Mál nr. 497/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 497/2024
Þriðjudaginn 17. desember 2024
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 9. október 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 4. október 2024, um að synja umsókns hans um greiðslur atvinnuleysisbóta.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 6. júní 2024. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 9. júlí 2024, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið synjað með vísan til starfsloka hans hjá fyrrum vinnuveitanda. Sú ákvörðun væri tekin á grundvelli 54. gr., sbr. 4. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærandi sótti á ný um greiðslur atvinnuleysisbóta 13. ágúst 2024. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 4. október 2024, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið synjað með vísan til starfsloka hans hjá fyrrum vinnuveitanda. Sú ákvörðun væri tekin á grundvelli 54. gr., sbr. 4. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Mál kæranda var tekið fyrir að nýju í kjölfar nýrra gagna og með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 9. október 2024, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun væri staðfest þar sem hún hefði að geyma efnislega rétta niðurstöðu.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. október 2024. Með bréfi, dags. 15. október 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 29. október 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. október 2024. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að honum hafi verið sagt upp störfum vegna veikinda og hann hafi verið tekjulaus frá júlí 2024. Vinnumálastofnun vilji ekki veita honum aðstoð þrátt fyrir að hann hafi verið á vinnumarkaði í mörg ár.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi síðast sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 6. júní 2024. Á umsókn um atvinnuleysisbætur hafi kærandi tiltekið að honum hefði verið sagt upp störfum hjá síðasta vinnuveitanda vegna brota í starfi. Í kjölfarið hafi Vinnumálastofnun leitað eftir staðfestingu á starfstímabili frá fyrrverandi vinnuveitanda ásamt frekari skýringum frá kæranda á starfslokum.
Staðfesting á starfstímabili kæranda hafi borist frá fyrrverandi vinnuveitanda, B, þann 30. júní 2024 þar sem fram hafi komið að kærandi hefði starfað sem sölufulltrúi hjá fyrirtækinu en að honum hefði verið sagt upp vegna brota í starfi. Í uppsagnarbréfi vinnuveitanda komi fram að kærandi hefði verið fjarverandi frá vinnu í þrjá daga án þess að tilkynna forföll. Sökum brotthlaups í starfi hafi uppsögn vinnuveitanda tekið gildi sama dag og tilkynning hafi verið send launamanni.
Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 4. október 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysistryggingar væri hafnað sökum starfsloka. Ákvörðun þessi hafi verið tekin á grundvelli 54. gr. og 4. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi hafi áður sætt niðurfellingu bótaréttar tvisvar sinnum á sama bótatímabili.
Gögn hafi borist frá kæranda þann 8. október 2024, skýringar á starfslokum og afrit af sjúkradagpeningavottorði. Í skýringum sínum hafi kærandi sagst hafa verið að glíma við veikindi á þessum tíma og að hann hefði verið búinn að fullnýta veikindadaga sína.
Mál kæranda hafi verið tekið fyrir að nýju 9. október 2024 í ljósi þess að frekari gögn hefðu borist frá kæranda. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar sama dag hafi kæranda verið tilkynnt að fyrri ákvörðun stofnunarinnar væri staðfest.
Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Lögin veiti þeim fjárhagslegt úrræði og beri að gera ríkar kröfur til þeirra sem segi upp störfum sínum að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.
Í 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi orðrétt:
„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“
Í greinargerð með frumvarpi því sem hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé það áréttað að eitt af markmiðum vinnumarkaðskerfisins sé að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem hafi orðið að gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar sé vísað til þess að það væri erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega í lögum og reglugerðum hvaða ástæður sem liggi að baki ákvörðun þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi starf sitt séu gildar þar sem þær ástæður geti verið af margvíslegum toga. Því hafi verið lagt til að lagareglan yrði matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.
Fyrir liggi að kæranda hafi verið sagt upp starfi hjá B. Í vottorði vinnuveitanda komi fram að kæranda hafi verið sagt upp vegna brota í starfi. Í uppsagnarbréfi komi einnig fram að kærandi hafi hætt að mæta til vinnu í maí 2024 án þess að tilkynna forföll og að það sé ástæða starfsloka hans hjá fyrirtækinu.
Kærandi hafi fært fram skýringar á starfslokum sínum. Að sögn kæranda hafi hann verið að glíma við veikindi á þeim tíma sem um ræði og veikindadagar hans hafi verið fullnýttir. Á sjúkradagpeningavottorði komi fram að kærandi hafi verið óvinnufær vegna áfengismeðferðar á sjúkrastofnun frá 24. júlí til 4. ágúst 2024 eða rúmum mánuði eftir að honum hafi verið sagt upp störfum.
Þegar starfsmaður brjóti veigamikil atriði ráðningarsamnings geti atvinnurekandi átt rétt á því að víkja viðkomandi úr starfi samstundis. Við mat á því hvort umsækjandi um atvinnuleysistryggingar skuli sæta viðurlögum á grundvelli 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í málum sem þessum beri stofnuninni að líta til þess hvort viðkomandi hafi misst starf sitt af ástæðum sem hann sjálfur eigi sök á.
Það sé mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi mátt gera sér grein fyrir því að háttsemi hans myndi leiða til brottvikningar úr starfi. Kæranda hafi mátt vera það ljóst að það kynni að valda uppsögn ef hann hætti að mæta til vinnu án þess að tilkynna um fjarveru sína. Það sé því niðurstaða stofnunarinnar að kærandi hafi misst starf sitt af ástæðum sem hann sjálfur hafi átt sök á. Honum beri því að sæta viðurlögum samkvæmt 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Í 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um ítrekunaráhrif vegna fyrri viðurlagaákvarðana. Þar segi að sá sem sæti viðurlögum í annað sinn á sama bótatímabili skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en þremur mánuðum liðnum frá þeim degi er ákvörðun Vinnumálastofnunar um ítrekunaráhrif liggi fyrir. Í þeim tilfellum sem atvinnuleitanda sé gert að sæta viðurlögum í þriðja sinn á sama bótatímabili skuli hann ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann ávinni sér inn nýtt bótatímabil, sbr. 4. mgr. ákvæðisins.
Kærandi hafi tvisvar áður sætt viðurlögum vegna starfsloka hjá fyrrverandi vinnuveitanda, annars vegar vegna starfsloka, sbr. ákvörðun dags. 30. ágúst 2022 og hins vegar samkvæmt ákvörðun stofnunarinnar, dags. 3. júlí 2023. Þegar kæranda hafi verið gert að sæta viðurlögum í október 2024 hafi því verið um að ræða þriðju viðurlög hans á sama bótatímabili, sbr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun hafi því borið að hafna umsókn kæranda á grundvelli 1. mgr. 54. gr., sbr. einnig 4. mgr. 61. gr. laganna.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um greiðslur atvinnuleysisbóta á grundvelli 1. mgr. 54. gr., sbr. 4. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Ákvæði 1. mgr. 54. gr. laganna er svohljóðandi:
„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“
Óumdeilt er að kæranda var sagt upp störfum hjá B og kemur því til skoðunar hvort hann hafi sjálfur átt sök á uppsögninni. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að það sé erfiðleikum bundið að takmarka þau tilvik sem geti talist til gildra ástæðna í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagareglan verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Jafnframt er bent á að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða.
Í fyrirliggjandi uppsagnarbréfi, dags. 3. júní 2024, kemur fram að ástæða uppsagnar kæranda sé vegna brotthlaups úr starfi. Kærandi hafi ekki mætt til vinnu tiltekna þrjá daga og ekki tilkynnt forföll. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er ljóst að kærandi missti starf sitt af ástæðu sem hann átti sjálfur sök á.
Í 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um ítrekunaráhrif fyrri viðurlagaákvarðana. Ákvæðið er svohljóðandi:
„Sá sem hefur sætt viðurlögum skv. 57.–59. gr. eða biðtíma skv. 54. eða 55. gr. og eitthvert þeirra tilvika sem þar greinir á sér stað að nýju á sama tímabili skv. 29. gr. skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að þremur mánuðum liðnum frá þeim degi er ákvörðun Vinnumálastofnunar um ítrekunaráhrif liggur fyrir enda hafi hann fengið greiddar atvinnuleysisbætur skemur en samtals 24 mánuði á sama tímabili skv. 29. gr. Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. málsl. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.“
Þá segir í 4. mgr. 61. gr. að ef atvik sem lýst sé í 1. málsl. 1. mgr. endurtaki sig á sama tímabili samkvæmt 29. gr. skuli hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr. Samkvæmt 29. gr. laga nr. 54/2006 getur sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur, nema annað leiði af lögunum. Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt X. kafla telst hluti tímabilsins sem og sá tími er viðurlög samkvæmt XI. kafla standa yfir. Í 31. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.
Samkvæmt gögnum málsins hófst bótatímabil kæranda í júlí 2022. Kærandi sætti niðurfellingu bótaréttar á grundvelli 54. gr. laga nr. 54/2006 annars vegar þann 30. ágúst 2022 og hins vegar 3. júlí 2023. Þar sem um sama bótatímabil er að ræða, sbr. 29. gr. laganna, kom nú til ítrekunaráhrifa samkvæmt 4. mgr. 61. gr. laganna og á kærandi því ekki rétt á greiðslu atvinnuleysibóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr. laganna, þ.e. eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 4. október 2024, um að synja umsókn A, um greiðslur atvinnuleysisbóta, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir