Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 112/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 26. október 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 112/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 3. júní 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hafi á fundi sínum þann 31. maí 2010 tekið þá ákvörðun að fella niður greiðslu atvinnuleysisbóta til hennar þar sem hún væri ekki í virkri atvinnuleit skv. 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 5. júlí 2010. Hún telur sig eiga rétt á fullum bótum en Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi var boðuð bréflega til fundar hjá eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar þann 5. maí 2010 og var fundarboðið hluti af handahófskenndu eftirliti stofnunarinnar. Hún hvorki mætti eða svaraði skriflegri beiðni um skýringar á fjarveru sinni. Á fundi Vinnumálastofnunar þann 31. maí 2010 var tekin ákvörðun um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar þar sem hún var ekki talin vera í virkri atvinnuleit vegna fjarveru hennar á boðuðum fundi þann 5. maí 2010. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 3. júní 2010, var kæranda tilkynnt þessi ákvörðun. Í svari hennar til Vinnumálastofnunar kemur fram að hún hafi þegar sent sínar skýringar en við nánari athugun kom í ljós að hún hefði sent þær á rangt netfang þannig að þær bárust ekki.

Í bréfi kæranda til Vinnumálastofnunar, dags. 15. júlí 2010, kemur fram að hún hafi haft samband við Vinnumálastofnun og greint frá fyrirhugaðri ferð sinni til útlanda í þeim tilgangi að afla sér og fleiri vinnu. Hún kveðst hafa haft samband við starfsmenn Vinnumálastofnunar og tilkynnt hvað hún hefði í hyggju. Hvorki hafi verið gerðar athugasemdir við þau áform hennar né henni bent á að hún væri með þessu að stofna réttindum sínum í hættu. Kærandi telur að það sé alfarið á ábyrgð starfsfólks Vinnumálastofnunar að upplýsa fólk um stöðu sína er það leiti eftir upplýsingum og sé það ekki gert sé fullvíst að bótaþegi sé í fullum rétti samkvæmt landslögum.

Af gögnum málsins má ráða að kærandi hefur ítrekað verið beðin að skila inn afriti af farseðlum til þess að upplýsa um það tímabil sem hún var erlendis og uppfyllti því ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hefur ekki afhent farseðla vegna ferðar sinnar. Af hálfu Vinnumálastofnunar kemur fram að stofnunin muni taka málið til afgreiðslu á ný þegar umbeðin gögn hafa borist.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar sem send var úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 5. október 2010, er bent á að í c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé skýrt kveðið á um að eitt af skilyrðum fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta sé að atvinnuleitandi sé búsettur og staddur á landinu. Í 3. mgr. 13. gr. laganna sé kveðið á um heimild Vinnumálastofnunar til að boða þann tryggða til fundar við stofnunina, meðal annars í þeim tilgangi að kanna hvort hann uppfylli skilyrði laganna fyrir greiðslum atvinnuleysisbóta. Sé gerð sú krafa til hins tryggða að hann sé reiðubúinn að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara. Svo hinn tryggði geti talist í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar beri honum að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem verði á aðstæðum hans án ástæðulauss dráttar, einnig um ferðir sínar utanlands enda geti hinn tryggði ekki talist í virkri atvinnuleit hérlendis á sama tíma.

Vinnumálastofnun sé ekki kunnugt um að kærandi hafi látið vita af fyrirhugaðri ferð sinni. Það sé ljóst að á því tímabili er atvinnuleitandi hafi verið stödd erlendis hafi hún ekki uppfyllt almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Svo unnt sé að staðreyna það tímabil er kærandi dvaldi erlendis og uppfyllti ekki skilyrði c-liðar 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þurfi stofnuninni að hafa borist afrit af farseðlum. Vinnumálastofnun hafi ítrekað óskað eftir farseðlum frá kæranda, en þeir hafi ekki borist.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. október 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 20. október 2010. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysis­tryggingum launamanna. Samkvæmt 1. mgr. þarf launamaður meðal annars að uppfylla eftirtalin skilyrði til að teljast tryggður samkvæmt lögunum; vera í virkri atvinnuleit skv. 14. gr. og vera staddur hér á landi. Samkvæmt 3. mgr. er Vinnumálastofnun heimilt að boða þann tryggða til stofnunarinnar með sannanlegum hætti á þeim tíma sem hann fær greiddar atvinnu­leysisbætur, meðal annars til að kanna hvort breytingar hafi orðið á högum hans sem kunna að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum. Skal hinn tryggði þá vera reiðubúinn að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara.

Svo hinn tryggði geti talist í virkri atvinnuleit skv. 14. gr. laganna ber honum að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem verði á aðstæðum hans án ástæðulauss dráttar. Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. skal sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum.

Kærandi mætti ekki til boðaðs fundar hjá Vinnumálastofnun og braut með því gegn skilyrði 3. mgr. 13. gr. laganna. Henni var gefið færi á að skýra fjarveru sína á fundinum sem hún gerði, en samkvæmt skýringum hennar dvaldi hún erlendis á þeim tíma er fundurinn var haldinn. Vegna dvalar sinnar erlendis telst hún ekki uppfylla það almenna skilyrði 1. mgr. 13. gr. að tryggður skuli vera staddur hér á landi. Samkvæmt því uppfyllti hún heldur ekki það skilyrði þess að geta talist vera í virkri atvinnuleit að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem verði á aðstæðum hans án ástæðulauss dráttar, sbr. 14. gr. laganna. Kærandi hefur ekki orðið við ítrekuðum tilmælum Vinnumálastofnunar um að hún veiti nánari upplýsingar um dvöl hennar erlendis svo unnt sé að meta réttindi hennar samkvæmt lögunum. Engar upplýsingar liggja fyrir hjá Vinnumálastofnun um að kærandi hafi látið vita af för sinni til útlanda og því verður ekki talið að leiðbeiningarskylda hafi verið brotin gegn henni.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður að fallast á að kærandi uppfyllti ekki almenn skilyrði til greiðslu atvinnuleysisbóta. Eins og kemur fram í greinargerð Vinnumálastofnunar verður mál hennar tekið upp að nýju er hún hefur framvísað umbeðnum gögnum um dvöl sína erlendis. Með hliðsjón af framanrituðu er niðurstaða Vinnumálastofnunar staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 31. maí 2010 í máli A um niðurfellingu atvinnuleysisbóta er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta