Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 453/2024-Endurupptaka

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 453/2024

Fimmtudaginn 14. nóvember 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 22. september 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 10. september 2024, um að synja beiðni hans um endurupptöku máls.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 18. febrúar 2020. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 24. mars 2020, var umsókn hans samþykkt en bótaréttur felldur niður í tvo mánuði með vísan til starfsloka hjá fyrrum vinnuveitanda. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. janúar 2022, var kæranda tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta hefðu verið stöðvaðar með vísan til 52. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar þar sem hann hefði stundað nám á sama tíma og hann þáði greiðslur atvinnuleysisbóta. Þá var kæranda tilkynnt að hann hefði hann fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. september til 31. desember 2021, að fjárhæð 457.268 kr., sem yrðu innheimtar samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laganna. Í kjölfar skýringa kæranda var mál hans tekið fyrir að nýju. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 20. janúar 2022, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun væri staðfest. Í júlí 2024 fór kærandi fram á endurupptöku málsins og með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 10. september 2024, var þeirri beiðni synjað.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 22. september 2024. Með bréfi, dags. 25. september 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 28. október 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. október 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að hafa þegið atvinnuleysisbætur á tímum kórónuveirufaraldursins og ætlað að hefja nám við Háskóla Íslands. Kærandi hafi skráð sig í nám en ekki stundað það og aldrei mætt. Tveimur árum síðar hafi kærandi fengið innheimtu í heimabanka sínum frá Vinnumálastofnun að fjárhæð um það bil 270.000 kr. Kærandi eigi að endurgreiða stofnuninni atvinnuleysisbætur sem hann hafi fengið þegar hann hafi tæknilega séð verið skráður í nám en hann hafi aldrei stundað það. Einnig hafi komið í ljós að Vinnumálastofnun hafi tekið hlutfall af atvinnuleysisbótum kæranda á meðan hann hafi verið skráður í nám.

Kærandi telji sanngjarnt að umrædd innheimta verði felld niður og að Vinnumálastofnun endurgreiði kæranda þá fjárhæð sem hann hafi verið rukkaður um á þeim tíma sem hann hafi verið skráður í nám þar sem hann hafi ekki stundað það. Ef kærandi hefði áttað sig á þessum afleiðingum hefði hann skráð sig formlega úr náminu um leið.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysistryggingar þann 18. febrúar 2020. Með bréfi, dags. 12. mars 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið frestað og óskað hafi verið eftir skýringum hans á starfslokum hjá B. Þann 24. mars 2020 hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 52%. Þá hafi kæranda verið gert að sæta tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslum á grundvelli 1. mgr. 54 gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Nokkru síðar, eða þann 18. nóvember 2021, hafi kæranda verið gert að sæta þriggja mánaða viðurlögum á grundvelli 58. gr. þar sem hann hefði ekki uppfyllt mætingarskyldu á námskeið í byrjun nóvember 2021.

Við reglubundið eftirlit hafi komið í ljós að kærandi hafi verið skráður í 30 eininga nám á haustönn 2021 við Háskóla Íslands, samhliða því að þiggja greiðslur atvinnuleysistrygginga. Þá hafi enginn námssamningur legið fyrir á milli kæranda og Vinnumálastofnunar. Með erindi, dags. 8. desember 2021, hafi verið óskað eftir því að kærandi skilaði skólavottorði þar sem umfang náms hans væri tilgreint ásamt skýringum á því hvers vegna hann hefði ekki upplýst Vinnumálastofnun um nám sitt. Kæranda hafi verið veittur sjö virkra daga frestur til að veita stofnuninni umbeðin gögn. Sama dag, þann 8. desember 2021, hafi Vinnumálastofnun borist skýringar kæranda. Kærandi hafi kveðist hafa verið skráður í nám haustið 2021 en hætt við og ekki stundað það.

Með erindi, dags. 5. janúar 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að þar sem hann hefði stundað nám á sama tíma og hann hefði þegið greiðslur atvinnuleysistrygginga hefði hann fengið ofgreiddar atvinnuleysistryggingar á tímabilinu 1. september til 31. desember 2021, samtals 457.268 kr. að meðtöldu álagi, sem yrðu innheimtar samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá hafi kæranda einnig verið tilkynnt um að greiðslur til hans væru stöðvaðar á grundvelli 52. gr. laganna.

Kærandi hafi sent stofnuninni skólavottorð, dags. 7. janúar 2022, og hafi mál hans verið tekið fyrir að nýju vegna framkominna gagna. Í vottorði segi að kærandi hafi verið skráður í nám við Háskóla Íslands en skráð sig úr námi 17. desember og engar einingar klárað á önninni. Með erindi, dags. 20. janúar 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að ákvörðun stofnunarinnar frá 5. janúar 2022 væri staðfest, þar sem gögnin hefðu ekki borið með sér annað en að ákvörðun stofnunarinnar hafi verið réttilega heimfærð undir 52. gr. laganna.

Kærandi hafi aftur sótt um atvinnuleysistryggingar þann 10. febrúar 2022. Með bréfi, dags. 11. mars 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt með 52% bótarétt. Þar sem kærandi hafi átt ótekin viðurlög þegar hann hafi aftur sótt um hjá stofnuninni hafi kærandi þurft að sæta bið eftir greiðslum fram í maí 2022. Kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá þeim tíma til 30. nóvember 2022. Kæranda hafi verið synjað um frekari greiðslur atvinnuleysisbóta með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 19. desember 2022, á grundvelli 1. og 5. mgr. 57. gr. laganna, þar sem kærandi hefði hafnað starfstilboði í október sama ár.

Eftir skuldajöfnuð samkvæmt 3. mgr. 39. gr. á árinu 2022 hafi eftirstöðvar ofgreiddra atvinnuleysisbóta til kæranda staðið í 201.859 kr. Eftirstöðvar kröfunnar hafi verið sendar Innheimtumiðstöð sýslumannsins á Norðurlandi vestra 19. júní 2024.

Þann 20. júní 2024 hafi kærandi haft samband við stofnunina símleiðis og óskað eftir skýringum á skuld sinni. Þann 11. júlí 2024 hafi kærandi sent nýtt skólavottorð vegna haustannar 2021 sem kveði hann hafa verið fjarverandi allt haustið. Kæranda hafi verið tilkynnt bréfleiðis þann 10. september 2024 að beiðni hans um endurumfjöllun væri hafnað þar sem síðar framkomin gögn hefðu engin áhrif á réttmæti ákvörðunar stofnunarinnar frá árinu 2022.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um ofgreiddar atvinnuleysistryggingar kæranda sé frá árinu 2022. Kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar hafi því verið liðinn þegar kæra hafi borist nefndinni í september 2024, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Umsögn þessi muni því einblína á þá ákvörðun stofnunarinnar að hafna beiðni kæranda um endurupptöku máls þann 10. september 2024.

Kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. september til 31. desember 2021 sökum þess að hann hafi verið skráður í nám samhliða því að þiggja greiðslur atvinnuleysistrygginga. Í 39. gr. laganna sé fjallað um endurgreiðslu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum. Í 2. mgr. 39. gr. segi orðrétt:

„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“

Samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 39. gr. beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfylli ekki skilyrði laganna. Í athugasemdum með 39. gr. í greinargerð með frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslunnar hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. sé því fortakslaust að því er varði skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Með vísan til framangreinds hafi kæranda verið gert að endurgreiða þær atvinnuleysisbætur sem hann hafi fengið greiddar. Kæranda hafi verið tilkynnt um að krafan næmi samtals 457.268 kr. að meðtöldu álagi. Síðar hafi komið í ljós að álag á ofgreiðsluna hafi ekki verið fært inn í kerfi stofnunarinnar svo að einungis höfuðstól ofgreiddra atvinnuleysisbóta hafi verið skuldajafnað við síðar tilkomnar greiðslur og þegar greiðslum til hans hafi verið hætt í desember 2022 hafi eftirstöðvar kröfunnar verið 201.859 kr.

Líkt og fyrr segi hafi kærandi haft samband við Vinnumálastofnun þann 20. júní 2024 og óskað eftir skýringum á skuld sinni. Þann 11. júlí 2024 hafi kærandi svo sent nýtt skólavottorð vegna haustannar 2021 sem kveði hann hafa verið fjarverandi allt haustið. Kæranda hafi verið tilkynnt bréfleiðis þann 10. september 2024 að beiðni hans um endurumfjöllun væri hafnað, þar sem síðar framkomin gögn hefðu engin áhrif á réttmæti ákvörðunar stofnunarinnar frá árinu 2022.

Fjallað sé um endurupptöku máls í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar segi að aðili máls eigi rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný, eftir að stjórnvald hafi tekið ákvörðun, ef:

  1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
  2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafaverulega frá því að ákvörðun var tekin.

    Í 2. mgr. ákvæðisins segi svo:

    „Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.“

    Þegar kærandi hafi óskað eftir endurupptöku öðru sinni á máli sínu í júlí 2024 hafi verið liðin um tvö og hálft ár frá því að Vinnumálastofnun hafi hafnað fyrri beiðni hans um endurumfjöllun. Beiðni kæranda hafi þar að auki ekki fylgt ný gögn sem áhrif hefðu á niðurstöðu í máli hans og hvorugt skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga hafi því verið uppfyllt í tilviki hans.

    Með vísan til framangreinds sé það afstaða Vinnumálastofnunar að rétt hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda, síðari afgreiðslum á beiðnum kæranda á endurumfjöllun á máli hans og að kæranda beri að greiða umrædda skuld, auk álags.

    Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði greiðslu atvinnuleysistrygginga á tímabilinu 1. september til 31. desember 2021, sbr. 1. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kæranda beri því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, án álags, samtals 397.624 kr., sbr. 2. mgr. 39. gr. laganna.

    Eftirstöðvar skuldar séu við ritun greinargerðar 191.767 kr.

    IV. Niðurstaða

    Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 10. september 2024, um að synja beiðni kæranda um endurupptöku ákvörðunar frá 5. janúar 2022 um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

    Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um skilyrði fyrir endurupptöku mála. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef atvik máls eru á þann veg að eitt af eftirfarandi skilyrðum sem fram koma í 1. og 2. tölul. geti átt við:

  3. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
  4. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafaverulega frá því að ákvörðun var tekin.

Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun samkvæmt 1. tölulið 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum sem ákvörðun samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls ekki tekin til greina nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verði þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því. Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann stjórnvöldum að vera skylt að endurupptaka mál á grundvelli ólögfestra reglna, til dæmis þegar fyrirliggjandi eru rökstuddar vísbendingar um verulegan annmarka á málsmeðferð stjórnvalds eða ef efnislegur annmarki er á ákvörðun stjórnvalds.

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. janúar 2022, voru greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda stöðvaðar á grundvelli 52. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar með vísan til þess að hann hefði stundað nám samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta. Þá voru ofgreiddar atvinnuleysisbætur til kæranda fyrir tímabilið 1. september til 31. desember 2021 innheimtar á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laganna. Kærandi hefur greint frá því að hann hafi verið skráður í háskólanám en verið fjarverandi allt misserið og ekki lokið neinum einingum. Skýringar kæranda eru efnislega samhljóða þeim skýringum sem hann veitti Vinnumálastofnun á árunum 2021 og 2022.

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 er það meginregla að námsmenn eru ekki tryggðir á sama tímabili og þeir stunda nám, enda sé það ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Frá þeirri meginreglu eru gerðar tilteknar undantekningar er fram koma í 2.-5. mgr. ákvæðisins.

Almennt er það svo að þeir sem eru skráðir í ákveðið nám teljast stunda námið samkvæmt almennum skilningi þess orðs. Hins vegar getur þurft að meta sérstaklega hvort um raunverulega ástundun náms er að ræða ef einstaklingur kveðst ekki hafa stundað nám þrátt fyrir skráningur þar um, líkt og á við í máli kæranda. Í fyrirliggjandi gögnum frá Háskóla Íslands kemur fram að kærandi hafi verið skráður nemandi við skólann háskólaárið 2021 til 2022. Hann hafi verið fjarverandi haustið 2021 og ekki klárað neinar einingar þá önn.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hefur kærandi lagt fram gögn sem benda til þess að hann hafi ekki stundað nám á haustönn 2021. Var þar komin ástæða fyrir Vinnumálastofnun að rannsaka málið betur, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þ.e. að leggja sérstakt mat á hvort kærandi hafi sannanlega ekki stundað námið. Að því virtu telur úrskurðarnefndin að veigamiklar ástæður mæli með endurupptöku ákvörðunar frá 5. janúar 2022, sbr. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja beiðni kæranda um endurupptöku máls er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 10. september 2024, um að synja beiðni A, um endurupptöku máls, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta