Mál nr. 427/2022-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 427/2022
Fimmtudaginn 17. nóvember 2022
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 26. ágúst 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. ágúst 2022, um að synja umsókn hennar um atvinnuleysisbætur.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 31. desember 2021. Umsókn kæranda var samþykkt 27. janúar 2022 og bótaréttur metinn 72%. Kærandi var í fyrstu skráð í 30% hlutastarf hjá B en frá 1. mars 2022 var því breytt í 10%. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 5. ágúst 2022, var kæranda tilkynnt að greiðslur til hennar hefðu verið stöðvaðar þar sem stofnunin hefði rökstuddan grun um að hún uppfyllti ekki skilyrði laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og var henni gefinn kostur á að skila skýringum vegna þessa. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. ágúst 2022, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar hefði verið synjað þar sem umbeðin gögn hefðu ekki enn borist stofnuninni. Tekið var fram að umsóknin væri ófullnægjandi og því ekki ljóst hvort hún uppfyllti skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga eða skilyrði um virka atvinnuleit sem kveðið væri á um í 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga nr. 54/2006. Þann 25. ágúst 2022 barst Vinnumálastofnun erindi frá kæranda sem litið var á sem beiðni um endurupptöku. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 1. september 2022, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun hefði verið staðfest þar sem hún hefði að geyma efnislega rétta niðurstöðu, þrátt fyrir ný gögn.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 26. ágúst 2022. Með bréfi, dags. 29. ágúst 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð 11. október 2022. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 19. október 2022, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. október 2022. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að Vinnumálastofnun telji að hún hafi verið í hærra starfshlutfalli en upplýsingar sem hún hafi skilað inn segðu til um. Kæranda hafi verið gefinn frestur sem hafi alveg farið fram hjá henni og því hafi hún ekki náð að svara í tæka tíð. Þar af leiðandi hafi umsókn hennar verið synjað.
Kærandi geri sér ekki grein fyrir hvernig Vinnumálastofnun hafi komist að þeirri niðurstöðu að hún hafi sannarlega verið í hærra starfshlutfalli en hún hafi lagt fram. Kærandi sjái um samfélagsmiðlana og bókhald fyrir fyrirtækið en sjái ekki um afgreiðslu. Það séu starfsmenn á launaskrá sem hefði tekið Vinnumálastofnun nokkrar mínútur að fletta upp ef áhugi hefði verið fyrir hendi.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi síðast sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga þann 31. desember 2021. Umsókn hennar hafi verið samþykkt þann 27. janúar [2022] og útreiknaður bótaréttur hafi verið 72%.
Í erindi til kæranda, dags. 5. ágúst 2022, hafi henni verið bent á að skila nauðsynlegum gögnum innan sjö virkra daga og hafi greiðslur til kæranda verið stöðvaðar þar sem stofnunin hafi haft rökstuddan grun um að kærandi uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Í erindi til kæranda hafi komið fram að stofnunin hefði undir höndum upplýsingar um að kærandi starfaði hjá B í meira starfshlutfalli en hún hafi gefið upp samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt það til stofnunarinnar. Kærandi sé 100% eigandi B og samkvæmt þeim upplýsingum er hafi legið til grundvallar í máli kæranda hafi auglýstur opnunartími hjá B verið frá 12 til 18 alla virka daga og laugardaga frá 12 til 16. Stofnunin hafi óskað eftir skýringum og sundurliðun á vinnuframlagi kæranda eftir tímabilum. Athygli hafi verið vakin á því að án umbeðinna gagna væri ekki unnt að taka afstöðu til réttar kæranda til atvinnuleysistrygginga. Með erindi, dags. 15. ágúst [2022], hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar um greiðslur atvinnuleysistrygginga hefði verið synjað þar sem umbeðin gögn hefðu ekki borist stofnuninni innan tilskilins frests.
Þann 25. ágúst 2022 hafi kærandi sent gögn til Vinnumálastofnunar með tölvupósti þar sem hún hafi sagst vera skráð með 72% bótarétt hjá stofnuninni og væri skráð í 10% vinnu hjá B. Kærandi hafi tekið fram að hún starfaði ekki í afgreiðslu heldur í bakendanum, auglýsingum og svo framvegis. Daginn eftir hafi ákvörðun stofnunarinnar frá 15. ágúst 2022 verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála, þ.e. þann 26. ágúst 2022.
Mál kæranda hafi verið tekið fyrir að nýju þann 1. september 2022 með tilliti til nýrra gagna. Það hafi verið mat stofnunarinnar að staðfesta bæri fyrri ákvörðun í máli kæranda, enda hefði sú ákvörðun að geyma efnislega rétta niðurstöðu, þrátt fyrir að ný gögn í málinu hefðu borist. Umrædd ákvörðun sé byggð á röngum forsendum og ljóst að mistök hafi átt sér stað þegar umrædd ákvörðun hafi verið birt kæranda, sem stofnuninni þyki miður. Ljóst sé að réttara hefði verið að byggja ákvörðun stofnunarinnar frá 1. september 2022 á 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þegar umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur hafi verið synjað, enda ljóst af þeim gögnum og upplýsingum sem stofnunin hafi undir höndunum að kærandi sé ekki í virkri atvinnuleit. Stofnunin byggi þá ákvörðun einkum á því að kærandi sé 100% eigandi B, auk þess að vera framkvæmdastjóri, prófkúruhafi og fulltrúi í stjórn fyrirtækisins. Jafnframt sé kærandi með starfsmenn í vinnu hjá fyrirtækinu samhliða því að vera sjálf að þiggja atvinnuleysisbætur. Af þessu framantöldu telji stofnunin að kærandi uppfylli ekki skilyrði a. liðar 13. gr. og 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og teljist því ekki í virkri atvinnuleit. Stofnunin telji því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar og að hafna beri umsókn hennar um atvinnuleysisbætur.
Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Markmið laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi. Með þessu sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Gert sé ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða. Atvinnuleysistryggingar veiti þannig þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu. Ríkar kröfur beri að gera til þeirra sem hafni starfi á innlendum vinnumarkaði að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.
Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Með lögunum sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að hinir tryggðu séu í virkri atvinnuleit þann tíma.
Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga sé að hann sé í virkri atvinnuleit, sbr. a. lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 14. gr. laganna sé nánar kveðið á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé útlistað að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi, án sérstaks fyrirvara, og hafa til þess vilja og getu. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit.
Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum sé kærandi skráð 100% eigandi B, auk þess að vera framkvæmdastjóri, prófkúruhafi og stjórnarkona í fyrirtækinu. Auk þess liggi fyrir að kærandi sé með starfsmenn í vinnu hjá fyrirtækinu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni en umsókn hennar um atvinnuleysisbætur hafi verið samþykkt 27. janúar [2022] og útreiknaður bótaréttur kæranda hafi verið 72%. Stofnunin geti ekki fallist á að kærandi sé í virkri atvinnuleit á grundvelli 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. það sem að framan greini. Markmið laganna sé samkvæmt 2. gr. þeirra að tryggja tímabundna framfærslu atvinnulausra á meðan þeir séu í virkri atvinnuleit. Þá sé grunnskilyrði 14. gr. laganna að atvinnuleitendur séu ekki í skilyrtri atvinnuleit heldur séu tilbúnir að taka störfum sem þeim sé boðið.
Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi uppfylli ekki skilyrði 14. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Ljóst sé að fyrirtæki kæranda sé í fullum rekstri, til að mynda með aðra starfsmenn í vinnu og opnunartími fyrirtækisins sé alla virka daga frá 12 til 18 sem og alla laugardaga frá 12 til 16 og ljóst að starfshlutfall kæranda hjá B nemi meira en 10%. Kærandi geti því ekki átt rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta á því tímabili sem hún sé eigandi fyrirtækis sem sé með aðra launamenn í vinnu og taki óhjákvæmilega fullan þátt í rekstrinum sem 100% eigandi, framkvæmdastjóri, prófkúruhafi og stjórnarkona fyrirtækisins. Vinnumálastofnun beri því skylda til að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda.
Í ljósi alls framangreinds sé það afstaða Vinnumálastofnunar að hafna beri umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur, enda uppfylli kærandi ekki almenn skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur með vísan til þess að umbeðin gögn hefðu ekki borist. Mál kæranda var tekið fyrir að nýju þann 1. september 2022 eftir að hún skilaði inn skýringum til stofnunarinnar. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 1. september 2022, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun hefði verið staðfest þar sem hún hefði að geyma efnislega rétta niðurstöðu, þrátt fyrir ný gögn. Vinnumálastofnun hefur vísað til þess að sú ákvörðun sé byggð á röngum forsendum og ljóst að mistök hafi átt sér stað þegar ákvörðunin hafi verið birt kæranda. Réttara hefði verið að byggja ákvörðun stofnunarinnar á 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, enda ljóst af fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum að kærandi væri ekki í virkri atvinnuleit. Þar sem Vinnumálastofnun hefur komið á framfæri afstöðu sinni til þeirrar ákvörðunar í greinargerð til úrskurðarnefndarinnar og þar sem það er til hagræðis fyrir kæranda mun úrskurðarnefndin taka málið til meðferðar á þeim grundvelli.
Í 1. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.
Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að vera í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. Í 1. mgr. 14. gr. segir að sá teljist vera í virkri atvinnuleit sem uppfylli eftirtalin skilyrði:
- er fær til flestra almennra starfa,
- hefur heilsu til að taka starfi eða taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. þó 5. mgr.,
- hefur frumkvæði að starfsleit og er reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og uppfyllir skilyrði annarra laga,
- hefur vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara,
- er reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi,
- er reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða eða vaktavinnu,
- á ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann telst vera í virkri atvinnuleit nema ákvæði 17. eða 22. gr. eigi við,
- hefur vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða, og
- er reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum.
Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 5. ágúst 2022, var kæranda tilkynnt að greiðslur til hennar hefðu verið stöðvaðar þar sem stofnunin hefði rökstuddan grun um að hún uppfyllti ekki skilyrði laga nr. 54/2006. Tekið var fram að stofnunin hefði undir höndum upplýsingar um að hún hefði starfað hjá B í meira starfshlutfalli en hún hefði gefið upp samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur þar sem auglýstur opnunartími hjá búðinni væri frá 12-18 alla virka daga. Í bréfinu var óskað eftir skýringum frá kæranda vegna þessa og sundurliðun á vinnuframlagi hennar eftir tímabilum. Í svari kæranda kemur fram að hún sé skráð í 10% vinnu hjá fyrirtækinu en starfi ekki í afgreiðslunni heldur í bakendanum, auglýsingum og svo framvegis. Þá tók kærandi fram að það væru starfsmenn í búðinni sem sæju um afgreiðslu. Á grundvelli þessa tók Vinnumálastofnun þá ákvörðun að synja kæranda um atvinnuleysisbætur.
Af gögnum málsins verður ekki séð að kærandi hafi afhent Vinnumálastofnun sundurliðun á vinnuframlagi hennar eftir tímabilum líkt og stofnunin hafði óskað eftir. Í rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Með því að synja kæranda um atvinnuleysisbætur án þess að fyrir lægju fullnægjandi upplýsingar og gögn sem sérstaklega hafði verið óskað eftir var þeirri skyldu ekki fullnægt. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Vinnumálastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. ágúst 2022, um að synja umsókn A, um atvinnuleysisbætur er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir