Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 23/2013.

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 29. október 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 23/2013.

 

1.
Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með innheimtubréfi, dags. 29. janúar 2013, fór Vinnumálastofnun þess á leit við kæranda, A, að hann greiddi skuld við stofnunina innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins. Skuldin nam 50.034 kr. ásamt 15% álagi að fjárhæð 7.505 kr. eða samtals 57.539 kr. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 8. febrúar 2013. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti fyrst um atvinnuleysisbætur 24. janúar 2008 og fékk greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við rétt sinn til 23. ágúst 2011. Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta á ný 4. janúar 2013. Kærandi var afskráður vegna fæðingarorlofs 19. febrúar 2013. Þá sótti kærandi um að nýju 14. maí 2013 en umsókn kæranda var synjað þar sem bótatímabil hans var fullnýtt samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006.

Vinnumálastofnun tók ákvörðun á fundi 11. janúar 2011 að kæranda skyldi gert að sæta tveggja mánaða biðtíma á grundvelli 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sökum þess að hann hafi ekki uppfyllt mætingarskyldu á námskeiðið sölu- og markaðsnám sem hófst 15. september 2010. Kærandi gaf þær skýringar að hann hefði forfallast vegna veikinda en þar sem hann lagði ekki fram læknisvottorð því til staðfestingar voru skýringar hans ekki metnar gildar. Kærandi lagði í kjölfarið fram læknisvottorð, dags. 5. janúar 2011, til staðfestingar á veikindum. Vinnumálastofnun felldi niður viðurlögin á fundi stofnunarinnar 26. janúar 2011.


 

 

Samkvæmt læknisvottorðinu átti kærandi við veikindi að stríða í október og nóvember 2010. Af þeim sökum tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda með greiðsluseðli, dags. 1. mars 2011, að myndast hefði skuld við stofnunina vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta sem honum bæri að endurgreiða í samræmi við 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi óskaði eftir leiðréttingu á skráningu um veikindi sín með erindi, dags. 24. júní 2011. Taldi hann að um misskilning væri að ræða og að læknisvottorðið gæfi ekki rétta mynd af veikindum sínum.

Vinnumálastofnun óskaði eftir því með bréfi, dags. 29. júní 2011, að kærandi legði fram nýtt læknisvottorð þar sem fram kæmi hvaða daga hann hefði átt við veikindi að stríða í október og nóvember 2010. Kærandi lagði ekki fram nýtt læknisvottorð.

Vinnumálastofnun skuldajafnaði ofgreiddum atvinnuleysisbótum kæranda á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysisbætur þar til hann var afskráður hjá stofnuninni 23. ágúst 2011. Kærandi greiddi 208.847 kr. af skuld sinni á tímabilinu 3. mars til 23. ágúst 2011. Þá greiddi kærandi 35.205 kr. af skuld sinni á tímabilinu 4. janúar til 19. febrúar 2013 með skuldajöfnun. Eftirstöðvar skuldar kæranda voru 22.334 kr. 31. maí 2013.

Vinnumálastofnun tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 29. janúar 2013, um hina kærðu ákvörðun.

Kærandi lagði fram nýtt læknisvottorð útgefið af sama lækni og fyrr, dags. 26. júní 2013, fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þar sem læknirinn greinir frá því að um hafi verið að ræða skammtímaveikindi kæranda í nokkra daga í október og nóvember 2010. Kærandi hafi ekki getað stundað nám sitt sem skyldi af þeim sökum. Þá greinir læknirinn frá því að ekki sé með neinum hætti hægt að túlka vottorðið hans á annan hátt og vísar í sjúkradagbókarfærslu frá 5. janúar 2011.


 

 

Af hálfu kæranda kemur fram í kæru, dags. 8. febrúar 2013, að hann hafi sótt nám hjá Nýja tölvu- og viðskiptaskólanum á tímabilinu 13. september til 17. desember 2010 en sökum veikinda hefði hann misst út kennsludaga. Kærandi greinir frá því að aldrei hafi verið um að ræða veikindi í tvo mánuði og hann hefði aldrei náð að útskrifast ef hann hefði verið veikur 2/3 af náminu. Kærandi segir mistök sín hafa legið í því að tilkynna skólanum um veikindi sín en ekki Vinnumálastofnun þar sem hann hafi ekki þekkt verklagsreglur. Þegar málið hafi komið upp hafi hann fylgt öllum leiðbeiningum starfsmanns Vinnumálastofnunar og svo tjáð símleiðis að útskýringar hans væru fullnægjandi. Þá greinir kærandi að hvergi komi fram í læknisvottorði sem hann lagði fram að hann hafi verið veikur í tvo mánuði. Hann hafi átt við veikindi að stríða í október og nóvember en átt hafi verið við lok október og byrjun nóvember.

Aldrei hafi verið leitað til hans, skólans eða læknis með nánari útskýringu áður en farið hafi verið af stað með innheimtuna.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 31. maí 2013, kemur fram að málið varði ákvörðun stofnunarinnar sem hafi verið kynnt kæranda með bréfi, dags. 29. janúar 2013, um að hefja frekari innheimtuaðgerðir vegna skuldar kæranda. Vinnumálastofnun bendir á að skuld kæranda megi rekja til þess að hann hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu október til nóvember 2010 að fjárhæð 258.881 kr. Kæranda hafi fyrst verið tilkynnt um skuldina með greiðsluseðli stofnunarinnar í mars 2011. Af þeim sökum telur Vinnumálastofnun að þriggja mánaða kærufrestur, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sé liðinn. Það sé mat Vinnumálastofnunar að vísa beri þeim hluta kærunnar frá er varði réttmæti skuldamyndunar.

Vinnumálastofnun bendir á að skuld kæranda sé byggð á 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þegar kærandi hafi verið afskráður af bótaskrá 23. ágúst 2011 hafi eftirstandandi skuld hans sam nam 50.034 kr. ásamt 15% álagi enn verið ógreidd. Stofnunin bendir á að henni sé skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og að í athugasemdum með 39. gr. frumvarps sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum þeim tilvikum þegar atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða þess að atvinnuleitandi fái ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða ofgreidda fjárhæð. Jafnframt bendir stofnunin á úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í málum nr. 43/2012 og 21/2011 þessu til stuðnings. Þar sem skuld kæranda sé enn ógreidd telur Vinnumálastofnun að ákvörðun um að hefja frekari innheimtuaðgerðir skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi verið rétt. Vinnumálastofnun telur þó rétt að fella niður 15% álag á skuld kæranda enda hafi honum verið tilkynnt 1. mars 2011 á greiðsluseðli stofnunarinnar til hans að skuldin væri 258.881 kr. og hafi þá ekki verið reiknað með 15% álagi. Vinnumálastofnun telji því að rangt hafi verið að bæta álagi á skuld kæranda þegar stofnunin tók þá ákvörðun að innheimta skuldina skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í stað 3. mgr. 39. gr. sömu laga líkt og hafi verið gert meðan kærandi þáði greiðslu atvinnuleysisbóta.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. júní 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 19. júní 2013. Athugasemdir kæranda bárust í bréfi, dags. 25. júní 2013.

Í athugasemdum sínum bendir kærandi á meðfylgjandi læknisvottorð þar sem fram komi að hann hafi ekki verið veikur í tvo mánuði í október og nóvember 2010, heldur nokkra daga þegar hann hafi sótt nám hjá Nýja tölvu- og viðskiptaskólanum á vegum Vinnumálastofnunar. Kærandi bendir á að einnig sé unnt að hafa samband við skólann til að fá upplýsingar um veikindin enda hefði hann ekki getað lokið náminu ef svo hefði verið.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 12. ágúst 2013, tilkynnt að afgreiðsla máls þessa myndi tefjast vegna gríðarlega mikils málafjölda hjá nefndinni.

 


 

2.
Niðurstaða

Mál þetta lýtur að tveimur ákvörðunum Vinnumálastofnunar. Annars vegar ákvörðun sem tilkynnt var kæranda með greiðsluseðli, dags. 1. mars 2011, þess efnis að myndast hefði skuld við stofnunina vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta sem hann yrði að endurgreiða í samræmi við 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og hins vegar ákvörðun sem tilkynnt var kæranda með innheimtubréfi, dags. 29. janúar 2013, um að stofnunin hefði sent fyrrgreinda kröfu í innheimtu. Af hálfu Vinnumálastofnunar hefur komið fram að stofnunin telji að þriggja mánaða kærufrestur vegna fyrri ákvörðunarinnar sé liðinn.

Á greiðsluseðli, dags. 1. mars 2011, kemur eingöngu fram að greiðslur kæranda séu skertar vegna veikinda hans en hvorki eru þar leiðbeiningar til handa kæranda um rétt hans til að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða né veittar upplýsingar um hvaða reglur gildi um kærufrest. Með vísan til þessara atvika málsins og 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, verður fallist á að taka beri kæru þessa til efnislegrar meðferðar í stað þess að vísa henni frá í samræmi við meginreglur um kærufresti, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga og 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Af gögnum málsins er ljóst að kæranda var ekki veittur andmælaréttur, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, áður en hin kærða ákvörðun, dags. 1. mars 2011, var tekin og bera gögn málsins það með sér að rannsókn þess var ábótavant, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Þessir annmarkar eru þess eðlis að úrskurðarnefndin getur ekki lokið málinu með efnislegri niðurstöðu. Hinar kærðu ákvarðanir verða því ómerktar og Vinnumálastofnun gert að taka málið fyrir nýju.


 

 

Úrskurðarorð

Hinar kærðu ákvarðanir í máli Aeru ómerktar og Vinnumálastofnun falið að taka mál hans til meðferðar að nýju.

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta