Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 31/2014

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 16. desember 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 31/2014.

1.      Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 20. desember 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 19. desember 2013 fjallað um fjarveru hans á boðað námskeið á vegum Vinnumálastofnunar. Vegna fjarveru kæranda var réttur hans til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði frá 20. desember 2013. Ákvörðun stofnunarinnar var tekin á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 6. mars 2014, og krefst þess að ákvörðunin verði felld úr gildi eða að viðurlögin verði lækkuð verulega. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun hafi verið rétt.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 7. desember 2012.

Kærandi mætti í viðtal hjá ráðgjafa Vinnumálastofnunar 12. nóvember 2013 og skrifaði undir bókunarblað á námskeiðið ,,Virk atvinnuleit hjá Promennt“ sem fram fór dagana 19. og 21. nóvember 2013 kl. 09:00-13:00. Hann staðfesti með undirritun sinni að hann myndi mæta á námskeiðið. Kærandi mætti þó ekki á námskeiðið og var því óskað skriflegrar afstöðu hans til þess með bréfi, dags. 9. desember 2013. Í skýringarbréfi kæranda sem barst Vinnumálastofnun 10. desember 2013 greindi hann frá því að hann hafi ekki séð sér fært að mæta á námskeiðið sökum þess að hann hafi fengið í bakið.

Af hálfu kæranda kemur fram í kæru, dags. 6. mars 2014, að þau viðurlög sem beitt sé í máli þessu samsvari rúmlega 300.000 kr. sekt og það sé ekki í neinu samræmi við það sem gerist annars staðar í stjórnsýslunni og sé brot á meðalhófsreglu og eigi ekki við í máli sem þessu. Kærandi bendir á að ekki hafi verið um að ræða mætingu í atvinnuviðtal heldur mjög stutt örnámskeið í efni sem hann hafi þegar sýnt fram á að hann hafi ágætlega á valdi sínu. Kærandi segir forsögu málsins vera þá að hann hafi fengið heiftarlega í bakið en hann eigi sögu um slíkt. Þegar það gerist komist hann ekki til læknis og læknir eigi ekkert erindi heim til hans vegna þess að hann gæti hvort eð er ekkert gert. Eini tilgangurinn með því að fá lækni í heimavitjun hefði því verið að fullnægja skilyrðum um vottorð, sem hann hafi ekki vitað á þessum tíma að þyrfti. Þá hefði hann getað látið aka sér í sjúkrabíl á neyðarvakt. Slíkt væri kostnaðarsamt og hann hafi verið félaus. Kærandi hafi því ýtt þessum kostum út af borðinu.

Kærandi kveðst gera sér grein fyrir því að hann hefði átt að senda bréf, en hann bendir á að hann hafi verið sárkvalinn og hafi ekki hugsað skýrt vegna þess. Hann hafi farið inn á heimasíðu Vinnumálastofnunar til þess að leitast við að skrá inn veikindin en hafi ekki fundið þar stað til þess að tilkynna um fjarveru í námskeiði. Honum finnist að það ætti að vera hægt að skrá veikindi hjá Vinnumálastofnunun undir ,,Mínar síður“ og að þá yrði sendur læknir heim til viðkomandi.

Í greinargerð Vinnumálstofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 29. apríl 2014, kemur fram að málið lúti að 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í greinargerð er fylgt hafi frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé efni 58. gr. laganna skýrt nánar. Þar komi fram að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og að litið sé svo á að þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Þá sé jafnframt tekið fram að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Vinnumálastofnun bendir á að skv. g-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar felist virk atvinnuleit meðal annars í því að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem standa til boða. Í 13. gr. laga um vinnumarkaðsúrræði, nr. 55/2006, komi einnig fram skylda þess sem telst tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum sem Vinnumálastofnun býður upp á.

Vinnumálastofnun greinir frá því að kærandi hafi mætt í viðtal hjá ráðgjafa stofnunarinnar 12. nóvember 2013 og skrifað undir bókunarblað á námskeiðið ,,Virk atvinnuleit hjá Promennt“. Með undirritun sinni hafi kærandi staðfest að hann myndi mæta á námskeiðið á tilteknum stað og tíma. Fram hafi komið á bókunarblaðinu að mikilvægt væri að kærandi uppfyllti kröfur um mætingarskyldu á námskeiðið og það að tilkynna um forföll til Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi verið upplýstur um að það gæti leitt til viðurlaga samkvæmt 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ef úrræðum á vegum Vinnumálastofnunar væri hafnað. Kærandi hafi ekki mætt á boðað námskeið og ekki tilkynnt um forföll til stofnunarinnar.

 Af skýringabréfi kæranda til Vinnumálastofnunar og kæru hans til úrskurðarnefndarinnar megi ráða að ástæða þess að hann mætti ekki á boðað námskeið hafi verið sú að hann hafi fengð slæmt tak í bakið. Þá hafi kærandi greint frá því í rökstuðningi sínum fyrir kæru að hann hefði ,,átt að senda VMST bréf“ en hann hafi verið sárkvalinn og ekki hugsað skýrt sökum þess. Þá hafi hann ætlað að tilkynna um veikindi sín á heimasíðu Vinnumálastofnunar en slík aðgerð hafi ekki verið í boði. Jafnframt hafi kærandi greint frá því að til þess að fara til læknis og fá útgefið vottorð þyrfti hann að leggja út peninga sem hann hafi ekki átt á þessum tíma.

Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að atvinnuleitendum beri í samræmi við 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laganna þar á meðal um tilfallandi veikindi, án ástæðulausrar tafar. Það sé mat Vinnumálastofnunar að kæranda hefði verið unnt að tilkynna um veikindi sín til stofnunarinnar með tölvupósti eða símtali. Engin tilkynning um veikindi hafi borist stofnuninni í samræmi við 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá hafi kærandi ekki lagt fram læknisvottorð veikindum sínum til staðfestingar. Það sé því mat Vinnumálastofnunar að ástæður kæranda fyrir höfnun hans á þátttöku í vinnumarkaðsúrræði séu ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og beri honum að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. maí 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 20. maí 2014. Frekari athugasemdir kæranda bárust með bréfi. Þar kemur fram að hann leggur til að rökstuðningi Vinnumálastofnunar verði hafnað þar sem greinargerð stofnunarinnar hafi borist úrskurðarnefndinni eftir að frestur til þess rann út. Kærandi kveðst ekki hafa hafnað vinnumarkaðsaðgerðum og spyr hvort það hafi verið vinnumarkaðsaðgerð í skilningi laganna sem hann hafi verið boðaður í og segir að ekkert bendi til þess að þessi aðgerð mundi bæta vinnufærni hans. Hann telji sig hafa lært gerð ferilskráa. Sektin sem lögð hafi verið á kæranda virðist brjóta bæði gegn jafnræðisreglu og sé brot á meðalhófsreglu. Standi til að beita reglum sem þessum þurfi að kynna það fyrir atvinnuleitendum fyrirfram. Loks kvartar hann undan því að ekki sé boðið upp á neina veikindaskráningu á ,,Mínum síðum" hjá Vinnumálastofnun.

2.      Niðurstaða

Mál þetta lýtur að 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 21. gr. laga nr. 134/2009, en hún er svohljóðandi:

 Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma skv. 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr.

Í athugasemdum við 58. gr. með frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og þeir sem tryggðir eru samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar. Sé litið svo á að hinum tryggðu sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist þeir þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Í 2. mgr. 1. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir nr. 55/2006 segir að með vinnumarkaðsaðgerðum sé átt við vinnumiðlun, mat á hæfni atvinnuleitanda og skipulag úrræða sem séu til þess fallin að auka vinnufærni atvinnuleitanda.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir eru vinnumarkaðsúrræði meðal annars einstök námskeið, svo sem námskeið um gerð starfsleitaráætlunar eða sjálfstyrkingu og námskeið til að bæta tiltekna færni. Samkvæmt 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 4. gr. laga nr. 134/2009, er virk atvinnuleit skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta til atvinnuleitanda. Til að geta talist vera í virkri atvinnuleit þarf umsækjandi að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða. Í 3. mgr. 13. gr. laganna er kveðið á um heimild til handa Vinnumálastofnun til þess að boða atvinnuleitanda til stofnunarinnar með sannanlegum hætti og skal atvinnuleitandi vera reiðubúinn að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi mætti ekki á námskeiðið ,,Virk atvinnuleit hjá Promennt“ sem fram fór dagana 19. og 21. nóvember 2013 kl. 09:00-13:00, sem hann var boðaður í á vegum Vinnumálastofnunar. Kærandi staðfesti með undirritun sinni á bókunarblað um námskeiðið að hann myndi mæta á það. Á bókunarblaðinu er bent á að það geti valdið missi bótaréttar samkvæmt 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ef sá sem skráður er atvinnulaus tekur ekki þátt í gerð starfsleitaráætlunar á vegum Vinnumálastofnunar eða fylgir ekki slíkri áætlun þar á meðal hafnar úrræðum Vinnumálastofnunar. Ítrekað er með svörtu letri á bókunarblaðinu að það sé mikilvægt að atvinnuleitandi uppfylli kröfur um mætingarskyldu á námskeiðið. Þá segir að ef viðkomandi forfallist sé hann beðinn um að hringja í þar til greint símanúmer.

Af hálfu kæranda kemur fram að hann hafi ekki mætt á námskeiðið vegna veikinda í baki.

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða eru skýringar kæranda á því hvers vegna hann tilkynnti ekki um forföll á umrætt námskeið ekki gildar. Til þess er að líta að hann hefði getað tilkynnt um aðstæður sínar með því að senda tölvupóst til Vinnumálastofnunar eða að hringja. Honum mátti vera ljóst að það gæti valdið missi bótaréttar að mæta ekki á námskeiðið eins og berlega kemur fram á bókunarblaði sem kærandi undirritaði. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið og þeirrar skyldu atvinnuleitenda að tilkynna án ástæðulausrar tafar til Vinnumálastofnunar ef hann telur að hann geti ekki mætt á boðað námskeið, ber að staðfesta ákvörðun Vinnumálastofnunar um niðurfellingu bótaréttar kæranda í tvo mánuði með vísan til 1. mgr. 58. laga um atvinnuleysistryggingar.


 Úrskurðarorð

 

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 19. desember 2013 í máli A um niðurfellingu bótaréttar hans í tvo mánuði er staðfest.

 Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta