Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 49/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 26. október 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 49/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 1. mars 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, væri hafnað þar sem réttur hennar til atvinnuleysistrygginga skerðist að fullu þegar tekið sé tillit til tekna sem hún fái frá X. Enn fremur að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 70.348 kr. sem verði innheimtar. Kærandi vildi ekki una ákvörðun stofnunarinnar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dagsettu 15. mars 2010. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi starfaði hjá X frá 1. janúar 2007 til 24. júní 2008 í 87% starfshlutfalli. Hún hóf störf að nýju eftir fæðingarorlof í júní 2009. Umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur í minnkuðu starfshlutfalli á móti 80% starfi sem hún gegndi áfram hjá X var samþykkt. Hún var ekki metin í minnkuðu starfshlutfalli á grundvelli bráðabirgðaákvæðis V heldur sem almennur umsækjandi og komu tekjur hennar frá X til frádráttar greiðslum atvinnuleysistrygginga til hennar skv. 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar líkt og um hlutastarf væri að ræða. Hún fékk því greiddar 7% atvinnuleysisbætur sem almennur launamaður skv. a-lið 3. gr. og 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Tekjur kæranda komu til frádráttar atvinnuleysisbótum á tímabilinu skv. 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ofgreiddum atvinnuleysisbótum var skuldajafnað sem nam 25% af atvinnuleysisbótum í hverjum mánuði á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum í samræmi við 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi safnaði því upp skuld á sama tíma og hún fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun.

Kærandi kveðst hafa skilað inn öllum pappírum sem hún hafi verið beðin um og að sér hafi ekki verið kunnugt annað en að hún ætti rétt á þeim atvinnuleysistryggingum sem hún hafi fengið. Hún kveðst því vera ósátt við hina kærðu ákvörðun. Hún óskar þess að skuld hennar verði felld niður þar sem hún hafi verið í góðri trú þegar hún þáði bæturnar.

Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða óskaði eftir afstöðu Vinnumálastofnunar og í greinargerð stofnunarinnar, dags. 10. september 2010, kemur fram að mál þetta varði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefjast endurkröfu á ofgreiddum atvinnuleysistryggingum til kæranda þar sem hún hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar á tímabilinu frá 1. júní til 19. nóvember 2009. Samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar skuli sá sem teljist tryggður öðlast rétt til grunnatvinnuleysistrygginga. Lágmarksréttur til atvinnuleysistrygginga veiti rétt til 25% af grunnatvinnuleysisbótum, sbr. 2. mgr. 33. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 17. gr. laganna sé mælt fyrir um greiðslu atvinnuleysistrygginga samhliða minnkuðu starfshlutfalli og í 36. gr. laganna sé mælt fyrir um frádrátt frá greiðslum atvinnuleysistrygginga vegna tekna umsækjanda. Af framangreindu virtu megi ráða að kærandi hafi ekki átt rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga enda hafi hún ekki náð lágmarksbótahlutfalli til að eiga rétt á greiðslum frá Vinnumálastofnun. Auk þess hafi bráðabirgðaákvæði V ekki átt við um hagi kæranda þar sem hún hafi ekki náð tilskilinni 10% starfshlutfallslækkun og hafi það verið mistök hjá stofnuninni að greiða kæranda atvinnuleysisbætur á tímabilinu. Þrátt fyrir það telji Vinnumálastofnun að kæranda beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur er hún hafi fengið greiddar fyrir það tímabil sem hún hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 2. mgr. 39. gr. laganna. Stofnunin geri ekki kröfu um 15% álag enda megi að öllu leyti rekja ástæður fyrir framangreindum atvikum til mistaka hjá Vinnumálastofnun.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. september 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 28. september 2010. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að því að kærandi fékk ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá 1. júní til 19. nóvember 2009.

Í gögnum máls þessa liggur fyrir hverjar tekjur kæranda voru í starfi hennar hjá X á tímabilinu 1. júní til 19. nóvember 2009.

Í 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir:

Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Í greinargerð með ákvæðinu er áréttað að Vinnumálastofnun hafi heimildir samkvæmt því til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta. Sérstaklega er tekið fram að það eigi við í öllum tilvikum sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið hærri greiðslur en honum bar. Það er því tekið fram að ekki skipti máli hver ástæða þess er að hinn tryggði hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Með vísan til þessa eru engin rök til þess að fella niður skyldu kæranda til endurgreiðslu ofgreiddra bóta vegna þess að viðurkennt er af hálfu Vinnumálastofnunar að ástæða þess sé mistök stofnunarinnar.

Í 17. og 22. gr., sbr. 32. og 34. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, er nákvæm útlistun á því hvernig reikna skuli þær hámarksbætur sem hinn tryggði getur átt rétt á úr sjóðnum. Kærandi fékk ofgreiddar bætur að fjárhæð 70.348 kr. á tímabilinu 1. júní til 19. nóvember 2009 og er sá útreikningur Vinnumálastofnunar ekki vefengdur.

Ekki verður hjá því komist að staðfesta niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar enda er hún í samræmi við ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. framantalin lagaákvæði. Niðurfelling 15% álags er ákveðin af Vinnumálastofnun í hinni kærðu ákvörðun og er að mati kærunefndarinnar ekki ástæða til að gera athugasemd við þann hluta ákvörðunarinnar.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A frá 30. janúar 2010 um synjun greiðslu atvinnuleysisbóta og um endurkröfu ofgreiddra atvinnuleysisbóta á tímabilinu frá 1. júní til 19. nóvember 2009 að fjárhæð 70.348 kr. er staðfest.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta