Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 36/2013.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 10. desember 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 36/2013.

 

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 8. janúar 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að hann hafi verið á E-303 vottorðinu samhliða atvinnuleysisbótum á tímabilinu 5. júní til 5. september 2012. Hafi hann fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 436.772 kr., sem verði innheimtar samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006, þar sem hann hafi bæði fengið atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun og atvinnuleysismálastofnun í Englandi. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 5. apríl 2013. Hann telur sig ekki hafa fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur og bendir á að þær komi ekki fram á bankayfirliti hans. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 6. júlí 2011. Hann sótti um leyfi til að fara erlendis í atvinnuleit og fór 5. júní 2012 til Englands í því skyni. Samkvæmt E-303 vottorði útgefnu af Vinnumálastofnun var kæranda veitt heimild til að vera í atvinnuleit erlendis til 4. september 2012 samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun barst síðan tölvupóstur frá kæranda 5. nóvember 2012 þar sem hann greindi frá því að hann hefði fengið vinnu erlendis og því mætti skrá hann af atvinnuleysisskrá.

 

Samkvæmt gögnum þessa máls fékk kærandi greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun á tímabilinu 5. júní til 5. september 2012 samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur frá atvinnuleysismálastofnun í Englandi. Með bréfi Vinnumálastofnunar dags. 3. desember 2012 var kæranda tilkynnt að hann hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 5. júní til 19. september 2012 sem innheimtar yrðu samkvæmt 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Bréfið var endursent.

 

Á fundi Vinnumálastofnunar 3. janúar 2013 var tekin sú ákvörðun að kæranda hafi verið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 5. júní til 5. september 2012 samtals að fjárhæð 436.772 sem yrðu innheimtar skv. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Var kæranda tilkynnt ákvörðunin með bréfi dags. 8. janúar 2013. Stofnuninni barst tölvupóstur frá kæranda þar sem hann óskaði eftir útskýringum á framangreindri ákvörðun stofnunarinnar og með öðrum tölvupósti kæranda 24. janúar 2013 mótmælti hann endurgreiðslukröfunni. Mótmælin voru túlkuð sem beiðni um endurupptöku skv. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með bréfi, dags. 7. febrúar 2013, var beiðni kæranda um endurupptöku málsins synjað.

 

Af hálfu kæranda kemur fram að hann hafi ekki fengið tvígreiddar atvinnuleysisbætur. Hann sendi úrskurðarnefndinni yfirlit frá íslenskum og breskum banka sem hann kvað sýna allar fjárhæðir sem komið hafi inn á reikningana hans á umræddu tímabili. Þar sem framangreind gögn virtust stangast á við upplýsingar sem fram koma í gögnum þessa máls óskaði úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða frekari gagna hjá Vinnumálastofnun. Úrskurðarnefndinni voru send frekari gögn með tölvupósti 4. nóvember 2013. Tölvupósturinn og gögnin voru framsend kæranda með tölvupósti 4. nóvember 2013 og honum gefinn kostur á að tjá sig frekar um málið fyrir 18. nóvember 2013 ef hann óskaði þess. Kærandi staðfesti móttöku gagnanna en tjáði sig ekki frekar.

 

Í gögnunum sem úrskurðarnefndinni bárust frá Vinnumálastofnun er í fyrsta lagi E-303/4 vottorð sem er að sögn Vinnumálastofnunar uppgjör á tímabili. Þar kemur fram að kærandi hafi fengið greiddar bætur í Englandi að upphæð 1889.16 pund fyrir tímabilið 5. júní til 15. ágúst 2012. Þá liggur fyrir tölvupóstur frá Suzanne Wilson, starfsmanni hjá Pension Service þar sem fram kemur að kærandi fékk greiddar bætur þaðan, fyrir tímabilið 5. júní til 15. ágúst 2012 að upphæð 1889.16 pund. Loks liggur fyrir reikningur frá Pension service þar sem tilgreint er að kærandi hafi fengið 1889.6 pund.

 

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 12. júní 2013, kemur fram að með reglugerð nr. 442/2012 um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar sem tekið hafi gildi 1. júní 2012 hafi reglugerð Evrópusambandsins nr. 883/2004 verið birt. Með birtingu þeirrar reglugerðar Evrópusambandsins hafi fyrirkomulag greiðslna atvinnuleysisbóta til íslenskra atvinnuleitenda er fara í atvinnuleit á grundvelli VIII. kafla laga um atvinnuleysistryggingar breyst. Fyrir breytinguna hafi Vinnumálastofnun ætíð gefið út svokallað E-303 vottorð til handa atvinnuleitanda er óskaði eftir heimild til atvinnuleitar í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. Í stað E-303 vottorðsins sé nú gefið út svokallað U-2 vottorð og Vinnumálastofnun skuli greiða atvinnuleitendum atvinnuleysisbætur er fara í atvinnuleit með U-2 vottorð í stað þess að sambærileg stofnun í því ríki þar sem atvinnuleit fari fram greiði viðkomandi atvinnuleysisbætur sem Vinnumálastofnun endurgreiði.

 

Innleiðingarferli þessara breytinga hafi verið tímafrekt hjá Vinnumálastofnun og hafi kærandi fengið útgefið E-303 vottorð i stað U-2 vottorðs. Kærandi hafi með réttu fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá atvinnuleysismálastofnuninni í Englandi en vegna mistaka hafi kærandi einnig fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun á meðan atvinnuleit hans í Englandi hafi staðið, eða tímabilið 5. júní til 4. september 2012. Kærandi hafi því fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá bæði Íslandi og Englandi. Á þriðju blaðsíðu E-303 vottorðsins sem kærandi hafi fengið útgefið fyrir brottför megi sjá fjárhæðina sem atvinnuleysismálastofnunin í Englandi hafi greitt kæranda á tímabilinu. Vinnumálastofnun endurgreiðir þá upphæð til systurstofnunar sinnar í Englandi og hafi Atvinnuleysistryggingasjóður því greitt tvöfaldar atvinnuleysisbætur til kæranda á umræddu tímabili.

 

Í samræmi við 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri kæranda að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur, en sú innheimta sé byggð á 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt ákvæðinu sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og innheimta þær atvinnuleysisbætur sem ofgreiddar hafi verið. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum þeim tilvikum þegar atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Hver sé ástæða þess að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi m.ö.o. ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. júní 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 1. júlí 2013. Kærandi sendi athugasemdir og frekari gögn eins og rakið hefur verið.

 

Með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða til kæranda, dags. 12. ágúst 2013, var honum tilkynnt um fyrirsjáanlega töf við afgreiðslu málsins vegna mikils málafjölda.

 

 

2.

Niðurstaða

 

Kærandi var í atvinnuleit í Englandi frá 5. júní til 4. september 2012. Vegna mistaka Vinnumálastofnunar fékk hann greiddar atvinnuleysisbætur bæði frá Vinnumálastofnun og frá sambærilegri stofnun í Englandi á þessu tímabili. Kærandi hefur mótmælt því að hafa jafnframt fengið atvinnuleysisbætur frá atvinnuleysismálastofnun í Englandi en gögn sem liggja fyrir í málinu bera augljóslega með sér að svo hafi verið og hefur kæranda ekki tekist að færa sönnur á að það sé ekki rétt eins og fram hefur komið og gögn málsins bera með sér. Kærandi fékk þannig greitt fyrir tímabilið 5. júní til 15. ágúst 2012 frá atvinnuleysismálastofnun í Englandi 1889.16 £ auk greiðslna atvinnuleysisbóta frá Vinnumálastofnun.  

 

Í samræmi við 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum ber kæranda að endurgreiða Vinnumálastofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur, en þar segir í 2. mgr.:

 

„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“

 

Í greinargerð með ákvæðinu er áréttað að Vinnumálastofnun hafi heimildir samkvæmt því til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta. Sérstaklega er tekið fram að það eigi við í öllum tilvikum sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið hærri greiðslur en honum bar. Ekki skipti máli hver ástæða þess er að hinn tryggði hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Með vísan til þessa eru engin rök til þess að fella niður skyldu kæranda til endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta. Kæranda ber því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 5. júní til 5. september 2012 samtals að fjárhæð 436.772.

 

 

 

 

 

 


 

 

 

 

Úr­skurðar­orð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 3. janúar 2012 í máli A er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                 Helgi Áss Grétarsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta