Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 355/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 355/2017

Fimmtudaginn 30. nóvember 2017

AgegnVinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 2. október 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. september 2017, um innheimtu ofgreiddra bóta.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun í lok desember 2013 og fékk greiddar atvinnuleysisbætur til 1. maí 2014. Á tímabilinu mars til maí 2014 var kærandi í hlutastarfi og fékk kærandi greidd laun vegna þeirrar vinnu samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta. Kærandi tilkynnti um tekjur eftir á og því voru atvinnuleysisbætur hans endurreiknaðar og kæranda tilkynnt um ofgreiðslu á „Mínum síðum“ hjá Vinnumálastofnun og greiðsluseðlum stofnunarinnar. Skuld kæranda var skuldajafnað við greiðslur atvinnuleysibóta í apríl og maí 2014 en þegar kærandi afskráði sig af atvinnuleysisskrá nam skuld hans 111.392 kr. Í september 2017 var skuld kæranda enn ógreidd og með bréfi, dags. 26. september 2017, var þess óskað að kærandi myndi endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. október 2017. Með bréfi, dags. 3. október 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 24. október 2017. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. október 2017, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti 13. nóvember 2017 og voru þær sendar Vinnumálastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi þegið atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun í þrjá mánuði á árinu 2014 en hann hafi ekki fengið skýringu á skuld sinni við stofnunina. Kærandi fer fram á að skuld hans verði lækkuð eða felld niður. Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Vinnumálastofnunar er bent á að í apríl 2014 hafi hann greint frá tilfallandi tekjum að fjárhæð 62.601 kr. fyrir mars 2014. Það hafi verið einu tekjur hans á því tímabili sem hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Í apríl eða maí 2014 hafi kærandi beðið um að vera afskráður af bótum því hann væri kominn í fulla vinnu í maí 2014. Það sé hins vegar eins og hann hafi ekki verið skráður af bótum. Kærandi gerir athugasemd við leiðbeiningar Vinnumálastofnunar í hinni kærðu ákvörðun en þar komi ekki fram rétt heimilisfang hjá úrskurðarnefnd velferðarmála.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi fengið tekjur fyrir hlutastarf samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta á tímabilinu mars 2014 til maí 2014. Kærandi hafi ekki gert neina tekjuáætlun hjá Vinnumálastofnun um áætlaðar tekjur vegna tilfallandi vinnu. Við útgreiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda hafi Vinnumálastofnun því ekki getað tekið tillit til þeirra tekna, sem hann hafi þegið vegna tilfallandi vinnu, þar sem tekjuáætlun hafi ekki legið fyrir. Kærandi hafi því fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu mars til maí 2014 og honum tilkynnt um það á „Mínum síðum“ hjá Vinnumálastofnun og í greiðsluseðlum stofnunarinnar. Skuld kæranda hafi verið skuldajafnað við greiðslur atvinnuleysisbóta í apríl og maí 2014 en þegar kærandi hafi afskráð sig af atvinnuleysisskrá hafi skuld hans numið 111.392. kr.

Vinnumálastofnun tekur fram að sökum þess að kærandi hafi ekki gert fullnægjandi tekjuáætlun hjá stofnuninni hafi greiðslur til hans verið skertar afturvirkt í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Vegna þessa hafi myndast skuld í greiðslukerfi stofnunarinnar sem kæranda beri að endurgreiða í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 en samkvæmt ákvæðinu sé stofnuninni skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta. Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 sé sérstaklega áréttað að leiðréttingin eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslu hafi því ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd. Í málinu liggi fyrir að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem honum beri að endurgreiða en ekki hafi verið lagt 15% álag á skuld hans.

IV. Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta að fjárhæð 111.392 kr.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Í 35. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um tilhögun greiðslna atvinnuleysisbóta. Þar segir að atvinnuleysisbætur skuli greiddar fyrsta virka dag hvers mánaðar og þær skuli greiddar eftir á fyrir undanfarandi mánuð eða hluta úr mánuði þannig að miðist við fyrsta til síðasta dag viðkomandi mánaðar. Í 36. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um frádrátt frá atvinnuleysisbótum vegna tekna. Í 1. mgr. 36. gr. segir meðal annars að þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða og atvinnuleysisbætur hans eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skuli skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildi um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu og elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi tekjur frá fyrirtækinu B hf. að fjárhæð 62.601 kr. í mars 2014 og 416.97 kr. í maí 2014 samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta. Þann 30. apríl 2014 tilkynnti kærandi að hann væri kominn með vinnu frá og með 2. maí 2014. Ljóst er að framangreindar greiðslur höfðu áhrif á fjárhæð atvinnuleysisbóta til handa kæranda, sbr. ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 um frádrátt vegna tekna.

Í 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:

„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.

Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“

Samkvæmt framangreindu er ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Í máli þessu hefur ekkert álag verið lagt á skuld kæranda og því er ekki ágreiningur um það atriði. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. september 2017, í máli A, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta