Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 78/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 78/2024

Mánudaginn 29. apríl 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 14. febrúar 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. febrúar 2024, um að fella niður rétt hennar til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 4. október 2023 og var umsóknin samþykkt 19. október 2023. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. febrúar 2024, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hennar væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar þar sem hún hefði ekki mætt á boðaðan fund hjá stofnuninni. Mál kæranda var tekið fyrir að nýju hjá Vinnumálastofnun eftir að kærandi sendi skýringar 12. febrúar 2024. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 13. febrúar 2024, var fyrri ákvörðun staðfest með þeim rökum að sú ákvörðun hefði að geyma efnislega rétta niðurstöðu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 14. febrúar 2024. Með bréfi, dags. 15. febrúar 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 20. mars 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. mars 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að hafa fengið skilaboð 1. febrúar 2024 um viðtalsboðun hjá Vinnumálastofnun 2. febrúar 2024. Því miður tali hún ekki íslensku og einungis takmarkaða ensku og því þýði internetvafri hennar allar vefsíður sjálfkrafa sem séu á öðru tungumáli en pólsku. Þann 6. febrúar 2024 hafi hún fengið skilaboð frá Vinnumálastofnun um hún hefði ekki mætt í viðtal hjá stofnuninni. Það hafi ekki verið henni að kenna heldur hafi það verið vegna þýðingar vafrans á pólsku sem hafi við það breytt dagsetningunni úr 2. febrúar í 24. febrúar. Meðfylgjandi skjáskot sýni greiðslu á Íslandi 2. febrúar sem staðfesti að hún hafi verið á landinu þann dag. Hún hafi sent Vinnumálastofnun skýringar sem hafi ekki verið metnar gildar þrátt fyrir að tveir starfsmenn stofnunarinnar hafi fullvissað hana um að það ættu ekki að vera nein vandamál með skýringar hennar og að hún ætti ekki að sæta viðurlögum. Einn starfsmaður stofnunarinnar sem hún hafi talað við hafi sagt henni að hún ætti að geta fengið afskráningu bóta þessa daga og myndi því ekki þurfa að sæta viðurlögum. Annar starfsmaður hafi þó sagt að það þyrfti ekki að afskrá hana af bótum heldur gæti hún sent inn skýringar og mál hennar yrði endurskoðað þar sem þetta hafi ekki verið hennar sök. Skýringar hennar hafi hins vegar ekki verið metnar gildar. Hún hafi þá sent Vinnumálastofnun annan tölvupóst þar sem hún óskaði frekari skýringa, þar sem tveir starfsmenn hafi sagt henni að hún myndi ekki þurfa að sæta viðurlögum. Stofnunin hafi staðfest fyrri ákvörðun og bótaréttur hennar felldur niður í tvo mánuði.

Kærandi óski endurskoðunar á ákvörðun Vinnumálastofnunar þar sem hún telji þetta ekki vera sína sök. Enginn myndi búast við því að þýðing á vefsíðu myndi breyta dagsetningum. Hún muni auðvitað framvegis skoða dagsetningar á ensku og íslensku svo þetta vandamál endurtaki sig ekki.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 4. október 2023. Með erindi, dags. 19. október 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%.

Með erindi, dags. 1. febrúar 2024, hafi kærandi verið boðuð til viðtals hjá ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Viðtalið hafi átt að fara fram 2. febrúar 2024, klukkan 09:50. Athygli kæranda hafi verið vakin á því að um skyldmætingu væri að ræða og að ótilkynnt forföll og forföll án gildra ástæðna gætu valdið stöðvun greiðslu atvinnuleysisbóta. Umrædd boðun hafi verið send þann 1. febrúar 2024, klukkan 09:18 á „Mínar síður“ kæranda, með tilkynningu á uppgefið netfang hennar og með smáskilaboðum í farsímanúmer hennar.

Kærandi hafi hvorki mætt til boðaðs viðtals né boðað forföll. Með erindi, dags. 6. febrúar 2024, hafi kærandi verið innt eftir skýringum á fjarveru sinni í boðað viðtal og þar sem grunur hafi leikið á að hún væri ekki stödd á Íslandi hafi hún verið beðin, samhliða skýringum, að senda inn gögn sem hafi sýnt brottfarardag og heimkomu vegna ferðalaga erlendis. Kæranda hafi verið greint frá því að ef hún hefði hafnað þátttöku í vinnumarkaðsúrræði kynni það að leiða til viðurlaga í formi biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta. Kæranda hafi verið veittur sjö virkra daga frestur til að koma að skýringum sínum.

Kærandi hafi komið ásamt túlki á þjónustuskrifstofu stofnunarinnar þann 6. febrúar og greint frá því að hún skildi hvorki ensku né íslensku og að þýðingarforrit í síma hennar hefði sýnt aðra dagsetningu en boðunin hafi átt við um. Þá hafi borist skýringarbréf þess efnis frá kæranda, dags 8. febrúar 2024.

Kæranda hafi með erindi, dags 12. febrúar 2024, verið tilkynnt um ákvörðun Vinnumálastofnunar að fresta greiðslum atvinnuleysisbóta til hennar í tvo mánuði vegna þess að hún hefði ekki sinnt viðtalsboðun, dags. 2. febrúar 2024. Ákvörðun þess hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Þann 12. febrúar 2024 hafi Vinnumálastofnun borist frekari skýringar kæranda. Þær hafi verið samhljóða því sem fram hafi komið áður. Kærandi hafi greint frá því að hafa notað þýðingarforrit og hafi þýðingarforritið breytt dagsetningu viðtals í 24. febrúar en ekki 2. febrúar eins og upphafleg skilaboð hafi borið með sér. Vakin sé athygli á því að 24. febrúar 2024 sé laugardagur.

Mál kæranda hafi verið tekið til endurumfjöllunar með tilliti til nýrra gagna. Það hafi verið mat stofnunarinnar að skýringar kæranda á fjarveru sinni gætu ekki talist gildar og hafi fyrri ákvörðun verið staðfest og tilkynnt með erindi, dags. 13. febrúar 2024.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Á meðal skilyrða fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta sé að viðkomandi sé í virkri atvinnuleit, sbr. a. lið 1. mgr. 13. gr. Samkvæmt [h-lið] 1. mgr. 14. gr. felist virk atvinnuleit meðal annars í því að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum er standi til boða. Í 13. gr. laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsaðgerðir komi einnig fram skylda þess sem teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum sem Vinnumálastofnun ákveði. Ákvæði 13. gr. sé svohljóðandi:

„Atvinnuleitandi skal fylgja eftir áætlun um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum skv. 11. gr. og gera það sem í hans valdi stendur til að bæta vinnufærni sína til þess að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Þar á meðal skal atvinnuleitandi ávallt mæta í viðtöl til ráðgjafa Vinnumálastofnunar skv. 14. gr. og taka þátt í þeim vinnumarkaðsúrræðum er standa honum til boða. Atvinnuleitandi skal jafnframt tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar.“

Þá sé í 1. mgr. 14. gr. laga um vinnumarkaðsúrræði kveðið á um að ráðgjafar Vinnumálastofnunar skuli hafa eftirlit með því að atvinnuleitendur fylgi eftir áætlun um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum. Ráðgjafar stofnunarinnar skuli boða atvinnuleitendur reglulega í viðtöl eftir þörfum hvers og eins atvinnuleitanda.

Á grundvelli 7. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri atvinnuleitendum að hafa reglulegt samband við Vinnumálastofnun eftir nánara fyrirkomulagi sem stofnunin ákveði. Í tilfelli kæranda hafi hún verið boðuð til viðtals hjá stofnuninni, en samkvæmt 3. mgr. 13. gr. laganna sé Vinnumálastofnun heimilt að boða atvinnuleitendur til stofnunarinnar með sannanlegum hætti, meðal annars til að kanna hvort breytingar hafi orðið á högum þeirra sem kunni að hafa áhrif á rétt þeirra til greiðslu atvinnuleysitrygginga. Atvinnuleitendur skuli vera reiðubúnir að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara. Ákvæði 3. mgr. 13. gr. komi inn í lög um atvinnuleysitryggingar með 4. gr. laga nr. 134/2009, en í athugasemdum með 4. gr. segi að gert sé ráð fyrir að stofnunin geti boðað atvinnuleitanda með allt að sólarhringsfyrirvara á þá skrifstofu sína sem næst sé lögheimili viðkomandi.

Fyrir liggi að kærandi hafi ekki mætt til viðtals á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar 2. febrúar 2024. Áður hafi kærandi fengið sendar tilkynningu í tölvupósti, farsíma og á ,,Mínum síðum“ um boðun í umrætt viðtal. Á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi kæranda verið gert að sæta viðurlögum vegna þessa. Ákvæðið sé svohljóðandi:

„Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma skv. 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr.“

Í 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Hið sama gildi þegar hinn tryggði mæti ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma. Í greinargerð með frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé efni 58. gr. laganna nánar skýrt. Þar segi að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og að litið sé svo á að þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Þá sé jafnframt tekið fram í greinargerðinni að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Af framangreindum lagaákvæðum sé ljóst að heimildir Vinnumálastofnunar til að boða til sín atvinnuleitendur, og sömuleiðis skyldur atvinnuleitenda til að verða við slíkri boðun, séu ríkar. Þá sé það fortakslaust skilyrði svo unnt sé að aðstoða atvinnuleitendur við að fá starf við hæfi og gefa þeim kost á þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsaðgerðum að atvinnuleitendur sinni þeim boðunum sem þeim séu send. Í skilmálum sem umsækjendur um atvinnuleysisbætur samþykki þegar þeir sæki um greiðslur atvinnuleysisbóta, komi fram að viðkomandi sé upplýstur um að honum sé skylt að mæta í viðtöl, fundi, námskeið og önnur úrræði sem Vinnumálastofnun boði hann til.

Skýringar kæranda á ástæðum þess að hún hafi ekki mætt til boðaðs viðtals lúti að því að hún hafi fyrir tilstuðlan þýðingarforrits í vafra lesið ranga dagsetningu út úr boðuninni. Að mati Vinnumálastofnunar geti framangreindar skýringar kæranda ekki talist gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi valið að vera í rafrænum samskiptum við Vinnumálastofnun þegar hún hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta. Þegar umsókn kæranda hafi verið samþykkt hafi henni verið tilkynnt að Vinnumálastofnun myndi framvegis koma skilaboðum til hennar með tölvupósti, skilaboðum inn á ,,Mínum síðum“ eða með smáskilaboðum. Kærandi hafi því verið upplýst með fullnægjandi hætti um hvernig henni yrðu send mikilvæg skilaboð og tilkynningar. Boðun til umrædds fundar hafi því borist kæranda með sannanlegum hætti, sbr. lokamálslið 7. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Gera verði þær kröfur til atvinnuleitenda að þeir kynni sér vel efni þeirra tilkynninga og boðana sem stofnunin sendi þeim og bregðist við þeim á tilhlýðilegan hátt. Það að ætla þýðingarforriti að hafa víxlað dagsetningum sé að mati stofnunarinnar ekki gild skýring, einkum og sér í lagi ef haft sé í huga að sá dagur sem kærandi segi þýðingu forritsins hafa skilað sér beri upp á helgi.

Í ljósi alls framangreinds og þeirrar ríku skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 13. gr. laga um vinnumarkaðsúrræði, 7. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og 3. mgr. 13. gr. sömu laga. Með því að hafa ekki mætt í umrætt viðtal án gildra ástæðna hafi kærandi hafnað þátttöku í vinnumarkaðsúrræði og beri því að sæta tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta, sbr. 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 58. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því ef þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað. Segir þar í 1. mgr. að sá sem hafni þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í að minnsta kosti fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur, skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla laganna fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildi þegar hinn tryggði mæti ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma samkvæmt 6. mgr. 9. gr., nú 7. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr. laganna.

Í athugasemdum greinargerðar við frumvarp það er varð að lögum nr. 134/2009, um breytingu á lögum nr. 54/2006, segir meðal annars um viðurlög við því að virða ekki boðun Vinnumálastofnunar:

„Í ljósi þess að mikilvægt er að Vinnumálastofnun geti haldið reglulegu sambandi við þá sem fá greiddar atvinnuleysisbætur, ekki síst til að geta fylgst með gangi atvinnuleitar og hvort stofnunin þurfi að koma að frekari stuðningi við viðkomandi, er lagt til að það kunni að varða viðurlögum á grundvelli laganna í þeim tilvikum er atvinnuleitendur virða ekki boðun stofnunarinnar skv. 1. gr. frumvarps þessa. Á þetta ekki síst við þegar fá störf eru í boði og auknar líkur eru á að atvinnuleitin dragist á langinn. Jafnframt er lagt til að sama gildi þegar atvinnuleitendur eru boðaðir til stofnunarinnar í því skyni að kanna hvort sá hinn sami uppfylli enn skilyrði laganna, sbr. 4. og 6. gr. frumvarps þessa. Er því gert ráð fyrir að sömu viðurlög komi til og eiga við þegar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað.“

Í 7. mgr. 9. gr. kemur fram að sá sem telst tryggður á grundvelli laganna skuli eftir að umsókn hans hafi verið samþykkt og á þeim tíma sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum hafa reglulegt samband við Vinnumálastofnun eftir nánara fyrirkomulagi sem stofnunin ákveði. Þegar Vinnumálastofnun upplýsi umsækjanda um að stofnunin hafi samþykkt umsókn um atvinnuleysisbætur skuli hún jafnframt upplýsa hlutaðeigandi um með hvaða hætti stofnunin muni koma upplýsingum eða öðrum boðum til hans meðan á atvinnuleit hans standi. Komi Vinnumálastofnun upplýsingum eða boðum til umsækjanda með þeim hætti sem stofnunin hafi tiltekið við hlutaðeigandi teljast upplýsingarnar eða boðin hafa borist með sannanlegum hætti.

Þá segir í 3. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 að Vinnumálastofnun sé heimilt að boða þann tryggða til stofnunarinnar með sannanlegum hætti á þeim tíma sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum, meðal annars til að kanna hvort breytingar hafi orðið á högum hans sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum. Hinn tryggði skuli þá vera reiðubúinn að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara.

Í gögnum málsins liggur fyrir að kærandi var þann 1. febrúar 2024 boðuð í viðtal hjá Vinnumálastofnun sem fara átti fram á þjónustuskrifstofu stofnunarinnar í Reykjavík daginn eftir, þann 2. febrúar 2024. Kæranda var greint frá því að um skyldumætingu væri að ræða og að öll forföll bæri að tilkynna án ástæðulausrar tafar. Jafnframt var athygli kæranda vakin á því að ótilkynnt forföll gætu valdið stöðvun greiðslna eftir viðeigandi ákvæðum laganna. Þá var kærandi hvött til að hafa samband við stofnunina ef eitthvað væri óljóst eða ef hún vildi frekari upplýsingar. Kærandi hvorki boðaði forföll né mætti í viðtalið.

Kærandi hefur gefið þær skýringar að hún hafi fengið skilaboð frá Vinnumálastofnun 1. febrúar 2024 sem hún hafi lesið í pólskri þýðingu í internetvafra sökum þess að hún tali ekki íslensku og takmarkaða ensku. Í skilaboðum Vinnumálastofnunar í pólskri þýðingu hafi komið fram að hún væri boðuð til viðtals hjá stofnuninni 24. febrúar 2024. Kærandi telji að með því að hafa valið pólska þýðingu skilaboðanna hafi dagsetningin breyst úr 2. febrúar í 24. febrúar.

Framangreind boðun var send kæranda á ensku með sannanlegum hætti, þ.e. með tölvupósti sem hún hafði skráð hjá Vinnumálastofnun, smáskilaboðum í farsíma og skilaboðum á „Mínar síður“. Í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 kemur skýrt fram að sá sem hafni þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli sæta viðurlögum á grundvelli ákvæðisins og hið sama gildi þegar hinn tryggði mæti ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hefur kærandi ekki fært fram viðunandi skýringar sem réttlæta fjarveru í boðað viðtal hjá Vinnumálastofnun.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006, staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. febrúar 2024, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum