Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 44/2013.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 15. nóvember 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 43/2013.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 12. febrúar 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum 12. febrúar 2013 fjallað um greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar. Við samkeyrslu Vinnumálastofnunar við nemendaskrá hafi komið í ljós að kærandi væri skráð í nám samhliða því að þiggja greiðslur atvinnuleysisbóta, án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina. Í ljósi þess hafi greiðslum atvinnuleysisbóta til kæranda verið hætt með vísan til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Jafnframt taldi Vinnumálastofnun að kærandi hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá 1. september til 31. desember 2012 að fjárhæð samtals 673.109 með inniföldu 15% álagi sem henni bæri að endurgreiða skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 4. apríl 2012. Kærandi óskar þess að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi sótti síðast um greiðslur atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun 1. apríl 2011.

 

Kæranda var sent bréf frá Vinnumálastofnun 16. janúar 2013 þess efnis að við samkeyrslu atvinnuleysisskrár við nemendaskrár viðurkenndra menntastofnana og skóla á háskólastigi hafi komið í ljós að kærandi væri skráð í nám jafnhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að fyrir lægi námssamningur og að slíkt gengi í berhögg við 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í bréfinu var tekið fram að kærandi uppfylli ekki skilyrði laganna til greiðslu atvinnuleysisbóta og það kynni að leiða til þess að hún myndi missa rétt sinn til þeirra. Kæranda var bent á að hafa samband við ráðgjafa á næstu þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar og jafnframt skila inn staðfestingu á einingafjölda frá viðkomandi skóla. Í skýringabréfi kæranda, dags. 17. janúar 2013, kom fram að hún hafi haldið að það væri í lagi að vera í fjarnámi samhliða því að vera í virkri atvinnuleit og hún hefði gleymt því að óheimilt væri að vera í námi samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur. Mál kæranda var tekið fyrir á fundi Vinnumálastofnunar 12. febrúar 2013 og tekin sú ákvörðun að stöðva greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hún væri skráð í nám jafnhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur skv. 52. gr. laga um atvinnuleysisbætur eins og fram hefur komið. Jafnframt var kærandi krafin um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 1. september til 31. desember 2012 að fjárhæð samtals 673.109 kr. með inniföldu 15% álagi á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laganna.

 

Kærandi óskar þess í kæru að farið verði yfir mál hennar hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Hún sótti um að fara í fjarnám þegar hún var í vinnu sem hún missti þegar fyrirtækið sem hún vann hjá varð gjaldþrota. Ætlun hennar hafi verið sú að vinna með náminu og því hafi hún valið fjarnám. Hún hafi skráð sig á atvinnuleysisbætur í hugsunarleysi þegar hún missti vinnuna og hafi þá verið búin að gleyma því sem fram hafi farið á fundi sem hún hafi sótt meira en ári áður um að hún mætti ekki vera í námi samhliða atvinnuleysisbótum. Við innskráningu á staðfestingu á atvinnuleit hafi ekki verið tekið fram að hún mætti ekki vera í fjarnámi heldur hafi átt að staðfesta að hún væri virk í atvinnuleit, sem hún hafi verið og það geti hún sannað.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 12. júní 2013, er vísað til c-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar varðandi skilgreiningu á hugtakinu „námi“. Fram kemur að mál þetta lúti að 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Það sé ljóst að það sé ekki tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar að tryggja námsmönnum framfærslu á meðan þeir stundi nám. Í athugasemdum við 52. gr. með frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar sé ítrekuð sú meginregla að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum samhliða námi hvort sem um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Auk þessa sé það eitt af almennum skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna að atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Kærandi hafi lagt stund á nám við Háskólann á Akureyri á haustönn 2012. Samkvæmt gögnum frá háskólanum stundaði kærandi 30 ECTS-eininga nám við skólann og sé það nám lánshæft samkvæmt upplýsingum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Háskólanám kæranda hafi numið 30 ECTS-einingum og teldist vera það umfangsmikið að ekki væru fyrir hendi skilyrði til gerðar námssamnings. Það sé því mat Vinnumálastofnunar að meginregla sú sem fram komi í 1. mgr. 52. gr. eigi við um tilvik kæranda. Kærandi taki fram í kæru að hún hafi stundað fjarnám við Háskólann á Akureyri og hún hafi verið í virkri atvinnuleit samhliða því. Þar sem nám kæranda hafi verið lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna og um hafi verið að ræða 30 ECTS-einingar sé ljóst að undanþáguákvæði 2. eða 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi ekki við um nám hennar. Kærandi teljist ekki tryggð samkvæmt lögunum á sama tíma og hún sé skráð í nám.

 

Þá beri kæranda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar fyrir það tímabil sem hún uppfyllti ekki skilyrði laganna. Beri kæranda því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. september til 31. desember 2012 að fjárhæð samtals 673.109 kr. með 15% álagi inniföldu.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. júní 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 1. júlí 2013. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

Í bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða til kæranda, dags. 12. ágúst 2013, var henni tilkynnt að afgreiðsla máls hennar myndi tefjast vegna mikils málafjölda.

 

 

2.

Niðurstaða

 

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, en hún er svohljóðandi:

Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.


 

Þá segir í c-lið 3. gr. laga sömu laga:

Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.

Í athugasemdum við 52. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám.

Ljóst er að meginregla 1. mgr. 52. gr. á við um kæranda, þ.e. hún var skráð í 30 ECTS-eininga nám í Háskólanum á Akureyri á haustönn 2012. Undanþáguheimildir 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna koma til skoðunar þegar nám er ekki lánshæft samkvæmt reglum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þar sem nám kæranda var 30 ECTS-einingar taldist það lánshæft samkvæmt reglum Lánasjóðsins. Undanþáguheimildirnar eiga því ekki við í máli kæranda.

Af framansögðu er ljóst að þar sem nám kæranda var lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna átti hún ekki rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og forsendna Vinnumálastofnunar er hin kærða ákvörðun staðfest.

Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfyllir ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Staðfest er sú ákvörðun að kærandi endurgreiði ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 585.312 kr. auk 15% álags eða samtals 673.109 kr.


 

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 12. febrúar 2013 í máli A um stöðvun á greiðslum atvinnuleysistrygginga er staðfest. Kærandi skal endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 585.312 kr. auk 15% álags eða samtals 673.109 kr.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                       Helgi Áss Grétarsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta