Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 46/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 5. október 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 46/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 11. mars 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hafi tekið þá ákvörðun á fundi sínum þann 10. mars 2010 að samþykkja umsókn hans um breytingar á bótahlutfalli atvinnuleysisbóta hans úr 50% í 100%, frá og með 1. mars 2010. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Fyrir úrskurðarnefndinni krefst kærandi þess að hann fái greiddar 100% atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 9. júní 2008 til loka febrúar 2010 að frádregnum þeim greiðslum sem honum hafa borist fyrir 50% bótahlutfall. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 9. júní 2008 og óskaði eftir 100% starfi en í læknisvottorði er kærandi lagði fram kom fram að kærandi teldist einungis hæfur til 50% vinnu og hann ætti „sérstaklega erfitt með að vinna upp fyrir sig“. Kærandi var í kjölfarið samþykktur í 50% tryggingarhlutfall í samræmi við læknisvottorðið. Kærandi lýsti óánægju sinni með að vera metinn með 50% bótarétt vegna starfshæfni í ágúst 2008. Kærandi kom á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar þann 24. febrúar 2010 og kom því á framfæri að hann væri að leita að 100% vinnu og að hann ætlaði sér að skila nýju læknisvottorði og óska eftir breytingu á tryggingarhlutfalli. Kærandi sótti um breytingu á starfshlutfalli hjá Vinnumálastofnun í byrjun marsmánaðar 2010. Hann sagðist hafa verið að leita eftir 100% starfi allan tímann sem hann hafi verið skráður atvinnulaus hjá stofnuninni og óskaði eftir leiðréttingu á starfshlutfalli og greiðslum atvinnuleysisbóta frá 9. júní 2008. Kærandi lagði fram nýtt læknisvottorð, dags. 1. mars 2010, frá sama lækni og ritaði fyrra vottorðið og kemur þar fram að í fyrra vottorðinu hafi verið átt við að kærandi gæti ekki unnið nema 50% vinnu við sitt fag (rafvirkjun) eða sambærilegt starf. Hann hafi verið frá 9. júní 2008 alveg vinnufær til léttrar vinnu og sé það ennþá.

Af hálfu kæranda kemur fram að hann telji að hann hafi verið skráður vitlaust inn í kerfið vegna of flókinna reglna og mannlegra mistaka sem hafi nýlega uppgötvast við nánari athugun á útreikningum bóta hans. Kærandi hafi skráð sig atvinnulausan þann 9. júní 2008. Hann fái greiddar 50% örorkubóta eða um 100.000 kr. á mánuði sem sé vegna 50% starfshlutfallshæfni við hans starfsgrein (rafvirkjun). Honum sé honum leyfilegt að vinna fulla almenna vinnu á móti og sé metinn með 100% starfshlutfallshæfni til almennra starfa. Kærandi kveðst hafa talið sig vera heiðarlegan að skrá 50% starfshlutfallsorku við sitt fag og hafi hann skilað inn læknisvottorði því til staðfestingar. Einhverra hluta vegna hafi hann skráðst ranglega með 50% starfshlutfallshæfni til almennra starfa sem réttilega hafi átt að vera við hans starfsgrein en hann sé og hafi alltaf verið að leita að og verið tilbúinn í 100% almenna vinnu. Vegna þessara mistaka við skráningu hafi hann fengið of lítið útborgað eða aðeins um 25.000 kr. á mánuði. Kærandi telur niðurstöðu Vinnumálastofnunar vera ófullnægjandi og byggða á röngum upplýsingum og kveðst því leggja fram nýtt læknisvottorð því til staðfestingar.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 15. júní 2010, er vísað í 1. mgr. 14 gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og bent á að samkvæmt lagagreininni sé Vinnumálastofnun heimilt að veita undanþágu frá skilyrðum er tengist skertri vinnufærni. Þannig sé heimilt að taka tillit til aðstæðna atvinnuleitanda sem geti ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni. Sé sú heimild háð því að læknisvottorð liggi fyrir um starfshæfni hins tryggða. Þá er vísað til þess að í 2. mgr. laga um atvinnuleysistryggingar komi fram að hinn tryggði skuli tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti skv. h-lið 1. mgr. án ástæðulausrar tafar.

Ákvörðun stofnunarinnar um tryggingarhlutfall kæranda hafi verið byggð á gögnum sem hann hafi sjálfur lagt fram. Samkvæmt því læknisvottorði er barst Vinnumálastofnun með umsókn kæranda þann 29. júlí 2008 hafi hann ekki verið fullfær til almennra starfa. Ekkert í starfhæfnisvottorðinu gefi annað til kynna en að kærandi sé almennt fær til 50% vinnu. Ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi verið kunnug kæranda í ágúst 2008 og þann 15. ágúst sama ár hafi kærandi sagst ætla að senda Vinnumálastofnun nýtt mat á starfshæfni. Í októbermánuði 2008 sé kærandi að leita að 50% starfi, sbr. það sem segi í færslu sem skráð sé í samskiptasögu kæranda þann 29. október 2008. Hafi þjónusta og ráðgjöf til kæranda með tilliti til vinnumiðlunar og þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum frá upphafi umsóknar hans því tekið mið af 50% getu kæranda til að sinna almennum störfum á vinnumarkaði. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi verið metinn til 50% örorku hjá lífeyrissjóðnum Stöfum frá mars 2007. Sé örorkumat sjóðsins metið út frá því starfi sem hann gegndi áður. Hafi kærandi þegið greiðslur örorkulífeyris, meðal annars frá lífeyrissjóðunum Gildi og Stöfum frá árinu 2007.

Seinna læknisvottorðið barst Vinnumálastofnun þann 3. mars 2010 eða einu og hálfu ári frá því að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hafi verið samþykkt. Stofnunin telji að læknisvottorð sem berst 18 mánuðum eftir að úrskurður stofnunarinnar um 50% tryggingarhlutfall hafi verið kæranda ljós, geti ekki breytt fyrri ákvörðun í máli kæranda enda hafi hann ekki sýnt fram á neina ástæðu sem réttlætt geti þann langa tíma sem það hafi tekið kæranda að færa fram veigamikil gögn í máli sínu.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. júní 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 6. júlí 2010. Frekari athugasemdir bárust frá B hdl., fyrir hönd Rafiðnaðarsambands Íslands, dags. 8. júlí 2010. Úrskurðarnefndin sendi lögmanninum annað bréf, dags. 30. ágúst 2010, þar sem honum var tilkynnt að fyrir nefndinni lægi að rannsaka hvort skilyrði endurupptöku eða afturköllunar, sbr. 24. og 25. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, væru fyrir hendi í málinu. Veittur var frestur til 10. september 2010 til þess að koma athugasemdum á framfæri en hann var ekki nýttur.

 

2.

Niðurstaða

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 9. júní 2008 og var umsóknin samþykkt í ágúst 2008. Á grundvelli þeirra gagna sem kærandi lagði fram, sbr. 9. og 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, var bótahlutfall hans ákveðið 50%. Í ágúst 2008 gerði kærandi athugasemdir við þessa afgreiðslu mála og vildi að bótahlutfallið yrði hækkað. Þar sem kærandi lagði ekki fram ný gögn í málinu hélst bótahlutfallið óbreytt. Hinn 3. mars 2010 gerði kærandi aftur athugasemdir við bótahlutfall sitt og lagði fram nýtt læknisvottorð, dags. 1. mars 2010. Frá og með þeim tíma hefur hann fengið greiddar 100% atvinnuleysisbætur.

Í máli þessu krefst kærandi þess að hann fái greiddar 100% atvinnuleysisbætur frá og með 9. júní 2008 til loka febrúar 2010. Með hinni kærðu ákvörðun var þessu hafnað. Hin kærða ákvörðun er öðrum þræði reist á að Vinnumálastofnun telur sig hvorki geta afturkallað ákvörðun sína frá því í júní 2008 né heldur tekið málið upp.

Stjórnvald getur afturkallað mál að eigin frumkvæði, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Almenna reglan er sú að afturköllun máls getur ekki orðið að veruleika fyrir frumkvæði annarra en stjórnvalda. Frá þessu er hægt að víkja með sérlagaákvæðum eða á grundvelli ólögfestra reglna. Slíkt á ekki við í þessu máli. Því gildir 25. gr. stjórnsýslulaga við úrlausn á því hvort að afturkalla eigi þá ákvörðun sem tekin var í ágúst 2008 í máli kæranda. Þessi ákvörðun Vinnumálastofnunar tók eðli málsins samkvæmt gildi frá og með þeim degi sem umsækjandi sótti um atvinnuleysisbætur, þ.e. 9. júní 2008.

Ljóst er að Vinnumálastofnun telur ekki forsendur til að afturkalla hina fyrri ákvörðun sína í máli kæranda. Ekki er ástæða til að gera athugasemdir við þá afstöðu Vinnumálastofnunar, meðal annars vegna þess að það er umsækjanda um atvinnuleysisbætur að sjá til þess að upplýsingar um heilsu þeirra og starfshæfni liggi fyrir áður en afstaða er tekin til umsókna þeirra. Því standa ekki rök til þess að úrskurðarnefndin afturkalli ákvörðun Vinnumálastofnunar sem tekin var í ágúst 2008.

Að vissum skilyrðum uppfylltum getur stjórnvald tekið mál upp aftur, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Þessi regla á þó ekki við tilteknar aðstæður, sbr. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Í því ákvæði er meðal annars kveðið á um að mál verði ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá því að stjórnvaldsákvörðun var tekin nema veigamiklar ástæður mæli með því. Þessi regla á auðsýnilega við um mál kæranda.

Með vísan til þeirra röksemda sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir afstöðu sinni þá verður að fallast á að ekki séu veigamiklar ástæður fyrir hendi að taka upp mál kæranda. Því verður hin kærða ákvörðun staðfest að þessu leyti, þ.e. kröfu kæranda er hafnað um að hann eigi 100% bótarétt frá 9. júní 2008 til febrúarloka 2010.

 

Úrskurðarorð

Staðfestur er sá þáttur ákvörðunar Vinnumálastofnunar að hafna greiðslu 100% atvinnuleysisbóta til A fyrir tímabilið 9. júní 2008 til 28. febrúar 2010.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta