Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 65/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 65/2015

Fimmtudaginn 28. apríl 2016

A

gegn

Vinnumálastofnun


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni þann 6. október 2015, kærir A, til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. október 2015, um að fella niður bótarétt hennar frá og með 5. október 2015 í tvo mánuði.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 2. febrúar 2015 og var umsóknin samþykkt. Með bréfi, dags. 10. september 2015, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda um að stofnuninni hefðu borist upplýsingar um að hún hefði verið stödd erlendis í ágúst 2015 samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt um það til stofnunarinnar. Kæranda var veittur sjö daga frestur til að skila inn skýringum og farseðlum. Skýringar ásamt öðrum flugfarseðlinum bárust með tölvupósti þann 10. september 2015. Með bréfi, dags. 29. september 2015, var kæranda tilkynnt um að þar sem gögnin, sem óskað hafi verið eftir, hefðu ekki borist væru greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar stöðvaðar. Kærandi sendi hinn flugfarseðilinn með tölvupósti þann 29. september 2015.

Með bréfi, dags. 5. október 2015, var kæranda tilkynnt um að bótaréttur hennar yrði felldur niður frá og með 5. október 2015 í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sökum þess að hún hefði ekki tilkynnt Vinnumálastofnun fyrirfram um dvöl hennar erlendis.

Kæra barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 6. október 2015. Með bréfi, dags. 9. október 2015, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 19. nóvember 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. nóvember 2015, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Af kæru má ráða að kærandi óski eftir því að ákvörðun Vinnumálastofnunar, um niðurfellingu bóta í tvo mánuði, verði felld úr gildi.

Kærandi greinir frá því í kæru að hún hafi verið í 54% starfi í ágúst og september og hafi þar af leiðandi átt að fá bætur á móti því. Þess vegna skilji hún ekki af hverju hún sé sett á biðtíma í október 2015 þegar hún sé komin í 95% bótahlutfall. Hún hafi ekki fengið neitt greitt frá Vinnumálastofnun síðan 1. júlí  vegna þess að hún hafi ekki verið á skrá í júlí og svo farið í hlutastarf í ágúst þegar brotið hafi átt sér stað. Hún sé ekki að reyna að réttlæta brotið en hún hafi hreinlega gleymt að láta vita þar sem hún hafi ekki verið búin að fá bætur í júlí og hún hefði svo sannarlega látið vita þar sem þetta hafi verið svo lítið sem hún hafi fengið í bætur. Hún sendi gögn um leið og hún hafi fengið bréfið en hafi orðið á að senda óvart tvisvar sinnum sama farseðilinn. Því hafi vantað einn farseðil og það hafi tekið Vinnumálastofnun þrjár vikur að láta vita að ekki öll gögnin hefðu borist og því finnist henni hálf fúlt að vera sett á biðtíma 5. október 2015 þegar hún hafi verið komin með hærri bótarétt. Það sé ekki í samræmi við þann bótarétt sem hún hafi verið á þegar brotið hafi verið framið.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að ákvörðun um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Þá vísar Vinnumálastofnun til c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem mælt er fyrir um að umsækjandi um greiðslur atvinnuleysistrygginga þurfi að vera búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum. Vinnumálastofnun vísar einnig til 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem mælt er fyrir um upplýsingarskyldu umsækjanda til Vinnumálastofnunar.

Stofnunin bendir á að í athugasemdum með frumvarpi því, er hafi orðið að lögum nr. 37/2009 til breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar, komi meðal annars fram að láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar eða veiti rangar upplýsingar komi til álita að beita viðurlögum samkvæmt 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun áréttar að einnig sé mælt fyrir um þessa upplýsingarskyldu umsækjenda um greiðslur atvinnuleysisbóta í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum.

Vinnumálastofnun bendir á 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kveðið sé á um viðurlög við brotum á upplýsingarskyldu hins tryggða. Þá segir að ljóst sé að kærandi hafi verið staddur erlendis á tímabilinu frá X til X. Í 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé skýrt kveðið á um þá skyldu umsækjenda um greiðslur atvinnuleysisbóta að vera í virkri atvinnuleit. Það sé jafnframt gert að skilyrði að umsækjandi sé staddur hér á landi, sbr. c-lið 1. mgr. 13. gr. laganna. Kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun fyrir fram um utanlandsferð sína, líkt og henni hafi borið samkvæmt 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Þá segir að á kynningarfundum Vinnumálastofnunar sé vakin athygli á því að eitt af skilyrðum fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta sé að atvinnuleitandi sé búsettur og staddur hér á landi og að ótilkynntar ferðir til útlanda séu óheimilar meðfram töku atvinnuleysistrygginga. Þessar upplýsingar sé einnig að finna á heimasíðu stofnunarinnar. Það sé mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi í umrætt sinn látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um atvik sem hafi haft bein áhrif á rétt hennar til greiðslu atvinnuleysistrygginga. Kærandi eigi því ekki rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga í tvo mánuði frá ákvörðunardegi þann 5. október 2015 í samræmi við 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hljóðar svo:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur … látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Þetta ákvæði þarf meðal annars að túlka með hliðsjón af því að samkvæmt c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 4. gr. laga nr. 134/2009, er eitt af skilyrðum þess að geta haldið rétti sínum í atvinnuleysistryggingakerfinu að vera búsettur og staddur hér á landi.

Óumdeilt er í máli þessu að kærandi fór til útlanda í ágústmánuði 2015 án þess að láta Vinnumálastofnun vita af því fyrir fram. Kærandi byggir hins vegar á því að hún hafi  einfaldlega gleymt að láta stofnunina vita af ferðinni. Þá er kærandi ósátt við að upphaf tveggja mánaða biðtímans skyldi ekki vera fyrr en 5. október 2015 þar sem hún hafi þá verið komin með hærri bótarétt en í mánuðinum á undan. Einnig gerir hún athugasemd við að langur tími hafi liðið frá því að hún skilaði öðrum farseðlinum þar til henni hafi verið tilkynnt um að frekari gögn vantaði.

Í ljósi þeirrar upplýsingarskyldu atvinnuleitenda, sem kveðið er á um í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, fellst úrskurðarnefndin á að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun í umrætt sinn er hún hélt af landi brott án þess að láta vita af því fyrir fram. Því bar Vinnumálastofnun að láta hann sæta viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laganna. Ákvæði 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fortakslaust, en í því felst að hvorki Vinnumálastofnun né úrskurðarnefndin getur tekið ákvörðun um vægari viðurlög í máli kæranda en ákvæðið felur í sér. Þá kemur skýrt fram í 1. mgr. 59. gr. laganna að viðurlögin skuli gilda frá þeim degi sem viðurlagaákvörðun sé tilkynnt atvinnuleitanda sem í tilviki kæranda var þann 5. október 2015. Enn fremur telur úrskurðarnefndin að töfin í málsmeðferð Vinnumálastofnunarinnar hafi ekki verið slík að rétt sé að fella ákvörðun um upphafstíma úr gildi á þeim grundvelli.

Með hliðsjón af framangreindu er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, í máli A, um að fella niður bótarétt kæranda frá og með 5. október 2015 í tvo mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta