Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 120/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 120/2021

Föstudaginn 4. júní 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 2. mars 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 1. mars 2021, um að fella niður bótarétt hennar í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 19. október 2020 og var umsókn hennar samþykkt 2. nóvember 2020. Í janúar 2021 skráði kærandi sig á námskeið á vegum Vinnumálastofnunar. Þann 7. janúar 2021 var kæranda tilkynnt að námskeiðið yrði haldið á tímabilinu 12. janúar til 4. febrúar 2021 og tekið fram að um skyldumætingu væri að ræða. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 16. febrúar 2021, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda á ástæðum þess að hún hefði hafnað þátttöku í vinnumarkaðsúrræði. Í bréfinu vakti stofnunin athygli á því að samkvæmt 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar geti þeir sem hafni þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, án gildra ástæðna, þurft að sæta biðtíma á grundvelli laganna. Skýringar bárust frá kæranda samdægurs. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 1. mars 2021, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hennar væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 58. gr. laga nr. 54/2006.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. mars 2021. Með bréfi, dags. 3. mars 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 18. mars 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. mars 2021, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi óski eftir því að viðurlög í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum verði endurskoðuð. Kærandi biðjist velvirðingar á því að hafa misst af þeim tímum sem eftir voru á námskeiði sem hún hafi verið skráð á hjá Vinnumálstofnun. Ástæða þess að kærandi hafi ekki mætt í umrædda tíma hafi verið sú að fartölva hennar, sem hún noti daglega og hafi notað í fyrstu tveimur tímum námskeiðsins, hafi skemmst eftir seinni tímann. Kærandi hafi óvart hellt vatni á tölvuna og hafi því ekki kveikt á tölvunni næstu daga á eftir. Það hafi verið stór ákvörðun fyrir kæranda að láta laga tölvuna þar sem hún sé atvinnulaus og kostnaðurinn sé mikill. Þegar kærandi hafi farið með tölvuna í viðgerð hafi henni verið sagt að hægt væri að laga tölvuna en það myndi taka að minnsta kosti þrjár vikur. Tölvuvandamál og framangreind ákvörðun Vinnumálastofnunar valdi kæranda miklum áhyggjum og gremju, sem og efnahagsástandið, skortur á lausum störfum og atvinnuleysi hennar.

Það hafi ekki hvarflað að kæranda að hafa samband við leiðbeinanda námskeiðsins fyrir hvert skipti sem eftir væri af námskeiðinu þó að það hefði átt að gera það. Þetta hafi verið mistök hjá kæranda sem hún biðjist afsökunar á. Hún sjái nú að í námskeiðsgögnunum séu símanúmer og tengiliðaupplýsingar vegna tilkynninga um mætingu.

Kærandi vilji einnig koma því á framfæri að hún notist við gamlan síma frá árinu 2012 sem hafi varla nægilegt geymslupláss fyrir nauðsynleg snjallforrit sem notuð séu daglega, svo sem Strætó forritið. Kærandi þurfi að eyða snjallforritum til að bæta öðrum við og hafi kærandi ekki getað halað niður nauðsynlegu myndbandsforriti í símann sinn vegna skorts á geymsluplássi. Þar sem sími kæranda hafi verið gamall og hægur hafi kærandi ekki getað skoðað PDF skjölin og námskeiðsgögnin sem hún hafi þurft til að sjá tengiliðaupplýsingar leiðbeinanda námskeiðsins. Kærandi hafi gert það núna með því að nota fartölvu vinar og sjái að hún hafi gert alvarleg mistök.

Kærandi óski eftir því, í ljósi efnahagsástands á Íslandi og áframhaldandi atvinnuleitar kæranda, að ákvörðun um niðurfellingu atvinnuleysisbóta hennar í tvo mánuði verði endurskoðuð. Framangreindir tæknilegir erfiðleikar kæranda hafi haft mikil áhrif á mætingu kæranda á námskeiðið og á getu hennar til að láta leiðbeinanda sinn vita af því að hún kæmi ekki í tímana. Kærandi hafi haft ánægju af fyrstu tveimur tímunum og hafi verið mjög spennt fyrir því tækifæri að vinna í sjálfri sér. Kærandi hafi verið stolt af því að taka þátt og hefði haldið því áfram ef tölva hennar hefði ekki skemmst. Kæranda finnist ekki rétt að hún missi bótarétt sinn í tvo mánuði fyrir það að hafa leitast við að vinna í sjálfri sér og hún hafi fengið mikið út úr þeim tveimur tímum sem hún gat mætt í. Kærandi hafi verið búin að ákveða að hafa samband til að fá upplýsingar um að klára námskeiðið í öðrum hópi þegar tölva hennar væri komin úr viðgerð. Ef það sé möguleiki vilji hún gjarnan taka þátt þegar hægt sé á næstunni.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að þann 9. febrúar 2021 hafi Greiðslustofu borist tilkynning þess efnis að mæting kæranda á umrætt námskeið hafi verið ófullnægjandi. Námskeiðið hafi í heildina verið haldið í átta skipti en þar af hafi kærandi verið fjarverandi í sex skipti. Umsókn kæranda hafi í kjölfarið verið frestað þann 15. febrúar 2021 og kæranda verið boðið að skila skriflegum skýringum á ástæðum höfnunar á þátttöku í vinnumarkaðsúrræði. Þann 16. febrúar 2021 hafi kærandi komið skriflegri afstöðu sinni á framfæri þess efnis að fartölva hennar hafi orðið fyrir tjóni og hafi þarfnast viðgerðar.

Í 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í greinargerð er fylgdi frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé efni 58. gr. laganna nánar skýrt. Þar segi að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og að litið sé svo á að þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Þá sé jafnframt tekið fram í greinargerðinni að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Samkvæmt h-lið 1. mgr. 14. gr. laganna felist virk atvinnuleit meðal annars í því að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum er standi til boða. Í 13. gr. laga um vinnumarkaðsúrræði nr. 55/2006 komi einnig fram skylda þess sem telst tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum sem Vinnumálastofnun bjóði upp á.

Það liggi fyrir að kærandi hafi skráð sig á námskeið á vegum Vinnumálastofnunar. Kæranda hafi verið tilkynnt með tölvupósti þann [7. janúar] 2021 að skyldumæting væri á námskeiðið. Þrátt fyrir það hafi kærandi aðeins mætt í tvö skipti af átta.

Atvinnuleitendum beri í samræmi við 2. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr. sömu greinar, þar á meðal um tilfallandi veikindi eða fjarveru á boðaðan fund, án ástæðulausrar tafar. Í skýringum kæranda komi fram að hún hafi ekki tilkynnt um fjarveru sína á umrætt námskeið vegna eigin mistaka og tæknierfiðleika. Í erindi sínu hafi kærandi þó áréttað að hún hafi haft fullnægjandi upplýsingar til þess að boða forföll sín, þ.e. símanúmer og viðeigandi upplýsingar um tengiliði. Með vísan til framangreinds telji Vinnumálastofnun að ástæður kæranda séu ekki gildar í skilningi laga nr. 54/2006. Kæranda beri því að sæta viðurlögum á grundvelli 58. gr. laganna. Með vísan til framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að réttilega hafi verið staðið að ákvörðun stofnunarinnar í máli kæranda.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 58. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því ef þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað. Segir þar í 1. mgr. að sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í að minnsta kosti fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur, skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla laganna fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma samkvæmt 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr. laganna.

Í athugasemdum greinargerðar við frumvarp það er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars um 1. mgr. 58. gr. að ekki séu tilgreindar sérstakar vinnumarkaðsaðgerðir sem geti valdið því að hinn tryggði þurfi að sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu heldur eigi það við um allar aðgerðir sem hinum tryggða sé boðið að taka þátt í til að auka líkur sínar á að fá vinnu við hæfi. Gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og hinir tryggðu njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar. Þannig megi ætla að þeim, sem eru tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins, verði boðin þátttaka í vinnumarkaðsúrræðum við hæfi en litið sé svo á að þeim sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist hinn tryggði þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Samkvæmt gögnum málsins skráði kærandi sig á námskeið á vegum Vinnumálastofnunar sem haldið var á tímabilinu 12. janúar til 4. febrúar 2021. Í tölvupósti frá Vinnumálastofnun, dags. 7. janúar 2021, var kæranda greint frá því að um skyldumætingu væri að ræða. Kærandi mætti í tvö af átta skiptum á framangreint námskeið. Kærandi hefur borið því við að tölva hennar hafi skemmst og farið í viðgerð. Því hafi hún ekki mætt eftir annað skiptið og ekki látið leiðbeinanda sinn vita af fjarveru sinni.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hefur kærandi ekki fært fram viðunandi skýringar sem réttlæta að hún hafi ekki mætt í vinnumarkaðsúrræðið sem henni var gert að sækja. Í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 kemur skýrt fram að sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli sæta viðurlögum á grundvelli ákvæðisins. Ákvæðið er fortakslaust og því er ekki heimilt að beita vægari úrræðum en þar er kveðið á um. Að því virtu er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 1. mars 2021, um að fella niður bótarétt A, í tvo mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta