Mál nr. 476/2024 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 476/2024
Fimmtudaginn 28. nóvember 2024
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 29. september 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. september 2024, um að fella niður rétt hennar til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 13. september 2023 og var umsóknin samþykkt 20. september 2023. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. september 2024, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hennar væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar þar sem hún hefði ekki mætt á boðaðan fund hjá stofnuninni.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 29. september 2024. Með bréfi, dags. 1. október 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 23. október 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. október 2024. Athugasemdir bárust frá kæranda 29. október 2024 og voru kynntar Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. október 2024. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru gerir kærandi kröfu um að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði afturkölluð. Kærandi hafi verið í virkri atvinnuleit og fengið starf í lok ágúst 2024 sem hafi átt að hefjast 9. september 2024. Forsenda vinnuveitanda fyrir ráðningunni hafi verið að kærandi væri með ráðningarstyrk í sex mánuði en upphaflega hafi staðið til að ráða í starfið árið 2025. Þann 30. maí 2024 hafi kærandi sótt fund á vegum Vinnumálastofnunar þar sem um hafi verið að ræða skyldumætingu. Þar hafi hún viðrað þetta úrræði við ráðgjafa stofnunarinnar, nánar tiltekið hvað atvinnuleitandi ætti að gera ef til þess kæmi að nýta umræddan styrk. Kæranda hafi verið tjáð munnlega að allt umsóknarferli væri í höndum atvinnuleitanda og því ætti hún ekki að aðhafast sérstaklega til að virkja úrræðið.
Um leið og kærandi hafi tjáð vinnuveitanda um úrræðið hafi vinnuveitandi farið að grennslast fyrir um hvernig hann skyldi bera sig að. Bent hafi verið á að sækja rafrænt um á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Eftir ítrekaðar tilraunir vinnuveitanda hafi kerfið bilað og því verið ótækt að sækja um ráðningarstyrkinn. Stofnunin hafi veitt þau svör, dags. 3. september 2024, að um kerfisvillu væri að ræða sem yrði komin í lag eftir hádegi sama dag. Það hafi ekki staðist og kerfið hafi verið komið í lag 5. september 2024 eftir ítrekaðar tilraunir vinnuveitanda til að sækja um styrkinn. Staðfesting á móttöku umsóknar hafi borist vinnuveitanda 5. september 2024.
Daginn áður, eða 4. september 2024, þegar kerfið hafi enn legið niðri, hafi kærandi verið boðuð á fund Vinnumálastofnunar þann 5. september 2024 sem hafi borið heitið „Tækifæri í atvinnuleit“. Kærandi hafi hundsað umrætt boð í ljósi þess að ráðningarsamningur hafi þegar legið fyrir og sótt hafi verið um ráðningarstyrk á hennar nafni. Kærandi hafi einnig talið það skjóta skökku við að sækja staðlaðan upplýsingafund sem hafi borið heitið „Tækifæri í atvinnuleit“ þegar hún hafi litið svo á að hennar atvinnuleit væri lokið.
Kærandi hafi átt að hefja störf þann 9. september 2024 en ljóst hafi verið að það myndi ekki ganga upp sökum seinagangs Vinnumálastofnunar við að vinna úr umsókninni. Töfin hafi því verið tvíþætt. Í fyrsta lagi hafi vinnuveitandi ekki getað sótt um úrræðið vegna kerfisvillu hjá Vinnumálastofnun og í öðru lagi hafi töf verið á úrvinnslu. Kærandi hafi sem betur fer verið í góðum samskiptum við vinnuveitanda og þau hafi upplýst hvort annað vegna mikillar spennu að byrja í nýju starfi. Þann 16. september 2024, ellefu dögum frá móttöku umsóknar um ráðningarstyrk, hafi umsókninni verið hafnað þar sem kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði um styrk að svo stöddu. Höfnunin hafi komið kæranda og vinnuveitanda í opna skjöldu og kærandi hafi í kjölfarið hringt í Vinnumálastofnun. Kærandi hafi fengið þær skýringar að þar sem hún hefði ekki sótt umræddan upplýsingafund ætti hún ekki lengur rétt á styrknum. Kærandi hafi þá sent stofnuninni ítarlegt bréf þar sem hún hafi útskýrt ferlið og ástæður forfalla.
Þann 25. september hafi kæranda endanlega verið tjáð að henni væri gert að sæta viðurlögum í formi tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Þar með hafi fyrirhuguð atvinna sem kærandi hefði aflað sér í atvinnuleit og atvinnuleysisbætur horfið á einu bretti. Kærandi leyfi sér að efast um heilindi Vinnumálastofnunar í ferlinu og eiginlegum tilgangi vinnumarkaðsúrræða ef atvinnuleitandi sem afli sér starf á eigin vegum missi það atvinnutækifæri og sé auk þess gert að sæta viðurlögum fyrir að mæta ekki á fund sem beri því grátbroslega nafni „Tækifæri í atvinnuleit“.
Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Vinnumálastofnunar kemur fram að hún hafi mætt á fund Vinnumálastofnunar þann 23. október 2024 sem hafi verið boðaður með tæplega sólarhringsfyrirvara. Þar hafi kærandi viðrað sjónarmið sín í málinu. Fyrrum tilvonandi vinnuveitandi kæranda hafi þá samdægurs fengið símhringingu frá fulltrúa Vinnumálastofnunar sem hafi spurt hvort umrætt starf, þar sem ráðningarstyrk hefði áður verið hafnað, væri enn laust. Vinnuveitandi hafi svarað því til að hann hefði þurft að leita á önnur mið og því væri áður auglýst starf ekki lengur í boði. Eftir fundinn hafi kærandi fundið fyrir von um að vel hefði verið tekið í erindi hennar og að úrbætur og lausnir væru endanlegt markmið Vinnumálastofnunar. Það yrði kærkomin stefnubreyting frá þeim hörðu viðurlögum sem kærandi hefði hlotið. Starfið hafi því miður ekki verið laust og atvinnuleit kæranda haldi því áfram. Viðleitni Vinnumálastofnunar í að kanna möguleikann hjá atvinnuleitanda á að taka upp úrræðið á ný veiti kæranda trú um að stofnunin hafi í raun metið sjónarmið hennar gild og að þarna hafi verið farið rangt að. Af þeim sökum komi greinargerð Vinnumálastofnunar kæranda á óvart í ljósi þess sem á undan hafi gengið. Hún ítreki því sjónarmið sín.
Kærandi bendi á að hún hafi aldrei véfengt ríkar skyldur atvinnuleitanda til að sinna vinnumarkaðsúrræðum. Aldrei hafi staðið til að ganga gegn þeim skyldum sem henni beri að una sem atvinnuleitanda. Eftir standi að kærandi hafi misst atvinnutækifæri sökum þess að hún hafi ekki sinnt fundarboði vegna fundarins „Tækifæri í atvinnulífinu“ þegar fyrir liggi gögn um virka umsókn sem hafi verið treglega framreidd sökum tæknilegra örðugleika Vinnumálastofnunar. Kærandi telji því einsýnt að ef ekki hefði verið fyrir tæknilega örðugleika Vinnumálastofnunar hefði umrætt fundarboð aldrei verið sent þar sem úrvinnslu umsóknarinnar hefði verið lokið í lok ágústmánaðar 2024. Kærandi vísi einnig í meðalhófsregluna þar sem ekkert samræmi virðist vera á milli tilgangs og viðurlaga vegna ráðningarstyrks.
Kærandi spyrji hvort um sé að ræða raunverulega og endanlega afstöðu Vinnumálastofnunar að frysta takmarkaða innkomu tveggja barna móður eftir að hafa „hundsað boð“ á fund sem hafi borið heitið „Tækifæri í atvinnulífinu“ þegar umsókn um ráðningarstyrk með undirrituðum ráðningarsamningi hafi legið fyrir. Hún spyrji enn fremur hvort hægt sé að taka tillit til þess sem á undan hafi gengið og gæta meðalhófs. Ólíkt Vinnumálastofnun búi kærandi ekki svo vel að hafa tvo lögfræðinga sér við hlið til að vinna málið og vitna í stjórnsýslulög eða fletta upp fordæmum.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi síðast sótt um atvinnuleysistryggingar með umsókn, dags. 13. september 2023. Með bréfi, dags. 20. september 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%.
Þann 4. september 2024 hafi kærandi verið boðuð á upplýsingafundinn „Tækifæri í atvinnuleit“ á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar þann 5. september 2024, klukkan 9:15. Kærandi hafi verið upplýst um að um skyldumætingu væri að ræða og að öll forföll bæri að tilkynna án ástæðulausrar tafar. Kæranda hafi sömuleiðis verið tjáð að ótilkynnt forföll kynnu að leiða til þess að greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar yrðu stöðvaðar. Boðun þessi hafi verið birt á „Mínum síðum“ kæranda. Ásamt því hafi athygli verið vakin á nýjum samskiptum með tölvupósti á netfang kæranda og með smáskilaboðum í skráð símanúmer hennar, X. Samkvæmt skráningu Vinnumálastofnunar hafi smáskilaboðin borist í símtæki kæranda þann 4. september 2024, klukkan 8:19. Kærandi hafi hvorki mætt á boðaðan upplýsingafund né boðað forföll.
Með erindi, dags. 13. september 2024, hafi verið óskað eftir skriflegum skýringum kæranda á fjarveru hennar á boðaðan upplýsingafund. Áréttað hafi verið að hefði hún hafnað þátttöku í vinnumarkaðsaðgerð án gildra ástæðna gæti hún þurft að sæta viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Þann 21. september 2024 hafi Vinnumálastofnun borist tölvupóstur frá tölvupóstfanginu X með undirskrift kæranda þar sem kærandi titli sig sem starfsmann hjá B undir starfsheitinu „Marketing Coordinator“. Í fylgiskjali með tölvupóstinum hafi ítarlegar skýringar kæranda verið tilgreindar. Í skýringum hafi hún bent á að verðandi vinnuveitandi, B, hafi átt í erfiðleikum með að senda inn umsókn til vinnumiðlunar Vinnumálastofnunar um ráðningarstyrk til að ráða sig í vinnu. Í skýringum kæranda komi fram að boð Vinnumálastofnunar á upplýsingafund sem hefði farið fram þann 5. september 2024 hefði farið fram hjá sér. Af þeim sökum hafi hún ekki mætt á boðaðan upplýsingafund. Kærandi hafi bent á að hún hafi á þeim tíma verið með undirritaðan ráðningarsamning við B. Fyrirhugað hafi verið að vinna hennar hjá B ætti hefjast þann 9. september 2024.
Með erindi, dags. 25. september 2024, hafi kæranda verið tilkynnt um tveggja mánaða stöðvun á greiðslum atvinnuleysisbóta til hennar vegna fjarveru á boðaðan upplýsingafund þann 5. september 2024. Ákvörðun þessi hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.
Eitt af almennum skilyrðum fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að vera í virkri atvinnuleit, sbr. a. lið 1. mgr. 13. gr. Í 14. gr. laganna sé kveðið á um hvað felist í virkri atvinnuleit, en samkvæmt [h. lið] 1. mgr. 14. gr. felist virk atvinnuleit meðal annars í því að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum er standi til boða. Í 13. gr. laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsaðgerðir komi einnig fram skylda þess sem teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum sem Vinnumálastofnun ákveði. Ákvæði 13. gr. sé svohljóðandi:
„Atvinnuleitandi skal fylgja eftir áætlun um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum skv. 11. gr. og gera það sem í hans valdi stendur til að bæta vinnufærni sína til þess að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Þar á meðal skal atvinnuleitandi ávallt mæta í viðtöl til ráðgjafa Vinnumálastofnunar skv. 14. gr. og taka þátt í þeim vinnumarkaðsúrræðum er standa honum til boða. Atvinnuleitandi skal jafnframt tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar.“
Þá sé í 1. mgr. 14. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir kveðið á um að ráðgjafar Vinnumálastofnunar skuli hafa eftirlit með því að atvinnuleitendur fylgi eftir áætlun um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum.
Af framangreindum lagaákvæðum sé ljóst að heimildir Vinnumálastofnunar til að boða til sín atvinnuleitendur, og sömuleiðis skyldur atvinnuleitenda til að verða við slíkri boðun, séu ríkar. Þá sé það fortakslaust skilyrði svo unnt sé að aðstoða atvinnuleitendur við að fá starf við hæfi og gefa þeim kost á þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsaðgerðum að atvinnuleitendur sinni þeim boðunum sem þeim séu send. Í skilmálum sem umsækjendur um atvinnuleysisbætur samþykki þegar þeir sæki um greiðslur atvinnuleysistrygginga, komi fram að umsækjendum sé skylt að mæta í viðtöl, fundi, námskeið og önnur úrræði sem Vinnumálastofnun boði til.
Fyrir liggi að kærandi hafi ekki mætt á boðaðan upplýsingafund sem hafi farið fram á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar þann 5. september 2024. Áður hafi kærandi fengið sendar tilkynningar í tölvupósti, farsíma og á ,,Mínum síðum“ um boðun á umræddan upplýsingafund. Kærandi hafi fengið rúmlega sólarhringsfyrirvara til að bregðast við boðun stofnunarinnar. Á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi kærandi verið innt eftir skýringum á fjarveru sinni með erindi, dags. 13. september 2024. Ákvæðið sé svohljóðandi:
„Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma skv. 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr.“
Í 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Hið sama gildi þegar hinn tryggði mæti ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma. Í greinargerð með frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé efni 58. gr. laganna nánar skýrt. Þar segi að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og að litið sé svo á að þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Þá sé jafnframt tekið fram í greinargerðinni að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.
Í skýringum kæranda á ástæðum fjarveru hennar á boðaðan upplýsingafund komi fram að boð Vinnumálastofnunar hafi farið fram hjá sér. Þá bendi hún á að hún hafi verið komin í ráðningarsamband frá og með 9. september 2024.
Kærandi hafi valið að vera í rafrænum samskiptum við Vinnumálastofnun þegar hún hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta. Þegar umsókn kæranda hafi verið samþykkt hafi henni verið tilkynnt að Vinnumálastofnun myndi framvegis koma skilaboðum til hennar með tölvupósti, skilaboðum inn á „Mínum síðum“ kæranda og með smáskilaboðum. Kærandi hafi því verið upplýst með fullnægjandi hætti um hvernig henni yrðu send mikilvæg skilaboð og tilkynningar. Fyrir liggi að kæranda hafi verið send tilkynning í farsíma og tölvupósti þar sem henni hafi verið tjáð að henni biðu skilaboð á „Mínum síðum“. Í samskiptasögu kæranda komi fram að henni hafi sannarlega verið sendur tölvupóstur á uppgefið tölvupóstfang, X, og með smáskilaboðum í skráð farsímanúmer, X, þann 4. september 2024. Boðun til umrædds upplýsingafundar hafi því borist kæranda með sannanlegum hætti, sbr. lokamálslið 7. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Vinnumálastofnun meti skýringar kæranda er varði það atriði að hún hafi verið komin í ráðningarsamband frá og með 9. september 2024 ekki gildar. Í því samhengi bendi Vinnumálastofnun á að þann 5. september 2024 hafi kærandi verið búin að vera í atvinnuleit í að minnsta kosti fjórar vikur frá dagsetningu umsóknar hennar um atvinnuleysisbætur. Fyrirhuguð ráðning kæranda í vinnu með ráðningarstyrk afsaki ekki fjarveru kæranda í boðað vinnumarkaðsúrræði. Þá hafi kærandi ekki upplýst stofnunina á þessum tíma að hún myndi hefja störf 9. september 2024.
Í ljósi alls þess sem hér hafi verið rakið og þeirrar ríku skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 13. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, 7. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og 3. mgr. 13. gr. sömu laga. Með því að hafa ekki mætt á umræddan upplýsingafund og ekki tilkynnt um forföll hafi kærandi brugðist skyldum sínum og beri því að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í formi niðurfellingar á bótarétti í tvo mánuði.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Í 58. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því ef þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað. Segir þar í 1. mgr. að sá sem hafni þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í að minnsta kosti fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur, skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla laganna fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildi þegar hinn tryggði mæti ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma samkvæmt 6. mgr. 9. gr., nú 7. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr. laganna.
Í athugasemdum greinargerðar við frumvarp það er varð að lögum nr. 134/2009, um breytingu á lögum nr. 54/2006, segir meðal annars um viðurlög við því að virða ekki boðun Vinnumálastofnunar:
„Í ljósi þess að mikilvægt er að Vinnumálastofnun geti haldið reglulegu sambandi við þá sem fá greiddar atvinnuleysisbætur, ekki síst til að geta fylgst með gangi atvinnuleitar og hvort stofnunin þurfi að koma að frekari stuðningi við viðkomandi, er lagt til að það kunni að varða viðurlögum á grundvelli laganna í þeim tilvikum er atvinnuleitendur virða ekki boðun stofnunarinnar skv. 1. gr. frumvarps þessa. Á þetta ekki síst við þegar fá störf eru í boði og auknar líkur eru á að atvinnuleitin dragist á langinn. Jafnframt er lagt til að sama gildi þegar atvinnuleitendur eru boðaðir til stofnunarinnar í því skyni að kanna hvort sá hinn sami uppfylli enn skilyrði laganna, sbr. 4. og 6. gr. frumvarps þessa. Er því gert ráð fyrir að sömu viðurlög komi til og eiga við þegar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað.“
Í 7. mgr. 9. gr. kemur fram að sá sem telst tryggður á grundvelli laganna skuli eftir að umsókn hans hafi verið samþykkt og á þeim tíma sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum hafa reglulegt samband við Vinnumálastofnun eftir nánara fyrirkomulagi sem stofnunin ákveði. Þegar Vinnumálastofnun upplýsi umsækjanda um að stofnunin hafi samþykkt umsókn um atvinnuleysisbætur skuli hún jafnframt upplýsa hlutaðeigandi um með hvaða hætti stofnunin muni koma upplýsingum eða öðrum boðum til hans meðan á atvinnuleit hans standi. Komi Vinnumálastofnun upplýsingum eða boðum til umsækjanda með þeim hætti sem stofnunin hafi tiltekið við hlutaðeigandi teljast upplýsingarnar eða boðin hafa borist með sannanlegum hætti.
Þá segir í 3. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 að Vinnumálastofnun sé heimilt að boða þann tryggða til stofnunarinnar með sannanlegum hætti á þeim tíma sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum, meðal annars til að kanna hvort breytingar hafi orðið á högum hans sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum. Hinn tryggði skuli þá vera reiðubúinn að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara.
Í gögnum málsins liggur fyrir að kærandi var þann 4. september 2024 boðuð á upplýsingafund hjá Vinnumálastofnun, „Tækifæri í atvinnuleit“, sem fara átti fram á þjónustuskrifstofu stofnunarinnar í Reykjavík daginn eftir, þann 5. september 2024. Einhverjum dögum áður var kærandi búin að undirrita ráðningarsamning hjá tilteknu fyrirtæki sem hugðist sækja um ráðningarstyrk hjá Vinnumálastofnun. Vegna villu í kerfi Vinnumálastofnunar gat fyrirtækið ekki skráð starf kæranda fyrr en um morguninn 5. september 2024, eða á sama tíma og upplýsingafundurinn átti að fara fram. Fyrir liggur tölvupóstur frá fyrirtækinu 31. ágúst 2024 þar sem Vinnumálastofnun er upplýst um þessa villu í kerfinu og að það hafi árangurslaust í nokkra daga reynt að skrá starf kæranda.
Úrskurðarnefnd velferðarmála telur alveg ljóst að ef ekki hefði verið fyrir framangreinda villu í kerfi Vinnumálastofnunar hefði kærandi ekki verið boðuð á upplýsingafundinn „Tækifæri í atvinnuleit“, enda þá þegar með starf í hendi. Að mati úrskurðarnefndar bar því Vinnumálastofnun að taka tillit til framangreindra atvika áður en ákvörðun um beitingu viðurlaga var tekin eins og málum var háttað í tilviki kæranda. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar því felld úr gildi.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. september 2024, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, er felld úr gildi.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir