Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mal nr. 176/2012 - endurupptaka

Úrskurður


Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 17. febrúar 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 176/2012.

1. Málsatvik og kæruefni

Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða kvað upp úrskurð í máli A, 20. september 2012. Í þeim úrskurði nefndarinnar kemur fram að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hann hafi verið staðinn að vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefði starfað í að minnsta kosti tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að viðbættu 15% álagi fyrir það tímabil sem hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar að fjárhæð samtals 321.320 kr. B hrl. kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar fyrir hönd kæranda til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, móttekinni 13. nóvember 2012.

Við samkeyrslu á gagnagrunnum Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra í ágúst 2012 kom fram að kærandi hefði verið með tekjur frá B í maí mánuði 2012 samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt það til stofnunarinnar.

Með bréfi, dags. 7. ágúst 2012, óskaði Vinnumálastofnun eftir tilkynningu um tekjur eða launaseðil vegna framangreindra tekna. Þann 4. september 2012 barst tölvupóstur frá endurskoðanda kæranda þar sem fram kom að kærandi hefði verið í fullri vinnu í maí 2012 en án atvinnu síðan. Meðfylgjandi var launaseðill vegna vinnunnar.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 9. nóvember 2012, greinir kærandi frá því að þegar honum hafi boðist vinna við veggjahleðslu við C í maíbyrjun 2012 hafi hvorki legið fyrir upplýsingar um umfang verksins né tekjur kæranda af því. Kæranda hafi verið ljóst að honum væri óheimilt að vinna samhliða töku atvinnuleysisbóta og hafi því leitað ráðgjafar hjá Vinnumálastofnun í maí byrjun í samræmi við 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar. Ráðgjöfina hafi kærandi skilið á þann veg að hann gæti þegið vinnuna ef hann gerði grein fyrir þeim tekjum sem af henni hlytust. Kærandi hafi talið að opinber skráning hjá skattyfirvöldum teldist nægjanleg tilkynning þar sem um væri að ræða opinberar skrár. Launagreiðslan vegna verksins til kæranda hafi verið gerð af hálfu fyrirtækis sem sé í eigu kæranda. Hafi það því verið kærandi sjálfur sem gaf tekjurnar upp til skattyfirvalda og þar af leiðandi ljóst að það hafi ekki verið ásetningur kæranda að fara framhjá lögum og reglum.

Kærandi mótmælir jafnframt harðlega að mál hans falli undir 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem hann hafi alls ekki veitt vísvitandi rangar upplýsingar heldur þvert á móti leitað sér ráðgjafar og því í raun tilkynnt fyrirfram um vinnu í samræmi við 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar þótt honum hafi fyrir misskilning láðst að senda inn afrit af launaseðli sínum. Ráðgjöf sú sem kærandi hafi fengið hafi mögulega misfarist vegna tungumálaerfiðleika og ekkert sé hægt að fullyrða um það sem fram fór á milli kæranda og starfsmanns Vinnumálastofnunar.

Kærandi telur að ákvörðun Vinnumálastofnunar byggi á röngum og ófullnægjandi upplýsingum. Ákvörðunin sé því brot á bæði rannsóknarreglu og meðalhófsreglu, sbr. 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi mótmælir ekki kröfu Vinnumálastofnunar um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta en krefst þess að 15% álag falli niður þar sem honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Frekari athugasemdir bárust úrskurðarnefndinni frá kæranda með bréfi, dags. 7. janúar 2013. Þar mótmælti kærandi því að ákvörðun í máli hans væri byggð á samskiptaskrá Vinnumálastofnunar, enda væri skráningin einhliða og færslurnar afar óskýrar. Kærandi tók dæmi um færslur þann 23. apríl 2012 sem væru með öllu óskiljanlegar, en þar segi orðrétt „staðf. bókun á hugtak“ og „var í erfiðleikum með að staðfesta“. Kærandi stendur við að hafa leitað leiðbeininga hjá Vinnumálastofnun vegna tilfallandi vinnu þótt það komi ekki fram í samskiptabók stofnunarinnar og um sé því að ræða orð gegn orði.

Með úrskurði atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða frá 17. september 2013 var ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 20. september 2012 þess efnis að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda og að hann skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefði starfað í a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði staðfest. Enn fremur var staðfest sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að gera kæranda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að viðbættu 15% álagi, samtals að fjárhæð 321.320 kr.

Kærandi leitaði til umboðsmanns Alþingis vegna málsins 21. október 2013. Í bréfi  umboðsmannsins til kæranda, dags. 31. desember 2014, er bent á að hjá umboðsmanninum hafi verið til athugunar mál annars einstaklings þar sem reyni á túlkun og beitingu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða á viðurlagaákvæði 2. málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og ákvæði 2. mgr. 39. gr. sömu laga um endurgreiðslu ofgreiddra bóta. Umboðsmaðurinn hafi nú lokið athugun sinni á framangreindu máli þar sem hann hafi komist að þeirri niðurstöðu að sú afstaða úrskurðarnefndarinnar að viðurlög samkvæmt 2. málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar séu byggð á hlutlægri ábyrgð, þ.e. ábyrgð án sakar, hafi ekki verið í samræmi við lög. Jafnframt hafi hann komist að þeirri niðurstöðu að rökstuðningur nefndarinnar hvað varði kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta og álagningu 15% álags á þá kröfu hafi ekki verið fullnægjandi og að ekki verði séð að nefndin hafi tekið skýra afstöðu til þess í úrskurðinum hvernig lagaskilyrði 2. mgr. 39. gr. laganna horfðu við í málinu. Í álitinu hafi hann beint þeim tilmælum til nefndarinnar að hún tæki mál hlutaðeigandi einstaklings til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni frá honum þess efnis. Umboðsmaðurinn benti kæranda á að þar sem efni kvörtunar hans varði að einhverju leyti sömu atriði og umboðsmaðurinn hafi tekið afstöðu til í greindu áliti telji hann rétt að kærandi snúi sér á ný til úrskurðarnefndarinnar og óski eftir því við hana að mál hans verði tekið til nýrrar meðferðar með vísan til framangreinds álits áður en það komi eftir atvikum til frekari athugunar hjá honum.

Kærandi óskaði í kjölfarið eftir því, með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. janúar 2015, að mál hans yrði tekið til nýrrar meðferðar hjá nefndinni.

2. Niðurstaða

Um heimild til endurupptöku máls er fjallað í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þar segir að aðili máls eigi rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Eins og áður hefur komið fram byggðist úrskurður úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða á því að kærandi hafi brotið gegn 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og skyldi því ekki eiga rétt á bótum í 12 mánuði.

Í því áliti umboðsmanns Alþingis sem krafa um endurupptöku er byggð á var komist að þeirri niðurstöðu að úrskurður nefndarinnar hafi verið byggður á rangri túlkun á 2. málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og úrskurðurinn því ekki reistur á réttum lagagrundvelli. Úrskurðarnefndin er í grundvallaratriðum ósammála þeirri niðurstöðu að um ranga túlkun á 2. málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi verið að ræða. Þeir sem falla undir ákvæðið eru m.a. þeir sem starfa á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og þeir þiggja bætur. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins skulu þessir aðilar sæta sömu viðurlögum og lýst er í 1. málsl. 60. gr. laganna og skulu þeir því ekki eiga rétt á bótum í 12 mánuði. Að auki ber þeim að endurgreiða þær bætur sem þeir töldust ekki eiga rétt á.

Nefndin telur úrskurð sinn í máli kæranda réttilega hafa verið byggðan á 2. málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistrygginar og að viðurlög kæranda hafi verið réttilega ákvörðuð á grundvelli ákvæðisins.

Með vísan til þess sem að ofan er ritað telur nefndin ekki forsendur fyrir endurupptöku á máli kæranda og er beiðninni því hafnað.

 

Úrskurðarorð

Kröfu A um endurupptöku úrskurðar í máli hans fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða frá 17. september 2013 þess efnis að hann skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefði starfað í a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði og endurgreiddi ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að viðbættu 15% álagi, samtals að fjárhæð 321.320 kr., er hafnað.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 Fyrri úrskurður var kveðinn upp 17. sept. 2013

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta