Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 65/2011- endurupptaka

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 21. janúar 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 65/2011.

 

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Mál A, kom fyrst til meðferðar hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru kæranda, dags. 21. apríl 2011. Hjá Vinnumálastofnun hafði komið fram við samkeyrslu á gagnagrunnum Vinnumálastofnunar og menntastofnana að kærandi væri skráð í nám samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur, án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina. Þar sem kærandi sagði sig úr náminu að hluta til í kjölfarið, tók Vinnumálastofnun þá ákvörðun að fella niður rétt hennar til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði frá ákvörðunardegi sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, með vísan til námsloka hennar skv. 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Það var jafnframt niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. janúar til 28. febrúar 2011, áður en hún sagði sig úr námi og uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, samtals 240.175 kr. Kærandi vildi ekki una þessu og kærði málið til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Vinnumálastofnun taldi kæranda ekki hafa uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar á tímabilinu frá 1. janúar til 28. febrúar 2011 er hún var skráð í 20 ECTS-eininga háskólanám, án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina. Hún hafi því fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á því tímabili.

 

Með úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða frá 18. janúar 2012 var ákvörðun Vinnumálastofnunar um niðurfellingu bótaréttar kæranda í tvo mánuði staðfest. Enn fremur var staðfest sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að gera kæranda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. janúar til 28. febrúar 2011 að fjárhæð 240.175 kr.

 


 

Kærandi kvartaði yfir þessum úrskurði til umboðsmanns Alþingis. Í áliti umboðsmannsins, dags. 14. maí 2013, kemur fram að í máli þessu hafi reynt á það hvort skilyrði 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar væru uppfyllt til að beita þeim viðurlögum sem ákvæðið mæli fyrir um. Þurft hafi að taka afstöðu til þess hvort tafir á því að kærandi upplýsti um nám sitt og skráði sig úr umræddu námi á vorönn 2011 hefðu, meðal annars í ljósi fyrri samskipta hennar við Vinnumálastofnun, verið réttlætanlegar. Kærandi hafi áður sótt um að gera námssamning við Vinnumálastofnun í janúar 2010 er hún stundaði fjarnám við háskólann samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun hafi samþykkt 19. janúar 2010 að leyfa kæranda að stunda 20 ECTS-eininga nám á vorönn það ár og þá með því skilyrði að hún yrði að sæta 66,6% skerðingu á bótum. Fyrri samskipti kæranda við Vinnumálastofnun hafi því ekki verið með þeim hætti að á hafi skort með öllu að vitneskja um námsástundun hennar hafi verið til staðar hjá stofnuninni. Kærandi hafi því mátt ætla að ekki væri með öllu útilokað að fallist yrði á að hún gæti stundað nám, jafnvel umfram 20 ECTS-einingar, samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta að uppfylltum öðrum skilyrðum 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Við úrlausn málsins og þá við mat á því hvort skilyrði 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar væru uppfyllt, hafi Vinnumálastofnun og úrskurðarnefndinni borið að horfa heildstætt á atvik málsins og samskiptasögu kæranda og stofnunarinnar.

 

Enn fremur kemur fram í áliti umboðsmanns Alþingis að sú afstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, að þegar fullum 20 ECTS-einingum sé náð sé ekki heimilt að stunda nám samhliða töku atvinnuleysisbóta og því hafi ekki komið til greina að meta stöðu kæranda sérstaklega skv. 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sé ekki í samræmi við stjórnsýsluframkvæmd Vinnumálastofnunar og fyrri ákvarðanir hennar í máli kæranda. Eins og atvikum hafi verið háttað hafi úrskurðarnefndinni borið að taka efnislega afstöðu til þess hvaða lagalegu þýðingu stjórnsýsluframkvæmd Vinnumálastofnunar og fyrri ákvarðanir í máli kæranda hefðu fyrir réttarstöðu hennar, meðal annars að virtum réttmætum væntingum hennar í ljósi fyrri samskipta.

 

Kærandi kærði málið í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis að nýju til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi mótteknu 26. maí 2013.

 


 

Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða kallaði að svo komnu máli eftir athugasemdum Vinnumálastofnunar um málið. Athugasemdir stofnunarinnar eru dagsettar 27. júní 2013 og voru sendar kæranda með bréfi dags. 2. júlí 2013 og henni veittur frestur til 17. júlí 2013 til þess að koma frekari athugasemdum á framfæri, óskaði hún þess. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

 

2.

Niðurstaða

 

Mál þetta lýtur að gildi stjórnvaldsákvörðunar sem Vinnumálastofnun tók 12. apríl 2011 þess efnis að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á þeim grundvelli að hún hefði hætt námi án gildra ástæðna. Var ákvörðunin byggð á 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Einnig var sú ákvörðun tekin að kæranda bæri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. janúar til 28. febrúar 2011 að fjárhæð 240.175 kr. en þá var hún skráð í 20 ECTS-eininga nám án þess að fyrir lægi námssamningur við Vinnumálastofnun. Sú ákvörðun var byggð á 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Við samkeyrslu atvinnuleysisskrár við nemendaskrá Háskóla Íslands 24. febrúar 2011 kom í ljós að kærandi var skráð í 20 ECTS-eininga nám samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur. Af upplýsingum úr samskiptasögu Vinnumálastofnunar á þessum tíma verður ekki ráðið að kærandi hafi veitt stofnuninni upplýsingar um að hún væri í námi. Þvert á móti má ráða af samskiptasögunni að kæranda hafi mátt vera ljóst að henni var ekki heimilt að skrá sig í fleiri ECTS einingar en 10 án þess að greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar myndu skerðast og að til þess að heimilt væri að taka 10 ECTS-einingar yrði hún að hafa gert námssamning við Vinnumálastofnun.

 

Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli þessu er lögð áhersla á það að atvik málsins séu metin heildstætt og skoðuð í því ljósi að kærandi hafði áður gert námssamning við Vinnumálastofnun á vorönn 2010. Þeim sem þiggja greiðslur atvinnuleysisbóta ber ætíð að tilkynna Vinnumálastofnun um nám sitt enda er heimild til að stunda nám samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta háð samþykki stofnunarinnar. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða breytir sú staðreynd að kærandi hafi áður fengið námssamning hjá Vinnumálastofnun ekki því hverjar skyldur hennar gagnvart stofnuninni voru síðar. Af þessu leiðir að væntingar kæranda um að stunda háskólanám sem nam 20 ECTS-einingum, samhliða því að þiggja greiðslu atvinnuleysistrygginga, geta ekki talist reistar á slíkum lagagrundvelli að þær teljist réttmætar. Kjarni málsins er sá að kærandi skráði sig í umfangsmikið háskólanám samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að upplýsa Vinnumálastofnun um þessar breytingar á högum sínum. Einnig lét hún undir höfuð leggjast að sækja um gerð námssamnings fyrirfram eins og hún hafði gert árið áður.

 

Háttsemi kæranda í máli þessu veldur því að viðurlagaákvæði laga um atvinnuleysistryggingar eiga við um hana. Eins og bent var á í fyrrnefndu áliti umboðsmanns Alþingis var rangt að beita 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. a-lið 18. gr. laga nr. 134/2009, í fyrri úrskurði úrskurðarnefndarinnar og upphaflegri ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 12. apríl 2011 enda á það ákvæði eingöngu við þegar atvinnuleitandi hefur hætt námi án gildra ástæðna og sækir í kjölfarið um greiðslu atvinnuleysisbóta. Í þessu tilviki var kærandi að þiggja greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða því að stunda of umfangsmikið háskólanám án þess að fyrir lægi námssamningur við Vinnumálastofnun. Af þessu leiðir að 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á við í málinu.

 

Síðastnefnda lagaákvæðið, sbr. 22. gr. 134/2009 og 3. gr. laga nr. 153/2010, var svohljóðandi á þeim tíma sem atvik máls áttu sér stað:

 

Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

 


 

Það er mat úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að kærandi hafi, er hún lét hjá líða að veita stofnuninni upplýsingar um fyrrgreint 20 ECTS-eininga nám sitt við Háskóla Íslands, brotið gegn upplýsingaskyldu sinni sem kveðið er á um í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. ákvæði 1. mgr. 59. gr. sömu laga.

 

Í 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar i.f. kemur fram að í þeim tilvikum sem mál atvinnuleitanda falla undir ákvæðið skuli honum vera jafnframt gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og er ákvæðið fortakslaust.

 

Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum en hún hljóðar svona:

 

Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

 

Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar segir í umfjöllun um 39. gr. að gert sé ráð fyrir því að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Jafnframt segir að þetta eigi við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

 

Líkt og fyrr greinir er ákvæði 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar fortakslaust varðandi það að beita skuli 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eins og háttar til í tilviki kæranda og er ákvörðun Vinnumálastofnunar varðandi þetta atriði staðfest.


 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 12. apríl 2011 í máli A um niðurfellingu bótaréttar kæranda í tvo mánuði er staðfest.

 

 

 

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                       Helgi Áss Grétarsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta