Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 70/2013.

 

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 7. janúar 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 70/2013.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með greiðsluseðli Vinnumálastofnunar, dags. 2. maí 2013, til kæranda, A, var kæranda tilkynnt um að hún skuldi stofnuninni 620.029 kr. Skuld kæranda var tilkomin vegna tekna hennar frá Tryggingastofnun ríkisins frá nóvember 2011 til 10. apríl 2013, en umræddar tekjur höfðu ekki verið skertar í samræmi við ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Innheimta stofnunarinnar byggist á 1. mgr. 39. gr. sömu laga. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi á ákvörðuninni og var henni veittur rökstuðningur í bréfi stofnunarinnar, dags. 23. maí 2013. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, dags. 8. júlí 2013. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi sótti síðast um greiðslu atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 13. janúar 2010.

 

Við samkeyrslu gagnagrunns Vinnumálastofnunar við gagnagrunn ríkisskattstjóra í maí 2010 kom í ljós að kærandi fékk tekjur í febrúarmánuði án þess að gera tekjuáætlun. Kærandi hafði meðal annars tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins. Kærandi skilaði í kjölfarið inn skýringum og gerði Vinnumálastofnun tekjuáætlun fyrir kæranda vegna þeirra tekna sem hún var með. Þau mistök urðu síðar hjá Vinnumálastofnun að tekjuáætlun kæranda vegna tekna hennar frá Tryggingastofnun ríkisins eyddist með þeim afleiðingum að tekjur hennar voru ekki skertar í samræmi við ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar frá nóvember 2011 fram til 10. apríl 2013. Í kjölfar þessa gerði Vinnumálastofnun fyrrgreinda endurkröfu á kæranda að fjárhæð 620.029 kr. og var sú fjárhæð miðuð við stöðu skuldar hennar 13. maí 2013. Leiðrétting á reiknuðum atvinnuleysisbótum kæranda var gerð á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

 

Af hálfu kæranda kemur fram í kæru, mótt. 11. júlí 2013, að hún kæri endurkröfuna á þeim grundvelli að Vinnumálastofnun hafi viðurkennt að hún ætti rætur að rekja til mistaka stofnunarinnar. Kærandi kveðst hafa lagt fram öll umbeðin gögn og að henni hafi verið tjáð að hún þyrfti ekki að aðhafast neitt frekar þar sem Vinnumálastofnun sæi um útreikninga og myndi samkeyra upplýsingar. Kærandi ítrekar að hún hafi þegið umræddar bætur í góðri trú og að í þeim viðtölum sem hún hafi átt við stofnunina hafi ekkert komið fram um skuldamyndunina.

 

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 7. ágúst 2013, tekur stofnunin fram að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysisbætur launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Vinnumálastofnun bendir á 2. mgr. 39. laga um atvinnuleysistryggingar og að í ákvæðinu komi fram að stofnuninni sé skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta. Stofnunin bendir á að í athugasemdum með 39. gr. frumvarpsins er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Hver sé ástæða þess að atvinnuleitandinn hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið. Vinnumálastofnun bendir á úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í málum nr. 49/2010, 21/2011, 101/2012 og 132/2012 máli sínu til stuðnings. Vinnumálastofnun bendir einnig á að þar sem um sé að ræða mistök stofnunarinnar hafi stofnunin ekki talið sér heimilt að leggja á 15% álag líkt og heimilt sé samkvæmt ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá bendir stofnunin á ákvæði 3. mgr. sömu greinar sem fjallar um heimild Vinnumálastofnunarinnar til að skuldajafna ofgreiddum atvinnuleysisbótum á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum sama einstaklings. Það sé vinnuregla hjá Vinnumálastofnun að byrja á því slíkri skuldajöfnun í stað þess að fara í harkalegar innheimtuaðgerðir og hafi það verð gert í tilfelli kæranda.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. ágúst 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 23. sama mánaðar. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 2. október 2013, var kæranda tilkynnt um að mál hennar myndi tefjast hjá nefndinni sökum mikils málafjölda. 

 

 

2.

Niðurstaða

 

Mál þetta lýtur að því að kærandi fékk ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá nóvember 2011 til 10. apríl 2013 að fjárhæð 620.029 kr. vegna mistaka Vinnumálastofnunar þess efnis að tekjuáætlun kæranda sem hún skilaði inn til stofnunarinnar vegna tekna sinna frá Tryggingastofnun ríkisins glataðist. Mistökin verða að engu leyti rakin til ástæðna er varða kæranda.

 

Í 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum segir:

 

,,Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

 


 

 

Í greinargerð með ákvæðinu er áréttað að Vinnumálastofnun hafi heimildir samkvæmt því til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta. Sérstaklega er tekið fram að það eigi við í öllum tilvikum sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið hærri greiðslur en honum bar. Ekki skipti máli hver ástæða þess er að hinn tryggði hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Með vísan til þessa eru engin rök til þess að fella niður skyldu kæranda til endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta vegna þess að viðurkennt er af hálfu Vinnumálastofnunar að ástæða þess sé mistök stofnunarinnar.

 

Í 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um frádrátt vegna tekna atvinnuleitanda og þar með talið tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins. Er á þann hátt fundið út hverjar skuli vera þær hámarksbætur sem hinn tryggði getur átt rétt á úr sjóðnum. Kærandi fékk ofgreiddar bætur að fjárhæð 620.029 kr. á tímabilinu frá nóvember 2011 til 10. apríl 2013 og er sá útreikningur Vinnumálastofnunar ekki vefengdur.

 

Ekki verður hjá því komist að staðfesta niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar Vinnumálastofnunar enda er hún í samræmi við ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. framantalin lagaákvæði. Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 7. ágúst 2013, kemur fram að þar sem skuldamyndunin verði ekki rakin til ástæðna er varða kæranda sjálfa, hafi stofnunin ákveðið að fella niður 15% álag á skuld hennar í samræmi við 3. málsl. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og er að mati kærunefndarinnar ekki ástæða til að gera athugasemd við þá ákvörðun.

 


 

Úr­skurðar­orð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A um endurkröfu ofgreiddra atvinnuleysisbóta á tímabilinu frá nóvember 2011 til 10. apríl 2013, er staðfest. Kærandi skal endurgreiða 620.029 kr.

 

Brynhildur Georgsdóttir,

for­maður

 

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                     Helgi Áss Grétarsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta