Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 372/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 372/2022

Fimmtudaginn 22. september 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 21. júlí 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. apríl 2022, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar og að innheimta ofgreiddar bætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 8. nóvember 2020 og var umsóknin samþykkt 11. desember 2020. Við reglubundið eftirlit í apríl 2022 kom í ljós að kærandi var skráð í 30 ECTS-eininga nám við Háskóla Íslands á vorönn 2022. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 13. apríl 2022, var óskað eftir að kærandi legði fram skólavottorð og skýringar á því hvers vegna hún hefði ekki upplýst stofnunina um nám sitt. Hvorki skólavottorð né skýringar bárust frá kæranda. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. apríl 2022, var kæranda tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta hefðu verið stöðvaðar með vísan til 52. gr. laga nr. 54/2006 og að henni bæri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. janúar til 31. mars 2022 að fjárhæð 714.540 kr., að meðtöldu álagi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. júlí 2022. Með bréfi, dags. 26. júlí 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 10. ágúst 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. ágúst 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda 25. ágúst 2022 og voru þær kynntar Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. ágúst 2022. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar kemur fram að kærandi fari fram á að endurkrafa Vinnumálastofnunar verði afturkölluð þar sem hún sé með gildan námssamning. Námsvottorð tilgreini að kærandi hafi verið skráð í 30 einingar sem Vinnumálastofnun hafi samþykkt og hún geti sannað. Kærandi óski einnig eftir að fá greiddar atvinnuleysisbætur frá þeim degi er þær hafi verið stöðvaðar og þar til hún hafi farið í fullt starf þann 9. júní. Vegna þessa tekjumissis hafi kærandi safnað skuldum til þess að geta greitt reikninga og keypt nauðsynjar.

Kærandi sé með skírteini frá háskólanum úr upprunalegri umsókn um bætur sem sýni að hún hafi verið að taka 30 einingar og umsókn hennar hafi verið samþykkt. Þegar greiðslur hafi verið stöðvaðar hafi kæranda verið tjáð að það færi gegn samningnum sem hún hafi gert við Vinnumálastofnun árið 2020. Kærandi hafi hins vegar aldrei fengið samninginn sendan til að lesa. Hún hafi einfaldlega fengið tölvupóst um að samningurinn hafi verið undirritaður. Ekki séu heldur neinar upplýsingar á heimasíðu Vinnumálastofnunar um hvenær eða hvort það þyrfti að endurnýja samninginn. Kærandi hafi því ekki haft hugmynd um að það þyrfti að gera samning á hverju ári, sérstaklega þar sem ekkert hafði breyst, hún hafi enn verið skráð í 30 einingar, verið að vinna að ritgerð sinni og ekki að mæta í neina tíma. Kærandi hafi uppfært hlutastarf sitt á síðu Vinnumálastofnunar en fengið litlar leiðbeiningar varðandi skólaþáttinn. Þetta hafi ekki verið viljandi yfirsjón. Þetta og hlutastarfið hafi verið einu tekjur hennar og henni hafi ekki verið sagt fyrr en fimm mánuðum eftir áramót að það væri eitthvað mál. Aðalmálið sé að hún hafi aldrei lesið samninginn og sjái hann ekki á síðu Vinnumálastofnunar. Þá sé hann ekki að finna í tölvupósthólfinu.

Í athugasemdum kæranda er vísað til þess að hún hafi verið fullviss um að hún væri með gildan námssamning við Vinnumálastofnun. Hún hafi uppfyllt allar skyldur aðila með námssamning við Vinnumálastofnun samkvæmt upplýsingum á heimasíðu stofnunarinnar. Henni hafi ekki mátt vera ljóst að hún væri ekki með gildan námssamning og hafi ekki verið upplýst um lokadagsetningu hans. Kæranda hafi ekki verið ljóst að hún gæti endurnýjað námssamninginn vorið 2022 því að Vinnumálastofnun hafi upplýst hana um að hún gæti ekki þegið atvinnuleysisbætur og verið í námi á sama tíma. Kærandi óski eftir því að fá að skila inn skólavottorði fyrir vorönn 2022 og að námssamningur verði endurstaðfestur við hana.

Kærandi bendi á að öll samskipti hennar við Vinnumálastofnun fari fram á lokuðu svæði sem hún hafi aðgang að í gegnum innskráningu á síðu stofnunarinnar. Öllum samskiptum Vinnumálastofnunar við kæranda (og væntanlega allra annarra skjólstæðinga) sé eytt út eftir 10 daga. Það sé ekki undir neinum kringumstæðum hægt að skoða fyrri samskipti kæranda við ráðgjafa stofnunarinnar. Gögn í kærumáli þessu gefi kæranda í fyrsta sinn allar upplýsingar um samskipti hennar við Vinnumálastofnun.

Námssamningur kæranda við Vinnumálastofnunar hafi verið gerður í desember 2020 en hún hafi aldrei fengið afrit af samningnum. Henni hafi ekki verið ljóst að hann hefði lokadagsetningu. Hvergi komi fram í reglum Vinnumálastofnunar að endurnýja þurfi námssamning reglulega.

Í samvinnu við leiðbeinanda og Háskóla Íslands hafi kærandi frestað skilum á lokaritgerð og því hafi skráning hennar sem nemandi hjá Háskóla Íslands haldið áfram frá janúar 2021. Jafnframt hafi kærandi unnið með námi og verið í samskiptum við Vinnumálastofnun um breytingar á starfshlutfalli, bæði þegar starfshlutfall hafi lækkað og hækkað. Einnig hafi kærandi gætt þess að upplýsa Vinnumálastofnun um að hún væri enn skráð í nám og væri enn nemandi. Sú staða myndi haldast áfram þannig. Vinnumálastofnun hafi ekki gert athugasemdir í svari til hennar 23. júní 2021 en hafi veitt upplýsingar um tilhögum starfs og bóta.

Kærandi tekur fram að hún hafi uppfyllt allar skyldur á meðan á námi hennar hafi staðið. Eiginmaður kæranda hafi oft haft samband við ráðgjafa hjá Vinnumálastofnun til að tilkynna stofnuninni að kærandi væri haldin ákveðnum kvíða og gæti ekki svarað símtölum en gæti komið og tekið sama samtal í eigin persónu við ráðgjafa stofnunarinnar. Þessar upplýsingar séu hvergi skráðar í samskiptasöguna. Þrátt fyrir þessar upplýsingar hafi því miður ítrekað verið reynt að hringja í hana yfir tímabilið.

Þegar Vinnumálastofnun hafi sent tölvupóst 7. apríl 2022 vegna erindis um samkeyrslu við Háskóla Íslands hafi ekki staðið á svörum frá kæranda. Hún geti svarað tölvupóstum og mætt í viðtöl en eigi mjög erfitt með að svara í síma. Í svari Vinnumálastofnunar frá 7. apríl 2022 komi fram að málið verði skoðað en svar stofnunarinnar velti á því í hvaða námi hún sé. Kærandi sé enn í sama námi og telji námssamning enn í gildi og vísi í það í sínu svari. Degi síðar fái kærandi í fyrsta sinn skilaboð um að hún geti ekki haldið áfram að vera í námi og verið (að hluta til) á atvinnuleysisbótum. Þremur dögum síðar hafi kærandi spurt hvort hún mætti sækja um atvinnuleysisbætur ef hún væri án vinnu um haustið samhliða því að vera í námi ef hún minnkaði það í 12 einingar og hafi henni verið svarað því til að hún gæti aftur sótt um námssamning varðandi haustönn. Áfram haldi Vinnumálastofnun að biðja um afrit af skólavottorði, þrátt fyrir að hafa synjað henni um námssamning, það er að þiggja hlutfall atvinnuleysisbóta á meðan á námi standi, sbr. tölvupóst ráðgjafa frá 7. apríl 2022.

Það sé mjög furðulegt að sjá samskipti um að námssamningi væri synjað á grundvelli þess að hún hafi ekki skilað inn skólavottorði (dags. 28.4.22). Námssamningi hafi verið synjað 8. apríl 2022 af ráðgjafa stofnunarinnar en einnig hafi kæranda verið tjáð það í símtali 7. apríl 2022. Það sé sjálfsagt mál fyrir kæranda að skila inn skólavottorði um 30 ECTS-eininga meistaranám ef það verði til þess að námssamningur verði endurstaðfestur fyrir vorönn 2022. Í ljósi framangreindra upplýsinga óski kærandi eftir því að fá tækifæri til að skila skólavottorði fyrir vorönn 2022 fyrst það leiði til endurnýjunar á námssamningi, eitthvað sem henni hafi ekki verið ljóst að væri möguleiki miðað við fyrri svör Vinnumálastofnunar.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun með umsókn, dags. 8. nóvember 2020. Á umsókninni hafi kærandi tilgreint að hún væri skráð í nám á haustönn 2020, auk þess að vera skráð í nám á vorönn 2021. Í kjölfarið hafi verið óskað eftir því að kærandi afhenti Vinnumálastofnun staðfest skólavottorð. Þann 23. nóvember 2020 hafi Vinnumálastofnun borist skólavottorð frá Háskóla Íslands. Þar hafi komið fram að kærandi væri skráð nemandi við Háskóla Íslands háskólaárið 2020 til 2021. Kærandi væri skráð í 30 ECTS-eininga lokaverkefni á haustmisseri 2020 en áætlaður skiladagur á umræddu lokaverkefni væri 11. janúar 2021. Kæranda hafi verið sent erindi þann 1. desember 2020 þar sem óskað hafi verið eftir því að hún hefði samband við ráðgjafa á næstu þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar til að athuga hvort hún uppfyllti skilyrði um gerð námssamnings. Í umræddu erindi hafi sérstaklega verið tekið fram að hver sá sem stundi nám væri ekki tryggður á sama tíma, enda væri námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Vinnumálastofnun væri þó í undantekningartilvikum heimilt að gera sérstakan námssamning við atvinnuleitanda að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Kærandi hafi haft samband við ráðgjafa Vinnumálastofnunar og kannað möguleika sína á því að gera námssamning við stofnunina. Erindi kæranda hafi verið svarað þann 2. desember 2020 og henni tilkynnt að gerður hefði verið námssamningur við hana. Með umræddum námssamningi hafi kæranda verið heimilað að stunda 30 ECTS-eininga nám á haustmisseri 2020 á grundvelli 5. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda hafi í kjölfarið verið tilkynnt með erindi, dags. 11. desember 2020, að umsókn hennar hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%.

Við reglubundið eftirlit í apríl 2022 hafi hins vegar komið í ljós að kærandi væri skráð í 30 ECTS-eininga nám við Háskóla Íslands á vorönn 2022. Ráðgjafi stofnunarinnar hafi í kjölfarið haft samband við kæranda til þess að afla upplýsinga um nám hennar ásamt staðfestu skólavottorði. Þann 7. apríl 2022 hafi kærandi greint Vinnumálastofnun frá því að hún væri að bíða eftir því að fá sent vottorð frá háskólanum. Kærandi hafi spurt hvort reglur er vörðuðu nám hefðu breyst þar sem henni hefði verið heimilt að stunda 30-ECTS eininga nám árið 2021. Í kjölfarið hafi kæranda verið greint frá því að hún gæti ekki þegið atvinnuleysisbætur á meðan hún stundaði nám sitt.

Með erindi, dags. 13. apríl 2022, hafi aftur verið óskað eftir því að kærandi skilaði skólavottorði þar sem umfang náms hennar væri tilgreint ásamt skýringum á því hvers vegna hún hafi ekki upplýst Vinnumálastofnun um nám sitt. Kæranda hafi verið veittur sjö virkra daga frestur til að veita stofnuninni umbeðin gögn. Hvorki skólavottorð né skýringar hafi borist frá kæranda innan umrædds frests og því hafi kæranda verið tilkynnt með erindi, dags 28. apríl 2022, að greiðslum atvinnuleysistrygginga til hennar hefði verið hætt með vísan til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Jafnframt hafi kæranda verið greint frá því að í ljósi þess að hún stundaði nám á sama tíma og hún þáði greiðslur atvinnuleysisbóta hefði hún fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. janúar 2022 til 31. mars 2022, samtals 621.339 kr., sem yrðu innheimtar með 15% álagi samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Heildarskuld kæranda við Vinnumálastofnun hafi þá staðið í 714.540 kr.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Í c. lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna eftirfarandi skilgreiningu á námi:

„Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“

Í 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé nánar kveðið á um nám. Í 1. mgr. 52. gr. segi orðrétt: 

„Hver sá sem stundar nám, sbr. c. lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. þó 2., 3. og 4. mgr.“

Af ákvæði 1. mgr. 52. gr. sé ljóst að það sé ekki tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar að tryggja námsmönnum framfærslu á meðan þeir stundi nám. Í athugasemdum með 52. gr. í greinargerð með frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar sé tiltekið að það sé meginregla að námsfólk eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum, hvort sem um sé að ræða fjarnám, dag- eða kvöldskóla. Í 2. mgr. 52. gr. laganna sé þó að finna heimild til handa atvinnuleitendum að stunda nám að hámarki 12-ECTS einingum. Ákvæðið sé svohljóðandi:

„Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á framhaldsskólastigi sem nemur að hámarki 12 einingum eða á háskólastigi sem nemur að hámarki 12 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.“

Eins og rakið hafi verið í málsatvikum liggi fyrir að kærandi hafi skráð sig í og stundað 30 ECTS-eininga nám við Háskóla Íslands á haustönn 2020 á sama tíma og hún hafi þegið greiðslur atvinnuleysistrygginga. Gerður hafi verið námssamningur þar sem henni hafi verið heimilað að stunda 30 ECTS-eininga nám á grundvelli 5. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sem heimili atvinnuleitendum að ljúka yfirstandandi námsönn þegar þeir urðu atvinnulausir. Aftur á móti hafi komið í ljós við reglubundið eftirlit að kærandi stundaði 30 ECTS-eininga nám á vorönn 2022. Ljóst sé með vísan til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að kæranda hafi ekki verið heimilt að stunda umrætt nám samhliða greiðslu atvinnuleysistrygginga, enda sé námið umfangsmikið og auk þess lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Hvorki hafi legið fyrir námssamningur á milli kæranda og Vinnumálastofnunar né hafi kærandi látið Vinnumálastofnun vita af skráningu sinni í nám á vormisseri 2022.

Með vísan til 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé því ljóst að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. janúar 2022 til 31. mars 2022. Í 39. gr. laganna sé fjallað um endurgreiðslu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum. Í 2. mgr. 39. gr. segi orðrétt:

„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“

Samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 39. gr. beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfylli ekki skilyrði laganna. Í athugasemdum með 39. gr. í greinargerð með frumvarpi til laga um atvinnuleysistrygginga sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslunnar hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. sé því fortakslaust að því er varði skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Með vísan til framangreinds beri kæranda að endurgreiða þær atvinnuleysisbætur sem hún hafi fengið greiddar fyrir tímabilið 1. janúar 2022 til 31. mars 2022, samtals 621.339 kr., enda liggi fyrir að hún hafi ekki uppfyllt skilyrði laganna á umræddu tímabili, sbr. 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Heildarskuld kæranda standi í 714.540 kr. og þar af sé álag að fjárhæð 93.201 kr. Eins og kveðið sé á um í lokamálslið 2. mgr. 39. gr. skuli fella niður álagið færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til skuldamyndunar. Skýringar kæranda snúi að því að hún hafi staðið í þeirri trú að henni væri heimilt að stunda umrætt nám. Hvergi hafi hún fundið upplýsingar þess efnis að gera þyrfti námssamninga fyrir hverja önn og þá hafi enginn starfsmaður stofnunarinnar upplýst hana um það. Vinnumálastofnun vísi til þess að á heimasíðu stofnunarinnar sé skýrt tekið fram að almennt sé óheimilt að stunda nám samhliða greiðslu atvinnuleysistrygginga en þó sé heimilt að stunda allt að 12 ECTS-eininga nám á hverri námsönn. Að auki sé að finna á heimasíðu stofnunarinnar upplýsingar um skyldu atvinnuleitanda til að tilkynna breytingar á högum, þar á meðal um þátttöku í námi. Með vísan til framangreindra upplýsinga sé það mat Vinnumálastofnunar að kæranda hljóti að hafa verið ljóst að ávallt þyrfti að tilkynna stofnuninni ef nám væri stundað á tiltekinni námsönn og að gera þyrfti nýjan námssamning. Að auki hafi nám kæranda verið umfangsmikið, eða 30 ECTS-einingar, en sú staðreynd hljóti að hafa gefið kæranda tilefni til að kanna rétt sinn til þess að stunda umrætt nám samhliða greiðslu atvinnuleysistrygginga. Máli sínu til stuðnings vísi Vinnumálastofnun jafnframt til þess að það sé á ábyrgð þess er fái greiddar atvinnuleysisbætur að tryggja að Vinnumálstofnun berist nauðsynlegar upplýsingar er geti haft áhrif á rétt hans til greiðslu atvinnuleysistrygginga. Með vísan til framangreinds beri kæranda því að greiða umrædda skuld, auk álags, enda hafi kærandi að mati Vinnumálastofnunar ekki fært rök fyrir því að fella eigi niður álag á skuld hennar.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði greiðslu atvinnuleysistrygginga á tímabilinu 1. janúar 2022 til 31. mars 2022, sbr. 1. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kæranda beri því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, auk álags, samtals 714.540 kr., sbr. 2. mgr. 39. gr. laganna.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda og að innheimta ofgreiddar bætur.

Í IX. kafla laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um tilvik er leiða til takmörkunar á atvinnuleysistryggingum. Í 52. gr. laganna er fjallað um nám en þar segir:

„Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. þó 2., 3. og 4. mgr.

Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á framhaldsskólastigi sem nemur að hámarki 12 einingum eða á háskólastigi sem nemur að hámarki 12 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.

Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er Vinnumálastofnun heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá er stundar nám á framhaldsskólastigi sem nemur allt að 20 einingum eða á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Skilyrði er að námið kunni að nýtast hinum tryggða beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og skal hinn tryggði leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Hinn tryggði á þá rétt til skertra atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil og skal Vinnumálastofnun meta skerðinguna á tryggingahlutfalli sem hann á rétt til skv. 15. eða 19. gr. í samræmi við umfang námsins.

Þrátt fyrir 1.–3. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám sem er skipulagt samhliða vinnu af viðkomandi menntastofnun og er ekki lánshæft til framfærslu hjá Menntasjóði námsmanna án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga, enda hindri námið hvorki virka atvinnuleit viðkomandi né möguleika hans til þátttöku á vinnumarkaði. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um skipulag námsins.

Þrátt fyrir 1.–4. mgr. skal hinum tryggða ávallt heimilt að ljúka þeirri önn sem er yfirstandandi við starfslok hans eða þegar hann missir starf sitt að hluta, sbr. 17. gr., án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga.“

Í c-lið 3. gr. laganna er að finna skilgreiningu á námi samkvæmt lögunum en þar segir:

„Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“

Í athugasemdum við ákvæði 52. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Þá kemur fram að það kunni að vera að nám sé nauðsynlegur hluti af starfshæfingu atvinnuleitanda að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar, en í slíkum tilvikum geti atvinnuleitandi talist tryggður samhliða námi.

Þegar sótt er um atvinnuleysisbætur er umsækjandi spurður hvort hann sé skráður í nám á umsóknardegi. Upplýst er að almennt sé ekki heimilt að vera í námi samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta. Þó séu undantekningar á þeirri meginreglu. Tekið er fram að það sé því mjög mikilvægt að hafa samband sem fyrst við ráðgjafa Vinnumálastofnunar til að kanna hvort viðkomandi eigi rétt á námssamningi.

Í kjölfar umsóknar kæranda um atvinnuleysisbætur í nóvember 2020 hafði hún samband við Vinnumálastofnun til að kanna möguleika sína á því að gera námssamning við stofnunina. Kærandi lagði fram vottorð frá Háskóla Íslands, dags. 23. nóvember 2020, þar sem fram kom að hún væri skráð nemandi við skólann háskólaárið 2020 til 2021. Kærandi væri skráð í 30 ECTS-eininga lokaverkefni á haustmisseri 2020 en áætlaður skiladagur á umræddu lokaverkefni væri 11. janúar 2021. Þann 2. desember 2020 var kæranda tilkynnt að gerður hefði verið námssamningur við hana og daginn eftir var henni tjáð að ekki væri þörf á að skrifa undir samninginn. Vinnumálastofnun hefur vísað til þess að með umræddum námssamningi hafi kæranda verið heimilað að stunda 30 ECTS-eininga nám á haustmisseri 2020 á grundvelli 5. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006, þ.e. að hún mætti ljúka yfirstandandi önn.

Úrskurðarnefndin telur ástæðu til að gera athugasemd við að Vinnumálastofnun hafi ekki upplýst kæranda með skýrum hætti á hvaða grundvelli framangreindur námssamningur hafi verið samþykktur og um tímamörk hans.

Við reglubundið eftirlit í apríl 2022 kom í ljós að kærandi var skráð í 30 ECTS-eininga nám við Háskóla Íslands á vorönn 2022 samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun. Kærandi hefur meðal annars vísað til þess að hún hafi talið sig vera með gildan námssamning til að stunda 30 eininga nám. Hún hafi ekki haft vitneskju um að gera þyrfti samning á hverju ári.

Þann 11. nóvember 2020 var kæranda tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði móttekið umsókn hennar um atvinnuleysisbætur. Kæranda var greint frá því að upplýsingar um réttindi hennar og skyldur væri að finna á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Þá var kæranda bent á að hún þyrfti að láta Vinnumálastofnun vita um allar breytingar á hennar aðstæðum sem gætu haft áhrif á rétt hennar til atvinnuleysisbóta. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin að kærandi hefði mátt vita að henni bæri að tilkynna Vinnumálastofnun sérstaklega um nám sitt á vorönn 2022. Það að kærandi hafi greint ráðgjafa Vinnumálastofnunar frá því í júní 2021 að hún yrði enn námsmaður í ágúst það ár er að mati úrskurðarnefndarinnar ekki fullnægjandi tilkynning. Þó er ástæða til að gera athugasemd við að ekki hafi verið brugðist við þeim upplýsingum af hálfu Vinnumálastofnunar.

Fyrir liggur að nám kæranda var ekki hluti af vinnumarkaðsaðgerð samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Ljóst er að meginregla 1. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 átti við um kæranda, þ.e. hún stundaði nám í skilningi laganna. Úrskurðarnefndin bendir á að undanþáguheimildir 2., 3. og 4. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 eiga ekki við í máli kæranda þar sem hún var skráð í nám umfram 12 einingar, enginn námssamningur lá fyrir og nám hennar var ekki skipulagt samhliða vinnu. Að því virtu uppfyllti kærandi ekki skilyrði þess að vera tryggð samkvæmt lögunum á þeim tíma sem hún var í náminu og átti því ekki rétt á greiðslum frá Vinnumálastofnun á tímabilinu 1. janúar 2022 til 31. mars 2022.

Í 39. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann hafi átt rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:

„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.

Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“

Samkvæmt framangreindu er ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur fyrir tímabil sem skilyrði laganna er ekki uppfyllt. Aftur á móti skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Þar sem kærandi tilkynnti Vinnumálastofnun ekki um nám sitt á vorönn 2022 er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki sé tilefni til að fella niður álagið sem lagt var á endurgreiðslukröfuna. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. apríl 2022, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til A, og að innheimta ofgreiddar bætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta