í 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að hver sá sem stundi nám, sbr. c-lið 3. gr. laganna, teljist ekki tryggður á sama tímabili enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum við 52. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar komi fram sú meginregla að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám.

Í vottorði um skólavist kæranda í Háskólanum í Reykjavík komi fram að nám það sem kærandi hafi stundað sé 24 ECTS einingar og teljist 30 ECTS einingar til fulls náms. Í 2. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé sú skylda lögð á Vinnumálastofnun að meta sérstaklega hvort umsækjandi geti talist tryggður stundi hann nám með starfi og missi síðar starfið og námið er ekki lánshæft hjá LÍN. Sú undantekningarregla eigi ekki við um aðstæður kæranda. Þar sem kærandi hafi stundað 80% nám samkvæmt vottorði skóla sé ljóst að 3. mgr. 52. gr. eigi ekki heldur við samkvæmt beinu orðalagi ákvæðisins. Verði af þessu að álykta að meginregla sú sem komi fram í 1. mgr. 52. gr. eigi við um tilvik kæranda. Samkvæmt skýru ákvæði 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar teljist kærandi ekki tryggður samkvæmt lögunum og eigi ekki átt rétt til atvinnuleysisbóta samhliða námi.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 18. september 2009, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 2. október 2009. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir að hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., teljist ekki tryggður á sama tímabili enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Hugtakið nám er skilgreint í c-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Fram til 30. mars 2009 gilti sú skilgreining á námi að sá sem var í lægra námshlutfalli en 75% taldist ekki stunda nám í skilningi laganna. Þann 30. mars 2009 voru samþykkt lög nr. 37/2009 um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og í þeim var gerð sú breyting á skilgreiningunni á námi að námshlutfall hafi ekki áhrif að þessu leyti. Samkvæmt núgildandi c-lið 3. gr. laganna er nám skilgreint sem samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur nám á háskóla­stigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 37/2009 segir um breytinguna að þegar metið er hvað skuli teljast nám í skilningi laganna verði framvegis eingöngu litið til hvers konar nám sé um að ræða óháð námshlutfalli.

Undantekningarheimildir 2. og 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar geta átt við þegar nám er ekki lánshæft samkvæmt reglum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Nám kæranda er lánshæft og því á meginregla 1. mgr. 52. gr. við í hans tilviki.

Samkvæmt skýru ákvæði 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og bæði núgildandi og þágildandi ákvæði c-liðar 3. gr. laganna telst kærandi ekki tryggður og á ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur er því staðfest.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 21. apríl 2009 í máli A er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta