Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 586/2020-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 586/2020

Fimmtudaginn 25. mars 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 12. nóvember 2020, kærði B lögfræðingur, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 21. september 2020, um að synja umsókn hennar um atvinnuleysisbætur.

I.Málsatvik og málsmeðferð       

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun 4. ágúst 2020. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 21. september 2020, var umsókn kæranda synjað á grundvelli 2. mgr. 15. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. nóvember 2020. Með bréfi, dags. 17. nóvember 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 21. desember 2020 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. janúar 2021, var hún send umboðsmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi eignast dóttur árið X og verið í fæðingarorlofi með hana þangað til að hún hafi eignast son í júlí X. Sonur hennar hafi fæðst með alvarlegan genatengdan sjúkdóm og kærandi hafi samkvæmt læknisráði verið heima með honum fyrstu tvö árin. Vinnumálastofnun hafi hafnað umsókn kæranda með vísan til 2. mgr. 15. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt 24. gr. a. sömu laga geymist áunnar atvinnuleysistryggingar í allt að 24 mánuði vegna fæðingarorlofs. Einnig komi fram í 26. gr. laganna að sá sem hverfi af vinnumarkaði vegna sjúkdóma eða slyss geti geymt þegar áunna atvinnuleysistrygginu þann tíma sem hann sé óvinnufær. Ljóst sé að kærandi hafi ekki átt kost á að hefja aftur vinnu eða atvinnuleit eftir að fæðingarorlofi hennar hafi lokið. Það ætti að taka mið af framangreindu við ákvörðun um rétt kæranda til atvinnuleysisbóta.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Vinnumálastofnun tekur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Markmið atvinnuleysistrygginga sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Í III. kafla laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna, en launamenn í skilningi laganna séu þeir sem hafa unnið launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt hafa tryggingagjald vegna starfsins, sbr. a-lið 3. gr. laga nr. 54/2006. Í e-lið 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 sé mælt fyrir um það skilyrði að launamaður teljist tryggður samkvæmt lögunum hafi hann verið launamaður á ávinnslutímabili samkvæmt 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Með hugtakinu ávinnslutímabil sé átt við þann tíma sem launamaður þurfi að vera virkur á vinnumarkaði til að teljast vera að fullu tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Í 15. gr. laganna sé nánar mælt fyrir um ávinnslutímabil og segi í 1. mgr. ákvæðisins að launamaður skuli teljast að fullu tryggður hafi hann starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum áður en hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur að öðrum skilyrðum uppfylltum. Af fyrirliggjandi gögnum málsins megi ráða að kærandi hafi síðast verið við störf í júlí 2017 og geti hún þar af leiðandi ekki talist tryggð samkvæmt 15. gr. laga nr. 54/2006.

Í 23. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi fram að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum og hverfi af vinnumarkaði geti geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu í allt að 24 mánuði frá þeim degi er störfum hafi sannanlega verið hætt. Í 3. og 4. mgr. 23. gr. laganna komi fram að við útreikning á ávinnslutímabili samkvæmt 15. eða 19. gr. þegar komi til geymdrar atvinnuleysistryggingar skuli líta til síðustu tólf mánaða sem hinn tryggði hafi starfað á innlendum vinnumarkaði á síðustu 36 mánuðum frá móttöku umsóknar, enda leiði ekki annað af lögunum. Meginreglan sé því sú að einstaklingur sem hverfi af vinnumarkaði í allt að 24 mánuði og sæki síðan um atvinnuleysisbætur geti talist tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Þannig geti upphaf ávinnslutímabils verið að hámarki 36 mánuðir aftur í tímann frá þeim degi er umsókn hafi borist, enda hafi umsækjandi ekki verið virkur á vinnumarkaði á síðustu 24 mánuðum. Hafi hann ekki sótt um atvinnuleysisbætur innan 24 mánaða frá þeim tíma er hann sannanlega hætti þátttöku á vinnumarkaði falli réttur hans til geymdrar atvinnuleysistryggingar niður.

Af fyrirliggjandi gögnum megi ráða að kærandi hafi síðast verið í launuðu starfi á innlendum vinnumarkaði í júlí 2017. Kærandi hafi ekki sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga fyrr en með umsókn, dags. 4. ágúst 2020, eða rúmlega 36 mánuðum eftir að síðasta starfi hafi lokið og falli hún því ekki undir 23. gr. laga nr. 54/2006.

Í 24. gr. a. laga um atvinnuleysistryggingar komi fram að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum og taki fæðingarorlof samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof geti geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu í allt að 24 mánuði frá þeim degi er hann sannanlega hóf töku fæðingarorlofs. Í 4. mgr. sömu greinar komi fram að ef hinn tryggði sæki ekki um atvinnuleysisbætur innan 24 mánaða frá þeim degi er hann sannanlega hvarf af vinnumarkaði falli réttur hans til að geyma atvinnuleysistrygginguna niður. Af staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra megi ráða að kærandi hafi fengið greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði nær samfellt frá ágúst 2017 til október 2019. Kærandi hafi ekki sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga fyrr en með umsókn, dags. 4. ágúst 2020, eða rúmlega 36 mánuðum eftir að hún hafi horfið af vinnumarkaði, og því falli hún ekki undir 24. gr. a. laga nr. 54/2006.

Í 26. gr. laga nr. 54/2006 komi fram að hinn tryggði geti geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu þann tíma sem hann hafi verið óvinnufær. Ákvæðið nái samkvæmt orðanna hljóðan nær eingöngu til þeirra tilvika þegar hinn tryggði sjálfur hafi verið veikur. Veikindi barns eða náinna fjölskyldumeðlima veiti ekki rétt samkvæmt 26. gr. laganna.

Samkvæmt framangreindu geti kærandi ekki talist tryggð þar sem vinna hennar á ávinnslutímabili bótaréttar nái ekki því lágmarki sem kveðið sé á um í 2. mgr. 15. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 54/2006. Með vísan til alls ofangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að hafna beri umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á grundvelli 2. mgr. 15. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að hafa verið launamaður á ávinnslutímabili samkvæmt 15. gr. í starfi sem sé ekki hluti af vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. þó V. kafla laganna, sbr. e-lið 1. mgr. ákvæðisins. Launamaður er hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt er tryggingagjald vegna starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald, sbr. a-lið 3. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna, eins og ákvæðið var þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur, telst launamaður, sbr. a-lið 3. gr., að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó 4. mgr. Í 2. mgr. 15. gr. kemur fram að launamaður, sem starfað hefur skemur en tólf mánuði en lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, teljist tryggður hlutfallslega í samræmi við lengd starfstíma að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. einnig 4. mgr. Samkvæmt 4. mgr. 15. gr. getur tryggingarhlutfall launamanns aldrei orðið hærra en sem nemur starfshlutfalli hans á ávinnslutímabilinu eða því starfshlutfalli sem hann er reiðubúinn að ráða sig til, sbr. 4. mgr. 14. gr. Hafi launamaður ekki verið í sama starfshlutfalli allt ávinnslutímabilið skal miða við meðalstarfshlutfall hans á þeim tíma.

Samkvæmt gögnum málsins starfaði kærandi síðast á innlendum vinnumarkaði í júlí 2017. Að því virtu hafði hún ekki áunnið sér rétt til atvinnuleysistrygginga á grundvelli 15. gr. laga nr. 54/2006.

Af hálfu kæranda hefur komið fram að taka eigi tillit til ákvæða 24. gr. a. og 26. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um geymdan bótarétt við ákvörðun um rétt hennar til atvinnuleysisbóta. Í V. kafla laga nr. 54/2006 er kveðið á um tilvik er leiða til þess að atvinnuleysistryggingar geymast. Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. laga um atvinnuleysistryggingar getur sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum og hverfur af vinnumarkaði geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu í allt að 24 mánuði frá þeim degi er hann sannanlega hætti störfum. Hið sama á við þegar sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum tekur ólaunað leyfi frá störfum samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi. Þá kemur fram í 4. mgr. 23. gr. að sæki hinn tryggði ekki um atvinnuleysisbætur innan 24 mánaða frá þeim degi er hann sannanlega hvarf af vinnumarkaði falli réttur hans til að geyma atvinnuleysistrygginguna niður. Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 4. ágúst 2020, eða rúmlega 36 mánuðum eftir að síðasta starfi lauk. Því uppfyllir hún ekki skilyrði 4. mgr. 23. gr. laga nr. 54/2006.

Samkvæmt 24. gr. a. laga um atvinnuleysistryggingar getur sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum og tekur fæðingarorlof samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu í allt að 24 mánuði frá þeim degi er hann sannanlega hóf töku fæðingarorlofs. Í 4. mgr. 24. gr. a. kemur fram að sæki hinn tryggði ekki um atvinnuleysisbætur innan 24 mánaða frá þeim degi er hann sannanlega hvarf af vinnumarkaði falli réttur hans til að geyma atvinnuleysistrygginguna niður. Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði nær samfellt frá ágúst 2017 til október 2019. Líkt og áður greinir sótti kærandi um atvinnuleysisbætur 4. ágúst 2020 eða rúmlega 36 mánuðum eftir að hún hóf töku fæðingarorlofs. Því uppfyllir hún ekki skilyrði 4. mgr. 24. gr. a. laga nr. 54/2006.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 54/2006 getur sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum og hverfur af vinnumarkaði verði hann óvinnufær vegna sjúkdóms eða slyss geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu þann tíma sem hann er óvinnufær. Ljóst er að ákvæðið tekur eingöngu til veikinda atvinnuleitenda sjálfra en ekki veikinda barna þeirra. Að því virtu kemur ákvæðið ekki til skoðunar í máli kæranda.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er ljóst að kærandi er ekki tryggð samkvæmt lögum nr. 54/2006. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 21. september 2020, um að synja umsókn A, um atvinnuleysisbætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta