Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Nr. 168/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 168/2019

Þriðjudaginn 3. september 2019

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 30. apríl 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 2. apríl 2019, um að fella niður rétt hennar til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og mat á bótarétti kæranda á grundvelli 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 20. febrúar 2019. Meðfylgjandi umsókn kæranda var vinnuveitandavottorð þar sem fram kemur að kærandi hafi sjálf sagt upp starfi sínu hjá B. Í skýringum kæranda á uppsögn kemur fram að helsta ástæða uppsagnar sé vegna þess að hún [...] Með bréfi Vinnumálastofnunnar, dags. 2. apríl 2019, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt og bótaréttur metinn 60%. Með vísan til starfsloka hennar hjá B væri réttur til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 30. apríl 2019. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 28. maí 2019, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. maí 2019, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi [...].

Kærandi greinir frá því að samkvæmt útreikningi Vinnumálastofnunar eigi hún 60% bótarétt, sem kærandi telji hugsanlega vera vegna þess að hún hafi verið í 61% starfshlutfalli á tímabilinu 11. september 2017 til 18. mars 2018. Frá 19. mars 2018 til 31. mars 2018 hafi starfshlutfall hennar verið 71%.

Samkvæmt upplýsingum á vef Vinnumálastofnunar telji kærandi sig eiga 70% bótarétt til atvinnuleysisbóta en ekki 60% eins og úrskurður Vinnumálastofnunar kveði á um.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim, sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Með lögunum sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi og því sé gert ráð fyrir að hinir tryggðu séu í virkri atvinnuleit þann tíma. Atvinnuleysistryggingar veiti hinum tryggðu fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu.

Mál þetta varði ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 2. apríl 2019. Annars vegar sé um að ræða biðtíma eftir greiðslum á grundvelli 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og hins vegar bótaútreikning kæranda. Mistök hafi valdið því að skýringar kæranda ásamt læknisvottorði hafi ekki verið kannað við afgreiðslu á máli kæranda. Það sé mat Vinnumálastofnunar að þau gögn sem hafi legið fyrir feli í sér fullnægjandi skýringar á uppsögn kæranda og að henni beri ekki að sæta biðtíma vegna starfsloka. Í ljósi þessa muni Vinnumálastofnun taka mál kæranda fyrir að nýju með tilliti til þeirra upplýsinga. Vinnumálastofnun telji því ekki tilefni til að taka þann þátt málsins til efnislegrar afgreiðslu hjá úrskurðarnefndinni. Eftir standi ákvörðun um bótahlutfall kæranda. Með erindi, dags. 2. apríl 2019, hafi kæranda verið tilkynnt að útreiknaður bótaréttur hennar væri 60%. Samkvæmt bráðabirgðaútreikningi á bótahlutfalli hafi starfstími kæranda á ávinnslutímabili hennar skapað 69% bótarétt. Á umsókn sinni um atvinnuleysisbætur hafi kærandi sagst einungis vera að leita sér að 60% starfi.

Í 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um ávinnslu á bótarétti. Í 4. mgr. ákvæðisins segi að tryggingarhlutfall launamanns geti aldrei orðið hærra en sem nemi starfshlutfalli hans á ávinnslutímabilinu eða því starfshlutfalli sem hann sé reiðubúinn að ráða sig til. Samkvæmt skýru ákvæði laganna geti atvinnuleitandi ekki átt rétt á hærri bótarétti en því starfshlutfalli sem hann sé tilbúinn til að sinna. Sá sem einungis sé reiðubúinn til að starfa í 50% starfshlutfalli eigi því rétt á 50% atvinnuleysisbótum þó svo að hann hafi starfað í 100% vinnu í að minnsta kosti eitt ár á ávinnslutímabili atvinuleysistrygginga. Í ljósi 4. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar telji Vinnumálastofnun að bótahlutfall kæranda skuli vera 60%.

Vinnumálastofnun fallist á kröfur kæranda er lúti að biðtímaákvörðun en telji að rétt hafi verið staðið að útreikningi á tryggingarhlutfalli hennar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að bótaréttur kæranda sé 60% í stað 69% og að bótaréttur hafi verið felldur niður í tvo mánuði, sbr. 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að í ljósi gagna málsins telji hún að fullnægjandi skýringar hafi komið varðandi uppsögn kæranda. Því beri kæranda ekki að sæta biðtíma vegna starfslokanna og muni Vinnumálastofnun taka málið fyrir að nýju. Eftir standi ágreiningur um ákvörðun Vinnumálastofnunar um bótahlutfall kæranda samkvæmt 15. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 4. mgr. 15. gr. er svohljóðandi:

„Þrátt fyrir ákvæði 1.–3. mgr. getur tryggingarhlutfall launamanns aldrei orðið hærra en sem nemur starfshlutfalli hans á ávinnslutímabilinu eða því starfshlutfalli sem hann er reiðubúinn að ráða sig til, sbr. 4. mgr. 14. gr. Hafi launamaður ekki verið í sama starfshlutfalli allt ávinnslutímabilið skal miða við meðalstarfshlutfall hans á þeim tíma.“

Samkvæmt bráðabirgðaútreikningi á bótahlutfalli skapaði starfstími kæranda á ávinnslutímabili hennar 69% bótarétt. Á umsókn um atvinnuleysisbætur kveðst kærandi vera reiðubúin til að fara í 60% starfshlutfall. Samkvæmt 4. mgr. 15. laga um atvinnuleysistryggingar getur tryggingarhlutfall launamanns aldrei orðið hærra því starfshlutfalli sem hann er reiðubúinn að ráða sig til. Með vísan til framangreinds ber að staðfesta ákvörðun Vinnumálastofnunar um bótahlutfall kæranda.

Í ljósi yfirlýsingar Vinnumálastofnunar um að fallist hafi verið á skýringar kæranda er varðar ákvörðun um biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta á grundvelli 54. gr. laga nr. 54/2006 er ákvörðun um niðurfellingu bótaréttar í tvo mánuði felld úr gildi.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 2. apríl 2019, um 60% bótarétt A, er staðfest. Ákvörðun um niðurfellingu bótaréttar í tvo mánuði er felld úr gildi.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta