Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Nr. 84/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 84/2019

Mánudaginn 24. júní 2019

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 25. febrúar 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. nóvember 2018, um innheimtu ofgreiddra bóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun á árinu 2017. Við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og Ríkisskattstjóra í október 2018 kom fram að kærandi hefði á árinu 2017 haft 2.999.369 kr. í fjármagnstekjur. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 15. október 2018, var óskað eftir upplýsingum frá kæranda um þær tekjur. Skýringar bárust frá kæranda 22. október 2018. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. nóvember 2018, var kæranda tilkynnt að hún hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur þann tíma sem hún fékk fjármagnstekjurnar, samtals að fjárhæð 340.539 kr., án álags.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 25. febrúar 2019. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. mars 2019. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 7. maí 2019, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. maí 2019. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að ákvörðun Vinnumálastofnunar sé byggð á ófullnægjandi upplýsingum. Meirihluti fjármagnsteknanna séu tekjur eiginmanns hennar vegna hans útleiguverkefnis, enda hafi hann einungis fengið 1.123.801 kr. í laun á árinu 2017, eftir skatt, fyrir önnur störf en umsjón húsnæðis. Sameiginlegar tekjur þeirra hjóna fyrir árið 2017 séu undir lágmarkslaunum. Kærandi fer fram á að leigutekjurnar verði eingöngu skráðar sem tekjur eiginmanns hennar en til vara að við útreikning endurgreiðslunnar verði tekið tillit til húsnæðiskostnaðar þeirra, þ.e. að fjármagnstekjuskattur, fasteignagjöld og húsnæðislán komi til frádráttar.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi þegið greiðslur atvinnuleysisbóta á árinu 2017. Við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og Ríkisskattstjóra í október 2018 hafi komið fram að kærandi hefði á árinu 2017 haft 2.999.369 kr. í fjármagnstekjur.

Í 36. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um frádrátt vegna tekna en samkvæmt ákvæðinu skuli fjármagnstekjur atvinnuleitanda skerða atvinnuleysisbætur. Einungis skuli taka tillit til þeirra tekna sem viðkomandi hafi haft á þeim tíma er hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eftir greiðslum. Í málinu liggi fyrir að kærandi hafi þegið atvinnuleysisbætur frá 1. janúar 2017 til 31. desember sama ár. Á árinu 2017 hafi sameiginlegar fjármagnstekjur kæranda og maka hennar numið 2.999.369 kr. 

Samkvæmt 1. og 3. tölul. c-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt teljast vaxta- og leigutekjur til skattskyldra tekna. Fjallað sé um tekjuskattsstofn hjóna og einstaklinga í óvígðri sambúð í 62. gr. laganna. Um fjármagnstekjur gildi samsköttun þannig að tekjur hjóna samkvæmt c-lið 7. gr. séu lagðar saman og taldar til tekna á framtali hjá því hjóna sem hafi hærri tekjur. Þannig geti allar fjármagnstekjur talist til tekna atvinnuleitanda við skattlagningu hafi hann hærri tekjur en maki hans og öfugt. Enginn greinarmunur sé því gerður á fjármagnstekjum kæranda og maka hennar heldur sé ein heildartala á sameiginlegu framtali þeirra.

Þar sem ekki liggi fyrir upplýsingar um það hvort kærandi og maki hennar séu með aðskilinn fjárhag eða hvort umræddar vaxta- og leigutekjur stafi frá séreign maka kæranda í skilningi hjúskaparlaga nr. 31/1993, telji Vinnumálastofnun að hlutur kæranda í fjármagnstekjum skuli koma til skerðingar á greiðslum atvinnuleysisbóta. Ekki sé unnt að fallast á að sameiginlegar fjármagnstekjur hjóna séu kæranda óviðkomandi, nema kærandi færi fram gögn sem sýni fram á að leigutekjur séu alfarið á hendi maka hennar.

Vinnumálastofnun vísar til þess að í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 hafi greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda verið leiðréttar fyrir árið 2017. Þar sem um sameiginlegar tekjur kæranda og maka hennar hafi verið að ræða hafi fjármagnstekjum verið skipt til helminga við útreikning á skerðingu (1.499.685 kr.). Til að finna mánaðarlegar tekjur kæranda hafi þeirri upphæð verið deilt með 12 mánuðum ársins og kærandi því skráð með 124.974 kr. í tekjur þá mánuði sem hún hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur á árinu 2017. Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 beri atvinnuleitanda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun sé skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og að innheima þær sem hafi verið ofgreiddar. Þegar búið sé að taka mið af fjármagnstekjum kæranda hafi heildarskuld hennar við Vinnumálastofnun verið samtals 340.539 kr. sem henni beri að endurgreiða stofnuninni í samræmi við 36. gr. laga nr. 54/2006.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. nóvember 2018, um að innheimta hjá kæranda ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna fjármagnstekna.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Markmið laganna er að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt, sbr. 2. gr. laganna.

Í 36. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um frádrátt frá atvinnuleysisbótum vegna tekna hins tryggða. Þar segir í 1. mgr.:

„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“

Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun á árinu 2017. Samkvæmt skattframtali 2018 námu fjármagnstekjur kæranda og maka hennar 2.999.369 kr. á árinu 2017. Í skýringum kæranda til Vinnumálastofnunar kemur fram að meirihluti fjármagnsteknanna séu leigutekjur maka hennar vegna útleigustarfsemi. Vinnumálastofnun hefur vísað til þess að um fjármagnstekjur gildi samsköttun þannig að tekjur hjóna samkvæmt C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt skuli leggja saman og telja til tekna hjá því hjóna sem hafi hærri tekjur, sbr. 2. tl 1. mgr. 62. gr. laganna. Þannig geti allar fjármagnstekjur talist til tekna atvinnuleitanda við skattlagningu hafi hann hærri tekjur en maki hans og öfugt. Enginn greinarmunur sé því gerður á fjármagnstekjum kæranda og maka hennar heldur sé ein heildartala á sameiginlegu framtali þeirra. Þá hefur stofnunin vísað til þess að ekki hafi legið fyrir upplýsingar um það hvort kærandi og maki hennar væru með aðskilinn fjárhag eða hvort umræddar vaxta- og leigutekjur stafi frá séreign maka kæranda í skilningi hjúskaparlaga nr. 31/1993. Ekki sé unnt að fallast á að sameiginlegar fjármagnstekjur hjóna séu kæranda óviðkomandi, nema kærandi færi fram gögn sem sýni fram á að leigutekjur séu alfarið á hendi maka hennar.

Samkvæmt samskiptasögu Vinnumálastofnunar var óskað eftir tekjusíðu skattframtals kæranda vegna tekjuársins 2017 í kjölfar skýringa hennar á tilurð fjármagnsteknanna. Þar kemur fram að um leigutekjur af íbúðarhúsnæði sé að ræða. Ekki var óskað eftir skattframtali kæranda í heild sinni og því liggja ekki fyrir upplýsingar um eignarhald íbúðarhúsnæðisins.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga hvílir sú skylda á stjórnvaldi að sjá til þess að eigin frumkvæði að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Að mati úrskurðarnefndarinnar bar Vinnumálastofnun að kanna eignarhald íbúðarhúsnæðisins áður en ákvörðun var tekin um frádrátt vegna fjármagnstekna, enda verður af texta ákvæðis 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 ráðið að eingöngu fjármagnstekjur hins tryggða geti komið til frádráttar atvinnuleysisbótum. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. nóvember 2018, í máli A, er felld úr gildi og vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta