Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 60/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 7. október 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 60/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að A, sótti um atvinnuleysisbætur með rafrænni umsókn sem staðfest var skriflega þann 24. júní 2009. Kærandi var sjálfstætt starfandi, sbr. b-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og reiknaðist með 90% bótarétt og fékk greiddar bætur í samræmi við rétt sinn. Ákvörðun um tryggingarhlutfall kæranda var tekin þegar umsókn hans um atvinnuleysisbætur var samþykkt þann 17. júlí 2009. Kærandi vill ekki una því að fá ekki greiddar 100% atvinnuleysisbætur, sbr. kæru sem er dagsett 31. mars 2010. Vinnumálastofnun telur að rétt hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda en telur að vísa skuli málinu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þar sem þriggja mánaða kærufrestur skv. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé liðinn.

Í erindi kæranda kemur fram að hann hafi verið að vinna sem sendibílstjóri á stöð og hafi verið við vinnu sína á stöðinni alla daga í meira en átta klukkustundir hvern einasta virkan dag og verið að bíða eftir vinnu. Litla vinnu hafi verið að fá og hafi það orðið til þess að hann hafi á endanum hætt þar sem þetta hafi ekki gengið og hann hafi ekki fengið nægar tekjur.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 20. september 2010, kemur fram að kærandi hafi verið sjálfstætt starfandi á ávinnslutímabilinu og hafi skilað inn ásamt umsókn, staðfestingu skattayfirvalda á greiðslu reiknaðs endurgjalds, tryggingargjalds og staðgreiðsluskatts. Eðlismunur á starfstengdum aðstæðum sjálfstætt starfandi einstaklinga annars vegar og launamanna hins vegar leiði til þess að svo finna megi vinnuframlag sjálfstætt starfandi einstaklinga skuli miða við skrár skattyfirvalda, sbr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi ekki greitt sér laun sem hafi numið lágmarksviðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein og ákvarðist tryggingarhlutfall hans því af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds og viðmiðunarfjárhæðinni, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ávinnsla kæranda sé vegna starfs við rekstur á eigin kennitölu. Starfsemi kæranda falli undir tekjuflokk E-4 samkvæmt reglum um reiknað endurgjald, settar skv. 3. málsl. 1. mgr. 58. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og nemi lágmarks- viðmiðunarfjárhæð í þeim flokki 222.000 kr. Kærandi hafi greitt staðgreiðslu og tryggingargjald af starfi sínu 180.000 kr. Að viðbættu því starfi sem kærandi hafi starfað sem launamaður á ávinnslutímabilinu, reiknist kærandi í 90% bótahlutfalli.

Vinnumálastofnun bendir á að þriggja mánaða kærufrestur skv. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi verið liðinn þegar kæran barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Telji stofnunin því að vísa beri máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. september 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 5. október 2010. Kærandi hefur ekki nýtt sér það.

 

2.

Niðurstaða

Hin kærða ákvörðun, þ.e. ákvörðun um tryggingarhlutfall kæranda, var samkvæmt gögnum málsins tekin þann 17. júlí 2009 en kæran er dagsett 31. mars 2010 og móttekin 20. apríl 2010 eða rúmum níu mánuðum síðar. Þegar kæran barst var hinn þriggja mánaða kærufrestur því liðinn, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að afsakanlegt hafi verið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti og engar veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Af þessum sökum verður að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

Úrskurðarorð

Kæru í máli A er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta