Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 54/2010 og 75/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 5. október 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í tveimur málum A nr. 54/2010 og 75/2010.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Úrskurður þessi tekur til tveggja mála kæranda, A, hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, nr. 54/2010 og 75/2010. Málsatvik í fyrra málinu, nr. 54/2010, eru þau að með kæru, dags. 6. apríl 2010, kærði kærandi það að honum var synjað um fullar atvinnuleysisbætur, en hann sótti um atvinnuleysisbætur þann 8. september 2009. Umsókn hans var samþykkt þann 1. október 2009 og honum voru fyrst greiddar út atvinnuleysisbætur þann 9. október 2009. Vinnumálastofnun krefst þess að kærulið þessum verði vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þar sem kæran sé of seint fram komin.

Málsatvik í síðara máli kæranda, nr. 75/2010, eru þau að með bréfi, dags. 11. maí 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun honum, að stofnunin hefði á fundi sínum þann 6. maí 2010 fjallað um fjarveru kæranda í boðuðu viðtali á vegum stofnunarinnar. Vegna fjarveru kæranda í viðtalinu var réttur hans til atvinnuleysisbóta felldur niður í 40 daga frá og með 11. maí 2010 sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir með vísan til 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 10. maí 2010. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 8. september 2009. Hann var boðaður til fundar við ráðgjafa þann 22. mars 2010 með bréfi dagsettu 16. mars 2010. Bréfið var sent á lögheimili kæranda að B-götu en það heimilisfang hafði hann tilkynnt Vinnumálastofnun sem aðsetur sitt. Kæranda var einnig sendur tölvupóstur þar sem honum var greint frá boðun í viðtal hjá eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar. Kærandi mætti ekki á fundinn þann 22. mars 2010. Með bréfi stofnunarinnar þann 22. mars 2010 var honum greint frá því að fjarvera hans á fundinum gæfi stofnuninni tilefni til að ætla að hann væri ekki lengur í virkri atvinnuleit, sbr. 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Einnig var óskað skýringa á því af hverju hann hefði ekki mætt á fundinn innan sjö virkra daga frá dagsetningu bréfsins. Skýringar kæranda bárust þann 6. apríl 2010, eða rúmri viku of seint. Þá hafði hann samband við Vinnumálastofnun og kvaðst nýverið hafa flutt búferlum en hafi ekki verið búinn að tilkynna nýtt heimilisfang til stofnunarinnar. Kærandi bar fyrir úrskurðarnefndinni að honum hafi láðst að tilkynna um nýtt heimilisfang meðal annars vegna þess að hann hafi ekki verið kominn með fastan dvalarstað. Mál kæranda var tekið fyrir á fundi Vinnumálastofnunar þann 16. apríl 2010 og honum síðan tilkynnt að skýringar hans á fjarveru í boðað viðtal teldust ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi óskaði þess að Vinnumálastofnun tæki mál hans aftur til meðferðar á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Málið var tekið fyrir að nýju þann 6. maí 2010 og þar sem engin ný gögn höfðu borist var ákveðið að fyrri ákvörðun stofnunarinnar í málinu um að stöðva greiðslur til kæranda í tvo mánuði skyldi standa.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 10. september 2010, kemur fram, varðandi mál kæranda nr. 54/2010, að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur þann 8. september 2010 og hafi umsóknin verið samþykkt 1. október 2009. Í ljósi þess að sú kæra sem lúti að bótaútreikningi kæranda sé frá 6. apríl 2010 telji Vinnumálastofnun að kærufrestur hafi verið liðinn vegna ákvörðunar stofnunarinnar um bótarétt. Því beri að vísa þeim kærulið frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í greinargerðinni segir um mál kæranda nr. 75/2010 að í 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í greinargerð er fylgt hafi frumvarpi því er varð að lögum nr. 134/2009, um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, komi fram að sömu viðurlög skuli eiga við í þeim tilvikum þegar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað og þegar atvinnuleitendur eru boðaðir til stofnunarinnar til að kanna hvort þeir uppfylli enn skilyrði laganna. Það sé eindregin afstaða Vinnumálastofnunar að bregðist atvinnuleitandi þessari skyldu sinni skuli það leiða til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að í símtali kæranda við stofnunina þann 18. mars 2010 hafi hann verið minntur á að gera viðeigandi breytingar á heimilisfangi sínu. Það hafi hann ekki enn gert þann 10. maí 2010, en þá hafi heimilisfang hans enn verið að B-götu. Í sama símtali hafi komið fram fullyrðing hans þess efnis að póstur sem berist honum á B-götu kæmist til skila þar sem móðir hans byggi í húsinu. Það sé grundvallarskilyrði þess að unnt sé að aðstoða umsækjanda um atvinnuleysisbætur við að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsaðgerðum að atvinnuleitandi sinni þeim boðunum og ábendingum sem sannanlega séu send honum með viðurkenndum hætti og tilkynni stofnuninni um breytingar á lögheimilisfangi og símanúmerum. Það sé ljóst af fyrirliggjandi gögnum að kærandi hafi verið boðaður til fundar hjá eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar með sannanlegum hætti, en boðunarbréf hafi verið sent á lögheimili hans og tölvupóstur sama efnis á uppgefið netfang hans. Í ljósi þess að rík skylda hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum og mætingar á boðaða fundi stofnunarinnar sé það mat Vinnumálastofnunar að hvorki skýring sú er kærandi taki fram í bréfi sínu til stofnunarinnar né í kæru til úrskurðarnefndarinnar geti réttlætt fjarveru kæranda á fundi stofnunarinnar þann 22. mars 2010. Með fjarveru sinni hafi kærandi því brugðist skyldum sínum skv. 1. mgr. 58. gr., 3. mgr. 15. gr. sem og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. september 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 28. september 2010. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Mál nr. 54/2010 lýtur að útreikningi bóta. Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 8. september 2009 og var umsóknin samþykkt þann 1. október 2009. Með kæru dagsettri 6. apríl 2010 kærði hann bótaútreikninginn frá 1. október 2009. Hinn þriggja mánaða kærufrestur var þá liðinn, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að afsakanlegt hafi verið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti og engar veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Af þessum sökum verður að vísa máli nr. 54/2010 frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

Mál nr. 75/2010 lýtur að 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila.“

Í athugasemdum við 58. gr. með frumvarpi til laga atvinnuleysistryggingar kemur fram að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og hinir tryggðu njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar. Sé litið svo á að hinum tryggðu sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist þeir þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Samkvæmt 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er virk atvinnuleit skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Til að geta talist vera í virkri atvinnuleit þarf umsækjandi að hafa vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða, sbr. g-lið 14. gr. laganna. Ekki er gert ráð fyrir undanþágum frá þessari skyldu, en gera verður ráð fyrir því að til slíkrar þátttöku sé boðað með eðlilegum hætti og kæranda almennt gert mögulegt að taka þátt í slíkum aðgerðum.

Kærandi var boðaður til fundar við ráðgjafa þann 22. mars 2010 annars vegar með bréfi dagsettu 16. mars 2010 sem var sent á lögheimili kæranda og hins vegar með tölvupósti á uppgefið netfang kæranda. Kærandi mætti ekki á fundinn. Aðspurður gaf hann þær skýringar að hann hafi nýverið flutt búferlum en hafi ekki verið búinn að tilkynna nýtt heimilisfang til stofnunarinnar, meðal annars vegna þess að hann hafi ekki verið kominn með fastan dvalarstað.

Þær kröfur eru gerðar til þeirra er þiggja atvinnuleysisbætur að þeir veiti Vinnumálastofnun upplýsingar um sína hagi og breytingar á þeim, þannig að stofnunin geti aðstoðað þá við að fá starf við hæfi og gefið þeim kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Þær skýringar sem kærandi hefur gefið á fjarveru sinni á boðuðum fundi með ráðgjafa réttlæta ekki fjarveru hans á fundinum. Með fjarveru sinni brást kærandi skyldum sínum skv. 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og slíkt leiðir til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar er staðfest.

 

Úrskurðarorð

Kæru í máli 54/2010 er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsúrræða.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli nr. 75/2010 frá 6. maí 2010 um niðurfellingu bótaréttar A í 40 daga er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta